Í Tímanum 1996 er grein um „Frumbyggja í Kópavogi og yngri kynslóðir sem eiga sér þjóðsögur líkt og aðrir“. Anna Hedvig Þorsteinsdóttir og Inga Þóra Þórisdóttir segja frá:
„Rótarýklúbburinn í Kópavogi hefur gefið út bókina „Þjóðsögur og sagnir úr Kópavogi„, sem Anna Hedvig Þorsteinsdóttir og Inga Þóra Þórisdóttir söfnuðu af elju meöal eldri Kópavogsbúa. Einnig fengu þær að láni spólur frá Stofnun Árna Magnússonar með viðtölum Hallfreðar Arnar Eiríkssonar við eldri Kópavogsbúa, sem tekin voru upp árið 1967. Bókin er unnin upp úr lokaritgerb Önnu og Ingu úr Kennaraháskóla Íslands og eru sögurnar býsna
fjölbreyttar. Þar má finna sögur af hinum fræga Jóa á hjólinu, draugum, karlinum sem býr orðið einn í Álfhólnum, Jóni í Digranesi, Kársnesorminum og huldufólki, svo eitthvað sé nefnt. Hér á síðunni birtist ein huldufólkssagan. Hún segir frá huldukonunni á peysufötunum sem safnararnir höfðu eftir Kristni Hallssyni.
Huldukonan á peysufötunum
Á fyrri hluta þessarar aldar var byggð ekki mikil í Kópavogi. Mátti þó sjá bústaði, sem fólk hafði reist sér til sumardvalar, og einnig var farið að bera á því að bústaðir þessir væru nýttir sem íbúðarhúsnæði árið um kring. Í Digraneslandi stóðu nokkrir þessara bústaða neðst í sunnanverðri Digraneshlíð þar sem Digraneslækur rennur.
Þá bjó í Reykjavík ungur drengur ásamt fjölskyldu sinni og hét Kristinn Hallsson. Drengurinn þótti söngvinn með eindæmum og síðar varð hann landsfrægur söngvari. Foreldrar Kristins áttu sumarbústað niðri við Digraneslækinn og dvöldu þar jafnan sumarlangt með börnum sínum.
Áslaug Ágústsdóttir hét móðursystir Kristins, hávaxin kona og grönn. Hafði hún þann sið að heimsækja fjöskylduna og kom þá ætíð fótgangandi eftir Fossvogsdalnum og yfir Digraneshálsinn sem leið lá að sumarbústaðnum. Brá hún aldrei af þeirri leið.
Dag nokkurn um miðsumar var von á Áslaugu til Kópavogs. Börnin voru þá úti við leiki. Láta þau fljótlega af þeirri iðju og halda af stað til móts við Áslaugu. Fara þau hægt yfir og tína upp í sig ber á leiðinni upp hæðina. Uppi á hæðinni var mikill steinn, sem eldri menn sögðu vera álagastein. Mun þetta hafa verið steinninn Latur, sá sami og Jón bóndi í Digranesi var vanur að sitja á þegar hann var kenndur og syngja, sem frægt var á hans tíma. Var steinninn á gönguleið Áslaugar.
Barnahópurinn var nú staddur skammt frá honum og var Kristinn Hallsson í broddi fylkingar eins og venjulega. Sjá börnin öll hvar kona ein birtist skammt undan steininum. Var hún í peysufötum líkum þeim sem Áslaug klæddist jafnan. Há var hún og grannvaxin líkt og Áslaug og taldi Kristinn að móðursystir sín væri þar á ferð, enda ekki von á öðrum mannaferðum. Þegar ekki er lengra en tíu fet á milli konunnar og barnanna, sér Kristinn að þetta er ekki Áslaug eins og þau áttu von á.
Þá fyrst er sem konan verði þess vör að börnin veiti henni athygli. Nemur hún snögglega staðar, setur upp undrunarsvip og síðan hræðslusvip. Snýr hún snögglega á braut og tekur til fótanna upp hlíðina og hverfur sjónum skammt frá steininum. Fylgja börnin konunni eftir uns þau koma upp á hálsinn þar sem útsýni er allgott yfir Fossvoginn. Ekki var þar sálu að sjá svo langt sem augað eygði. Fátt var um felustaði og var engu líkara en að jörðin hefði gleypt konuna. Leituðu þau þá allt í kringum steininn, en án árangurs.
Gengu nú börnin heim á leið og sögðu fólki frá atburðinum og konunni í peysufötunum. Flestir urðu undrandi yfir þessum tíðindum, en margir hinna eldri létu sér fátt um finnast. Sögðu þeir að þarna á Digraneshálsinum hefði verið á ferð huldukona. Mun henni hafa brugðið er hún varð þess vör að börnin sáu hana. Í það sinnið hefur hún gleymt að setja upp huliðshjálminn, eins óg kallað var.“
Heimild:
-Tíminn, 131. tbl. 13.07.1996, Frumbyggjar í Kópavogi og yngri kynslóðir eiga sér þjóðsögur líkt og aðrir, Anna hedvig Þorsteinsdóttir og Inga Þóra Þórisdóttir, bls. 6.