Skógarkotshellir (Hallshellir)
Björn Hróarsson, höfundur stórvirkisins „Íslenskur hellar“, sagði einhverju sinni að grein Kristjáns Sæmundssonar jarðfræðings í Tímanum á áttunda áratug aldarinnar hafi vakið athygli vegna þess þá hafi hann talið upp nálægt 15 þekkta hraunhella hér á landi. Taldi Kristján þá að þeir hlytu að vera miklu mun fleiri. Á fyrstu árum þessarar aldar hefðu síðan fundist jafnmargir hraunhellar á Íslandi og þekktir höfðu verið allt fram að þeim tíma. Segir það nokkuð um að ekki hafi verið leitað skipulega og markvisst að hraunhellum hér á landi því ætla mætti að þá myndi fjöldi þeirra margfaldast á skömmum tíma. Ísland er virkt eldfjallaland og í slíkum löndum fyrirfinnast að jafnaði hundruðir hraunhella.
Skógarkotshellir hefur einungis verið til í vitund örfárra manna síðustu áratugina. Björn Th. Björnsson taldi t.a.m. að hellirinn hefði lokast þegar hann skrifaði Þingvallabókina sína. Ástæðan er fyrst og fremst sú að mjög erfitt er að finna opið, jafnvel þótt vel sé leitað. Það er ekki fyrr en staðið er á jaðri þess að það verður barið augum. Og ekki hefur hjálpað til að „nákvæmustu“ lýsingarnar á staðsetningu hans gefa villandi mynd af því var á að leita.
Þegar FERLIR byrjaði að leita að Hallshelli eða Skógarkotshelli var eftirfarandi helstu vísbendingarnar: „Um er að ræða lítinn helli með merkilegum hraunmyndunum, en hellirinn er nefndur eftir enska rithöfundnum Hall Caine. Það var hins vegar smali frá Skógarkoti, sem fann hellinn suðvestan í Hellishól. Hellirinn er í litlum hól skammt vestan við Veiðigötuna þar sem fyrst sést heim að Skógarkoti er gengið er upp frá vatninu. Á hólnum er vörðubrot; Hellisvarða. Opið er undir vörðunni. Um er að ræða fremur lítið gat mót suðri, brekku innan við það og hraunbólu neðra. Hellirinn er sérstakur fyrir súlumyndun og þrönga ganga eða rásir, sem enn hafa ekki verið fullkannaðar. Venjulega grær fyrir opið þegar líða tekur á sumarið.“ FERLIR kom að opinu, en vegna bleytu og moldar við innganginn var innganga ekki fýsileg í það sinnið. Látið var nægja að staðsetja hellinn með það að markmiði að gaumgæfa hann síðar.
Í örnefnalýsingu fyrir Þingvallahraunið segir m.a. um Skógarkotshelli: „Vestur að Hrútabrekkum, að Sauðasteinum, heitir Hrútabrekkuskógur. Skammt fyrir ofan Sauðasteina, vestan við Veiðigötu, þar sem fyrst sjezt heim að Skógarkoti, þegar gatan er farin, er lítill hóll með smá vörðubroti; hún heitir Hellisvarða. Þar undir er hinn frægi Hallshellir, sem um nokkur ár dró að sjer athygli fjölda fólks, og skal nú skýrt frá, hvernig hann fjekk frægð sína.
Sumarið 1902 var sá, er þetta ritar, vinnumaður í Skógarkoti hjá Hannesi bónda Guðmundssyni. Þá var þar einnig drengur, sem heitir Kristján Schram og nú hefur í mörg ár verið starfsmaður hjá Gasstöðinni í Reykjavík. Eitt sinn, er við komum úr veiðiför neðan af vatni, hvíldum við okkur í laut þeirri, sem er norðan við hólinn; fundum við þar litla holu, sem var að mestu lokuð af jarðvegi og lyngi. Þegar við rifum þar til, komum við niður í helli, auðvitað „fullan af myrkri.“ Síðar fórum við þangað með ljós og sáum, að hellirinn var talsvert stór, og garður hlaðinn um hann þveran; fyrir innan garðinn er hann svo lágur, að skríða verður á fjórum fótum.
Næsta sumar, 1903, var á ferð á Þingvöllum enski rithöfundurinn Hall Caine. Hann hafði heyrt talað um helli þennan, skoðar hann og þykist finna eitthvað merkilegt við hann, sem hvorki hann sjálfur eða aðrir vissu hvað var. Svo var hellinum gefið nafn hans, og hann kallaður Hallshellir, og verður nú frægur mjög. Þyrpist þangað múgur og margmenni, sem allt verður vonsvikið á merkilegheitunum, sem von var, en gaf bóndanum í Skógarkoti góðan skilding, því að allir þurftu á fylgd að halda, og kostaði hún krónu í hvert skipti. Dýrð þessi mun hafa staðið eitt eða tvö sumur; svo fjaraði þessi heimska út, eins og fleiri, og er Hallshellir nú fyrir löngu fallinn í þá fyrri gleymsku.“
Þegar framangreint er skoðað má með sanni segja að frá hellinum „sést heim að Skógarkoti“. Ekkert „vörðubrot“ er þó greinanlegt (þó gæti hafa gróið yfir það eða verið fjarlægt). Opið er „norðan í Hellishól“, en ekki „mót suðri“. Hóllinn er ekki „lítill“, heldur lágur líkt og aðrir hraunhólar á svæðinu. „Hraunsúla“ er ekki í hellinum heldur er hægt að ganga í hring í honum. Þá er rétt að opið er „vestan Veiðigötu“, en lengi má leita í vestur til að finna staðsetninguna.
Besta vísbendingin að hellisopinu var þessa einfalda viðmiðun, sem FERLIR gróf upp (höfundur ókunnur): „Veiðistígur að 3/4 gengnum úr suðri, vestan 10, landlág hamrabrún mót N, opið er það nuðri.“ Hér varð röng stafsetningin einfaldlega að leiðréttingu þess sem þekktist og hjálpaði til við lausnina. Með hana að leiðarljósi var gengið að opinu, eins og fyrr er lýst.
Í þessari FERLIRsferð var ætlunin að verja svolitlum tíma til að skoða Skógarkotshellinn, þennan fyrrum merkilega hraunhelli. Opið er undir lágri bergbrún á lágum hraunhól. Gengið er niður í hellinn. Þegar inn er komið er gengið til hægri og síðan til vinstri. Þá er komið niður á slétt hellisgólfið. Mold er í botninum fremst. Þegar gengið er niður frá opinu þarf að hokra um stund, en niðri á gólfinu er hægt að standa upprétt/ur – og vel það. Hellisrásin er rúmlega mannhæðar há og um 7 m breið. Innar er fyrirhleðsla. Ljóst er að framhluti rásarinnar hefur verið notað sem fjárskjól fyrrum. Þegar farið er yfir fyrirhleðsluna má sjá rásir í tvær áttir. Sú til vinstri skiptist síðan í tvennt. Vinstri rás hennar liggur í boga upp með „súlunni“ og kemur inn í aðra rás ofar. Þegar farið er til baka og skoðað í þá rás sést lega hennar betur. Rás liggur enn til vinstri, ókönnuð. Allt framhald á nefndum rásum lækkar framundan og er því enn ókannað – líkt og var í upphafi aldarinnar.
Ekki er að sjá merkilegar hraunmyndanir í meginrásinni, en með betri ljósabúnaði mætti eflaust finna eitthvað áhugavert.
Skógarkotshellir, sem er (enn skoðaður) um 80 m langur, er fyrst og fremst merkilegur fyrir hversu merkilegur hann varð eftir að hann fannst, að hann hafi að hluta til verið nýttur sem fjárskjól og að þar megi finna mannvistarleifar, auk þess sem mikilvægt er að tilvist hans liggi ljós fyrir til lengri framtíðar – líkt og aðrar minjar í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Sem dæmi um óskráðar minjar á því svæði má nefna skotbyrgi refaskyttu sunnan Gaphæða o.fl. o.fl. Þegar gengið var um minjar Hrauntúnsins; garða og hús, með tandurhreint útsýni til allra átta, mátti vel ímynda sér síðdegisdýrðina þarna fyrrum. Við slíkar aðstæður virðast hin veraldlegu gæði skipta svo afskaplega litlu máli.
Í bókinni „Þingvellir“ segir Björn Th. að Jón Stefánsson. leiðsögumaður, hafi skrifað grein um Hallshelli í Ísafold í september 1903, réttri viku eftir að þeir Hall Caine, dr. Björn M. Olsen og hann sjálfur höfðu mælt og kannað allan hellinn. „Hellismunninn er 12 fet að þvermálim en lágur og sést ógreinilega, því hríslur byrgja hann að nokkru leyti.“ Hann segir að aðalhellirinn sé 178 feta langur og 55 fet á breidd (52.69×16.28m), þar sem hann sé breiðastur, en „göng í hellinum séu að minnsta kosti 500 fet á lengd alls“, (þ.e. 148 metrar). „Fyrir innan hellismunnann er bergstöpull, mjög stór um sig, og liggja frá honum á þrem stöðum hlaðnir grjótgarðar út að veggjunum; er það auðsjáanleg mannvirki. Lengsti garðurinn er 33 fet á lengd, annar 26 og hinn þriðji 7 fet; hæð þeirra er hér um bl 3-4 fet.“
Þá kemur að þeirri stóru spurningu; til hvers var hellir þessir notaður?
Fjárhellir var hann ekki, segir dr. Jón, því „hvorki fannst nein skán á hellisgólfinu né heldur getur fé komist yfir garðana. Eigi fundust heldur nein merki þess, að útilegumenn eða skógarmenn hafi búið þar að staðaldri“. Og fer þá að vandast getan. „Dr. Björn M. Olsen getur þess til, að sveitamenn hafi gert sér þar vígi, er þeir gætu horfið í þegar á þyrfti að halda. Á einum stað í hellinum eru dropasteinar. Hanga þeir niður úr loftinu. „Hér skal ekki spáð í þennan leyndardóm, enda hefur höfundur þessara orða, þ.e. Björn TH., ekki getað fundið hellismunnann, fremur en óvinir þeirra Skógarkotsmanna voru líklegir til þess að gera, og koma þá hinir miklu grjóthlöðnu garðar fyrir lítið.“
Loks var litið á leifar Grímastaða undir Grímagil. Þar má sjá tófta- og garðbrot. Ætlunin er að skoða svæðið betur við tækifæri. Ekki er ólíklegt að þær leynist og leifar selstöðu.
Frábært veður. Gangan og vettvangsskoðunin tók 1 klst og 1 mín.