Tvær réttir eru ofan við Bæjarsker: annars vegar Bæjarskersréttin skammt ofan við Stafnesveginn og hins vegar Álaborgarréttin, sem er bæði eldri og nokkru ofar í Miðnesheiðinni.
Staðsetningin á Álaborgarréttinni er n: 64,01,667 v: 22,41,077. Réttin er um 500-600 metra ofan við Stafnesveginn, upp af skógræktarreit sem hallar aðeins til suðurs. Veggir réttarinnar eru nokkuð heillegir, grasivaxnir að hluta að utan og innan, en vel sést i hleðslur. Innra skipulag hennar er nokkuð ljóst, það er almenningur og út frá honum liggja minni hólf. Inngangur er í réttina í norður. Hleðsluhæð um 1 m að jafnaði en sumstaðar aðeins lægra. Steinastærð um 0.25-0.50 m. Rétt þessi er eldri en réttin sem er niður við Stafnesveg en sú rétt er tekin í notkun upp úr 1930, en fram að því hafði Álaborgarréttin verið notuð.
Bæjarskersréttin er grjóthlaðin, en að hluta til úr timbri. Staðsetningin er n: 64,01,687 v: 22,42,022. Hún er um 50 m frá Bæjarskersvegi í suður eftir Stafnesvegi, rétt ofan við veginn. Réttin er upphlaðin að mestu, en með einstaka hliðum sem eru eingöngu úr timbri eða timbrið er til stuðnings hleðslum, og einnig er það notað í hlið í hólf réttarinnar. Hleðsluhæð er um 1.20 m. Hleðslugarðar eru fyrir utan réttina, en þeir eru einhlaðnir, og ræðst hæðin af stærð steinanna sem eru í þeim eða um 0.25-0.30 m. Rétt þessi var tekin í notkun upp úr 1930, en áður var notuð Álaborgarréttin notuð, sem fyrr sagði.
Heimildir:
-Sigurður Eiríksson í Norðurkoti.
-Reynir Sveinsson á „Uppsölum“ í Sandgerði.