Alþingisgarðurinn var friðlýstur 18. nóv. 2024.
Garðurinn við Alþingishúsið er fallegur og friðsæll sem er að mestu umkringdur háum steinvegg. Garðurinn er því fremur falinn og fyrir vikið fásóttari en ella en hann hefur verið opinn fyrir almenning síðan 1950. Garðurinn er elsti íslenski almenningsgarðurinn sem hefur varðveist í upprunalegri mynd.
Skömmu eftir að smíði Alþingishússins lauk 1884 var ákveðið að gera garð í lóðinni sunnan við húsið að frumkvæði Árna Thorsteinssonar landfógeta.
Plöntur voru fengnar víða að, innan lands sem utan. Víðitegundin þingvíðir var flutt inn til landsins og er hún nefnd eftir garðinum.
Tryggvi Gunnarsson alþingismaður sinnti garðinum síðari hluta ævi sinnar og er brjóstmynd af Tryggva að finna í garðinum.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, undirritaði friðlýsinguna vegna Alþingisgarðsins við Kirkjustræti. Friðlýsingin tekur til garðsins í þeirri mynd sem hann hefur varðveist.
Alþingisgarðurinn er elsti og best varðveitti almenningsgarður við opinbera byggingu á Íslandi. Framkvæmdir stóðu yfir frá 1893 til 1894 en hönnun garðsins lá fyrir í upphafi, sem markaði tímamót í íslenskri garðsögu.
Friðlýsingin er gerð að tillögu Minjastofnunar Íslands og er í samræmi við ákvæði laga um menningarminjar, nánar tiltekið 18. gr. sem fjallar um friðlýsingu húsa og mannvirkja eða hluta þeirra sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi.
Friðlýsingin tekur til Alþingisgarðsins við Kirkjustræti 14 í þeirri mynd sem hann hefur varðveist, skipan stíga, beða, trjágróðurs og tegundaflóru innan hvers reits, minnisvarða, hleðslna og yfirborðsefna og hlaðinna veggja umhverfis garðinn. Garðurinn er 901,8 fermetrar að stærð, lengd hans er 33,1 metrar og breidd 27,2 metrar, og miðast útmörk friðlýsingarinnar við það. Vikið er frá því að hafa 100 m friðhelgunarsvæði umhverfis útmörk garðsins, sbr. 22. gr. laga um menningarminjar.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Það er mér mikil ánægja að staðfesta tillögu Minjastofnunar um friðlýsingu Alþingisgarðsins. Garðurinn markaði tímamót í íslenskri garðsögu og upphafsmaður hans Tryggvi Gunnarsson sinnti garðinum einstaklega vel, jafnvel á efri árum. Í Alþingisgarðinum fyrirfinnast enn ýmsar tegundir plantna, sumar horfnar þaðan eins og Þingvíðirinn sem nefndur er eftir garðinum, en margar þrífast þar enn enda hefur garðinum alltaf verið vel sinnt. Skipulag garðsins hefur ekki mikið breyst frá þarsíðustu öld. Í honum má líka sjá handverk í formi hleðslna og hlaðinna veggja. Alþingisgarðurinn er táknrænn fyrir margra hluta sakir og gildi hans afar mikið á landsvísu. En mest um vert er að allan tímann hefur hann verið opinn almenningi og er Alþingisgarðurinn því garður okkar allra.
Alþingisgarðurinn er táknrænn fyrir margra hluta sakir og gildi hans afar mikið á landsvísu. En mest um vert er að allan tímann hefur hann verið opinn almenningi og er Alþingisgarðurinn því garður okkar allra,“ segir ráðherrann.
Í tilkynningu um friðlýsinguna kemur fram að Alþingisgarðurinn sé elsti og best varðveitti almenningsgarður við opinbera byggingu á Íslandi.
Framkvæmdir hafi staðið yfir frá 1893 til 1894 en hönnun garðsins hafi legið fyrir í upphafi, sem markaði tímamót í íslenskri garðsögu.
Viðstödd friðlýsinguna voru, auk ráðherra, forseti Alþingis og fulltrúar Alþingis, Minjastofnunar og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.
Á Alþingi árið 1893 kom fram tillaga um hvernig verja skyldi fjármunum sem safnast höfðu í þinghússbyggingarsjóðinn frá 1867. Áður hafði komið fram hugmynd um að nota sjóðinn til að skreyta húsið að innan en nú kom fram tillaga um að veita úr honum til skipulags lóðar og garðyrkju við húsið. Urðu miklar umræður um tillöguna á þinginu og miðluðu þingmenn þar af reynslu sinni af garðyrkju, t.d. Árni Thorsteinson landfógeti og forseti efri deildar sem Landfógetagarðurinn (Hressingarskálagarðurinn) er kenndur við.
Alþingi samþykkti að lokum að verja 1.500 krónum til framkvæmda í garðinum og fá þingforseta umsjón verksins. Mun þar með hafa verið tekin ákvörðun um fyrsta opinbera skrúðgarðinn á Íslandi. Benedikt Sveinsson, forseti sameinaðs þings, fól Tryggva Gunnarssyni að sjá um framkvæmdir í garðinum. Tillöguuppdrættir Árna Thorsteinsonar að garðinum eru varðveittir í Þjóðskjalasafninu en uppdráttur, sem farið var eftir, er í skjalasafni Seðlabankans og á honum rithönd Tryggva Gunnarssonar. Tryggvi var smiður að mennt og lærði einnig búvísindi á Norðurlöndum og er ekki ólíklegt að hann sé höfundurinn að skipulagi garðsins. Garðurinn er enn nánast óbreyttur frá upphaflegu skipulagi.
Tryggvi hófst handa við að láta skipta um jarðveg í garðstæðinu og ræsa það fram. Einnig keypti hann mykju og tað til áburðar og pantaði plöntur innan lands og utan. Kostnaðarsamast var að girða garðinn og var Ólafur Sigurðsson steinhöggvari fenginn til að hlaða garðveggina. Veggurinn sem snýr að Dómkirkjunni er vandaður og prýða hann steinsúlur með hnúð. Suður- og vesturveggirnir eru einfaldari og frágangurinn grófari enda voru þeir á lóðamörkum en sneru ekki að opnum svæðum eins og nú. Slökkvitækjaskúr Reykjavíkurbæjar stóð að hluta á lóð Alþingis og var rifinn þegar garðvinnan hófst.
Tryggvi fékk plöntur víða að, víði og birki úr Fnjóskadal, ilmreyr úr Hörgárdal, reynivið úr Nauthúsagili undir Vestur-Eyjafjöllum, birki úr Hafnarfjarðarhrauni og mjaðarjurt úr Gufunesi. Árni Thorsteinson og Schierbeck landlæknir voru Tryggva einnig innan handar með plöntur og fræ í garðinn. Víðitegund, sem Tryggvi flutti til landsins, dregur íslenskt heiti sitt af garðinum og er kölluð þingvíðir. Ekki er talið að neitt af upprunalegu trjánum standi enn í garðinum.
Kostnaður við framkvæmdir í garðinum varð meiri en á horfðist og var sumarið 1894 kominn í 2.839 krónur. Hafði Tryggvi lagt út fyrir því sem á vantaði þegar 1.500 króna fjárveitingin var þrotin. Á þinginu 1894 var samþykkt að verja rúmlega 1.000 krónum sem eftir stóðu í þinghússbyggingarsjóðinum til að gera upp reikninga og veita 1.200 krónur úr landssjóði til að ljúka verkinu.
Næstu ár eyddi Tryggvi ómældum tíma í vinnu í Alþingisgarðinum og var ósk hans að verða jarðsettur þar. Var orðið við henni, garðurinn vígður sem heimagrafreitur og hvílir Tryggvi syðst í garðinum undir steinhæð með íslenskum blómum og grösum. Á leiðinu er brjóstmynd af Tryggva eftir Ríkarð Jónsson myndhöggvara.
Sjá meira um Alþingisgarðinn HÉR.
Heimildir:
-https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2024/11/18/Althingisgardurinn-fridlystur/
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/11/18/althingisgardurinn_fridlystur/
-https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/tiufrettir/30763/aga0t1/althingisgardurinn-fridlystur
-https://www.althingi.is/um-althingi/fraedslu–og-kynningarefni/um-althingishusid/
-https://fila.is/wp-content/uploads/2019/07/Vi%C3%B0auki-3-Al%C3%BEingisgardurinn-Karl-G.-Athugun.-Copy.pdf