Við affall Kaldár í Kaldárbotnum er skilti; „Kaldárssel í 100 ár (1925-2025)„. Á því er eftirfarandi upplýsingar:
„Sumarbúðirnar í Kaldárseli eiga sér fallega sögu sem spannar rúma öld. Eftir messu í Bessastaðakirkju á annan hvítasunnudag 1921 var haldinn KFUM-fundur þar sem stofnaður var sumarbústaðarsjóður. Félagsmenn úr Hafnarfirði lögðu þá fram 100 krónur í sjóðinn og tveir ungir piltar bættu við 5 krónum hvor. Eftir þetta tóku fleiri félagar þátt og ákváðu að hittast mánaðarlega til bæna og framlag til sjóðsins.
Árið 1925 hafði sjóðurinn vaxið í nær 400 krónur og þá hófust framkvæmdir. Hafnarfjarðarbær gaf félaginu leyfi til að nota svæðið í kringum gamla Kaldárselið með skilyrði um að það yrði eingöngu fyrir starfsemi KFUM. Hafist var handa við að ryðja veg frá kirkjugarðinum fyrir ofan Hafnarfjörð upp að hraunhálsi vestan við selið og flytja þannig byggingarefni á svæðið með hjálp velviljaðra eigenda flutningabíla.
Frá enda vegarins þurfti að bera efnið um 1,5 km leið yfir hálsinn að byggingarstaðnum. Sjálfboðaliðar komu saman í hvassviðri og rigningu seint í maí og kláruðu verkið af miklum dugnaði.
Skálinn var vígður 25. júní 1925. Hann var þá 14 álnir á lengd og 10 á breidd, með svefn- og borðsal, eldhúsi og litlu herbergi. Skáladyrnar snéru í suður að Kaldá sem hverfur svo ofan í hraunið. Við skálann var reist fánastöng þar sem íslenski fáninn blakti þegar fólk var í Selinu.
Tuttugu árum síðar var byggt við skálann vestan megin og hann tvöfaldaður að stærð. Vinsældir sumarbúðanna jukust í sífellu og var því aftur hafist handa við stækkun skálans sem lauk árið 1967.
Enn var ekkert rafmagn á staðnum á þessum árum en búið var að skipta út gömlu kolaeldavélinni sem áður sá skálanum fyrir hita, í stað hennar var komin gasvél og heitt vatn frá olíuhtun. Allt í allt var þrisvar sinnum farið í stækkun á Kaldárseli og aðbúnaður bættur í takt við auknar kröfur samtímans. Ný stór viðbygging var vígð sunnudaginn 24. júni 1990. Sama ár var fengin díselvél sem sá skálanum loks fyrir rafmagni og hita.
Í heila öld hafa börn átt þess kost að dvelja í sumarbúðunum í Kaldárseli, þar sem þau hafa fengið tækifæri til að auðga andann og leika sér.
Náttúran í kring með hrauni, árfarvegi, hellum og fjöllum, hefur alltaf verið órjúfanlegur hluti af dagskránni. Áhersla hefur verið lögð á jákvæð samskipti og kristnifræðslu. Frá árinu 2017 hefur Vinasetrið verið hluti af starfinu en það er helgardvöl fyrir börn sem þurfa séstakan stuðning. Þar hefur verið unnið út frá þeirri hugsjón að hvert barn sé einstakt og eigi skilið kærleika og umhyggju líkt og hefur einnig verið leiðarljós í starfi sumarbúðanna í Kaldárseli.“
Hafnfirðingar hafa jafnan notið þess að koma að Kaldárseli, en viðmót staðarhaldara hefur því miður breyst til hins verra síðustu árin. Það skýrir líklega staðsetningu skiltisins, þ.e. við affall Kaldár en ekki í nánd við sjálft Kaldársel.