Í Fornleifaskráningu fyrir Örfirisey og Grandinn er m.a. getið um tvo letursteina, sem fluttir voru frá Örfirisey í Árbæjarsafn; Apótekarasteinninn og Álnasteinninn. Auk þess má enn sjá áletranir á klöppum á svonefndu Reykjanesi nyrst á Grandanum.
„Örfirisey var ein af sex eyjum Kollafjarðar, grösug og frjósöm. Hinar eru Akurey, Engey,
Viðey, Þerney og Lundey. Búið var í þeim öllum nema Akurey og Lundey. Það sem gerir Örfirisey sérstæða er grandinn út í hana, en gæta þurfti sjávarfalla til að komast út í hana. Við byggingu Grandagarðs árið 1913 varð breyting á og aðgengi út í eyju varð betra. Örfirisey og Grandinn afmarka vestur hluta Reykjavíkur en Lauganestanginn austurhluta hennar. Talið er að Örfirisey hafi verið stærri áður, en minkaði vegna ágangs sjávar. Áður en Grandagarður var gerður, lá malarif eða grandi út undan Brunnstíg til norðnorðausturs, þar til komið var mitt á milli lands og eyjar. Þar sveigði hann til austurs og lá í norðaustur út í suðurenda Örfiriseyjar. Þessi grandi hét Örfiriseyjargrandi.
Reykjanes er nyrst á eyjunni. Árni Magnússon hefur þær sögusagnir eftir Seltirningum að súlur Ingólfs hafi rekið þar á land, en Ingólfi hafi aftur á móti ekki litist á staðinn, brennt súlunnar og numið land á þeim stað þangað sem reykinn lagði eða í Reykjavík. Trúlegra er að nafnið á Reykjanesi sé tilkomið vegna heitrar gufu sem steig upp um glufu í klettunum á stórstraumsfjöru.
Nyrst á Örfirisey er Reykjanes, einn af fáum stöðum sem enn eru óraskaðir. Þar er að sjá
lítið rústarbrot sem ekki er vitað hvað var. Talið var að álfar ættu sér þar bústað í klöppunum. Á klöppunum fyrir neðan rústina er að finna mikið af áletrunum, þær elstu frá síðari hluta 18. aldar. Þar er helst að nefna mjög merkilegar áletranir eftir Henrik Hansen kaupmann og syni hans. Henrik Hansen var verslunarmaður í Hólmi meðan verslunarhús voru í Örfirisey.
Á Reykjarnesi má sjá eiginhandaáritun hans slegna í klöpp. Hann var kaupmaður á Básendum, er verslunarstaðinn tók af þar í flóðinu mikla 9. janúar 1799. Synir hans voru kallaðir Básendabræður. Þeir voru Hans Símon Hansen og Símon Hansen sem átti Hansenhús/Smiðshús sem nú er á Árbæjarsafni. Bræðurnir settu fangamörk sín á klappirnar á Reykjanesi ekki langt frá áletrun föður síns árið 1828. Aðra áletranir eru flestar yngri. Þar má nefna fjölmargar frá árunum 1945 – 1948, tengdar veru bandaríska hersins auk fangamarka nokkurra Íslendinga frá árunum 1958 – 62.
Tveir áletraðir steinar voru fluttir á sínum tíma frá Örfirisey á Árbæjarsafn þegar ljóst þótti að þeir myndu lenda undir uppfyllingum. Annar steinninn er kallaður Apótekarasteinn. Á hann er rist einföld mynd af keri 60 x 63 cm að ummáli, og á því miðju er fangamarkið HCB og ártalið 1747. Ekki er vitað af hverju steinninn dregur nafn sitt. Hinn steinninn er kallaður Álnarsteinn. Á hann er rist lína, um 53 cm að lengd. Sýnir hún lengdareiningu þess tíma, sem var alin. Fyrir neðan álnarlínuna er latneskt máltæki rist í steininn: „memento mori“, sem útleggst á íslensku „Minnstu dauðans“. Talið er að báðar þessar áletranir hafi komið til á tíma verslunarstaðarins í Örfirisey.
Nokkru eftir að verslunin var flutt úr eynni urðu þarna miklar hamfarir þegar ofsaveður gekk yfir eyna árið 1799 í svokölluðu Básendaveðri. Eyddist þar öll byggð um sinn en búseta hófst þar aftur nokkru síðar. Sú byggð var þó aðeins svipur hjá sjón og lagðist síðan niður með öllu 1861. Síðustu ábúendur í Örfirisey munu hafa heitið Jón og Kristín, en þau fluttust þaðan 1861.“
Þrátt fyrir að byggð hafi lagst af í Örfirisey er þar nú fjölbreytt athafnalíf, auk þess sem Grandinn hefur verið gerður landfastur með miklum uppfyllingum. Einungs nyrsti hluti hans, Reykjanesið, er að mestu ósnert, sem fyrr sagði.
Í Alþýðublaðinu 1963 segir m.a. um Apótekarasteininn: „Fyrrnefndur apótekarasteinn er úr Örfirisey. Á honum stendur ártalið 1747 og áletrunin HBC.
Utan um þetta er mótuð apótekarakrukka, sem gefur steininum nafn sitt. Hann er einn af merkilegustu steinunum í Örfirisey og er frá dögum verzlunarinnar þar. Danskir verzlunarstjórar hjuggu oft nöfn í steinana á eyjunni. Apótekarasteinninn lá við sjávarmálið og á góðri leið með að eyðileggjast er hann var fluttur til safnsins.“
Í Alþýðublaðinu 1963 var rætt við Lárus Sigurbjörnsson, forstöðumann Skjala- og minjasafns Reykjavíkurborgar. Í viðtalinu segir hann m.a.: „Hann sagði annan stein hvað merkilegastan. Í steininn er klöppuð sjálenzk alin, en þetta mál finnst nú hvergi nema í kirkju einni á Sjálandi. Hún hefur verið höggvin í steininn 1660. Neðar á stendur orðið „memento“, sem útleggst „mundu“. Undir þessu hafa svo upphaflega staðið tveir stafir O.P., en síðar hefur einhver bætt M fyrir framan þá, gert P að R og höggvið í aftast. Kemur þá út orðið „mori“, sem þýðir dauði. Hefur einhver gert þetta af skömmum sínum. „Memento mori“ þýðir þá „Mundu að þú átt að deyja“.
Apótekarasteinn stendur við húsið Þingholtsstræti 9 á Árbæjarsafni, en Álnasteinninn við Kornhúsið.
Heimild:
-Anna Lísa Guðmundsdóttir – Fornleifaskráning fyrir Örfirisey og Grandinn, Reykjavík 2009.
-Alþýðublaðið 3. sept. 1963, forsíða.
-Alþýðublaðið 30. júní 1963, bls. 16.