Sæluhús í Moldbrekkum og Mosfellssel við Leirvogsvatn
FERLIR ákvað að skoða tvær merkar minjar; sæluhúsið í Moldbrekkum á Mosfellsheiði og Mosfellssel við Leirvogsvatn.
Í Árbók Ferðafélags Íslands 2019 segir m.a. um „Sæluhúsið“ í Moldbrekkum: „Árið 1841 var byggt sæluhús í Moldbrekkum á norðanverðri Mosfellsheiði og þar vory hlaðnar svonefndar Sýsluvörður á mörkum Kjósarsýslu (nú Mosfellsbæjar) og Árnessýslu. Grjót úr vörðunum var notað í húsið og hreppsstjóri Mosfellinga, Jón Stephensen (1794-1853) á Korpúlfsstöðum, og Þingvellinga, Kristján Magnússon 1777-1843) í Skógarkoti, völdu staðinn.
Sæluhúsið stóð allhátt í landslaginu og örskammt þaðan var vatnslind. [Vatnslindin sést vel norðan í Moldbrekkum, en er nú uppþornuð]. Greint er frá húsinu í sýslulýsingu Árnessýslu frá árinu 1842: „Í sumar er var, var byggt nýtt sæluhús á miðri Mosfellsheiði af Þingvalla- og Mosfellssveitar innbúum. En eftir er þá að ryðja og varða vel heiðina, sérílagi að austanverðu, og mun á því verða byrjað á sumri komanda.“
Sæluhúsið í Molbrekkum skapaði öryggi fyrir vegfarendur og í illviðrum gat þetta litla torfhýsi skilið á milli feigs og ófeigs. Snemma marsmánaðar árið 1857 héldu 14 vertíðarmenn úr Biskupstungum og Laugardal frá Þingvöllum vestur yfir Mosfellsheiði þar sem þeir hrepptu norðanstórviðri. Þeir huguðst leita skjósl í sæluhúsinu en fundu það ekki og héldu áfram í áttina að Mosfellsdal með tilfallandi afleiðingum.“
Austan á hálsinum ofan við Moldbrekkur eru svonefndar „Sýsluvörður“ á mörkum Mosfellsbæjar, Grímsnes- og Grafningshrepps og Bláskógabyggðar. Önnur þeirra stendur enn, en hin mætti sjá fífilinn fegurri.
Í “Skráning fornleifa í Mosfellsbæ 2006” má sjá eftirfarandi um Mosfellssel: “Í Lýsingu Mosfells- og Gufunessókna segir: „Selstöður eru hvergi hafðar nema frá Mosfelli, við Leirvogsvatn undir Illaklifi; er þangað langur vegur og slitróttur yfirferðar“ (Stefán Þorvaldsson, bls. 237).
„Örnefni benda til fleiri selja. T.d. í Mosfellskirkjulandi er mýrarfláki sem heitir Selflá. Þar voru ær hafðar í seli inni í Klifi [Þetta mun vera Illaklif við Leirvogsvatn]. Selmatráðskona var þar Ragnhildur Þórðardóttir“ (Þjóðháttarannsókn stúdenta 1976).
Við sunnanvert Leirvogsvatn, norðan undir Illaklifi, þar sem það byrjar austanmegin, um 30-40 m ofan við vatnið, er dálítil kvos eða hvammur. Frá náttúrunnar hendi er þetta ákjósanlegur staður fyrir sel. Vestan við eru skriður og lítið undirlendi neðan þeirra.
Austan við eru mýrarflákar sem halla niður að vatninu. Staður þessi er greinilega ekki valinn af neinu handahófi, heldur sá besti og líklega sá eini nothæfi þarna megin við vatnið. Þarna er selrúst, sem samanstendur af tveimur húsum, og tvær kvíar (Ágúst Ó. Georgsson).
Selrústir samanstanda af þremur húsum, sem öll snúa dyrum í N. V húsið er um 3×4 m, að innanmáli. Veggjaþykkt um 1 m. Hús þetta snýr framgafli í N, móti vatninu. Sjást grjóthleðslurnar í veggjunum vel. Miðhúsið er aflangt og eru dyr á miðri N-langhlið. Stærð þess er um 3×6 m að innanmáli. Hæð veggja er um 1 m, þykkt veggja um 1 m. Hér sjást grjóthleðslurnar í veggjum sérlega vel. Þessi tvö hús (mið- og vesturhús) eru að hluta grafin inn í brekkuna, sem er á bakvið.
Austasta húsið er skemmt að hluta en þó má vel sjá lögun þess. Stærð þess er um 2×3 m. Veggjaþykkt um 1 m. Hús þetta snýr framgafli í N, niður að vatninu eins og hin tvö, og á honum eru dyr. Þessi hús, sem mynda selið, standa samsíða. Dálítið bil er á milli miðhúss og austurhúss.
Mætti e.t.v. giska á að þar hafi eldaskáli eða hús verið. Miðhúsið svefn- eða íveruhús og það vestra mjólkurhús. Svæði þetta var í Mosfellskirkjueign til 1934 en er nú í eigu Mosfellshrepps (Ágúst Ó. Georgsson).
Við sunnanvert Leirvogsvatn, norðan undir Illaklifi, þar sem það byrjar austanmegin, um 30-40 m ofan við vatnið, er dálítil kvos eða hvammur. Frá náttúrunnar hendi er þetta ákjósanlegur staður fyrir sel. Vestan við eru skriður og lítið undirlendi neðan þeirra. Austan við eru mýrarflákar sem halla niður að vatninu. Staður þessi er greinilega ekki valinn af neinu handahófi, heldur sá besti og líklega sá eini nothæfi þarna megin við vatnið. Þarna er selrúst, sem samanstendur af tveimur húsum, og tvær kvíar (Ágúst Ó. Georgsson).
Aftan við selið er kvíarúst (N-við). Garðar hafa verið hlaðnir þar við stóra steina og myndar umhverfið þannig verulegan hluta kvíanna. Ofan við kvíarnar er brött og grýtt hlíð (Illaklif). Kvíunum er skipt í tvo hluta með garði og framan við innganginn er aðrekstrargarður til að auðvelda innrekstur ánna. Að innanmáli eru kvíarnar um 5 x 6 m. Eru þær að mestu eða öllu leyti hlaðnar úr grjóti. Veggjahæð er 0,5 – 1,2 m. Selið er allt hlaðið úr torfi og grjóti, en grjót er þó mest áberandi í innri veggjahleðslum (Ágúst Ó. Georgsson).”
Hér kemur síðan vísbending um tilvist fyrstnefndu minjanna, þ.e. hugsanlegs kúasels: “Um 12-13 m austan við kvíarnar eru aðrar kvíar sem eru all frábrugðnar að lögun. Þessar kvíar eru aflangar, um 2×14 m, með inngang á miðjum N-langvegg. Veggjaþykkt er ca 1 m og veggjahæð 0,5 m ca. Svæði þetta var í Mosfellskirkjueign til 1934 en er nú í eigu Mosfellshrepps. (Heimildaskrá: Ágúst Ó. Georgsson, Fornleifaskráning í Mosfellssveit 1980-1982. Skráningarbækur Þjóðminjasafns).”
Svo virðist sem þarna gæti jafnvel hafa verið kúasel forðum, sem síðar hafi, annað hvort breyst í fjársel eða verið fært nær Mosfelli [sbr. sel á Selflötum norðan Mosfells og heimasels í Selbrekkum ofan Laxness]. Minjarnar undir Illaklifi benda þó til þess fyrrnefnda. Auk Mosfellssels má sjá merki um kúasel víðar á Reykjanesskaganum, s.s. við Urriðavatn, í Helguseli í Bringum, í Helgadal, í Kringlumýri, í Viðeyjarseli (Bessastaðaseli) og í Fornaseli.
Grafið hafði verið nýlega í vegg og miðju austustu tóftarinnar í Mosfellsseli, væntanlega eldhúsið. Í sjálfu sér mælir fátt á móti slíkri rannsókn í vísandlegum tilgangi, en svo virðist með gleymst hafi að kenna slíku fólki frágang á vettvangi; uppgreftri „höslað“ aftur á sama stað, án nokkurrar vandvirkni eða tillitsemi við minjanna. Afgangsgrjót lá á stangli utan í tóftunum og ásýndin stakk í augu þeirra er hafa eindreginn áhuga á slíkum minjum. Sorglegt á að líta!
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 20 mín.
Heimildir m.a:
-Árbók Ferðafélags Íslands 2019.
–Skráning fornleifa í Mosfellsbæ 2006, Þjóðminjasafn Íslands.