Sjávarjarðir – útræði, saga, hefðir og réttur
Guðrún Ása Grímsdóttir, sérfræðingur á Árnastofnun, flutti eftirfarandi erindi um útræði frá sjávarjörðum á ráðstefnu Samtaka eigenda sjávarjarða árið 2002. Hér er hluti af erindinu:
„Af ákvæðum í rekabálki Jónsbókar, sem sótt eru í Grágás, verður ekki annað ráðið en að eigandi sjávarjarðar eigi skýlausan rétt á öllu sjávargagni fyrir landi sínu innan við netlög. Það er að nútímamáli 115 metra færi út frá stórstraumsfjörumörkum. Að auki á landeigandi rétt á reka, eða eins og í lögunum segir, hann á „allt það er flýtur“ á svo löngu færi að maður sjái úr fjörumáli fisk á borði báts úti fyrir landi. Um fiskveiðirétt utan við netlög er lögbókin skýr: „Allir menn eigu að veiða fyrir utan netlög að ósekju“ (Jónsbók, 196). Þetta merkir að utan tilgreindra takmarka er sjávarfiskur talinn óskipt hlunnindi sem hver megi sækja að frjálsu.
Nú er vitað mál að þegar í upphafi byggðar var landi skipt þannig að einungis lönd ákveðinna jarða lágu að sjó en aðrar ekki. Og það mun ótvírætt að landamerki sjávarjarða voru miðuð við fjörumörk, náðu ekki útí sjó.
Sjávarjarðir, þar sem var náttúruleg lending fyrir hendi og skammt á mið, voru einna hæst metnar að dýrleika að fornu mati á sama hátt og jarðir, sem víðáttumikil afréttarlönd liggja undir, voru hærra metnar en aðrar. Réttur ábúenda sjávarjarða til þess að stunda heimræði er jafn skýlaus og beitarréttur ábúenda heiðajarða og hvorttveggja, heimræði og beit, er talið með hlunnindum jarða.
En spurning er með hverjum hætti nýttu sjávarbændur þau sérstöku hlunnindi jarðarinnar að eiga lendingu í heimalandi og stutt á mið að sækja? Mér vitanlega hefir enginn kafað djúpt í heimildir eða hugskot sitt til þess að kanna sérstaklega þýðingu heimræðis fyrir ábúendur sjávarjarða strandlengis umhverfis landið. Sem þó er undarlegt miðað við hið gríðarlega heimildamagn sem hafa má uppúr Íslenzku fornbréfasafni að ekki sé minnst á Jarðabók Árna og Páls sem enginn hefir notað gagngert í þessu skyni. Og þetta er því undarlegra ef hafðar eru í huga allar þær fullyrðingar sem uppi eru hafðar í ræðu sem riti um það að meginstefna ráðandi manna í landinu allar aldir fram á þá tuttugustu hafi verið að hindra að íslenskur sjávarútvegur fengi að þróast á vísu fiskveiðandi þjóða við Norður Atlantshaf þar sem borgir risu við strendur. Ég held að þeir sem halda því fram að íslenskur sjávarútvegur hafi öldum saman verið eftirbátur landbúnaðar séu á villigötum. Við getum horft til Vestfjarða í þessu tilliti. Það má telja nær fullvíst að vegna takmarkaðs graslendis séu jarðir þar óbyggilegar af landbúskap einum og hefðu aldrei af honum einum getað alið allan þann fjölda fólks sem þar óx upp og æxlaðist um aldir allt vestan af Rauðasandi og norður um Strandir í Hrútafjarðarbotn.
Í annálum fyrri alda er margoft greint frá því að þegar harðæri voru í landi og búfjárfellir í góðsveitum flykktist fólk vestur á firði í von um lífsbjörg. Sterkasti vitnisburður um að árabátaútgerð var lífsmagn vestfirskra byggða er sú staðreynd að þaðan fóru einungis örfáir til Vesturheims þegar þangað voru fólksflutningar miklir úr öllum öðrum héruðum landsins. Vestfirðingar sátu við sinn keip og fiskuðu á heimamiðum jafnt og í útverum uns stórskipaútgerð kom til á Íslandsmiðum og fjöldi bæja lagðist sjálfkrafa í auðn. Trollveiðar skröpuðu burt lífsskilyrði fiska á grunnmiðum þar sem víðast hvar var einungis árabátum lendandi frá náttúrunnar hendi.
Ábúendur á sjávarjörðum voru vitaskuld í mun betri færum að afla fiskjar en þeir sem bjuggu á landi sem ekki náði að sjó. Þótt fiskurinn undan landi væri öllum frjáls að landslögum, var þó ekki sjálfgefið að hægt væri að róa frá sjávarjörð; allt valt á því að lending væri hentug og ekki langræði á fiskimið.
Og þar sem svo hagaði til sóttust aðrir, sem ekki höfðu land að sjó, eftir aðstöðu til útgerðar: lendingu, skipsuppsátri, búðarstöðu og verkunaraðstöðu á mölum. Allt þetta þurfti nokkurt landrými sem kom niður á lífsrými ábúenda jarðanna þar sem skilyrði voru hentug til útgerðar. Sá sem vildi gera út skip frá annars manns jörð hlaut því að gjalda landsdrottni eða ábúanda sjávarjarðar vertoll eða undirgift fyrir afnot af landi og gilti það jafnt hvort heldur var heimræði frá jörð eða róið úr útverum. Af heimildum er ljóst að þetta gjald var ekki tekið af fiskveiðum heldur landnotum. Vertollur á sér langa sögu aftur í aldir, og er einkum tengdur höfuðbólum á Vestfjörðum. Orðið vertollur var haft um gjaldið á miðöldum jafnt og á síðari öldum, helst var það notað á Snæfellsnesi að hluta og í Dala-, Barðastrandar-, Ísafjarðar-, og Þingeyjarsýslum. Orðið undirgift tíðkaðist hinsvegar víðast hvar um sunnan og suðvestanvert landið og jafnvel fyrir norðan allt frá 16. öld, en það hefir án efa borist hingað með konungsútgerð sem stórjókst á 16. öld.
En hugum nú ögn að því hverjir áttu helst sjávarjarðir? Hverjir reru? Hverjir fiskuðu? Snemma á öldum helguðu kirkjustofnanir og auðmenn sér með einhverju móti tollfría skipstöðu á jörðum þaðan sem best var að gera út. Hvað varðar veraldlega auðmenn má minnast á Bessastaði þar sem Snorri Sturluson hafði bú á 13. öld og kóngsvaldið danska sat síðar og gerði út báta í svo stórum stíl að Álftanes kallaðist Kóngsnes á seytjándu öld. Guðmundur Arason hinn ríki sem kenndur er við Reykhóla í Reykhólasveit og var uppi á fyrri hluta fimmtándu aldar, auðgaðist með eindæmum, en hlaut óvild venslamanna sinna og sviptur eigum hvarf hann úr landi 1448. Þá voru auðæfi hans uppskrifuð, féllu undir kóng en mágar hans, Björn hinn ríki og Einar Þorleifssynir keyptu. Á mektardögum sínum átti Guðmundur sex höfuðból og lágu lönd nær allra að sjó: Reykjahólar í Reykjahólasveit, Kaldaðarnes í Bjarnarfirði, Núpur í Dýrafirði, Brjámslækur á Barðaströnd, Saurbær á Rauðasandi og Fell í Kollafirði en fjöldi jarða lá undir hvert þetta höfuðból hans (Ísl. fornbréfasafn IV, 683–694). Nær öll höfððból Guðmundar voru 60 hundraða jarðir, góðbýli miðsveitis með skjólgóð og grasloðin lönd fyrir búsmala og af fimm þeirra nýttist allt sjávargagn sem auðið verður, enda voru stórskip í nausti á hverju hans býli.
Eftir máldögum voru kirkjum tryggð réttindi á skipstöðu hvar sem því var við komið. Til að mynda átti kirkjan á Núpi í Dýrafirði samkvæmt Vilkinsmáldaga 1397 skipshöfn á Skaga tolllaust og eiga innstir reit á Melum og skálagjörð á Brekku (Ísl. fornbréfasafn IV, 143). Kirkjan á Mýrum í Dýrafirði átti „skálagjörð á Fjallnes. Hafa skip í fiski hvort heldur sem vill sexært eður áttært og taka sjálfur toll af þeim skipverjum ef aðrir róa á skipi en heimamenn. Eiga skála ystir og reit á möl.“ (s.r. IV, 144).
Biskupsstóllinn í Skálholti eignaðist með einhverju móti einhvern tíma á fyrri öldum útróðrarjörðina í Þorlákshöfn og fimm jarðir í Grindavík og lét stóllin ganga þaðan hartnær tíu skip úr vörum. Í Jarðabók Árna og Páls frá því laust eftir 1700 er glögg lýsing á því hvernig útgerð var háttað á vegum stólsins í Þorlákshöfn, Þar sem voru fjórar lendingar fyrir landi, tvær merkilega góðar og verstaða merkilega góð.: „Skip gánga hjer: 10 stólsins fimm, einn tólfæríngur, fjórir teinæringar. Það eru kölluð skylduskip, og gánga þau undirgiftalaust, hefur og hvert skip sjerdeilis búð, sem staðurinn viðheldur, en hásetar og formenn kaupa soðning. þar fyrir utan gánga skip staðarins 6 eður færri og í undirgift fyrir þau niðurfellur af leigum og landskuld … Hjer að auki gánga ítakaskip … frá Hjalla, Arnarbæli, Hrauni og Breiðabólstað og halda skipeigendur þeim búðum við. Að auk alls þessa gánga skip so mörg ábúenda sem þeir fá við komið …“. Undirgift þessara inntöku skipa tekur ábúandi, en þeir sem skipin eiga, leggja við til búðanna; gjaldast þá xxx álnir fyrir sexæring, fyrir áttæring xl álnir, fyrir teinæring lx álnir …. Alt þetta betalast heimabóndanum í landaurum eftir samkomulagi, en sjómenn kaupa soðning og þjónustu ut supra……(Jb ÁMPV, II, 435–436)
Útróðrarmenn biskupsstólsins í Skálholti sem reru frá helstu verstöðvum í Þorlákshöfn og suður með sjó voru ekki á eigin vegum. Fiskurinn sem þeir drógu að landi, þessi guðs gjöf, einskis manns eign að landslögum, fór mikils til uppí landskuldir og leigur fyrir þær jarðir sem róðrarmenn komu frá. þeir voru allflestir lánaðir frá jörðum dómkirkjunnar í Skálholti sem átti á annað hundrað bújarða með hjáleigum á Suðurlandsundirlendinu og fjölda skipa til útróðra, vergögn og skipsuppsátur með allri suðurströndinni. Langflestum jörðum stólsins í Árnessýslu og Rangárvallasýslu fylgdu kvaðir sem skýrt koma fram í lýsingu Jarðabókar Áran Magnússonar og Páls Vídalíns á Skálholtsdómkirkjujörðinni Efstadal í Laugardal. Ábúandi þar varð að gjalda kvaðir sem voru mannslán um vertíð á staðarins skipum í Grindavík, Selvogi, eða Þorlákshöfn, „hvert sem ráðsmaður kallar“, segir bókin. Í annan stað fylgdi jörðinni sú kvöð að gjalda hestlán í Grindavík eða Þorlákshöfn eða Eyrarbakka. Sömu kvaðir giltu á flestum öðrum jörðum Skálholtsdómkirkju á Suðurlandsundirlendinu. Þaðan dreif útróðrarmenn dómkirkjunnar allstaðar að á vertíðum í fiskver við suðurströndina til þess að veiða uppí leigur og landskuldir, sem húsbændur þeirra guldu fyrir reisn dómkirkjunnar í Skálholti í veislukosti, skrúða, kirkjuviði og hreinu siðferði.
Aðrir reru uppí hlut Skálholtsstaðar til þess að sjá staðnum fyrir matarforða en vitnisburðir eru til um, að skólapiltar, sem seinna urðu prestar víðsvegar um þetta stóra Skálholtsbiskupsdæmi, nærðust að miklu leyti á hörðum fiski dregnum úr sjó undan Suðurnesjum. Útróðrarmenn staðarins voru kallaðir staðarpiltar, þeir báru sjálfir minnst úr býtum. Var nokkur furða þótt sumir tækju það ráð að leynast burt úr veri eins og kom fyrir Brand Ingvarsson, óþekktan að öðru leyti en því að hann strauk úr veri á Hvaleyri við Hafnarfjörð mánudaginn fyrir Maríumessu á langaföstu 1660 af skipi stólsins sem þar var gert út. Brandur skildi eftir 35 fiska færi af staðargögnunum, en tók með sér skinnstakkinn, mötu sína, skæði og sjóvettlinga (Bréfabók Brynjólfs biskups Sveinssonar, AM 272 fol., nr. 297).
Í beinu framhaldi þessa er kominn tími til þess að spyrja nutu allir jafnt þess að veiða fyrir utan netlög að ósekju? Svarið hlýtur að vera að svo hafi ekki verið. Þeir reru sem höfðu til þess rétt frá því landi sem þeir höfðu ábúð á og þeir sem ekki bjuggu á sjávarjörð keyptu sér réttinn með því að eiga skip og gjalda vertoll og jafnframt var reglan sú að skipseigendur voru jarðeigendur, sumir stórjarðeigendur einsog biskupsstólar og menn af landeigendakyni einsog Guðrún Eggertsdóttir. Slíkir eignamenn höfðu á að skipa fjölda leiguliða sem með byggingarskilmálum jarða gengust undir þá kvöð að róa á skipum landeigenda uppá skarðan eigin hlut.
Af því sem hér hefir verið sagt ber helst að leggja áherslu á að frá upphafi skiptu kirkjustofnanir og veraldlegir auðmenn með sér bestu sjávarjörðunum og áttu á að skipa fjölda leiguliða á jörðum sínum sem með tímanum voru skyldaðir til þess að róa á skipum þessara aðila og gjalda með þeirri kvöð landskuld og leigur af ábýlisjörðum sínum sem oft lágu langt uppi í landi. Hlunnindi sjávarjarða voru nýtt af landsdrottnum og ábúendum sem réðu yfir skipi og nægilegum mannafla, þ.e.a.s. leiguliðum eða hjáleigubændum, en aðkomumenn á svonefndum inntökuskipum guldu vertolla eða undirgift fyrir aðstöðu til útgerðar á landi og gerðu út skip sín með hásetum úr leiguliðastétt. þurrabúðarfólki leyfðist ekki að róa í eigin nafni. Fiskveiðar utan netlaga, sem eftir lagabókstafnum voru frjálsar öllum mönnum að ósekju, voru í reynd takmarkaðar við valdastofnanir og eignamenn; þeir sem fiskanna öfluðu á öldum áður voru flestir leiðuliðar eða hjáleigubændur fámennrar jarðeigendastéttar.
Að lokum þetta: Í Bréfabókum Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups fyrir og eftir miðja 17. öld er varðveittur fjöldi byggingarbréfa jarða og umboðsbréfa þeim til handa sem höfðu jarðaumboð fyrir biskupinn. Í þeim bréfum er ævinlega sett fram sú skýlausa krafa til ábúenda og jarðaumboðsmanna að þeir láti engin hlunnindi undan jörðinni ganga, að land hvorki skerðist né spillist og ábúandi gangi frá jörðinni, hvort sem fer þaðan lífs eða liðinn, með sömu ummerkjum og hann tók við.
Ég held að ráðlegt væri að athuga byggðasögu Íslands í ljósi hinnar eindregnu viðleitni landsdrottna til þess að viðhalda kostum hverrar jarðar, halda sérhverri í rækt og byggingu og umfram allt sjá til þess að frá engri jörð tapist landgæði utan önnur vinnist í staðinn. Hvort jörð er byggileg veltur á því að land hennar sé hvergi skert innan landamerkja hvort heldur þau ganga þaðan sem vötnum hallar af heiðum uppi og niður í byggð, ellegar ná af fjallsbrún ofan að hlein.“
Ekki er vitað til þess að ákvæði Jónsbókar hafi verið numin úr gildi.
Heimild:
-Guðrún Ása Grímsdóttir, sérfræðingur á Árnastofnun – ÚTRÆÐI FRÁ SJÁVARJÖRÐUM – SAGA, HEFÐIR, RÉTTUR – Erindi á ráðstefnu Samtaka eigenda sjávarjarða 22. nóvember 2002.