Reykjavíkurvegir áður fyrr
Þótt maðurinn geti farið ferða sinna fótgangandi um vegleysur hafa götur og vegir jafnan leitt hann á milli áfangastaða. Og hófar hestsins skrifuðu rúnir sínar í grjót og svörð öldum saman áður en fyrstu lög þjóðveldisins voru af mönnum skráð. Hjólið kom síðar til Íslands en nokkurs annars Evrópulands. Það var bæði af því, hve hestarnir voru góðir og landið slæmt.
Vagnar héldu ekki innreið sína í íslenskar sveitir fyrr en um aldamótin 1900, og urðu þá fljótt ómissandi á hverjum bæ. Um svipað leyti hófust einnig reglulegar ferðir póstvagna frá Reykjavík um Suðurland, en víðast annarsstaðar var ekki hægt að koma slíkum ferðum við vegna vegleysis. En með aukinni, reyndar skammvinni, vagnaeign á síðustu árum 19. aldar, og síðar, smám saman með varanlegri bílaeign á þriðja áratug 20. aldar, hurfu þeir fyrrnefnd alveg af sjónarsviðinu.
Reykjavík, bær á hinum ákjósanlegasta stað Reykjanesskagans, er dæmi um þróun samgagna frá fyrstu tíð hér á landi. Vestur af bænum er Atlantshafið, en ofan og allt um kring eru torfærur. Allt frá því að fyrsti norræni landnámsmaðurinn steig á land í Reykjavík um 874 hafa vegir, stígar og götur smám saman verið mótuð í hraunin. Göturnar lágu fyrrum sem nú að og frá öðrum nytjastöðum „aðliggjandi“ byggðalaga, s.s. Norðurlandi og Vestfjörðum fjær, öllu heldur því sem fjarlægt var í nándinni á þeim tíma, hvað þá sem segja skal um Austfirði og byggðirnar handan „ánna“ á Suðurlandi.
Í Frjálsri þjóð árið 1962 er m.a. fjallað um upphaf vegagerðar á Íslandi:
„Á vorum tímum er það hvarvetna talið eitt af frumskilyrðum hagsældar og framfara hverrar þjóðar, að samgöngumál hennar séu í góðu horfi. Þjóðir, sem um langan aldur bjuggu við frumstæða atvinnuhætti, eiga næsta fábrotna og viðburðasnauða sögu á sviði samgöngumála, og er svo farið um oss Íslendinga allt fram á ofanverða 19. öld. Þó reyndi hver kynslóð að bæta úr aðkallandi nauðsyn í þessu efni sem öðrum, eftir því, sem þekking hrökk til og aðstæður leyfðu.“
Í þessari samantekt verður leitað heimilda og skrifað um fornar götur almennt hér á landi, fjallað um vörður, forsögu vegaumbóta og þróun samgöngumála með áherslu á elstu Reykjavíkurleiðarnar fornu. Minjunum, þ.e. götunum sjálfum, verður sérstaklega lýst sem og vörðum, skjólum o.fl., sem þeim tengjast. Umfjöllun er um hugsanlegan aldur þeirra að teknu tilliti til heillegleika, staðsetningar og lögunar sem og vísan til ákvæða gildandi tilskipana, reglna og laga á hverjum tíma. Þá verður getið sagna og minja , sem tengjast umferð um vegina og stöðum í nálægð þeirra, og þróun samgangna lýst.
Af elstu Reykjavíkurleiðunum má t.d. nefna norðurleiðina um Svínaskarð, austurleiðirnar um Lyklafell, Dyraveg og Hellisskarð, suðausturleiðirnar um Ólafsskarð, Selvogsleiðina um Selvogsgötu og Hlíðarveg og Útnesjaleið um Alfaraleið og síðar Suðurferðarveg að Keflavík og Grindavík – http://www.vegagerdin.is/Vefur2.nsf/Files/Reykjavikurvegir_fra_upphafi_til_nutima/$file/Reykjavikurvegir%20fr%C3%A1%20upphafi%20til%20n%C3%BAt%C3%ADma%20.pdf