Steinar/Steinsstaðir – síðasti steinbærinn
„Lítið er til af ritheimildum sem varða gamla bæinn Steina við Hamarsgerði í Hafnarfirði og ekki er til túnakort. Þetta stafar sjálfsagt af því að bærinn var lítill með takmörkuð umsvif. Talið er að bærinn hafi verið byggður 1887 eftir að búsetu í Sjóbúðarbæjunum var hætt. Eldra nafnið á honum er Steinsstaðir.
Fyrsti ábúandi hét Guðmundur Grímsson, fæddur 1828, og bjó hann á Steinum 1887-1904. Hann mun hafa flust frá Hafnarfirði 1904 og dáið á Neðra-Apavatni 1908. Síðasti ábúandi mun hafa verið Jón Guðmundsson sem fór frá Steinum 1915. Brunabótamat gert árið 1917 greinir frá því að íbúðarhúsið sé notað sem geymsla.
Í óútgefnu riti Gísla Sigurðssonar kemur fram að útveggir og þak bæjarins standi enn. Í afsalsbréfi er sagt að hann sé “7×10 álnir að ummáli. Veggir utan hlaðnir úr höggnu grjóti. Þak og stafnar járnvarið. Allur þiljaður innan með ¾ panelborðum. Bænum var skipt í þrennt. Auk þess gangur. Allt innan dyra málað, tvær fylningshurðir og tvö gluggafög, múrpípa og tvö eldfæri. Bærinn var virtur á 1010, 25 kr. Lóðin á kr.2686,00 og var 5372 ferálnir að stærð. Bærinn var með lágum veggjum og háu risi. Skúr var á suð-vesturhlið og náði þakið upp í miðja þekjuna á bænum. Norður sneru dyrnar. Til vinstri handar er inn var komið voru dyrnar í bæinn, en þar var lítill gangur og dyr í hvorn enda” (Gísli Sigurðsson: bls. 422).
Leifar Steina liggja nú um 3 m NV við núverandi íbúðarhús við Hamarsgerði 17. Veggirnir eru um 6×5 m að utan. Þeir hafa verið steyptir utan um steina, steypa er enn á hálfum innanverðum austurvegg og á vestri vegg sunnan inngangs. Vegghæð er ca. 1.10-1.20 m. Tveir veggir standa uppi, en steinhleðslur marka grunninn í NV og SA enda hússins. Mikið af lausum steinum er inni í húsinu, mest næst veggjunum. Viður er í innanverðum NA vegg að norðan, efst á veggnum.
Utan við húsið að suðvestan er jarðvegurinn upphækkaður svo að þar myndast lítill hóll. Á honum er meira af illgresi en grasi, og mikið af steinum. Norðaustan og austan við húsið er einnig illgresi og steinar umhverfis, en ekki þó sýnilega upphækkað.
Leifar útihúss eru ca. 12 m vestan við norðurhorn núverandi íbúðarhúss. Þetta er hár og mjög brattur hóll, um 1.20 m á hæð og um 4 m að ummáli. Tvær syllur eru innan í honum efst; önnur grunn og flöt, en sú fyrir austan um 15 cm dýpri með steinum í botninum. Þröng rás er út úr henni að norðaustan í gegnum vegginn.
Svæðið hefur verið raskað þegar nágrannahúsið að Hamarsbraut 14 var byggt og möl og frágangi hrúgað þar ofan á.
Garður er sunnan við steinhúsið, um metri að breidd og ca. 20-25 cm hár. Rennur niður bratta brekku þar sem hann hverfur inn í tré. Næst er hægt að sjá 2 m bút af honum um 10 m NNA við steinhúsið áður en hann hverfur aftur undir tré.
Steinbærinn við Hamarsbraut 17 og fjós og garður sem honum fylgdu eru svo raskaðir auk þess sem hann stendur í miðri íbúðabyggð og er ekki hluti af fornu menningarlandslagi, að ekki þykir nein ástæða til að varðveita hann eða byggja hann upp. Engar heimildir eru heldur til um bæinn sem er hægt að styðjast við ef ráðist yrði í endurgerð. Hann er ekki ýkja gamall, reistur seint á 19. öld, en minjagildi hans varð að engu árið 1998, þegar hann var rifinn.“
Heimild:
-Steinsstaðir í Hafnarfirði/Hamarsbraut 17, fornleifaskráning vegna deildiskipulags, Byggðasafn Skagafjarðar – 2005.