Selvogsleiðir – samantekt
Gömlu Selvogsleiðirnar eru nú til dags jafnan taldar hafa verið þrjár, þ.e. Selvogsgata, Stakkavíkurvegur og Hlíðarvegur, hvort sem var um Grindaskörð eða Kerlingarskarð.
Í raun voru leiðirnar ofan Skarðanna lengst af einungis tvær, þær fyrrnefndu, annars vegar niður í Selvog (Austurvog) og hins vegar niður að Stakkavík og Herdísarvík (Vesturvog), en seint á 20. öldinni varð ætlunin að leggja vagnveg um Kerlingarskarð frá Hafnarfirði niður að Hlíð í Selvogi. Fjárveiting fékkst til fjallvegarins, einkum vegna þess að vonast var til að brennisteinsnámið í Brennisteinsfjöllum á árunum 1885-1887 kynni að verða endurtekið og skapa þannig atvinnu fyrir þurfandi hendur. Byrjað var á því að varða leiðina frá Mygludölum að Hlíðarskarði og síðan var ætlunin að hefja hina eiginlegu vegalagningu. Úr henni varð þó aldrei, en göngufólk hefur æ síðan rakið sig eftir vörðunum í þeirri trú að þar væri hin eiginlega Selvogsgata millum byggðalaganna. Er það skiljanleg afstaða því vörður á hinum leiðinum tveimur eru víðast hvar fallnar eða orðnar nánast jarðlægar (enda miklu mun eldri og hefur ekki verið haldið við). Eftir að bílvegur var lagður um Selvog og Krýsuvík á sjötta áratug tuttugustu aldar lagðist umferð um gömlu leiðirnar af að mestu. Bæir í Selvogi voru þá flestir komnir í eyði, Stakkavík fór í eyði 1943 og Herdísarvík fór einnig í eyði um það leyti.
Þegar göturnar voru gengnar kom í ljós að Hlíðarvegurinn reyndist vera ~17 km, Stakkavíkurvegurinn reyndist vera ~18 km og Selvogsgatan ~24 km. Allar voru leiðirnar mældar frá Bláfjallavegi.
Upphaflega leiðin, Selvogsgatan (Suðurferðagatan) milli Hafnarfjarðar og Selvogs, lá upp frá bænum um Lækjarbotna, Setbergssel og með jaðri Smyrlabúðarhrauns. Þar má sjá vegghleðslur, væntanlega fyrrum áningastað Selvogsmanna. Gatan lá um Helgadal, upp með austanverðum Valahnúkum, Strandartorfum og um Hellur. Syðst á þeim skiptist gatan. Eldri gatan, sem jafnframt var reiðgata, lá upp í Grindaskörð austan við Konungsfell (Stóra-Bolla). Nýrri leið, sem einkum var notuð eftir að brennisteinsnámið byrjaði í Fjöllunum eftir 1885 lá um Kerlingarskarð. Sæluhús (úr timbri með aðhleðslum) var reist norðan undir Skarðinu og má sjá leifar þess enn. Húsið var skjól fyrir lestarmenn, sem ýmist fluttu brennisteininn neðan úr námunum eða umhestuðu honum og fluttu niður til Hafnarfjarðar. Þetta vinnslutímabil varði um tveggja ára skeið. Tvennt kom til; bæði var vinnslan og flutningurinn kostnaðarsöm og lítið fékkst fyrir afurðina á þessum tíma (forsendur brennisteinsvinnslu hafði jafnan verið stríðsáran og vandræðagangur einhvers staðar úti í Evrópu).
Kerlingarskarð er einungis fært að sumarlagi og þá oftast fótgangandi. Grindaskörð hafa verið fær öllu lengur og þá ríðandi. Að öllu jöfnu hafa þessar götur lítt eða ekkert verið farnar að vetrum þótt vörðuleifarnar við Selvogsgötuna bendi hins vegar til þess að síðar hefði verið reynt að gera hana nytsamlegri til ársins lengri tíma.
Ofan Grindaskarða / Kerlingarskarðs á Kerlingarskarðsleiðinni austan Girðingarhliðsins (sem nú er horfið að mestu) eru tvær vörður. Við þær eru gatnamót; annars vegar áframhaldandi leið úr Skarðinu yfir á Selvogsgötu upp frá Grindaskörðum og hins vegar (til hægri) leið um Stakkavíkurveg. Hlíðarvegurinn liggur aftur á móti til suðurs frá fyrstu vörðunni austan „hliðsins“ með stefnu á næstu vörðu sunnan hennar. Vegurinn kemur síðan saman við Stakkavíkurveginn við vörðu nokkru sunnar. Reyndar skarast Hlíðarvegur og Stakkavíkurvegur þrisvar áður en þeir skiljast að ofan Ása. Þar liggur Hlíðarvegurinn áfram niður úfið hraunhaft að vestanverðum Austurásum, en Stakkavíkurvegurinn heldur áfram niður með austanverðum hraunjaðri Draugahlíðargígshraunsins að austanverðum Vesturásum.
Fyrrnefndi vegurinn liggur síðan til suðurs með vestanverðum Austurásum með stefnu á Hlíðarskarð. Hinn síðarnefndi liggur aftur á móti til vesturs með sunnanverðum Vesturásum, niður með Urðarási, niður Dýjabrekkur og Selbrekkur uns varða blasir við framundan efst á Selsstígnum efst á Stakkavíkurfjalli. Þar liggur gatan niður hlíðina og liðast um hana kjarrivaxna áleiðis niður að bæjarstæðinu við norðvestanvert Hlíðarvatn.
Selvogsgatan hins vegar, meginleiðin, skiptist í tvennt sunnan Grindaskarða (Konungsfells). Annars vegar liggur leiðin niður með hraunkanti þeim er þar blasir við uns komið er að lítilli vörðu á litlum hraunhól.
Þar eru gatnamót Götunnar og Heiðarvegarins (til vinstri) er liggur áfram upp að Bláfjallaenda, Kerlingahúk og áfram niður í Ölfus. Hins vegar liggur leiðin til hægri og áfram upp á slétta hraunbrúnina. Vörður og vörðubrot vísa leiðina um „sléttuna“ uns komið er út af henni nokkru sunnar, inn á fyrrnefndu leiðina er lýst var.
Nú heldur Selvogsgatan áfram um auðrekjanlega slóð yfir mosahraun. Hún greinist í tvennt á kafla, en kemur fljótlega saman á ný. Vörður vísa leiðina. Þá er aðþrengdum grasbala fylgt og beygt til hægri. Framundan eru upplyftar hraunhellur er vísa leiðina að tveimur vörðum er gefa enn ein gatnamótin til kynna. Annars vegar er um að ræða leiðina, sem gengin hefur verið síðastnefnda leið upp frá Grindaskörðum og hins vegar leiðina er liggur frá vörðunum tveimur er gáfu til kynna gatnamót Stakkavíkurvegar og áður voru nefndar við leiðina upp frá Kerlingarskarði.
Hér skilja leiðir – til vinstri og framundan er gamla Selvogsgatan. Hún liggur greinileg að vestanverðu Litla-Kóngsfelli. Augsýnilega hefur gatan verið unnin á þessum kafla og það talsvert á köflum. Reynt hefur verið í gegnum tíðina að gera hana vel greiðfæra, bæði fyrir lestir og vagna (undir það síðasta). Líklegt má telja að verk þessi hafo verið unnin um og eftir miða 19. öld, en þá voru í gildi tilskipanir konungs um þegnskyldu og umbætur á helstu vegum landsins. Sérhver vinnandi maður átti þá að leggja sitt af mörkum til slíkra framkvæmda eftir tilvísun og undir eftirliti hrepsstjóra. En vegna þess hve vinnandi menn voru fáir og tíminn takmarkaður varð oft lítið úr verki, s.s. sjá má á umbótunum, en á afar litlum köflum hér og þar.
Selvogsgatan liðast niður (ýmist utan í eða upp á hraunbrúninni) í Stóra-Leirdal, yfir hann og upp og yfir Hvalsskarð. Nafnið er reyndar ekki komið af engu. Þjóðsagan segir að tröllskessa í Stórkonugjá þar efra hefi farið niður í Selvog er fréttist af hvalreka, sótt sér hlut og stefnt heimleiðis. Bóndi, sá er hlutinn átti, fémargur í Selvogi, frétti af ferðum hennar, sótti á eftir henni og náði í Hvalskarði. Sá hann aumur á skessunni og samdist þeim um að hún héldi hvalfanginu gegn því að passa þess að fé bóndans færi ekki yfir Skörðin. Gerði skessan til þess grindur í Gridarskörðum, en gætti Kerlingarskarðsins sjálf. Þar af eru komin örnefnin Grindaskörð og Kerlingarskarð.
Neðan Hvalskarðs beygir Selvogsgatan allverulega til vinstri uns horft er mót vörðu á klapparhól í suðaustri. Að henni náð verður eftirfylgjan auðveld.
Að vísu er nú búið að aka ofan í gömlu götuna á köflum (af refaskyttum), en ef vörður og vörðubrot eru gaumgæfð sem og umförin á gömlu leiðinni, er tiltölulega auðvelt að fylgja götunni niður í Hlíðardal og áfram niður um Strandardal allt að Strandarmannahliði.
Þar greinist gatan; annars vegar áfram niður Selvosgheiði að Strandarhæð og í Selvog og hins vegar um Hlíðargötu neðan Borgarskarða að Hlíð norðan Hlíðarvatns (sem áður hefur verið lýst).
Selvogsgatan um Selvogsheiði er tiltölulega auðrötuð þrátt fyrir uppblástur og jarðvegseyðingu á köflum. Suðvestan Vörðufells eru gatnamót; annars vegar Selvogsgötu og hins vegar Hlíðarvegar/ Vogsósargötu /- vegar (varða er á gatnamótunum). Selvogsgatan liggur hins vegar áfram um graslendi uns halla tekur niður að Selvogi. Gatan er augljós handan gamla malarvegarins um ofanverðan Selvog og niður „túninn“ austan Vogsósa, yfir nýja Suðurstrandarveginn og allt niður í Selvog þar sem gatan endar og greinist skammt norðvestan við núverandi veitingarbæinn T-Bæ, ofan Torfabæjar og Þorkelsgerðis, austan Strandar.
Frábært veður.
Gangan tók 6 klst og 6 mín.