Skútaklettur

Skútaklettur

Skútaklettur var fyrrum hornmark á landamerkjum Fífuhvamms og Arnarness. Kletturinn, eða steinninn öllu heldur, er skammt vestan gatnamóta Dalssmára og Arnarsmára í Kópavogi. Í bókinni „Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar“ eftir Guðlaug Rúnar Guðmundsson er fjallað um „landamerkjalýsingar og örnefnaskrár„. Þar segir um Skútaklett:
„Hornmark Arnarness, Kópavogs og Fífuhvamms er í öllum lanamerkjalýsingum þessara jarða Skútuklettur og á hann að vera merktur stöfunum L.M. Skútinn (sem Skútaklettur er kenndur við) er norðan í Nónhæðinni.“

Skútaklettur

Skútaklettur.

Í „Örnefnalýsingu fyrir Arnarnes„, sem Ari Gíslason skráði, er getið um Skútaklett:
„Jörð í Garðahreppi næst norðan Hofstaða. Upplýsingar gaf Gísli Jakobsson á Hofstöðum og Guðmundur Ísaksson frá Fífuhvammi.
Móti Garðakirkjulandi eru merkin Arnarneslækur upp undir Stórakrók, úr því keldudragi, sem þar er, svo beint yfir mýrina upp í Dýjakrók. Arnarnes heitir svo nesið, sem gengur hér fram milli Arnarnesvogs að sunnan og Kópavogs að norðan. Litla-Arnarnes heitir svo nefið sunnan við brúna á Kópavogslæk; þar var móhellubakki.

Skútaklettur

Skútaklettur – LM.

Svo eru merki móti Kópavogi varða á Skotmóa, þar sem hann er hæstur, sunnan við brúna á Kópavogslæk, svo um holtið norðanvert, sem er sunnanvert við Grænadý. Þar á miðri hæðinni er á merkjum Skútaklettur, en upp undir hann nær Skotmóinn. Skútaklettur er suður af svonefndri Engjaborg. Þegar landið hækkar, tekur við Nónhæð. Á henni eru Tvísteinar að sunnanverðu; þar undir, norðan við Arnarneslæk, er Borgarmýri. Þar var tekinn mór. Gvendarbrunnur er á há-Arnarneshálsi.“

Í „Fornleifaskrá Kópavogs„, endurskoðuð 2019, er sagt að hornmarkið sé horfið. Þó segir að „Skútaklettur er oft nefndur í landamerkjaskjölum 1870 – 1890.“ (Örnefni í bæjarlandi Kópavogs).

Heimildir:
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar, landamerkjalýsingar og örnefnaskrár, Guðlaugur Rúnar Guðmundsson, bls. 26-28.
-Örnefnalýsing fyrir Arnarnes – Ari Gíslason skráði.
-Fornleifaskrá Kópavogs, endurskoðuð, 2019.

Skútaklettur

Skútaklettur – staðsetning.