Færslur

Bæjarsker

Í “Fornleifaskráningu fyrir Bæjarsker á Reykjanesi vegna deiliskipulags” segir m.a. um Bæjarsker og nágrenni:

Bæjarsker (býli)

Bæjarsker

Bæjarsker 1910.

Nafnið Bæjarsker eða Býjasker á Rosmhvalanesi er nefnt í fjölmörgum heimildum. Elsta heimildin um bæinn kemur fram í Landnámabók en um og eftir 1300 kemur bæjarnafnið oft fram í Diplomatarium Islandicum eða Íslensku fornbréfasafni. Jörðin hefur því að líkindum byggst upp snemma. Samkvæmt heimildum var hálfkirkja á jörðinni og örnefnið Kirkjuklettur er til að mynda að finna á túnakorti Býjaskerjahverfisins.
Örnefnið Lögrétta er einnig að finna á jörðinni sem bendir til þess að þar gæti hafa verið þingstaður. Hér á eftir má sjá upptalningu á þeim heimildum þar sem bærinn er nefndur og tilvitnanirnar sjálfar:

Bæjarsker

Bæjarsker 1940.

[Um 1270]: Skrá um rekaskipti á Rosmhvalanesi. “ok þar vr sionhending j hinn hæsta stein aa markskeri. Þadann eigv sydvr biasker j midiann eyktiar holm.”( DI II, 77).
[Um 1270]: “Þetta er hvalskipte rost hvelínga: at þann hval sem meire er enn xij vætter ok half vætt ok rekvr millvm æsvbergs ok keflv vikur til motz vid niardvikínga skall skiptta j nív stade. […] Hinn vij hlvt eiga biasker ok kirkiv niardvik halfan hvort.” DI II, 78-79. [1367]: “lxvi. Kirkia hins heilaga Olafs kongs ad Byiaskerium a. etcetera. les wilchinsbok “; (Hítardalsbók DI III, 221) 10.6.1370: “Og af ollum bæium sudur Þadan [frá Hvalsnesi] til Voga allar skylldur [til Hvalsness] vtan af Biaskerium oc Þeim tveimur kotum sem Þar fylgir jordunni. tekst Þar af heima tiund. af Hvalsnesi skal syngia til Biaskeria annan huern dag helgan.” (DI III, 256-257 [Hvalness])
1397: “Kirkia hins heilaga Olafs konungs ad Biaskerium […].” (DI IV, 105).
5.9.1444: Skúli Loptsson selur Hallsteini Höskuldssyni Þingnes í Borgarfirði fyrir 60 hdr. “hier j mot gaf nefndur hallzsteinn halfa iord er heiter biasker er stendr aa Rosthualanesi firir halfan fiorda tug hundratha […]”. (DI IV, 658-659).
22.8.1488: Guðmundur Skúlason prestur selur Ólafi biskupi og heilagri Hólakirkju: “haalfa jord er heiter biaskier er liggur aa rosthualanesi j hualsnes kirkiv sokn fyrir fiorvtigi hvndrada […].” (DI VI, 637).
21.6.1489: “medkienning Sniolf(s) prests ad hann hafe luckt peninga fyrir Biaskier Gudmunde Skulasine.” (DI VI, 659. Sjá einnig bréf 22.07.1491, DI VI, 758).

Bæjarsker

Bæjarsker 1960.

[1490]: Dómur útnefndur af Diðrik Píning “aa biaskeria þingi”. (DI VI, 719).
10.4.1517: Ögmundur ábóti í Viðey selur Hannesi Eggertssyni Kirkjuból í Selárdal, Suðureyri og Tungu í Tálknafirði fyrir “[…] halfa Biaskier oc Þoristadi er liggia aa Hrosshvalanesi […].” (DI VIII, 608. Sjá einnig bréf 14.9.1517, DI VIII, 637 og bréf 7.7.1519, DI VIII, 699).
1525: Máldagi Hóladómkirkju. “(Þ)etta jarda gödz atti holakirkia j sama tima. […] biasker half.” DI IX, 301-302. 11.9.1539: Dómur tólf mann útnefndra “aa biaskerivm aa rosmhvalanesi.” DI X, 474.
1547-1548: Fógetareikningar. “Jtem met Beerskeeriom v legekör. […].” (DI XII, 116. Sjá einnig Fógetareikninga 1548-1549, DI XII, 142; 1549-1550, DI XII, 157; 1550, DI XII, 176; 1552, DI XII, 403).
1.9.1552: Skýrsla um jarðeignir sem Jón biskup seldi frá Hólastól. “Biasker half xxc.” DI XII, 459-460.
25.12.1550: Skrá um eignir Hóladómkirkju. “Hafa þessar jarder. sem hier epter skrifast. logast og j burttu sellst fra Holakirkiu aa medan biskup Jon hefur halldit kirkiuna. […] Býasker half .xx. c.” (DI XI, 872).
1686: 45 hdr., 100 ál.,konungseign (Björn Lárusson, 122).
1695: 45 hdr. (Björn Lárusson, 122).
1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, með hjáleigunum Sidstakoti, Midkoti, Holkoti, Barusgierde, eyðihjáleigunum Hialltakoti, Lambhúsi, Nordurkoti, Krossabrecku og Glæser auk tveggja ónefndra hjáleiga (JÁM III, 55-58).
“Eyvindr [frændi Steinunnar gömlu] bjó nokkura vetr síðan í Heiðabæ ok fór síðan á Rosmhvalanes til Bæjarskerja […],”(ÍF I, 391).
1703: “[…] staðfestu þennan framburð og sönnuðu með eiði, eptir uppátekt Páls [Beyers] og tilnefnd sýslumanns, á Býjaskerja-, Kálfatjarnar- og Kópavogsþingum, 2 lögréttumenn.” (Vallaannáll, Annálar I, 451).

Bæjarsker

Bæjarsker – íbúðarhúsið 1960.

1703: “Torfrista og stúnga engin nema í sendinni jörðu valla nýtandi. Fjörugrasatekja nokkur. Hrognkelsafjara nokkur. Murukjarnar og söl er brúkaðar fyrir peníng […] lendíng slæm, önnur langt frá í flæðiholma og þar fyrir mjög bæði hætt fyrir skip og erfið […]. Tún gánga mjög af sjer fyrir sandi og sjáfarágángi. Engjar eru öngvar. Land graslítið, mestalt grjót og sandur. Flæðihætt mjög. Eldiviðartak ekkert nema af fjöruþángi. Vatnsból slæmt og þrýtur stundum,” segir í JÁM III, 55.
“Ofan við túnið er kúagerði ,” segir í örnefnaskrá AG. Þar kemur jafnframt fram að örnefnið Hesthúshóll sé á jörðinni (Ö-Bæjarsker AG, 2). “Sölvatangi. Langt rif, sem er milli sundanna. Sölvatekja,” segir í örnefnaskrá MÞ (Ö-Bæjarsker MÞ, 3).
[Um 1840]: “Á Býjaskerjum […], er það ekki full 46 hndr. með 5 hjále<i>gum (aðrar 5 höfðu einhvörn t(íma) áður fyrr verið byggðar). […] Á fyrri dögum skyldu hafa verið margar hjáleigur fyrir utan þær, sem nú eru byggðar, sem nú sjást engin merki til, hvar staðið hafa” segir í Sýslu- og sóknarlýsingum (Gullbringu- og Kjósarsýsla, 80, 97).
1847: 45 5/6 hdr., bændaeign, með hjáleigunum Hólkoti, Báruskeri og Norðurkoti, (JJ, 87).
1919: “Stakkagerði, þ. búð eyðilögð f. nák. 20 árum,” segir á túnakorti. Þar eru einnig hjáleigurnar Hólahús og Syðstakot merktar sem og þurrabúðin Laufás.
Þurrabúðin Setberg, eyðibýlið Hábær og þrjú nýbýli, Vinaminni, Reynistaður og Sólbakki er nefnd í örnefnaskrá (Ö-Bæjarsker AG, 1-2). Örnefnið lögrétta er á jörðinni (Ö-Bæjarsker AG, 2).
Jarðarítök: Jörðin brúkar skóg til kolagerðar í almenningi. Að auki nýtir heimabóndinn grasnytjar af hjáleigunum Lambhúsi, Norðurkoti, Krossbrekku og tveimur ónefndum eyðihjáleigum (JÁM III, 55-58.)
“Meðan fjöruþang var eina eldsneytið, var Eyrin óþrjótandi náma og fengu margir aðrir en eigendur að njóta góðs af því, fyrir litla eða enga þóknun,” segir í örnefnaskrá (Ö-Bæjarsker MÞ, 2).
1919: “Túnin mestöll slétt og sléttuð[,] blettir aðeins hér og þar smáþýfðir.” Tún (Býjasker A), 2.6 hekt., garðar 1320 m2. Tún (Býjasker V), 2.6 hekt., garðar 1280 m2. Tún (Hólshús), 1.15 hekt., garðar 300 m2. Tún (Syðstakot), 1.4 hekt., garðar 1830 m2. Tún (Laufás), 0.33 hekt., garðar 400 m2. Öll torfan samtals 8.08 hekt., og garðar 5130 m2.

Bæjarskersrétt (rétt)

Álaborg syðri

Álaborg syðri.

“Við Bæjarskersréttina hitti hópurinn fyrir Reyni Sveinsson (Fræðasetrinu) og Pétur Bryngarðsson, sagnfræðing í Sandgerði. Pétur benti á Bæjarskersréttina og leiddi hópinn að Bæjarskersleiðinni […]. Pétur sagði að elsta réttin á svæðinu, svo vitað sé, hafi verið Álaborgin nyrðri ofan við Flankastaði, síðan hafi Álaborg syðri verið byggð ofan við Bæjarsker, en hún hafði síðan verið flutt í réttina, sem við komið var fyrst að,” segir á Ferlir.is. Katrín Gunnarsdóttir skráði réttina árið 2008: “Um 50 m frá Bæjarskersvegi í suður eftir Stafnesvegi, rétt ofan við veginn. Réttin er upphlaðin að mestu, en með einstaka hliðum sem eru eingöngu úr timbri eða timbrið er til stuðnings hleðslum, og einnig er það notað í hlið í hólf réttarinnar. […] Hleðslugarðar eru fyrir utan réttina, en þeir eru einhlaðnir, og ræðst hæðin af stærð steinanna sem eru í þeim […]. Rétt þessi var tekin í notkun upp úr 1930, en áður var notuð Álaborgarrétt.” Bæjarskersrétt er um 340 m austan við bæ.

Bæjarskersrétt

Bæjarskersrétt.

Réttin er í heiði, víða eru moldarflög, stakir steinar og melur inn á milli klapparhóla. Mosi og gras er ríkjandi á þessu svæði. Réttin er 24 x 24 m að stærð og er grjóthlaðin. Meðfram veggjum er víða timbur sem notað er til stuðnings og er hluti af veggjum. Jafnframt eru timburhlið í öllum opum. Veggirnir eru 0,4-1,1 m á hæð, 2 m á breidd og það má greina 3-4 umför af grjóthleðslu í þeim. Í miðjunni er almenningur (hólf 1) og þaðan eru op til allra átta inn í dilka, í allt eru þau níu talsins. Til vesturs eru fjórir dilkar sem allir eru varðveittir. Að austan er réttin röskuð og allir dilkar horfnir, einungis opin úr almenningnum bera þeim vitni. Opin eru þrjú talsins þar. Þar er nú einungis einn dilkur úr timbri og lágreist hleðsla skammt sunnar. Fyrir norðan réttina er hólf 7 sem afmakast af einfaldri steinaröð. Hleðslan er 0,2 m á hæð og 1 m á breidd. Þar ofan á var líklega vírgirðing en það er ljóst að umfang þess er mun minna en í réttinni sjálfri. Hólfið er ekki inni í réttinni sjálfri, mögulega var það fyrir hesta. Rúmum 8 m austan við réttina er garðlag. Það er 17 m langt og liggur norður-suður í moldarrofi. Það er 1 m á breidd og 0,2 m á hæð. Ekki er ljóst hver tilgangur þess er, það tengist réttinni að öllum líkindum eða er undirhleðsla undir vírgirðingu.

Fjárhús (fjárskýli)

Bæjarsker

Bæjarsker – fjárhús.

Tóftin er hlaðin upp á klettabelti
að austan og er uppi á lágum hól. Tóftin er í grónum hvammi, fast vestan við lágt klettabelti. Hvammurinn er afmarkaður til suðurs og austurs af klettum, annars er gras áberandi á svæðinu. Tóftin er 9,5 x 9,5 m að stærð og skiptist í tvö hólf. Veggirnir eru 0,3-1 m á hæð, stórþýfðir og algrónir. Það glittir hér og þar í grjót án þess að um greinileg umför sé að ræða. Þeir eru eingöngu grjóthlaðnir, líkt og flestar aðrar minjar á svæðinu. Lýsingin hefst til suðurs í hólfi 1. Það er 4×2 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Klettarnir til austurs eru 0,8 m á hæð og brattir. Hólfið er opið til vesturs, hluti af nyrðri langhlið nær 2,5 m vestar en suðurlanghlið. Hólf 2 er norðar og stærra. Það er 8,5×2,5 m að innanmáli og opið til vesturs. Sem fyrr afmarka klettar austurvegg.

Heimild:
-Fornleifaskráning fyrir Bæjarsker á Reykjanesi vegna deiliskipulags, Reykjavík 2017.

Álaborg syðri

Álaborg syðri.