Halldór Hermannsson (1931-2009) skrifaði í Skírni árið 1948 um „Ara Þorgilsson fróða“ og Íslendingabók:

Ari Þorgilsson (1068-1148). Ari var sonur Þorglis Gellissonar frá Helgafelli og sonarsonur Gellis Þorkelsonar, prests frá sama svæði. Báðir höfðu látist fyrir aldur fram og skilið eftir ungan Ara einn. Sjö ára gamall var Ari tekinn í Haukdælaættina, sem stjórnaði Íslandi á miðöldum á þjóðveldistímanum. Ættin er rakin til Ketilbjarnar Ketilssonar sem nam land í Mosfelli í Grímsnesi. Ættin var áberandi á tíundu til þrettándu öld sem höfðingjar á Sturlungaöld og sem þátttakendur í kristniboði um allt Ísland. Gissur Þorvaldsson, leiðtogi Haukdæla á þrettándu öld, var gerður að jarli yfir Íslandi af Noregskonungi.
Ari var nemandi kennarans Teits Ísleifssonar, sem var sonur Ísleifs Gissurarsonar, fyrsta biskups Íslands. Eftir að Ari hafði lært klassíska menntun var hann vígður til prests á Stað á Snæfellsnesi, sem nú er þekktur sem Staðastaður.
„Einn merkasti maður, sem Ísland hefur alið, er Ari Þorgilsson. Ari fæddist, líklega á Helgafelli, árið 1067 (eða 1068) og lést árið 9. nóvember 1148. Hann var vel ættaður. Langafi hans var Þorkell Eyjólfsson og langamma Guðrún Ósvífursdóttir, sem fræg er af Laxdælu, og eins og eðlilegt er í litlu mannfélagi, var hann skyldur eða tengdur mörgum helztu ættum í landinu, og sjálfur hefur hann rakið ætt sína í beinan karllegg til goðborinna fornkonunga. Það er því vel sagt, að þekkingin ein á ævi og afrekum forfeðra hans hefði verið nóg til að gera hann að sagnfræðingi.
Ari fór frá Haukadal, þegar hann var rúmlega tvítugur, 1088 eða 1089. Í Kristnisögu er hann talinn meðal höfðingja, sem voru prestvígðir af Gissuri biskupi.
Tvö eru til rit frá þriðja áratug tólftu aldar, sem virðast skyld að uppruna. Svo stendur í Kristinna laga þætti Grágásar (Konungsbók, I, 1852, bls. 36): „Svá settu þeir Ketill byskup ok Þorlákr byskup at ráði Özurar erkibyskups ok Sæmundar ok margra kennimanna annarra kristinna laga þátt, sem nú var tínt ok upp sagt.“
Í greinargerð þeirri, sem Ari fróði skrifaði um Íslendingabók sína, segir hann: „Íslendingabók görða ek fyrst byskupum árum Þorláki ok Katli, ok sýndak bæði þeim ok Sæmundi presti. En með því at þeim líkaði svá at hafa eða þar viðr auka, þá skrifaða ek þessa of it sama far, fyr útan ættartölu ok konunga ævi, ok jókk því, es mér varð síðar kunnara, ok nú es gþrr sagt á þessi en á þeiri. En hvatki es missagt es í frœðum essum, þá er skylt at hafa þat heldr, er sannara reynisk.“
Fyrsti kapítuli (Frá Íslands byggð) segir frá, hvenær Ísland byggðist og frá Ingólfi, hinum fyrsta landnámsmanni; frá gróðri landsins og Pöpum, sem voru þar fyrir, er Norðmenn komu þangað; ennfremur frá því, er Haraldur hárfagri lagði skatt á þá, sem fluttu til Íslands, og er sagt, að það væri upphaf landauranna, sem þeir urðu að gjalda, er síðar fóru milli landa.
Hin eldri gerð Íslendingabókar er því miður glötuð, og er það tilfinnanlegt tjón. Svo er þó almennt talið, að það sé sú bók, sem Snorri Sturluson lýsir í formálanum fyrir Heimskringlu. Það er nauðsynlegt að taka hér upp þá lýsingu til samanburðar.
Svo ritar Snorri: „Ari prestr hinn fróði Þorgilsson, Gellissonar, ritaði fyrstr manna hér á landi at norrœnu máli frœði, bæði forna ok nýja; ritaði hann mest í upphafi sinnar bókar um Íslands byggð ok lagasetning, síðan frá lögsögumönnum, hversu lengi hverr hafi sagt, ok hafði þat áratal fyrst til þess, er kristni kom á Ísland, en síðan allt til sinna daga.“
Íslendingabók, sem við höfum, er sannkallað meistaraverk og á ekki sinn líka í miðaldabókmenntum og þó lengra sé leitað niður á við. Hún fullnægir eiginlega vísindalegum kröfum nútímans til sagnaritunar. Heimildir hafði Ari engar skrifaðar, en í stað þess leitar hann til munnlegra frásagna þeirra manna, er samtíða voru viðburðunum eða höfðu sannar sögur af þeim frá eldri mönnum, og heimildarmenn sína nefnir hann alla.
Af formála Ara er það auðséð, að biskuparnir Ketill og Þorlákur hafa beðið hann að semja Íslendingabók. Þegar hann hafði lokið ritinu, sýndi hann það biskupunum og Sæmundi fróða; líkaði þeim það vel og vildu hafa það eins og það var (svá at hafa) að öðru en því, að þeir vildu auka nokkru við það og sleppa ættartölu (sjálfsagt hér safnheiti fyrir ættartölur) og konunga ævi. Það hefur þeim þótt standa fyrir utan tilgang ritsins.

Íslendingabók var fyrsta ritaða sagan um Ísland þar sem ítarlega er fjallað um kristnitöku, þróun réttarkerfisins og siðareglur Alþingis. Íslendingabók lýsir einnig byggðum á Grænlandi og Vínlandi og inniheldur ættartölur og sögur fyrstu landnemanna á Íslandi. Sagnfræðingar telja hana áreiðanlegustu frásögnina sem til er af sögu Íslendinga á fyrri árum.
Þess vegna reit Ari hina síðari Íslendingabók um hið sama efni, og bætti nokkru við, sem hann hafði fengið frekari upplýsingar um, og sleppti því, sem biskuparnir vildu láta sleppa. Þar sem hin fyrri bók er glötuð, er ómögulegt að vita, hverju biskuparnir vildu láta bæta við og hverju Ari bætti við frá eigin brjósti, ekki heldur neitt ákveðið um ættartölurnar né konunga ævi.
Það stendur líkt á með Íslendingabók, við getum ekki með fullri vissu tímasett ritun hennar nákvæmar en frá biskupstíð biskupanna, sem höfðu hvatt til þess, að hún var samin. Fyrri gerð hennar hafa menn þó almennt talið að væri frá miðjum þriðja áratug tólftu aldar, en seinni gerðina telja flestir ritaða eftir Alþing 1134. Sennilegt er þó, að Ari hafi skrifað fyrstu gerð Íslendingabókar milli þinga 1122-23.

Íslendingabók – Samkvæmt orðum Ara í upphafi hinnar varðveittu Íslendingabókar eru frá hans hendi tvær gerðir bókarinnar. Hin eldri var borin undir biskupa landsins, Ketil Þorsteinsson og Þorlák Runólfsson, og sjálfan Sæmund fróða. Þeir lögðu til breytingar, vildu fella brott ættartölur og konungaævi (hvað svo sem það nákvæmlega var) og kannski eitthvað fleira. Kvaðst Ari hafa skrifað seinni gerðina í samræmi við þessar athugasemdir.
Athyglisvert er að þegar miðaldamenn vitna í Ara fróða, svo sem Snorri Sturluson, virðast þeir alltaf vera að vísa til eldri gerðarinnar en ekki þeirrar yngri sem meir var að skapi biskupanna og Sæmundar. Hvernig stendur á því? Hefði ekki átt að vera búið að taka þá gerð úr umferð?
Íslendingabók eins og við þekkjum hana úr pappúrsuppskrift Jóns í Villingaholti er um margt einkennilegt rit. Mörgum fræðimönnum hefur þótt hún minna frekar á safn minnisgreina en heillegt rit. Fyrirsögnin á pappírsuppskriftinni „Schedæ Ara prests fróða’“ gefur strax tilefni til heilabrota. Hún getur ekki verið komin úr penna Ara sjálfs. Óljóst er hvað latínuorðið „schedæ“ hefur merkt í þessu samhengi, kannski minnisgreinar.
Það er sjálfsagt Ari, sem hefur sett yfirskriftina Incipit libellus Islandorum yfir rit sitt. Þetta hefur orðið til þess, að sumir ritskýrendur hafa haldið því fram, að hann hafi kallað fyrri gerðina liber (bók) en hina seinni libelhcs (bækling) af því að hún hafi verið svo miklu minni. Það er engin ástæða til að ætla, að svo hafi verið. Formáli hans sýnir, að hann hefur kallað báðar gerðirnar Íslendingabók og hefur sjálfsagt notað sama latneska nafnið um báðar, enda eru öll líkindi til, að á þeim hafi ekki verið svo ýkjamikill stærðarmunur. En það er annar latneskur titill, sem bók hans hafði í hinum fyrstu prentuðu útgáfum af henni. Það er Schedæ. Ástæðan til þess var sú, að báðar afskriftir síra Jóns í Villingaholti hafa yfirskriftina Schedæ Ara prests fróda, og við enda þeirra hefur hann skrifað þetta: „Þessar Schedæ Ara prestz fróda og frásögn er skriffud epter hans eigin handskrifft á bókfelle (ad menn meina) í Willingahollti aff Jóne preste Ellendssyne Anno Domini 1651 mánudaginn næstan epter Dominicam Jubilate. Jón Ellendsson p. Mpp.“
Það er nú talið víst, að handritið, sem skrifað var eftir, hafi ekki verið eiginhandarrit Ara; það hefur líklega verið skrifað um 1200. En hvaðan stafar þessi titill? Hann getur ekki verið frá Ara, því að ekki hefði hann kallað sig sjálfur „fróða“. Schedæ þýðir í raun og veru minnisgreinar, sem ennþá hafa ekki verið færðar inn í bók, eins og Isidor frá Sevillia skýrir orðið í sinni Etymologiæ, en það rit var þekkt á Íslandi snemma.
Í fornritum, sem varðveitzt hafa, er þess hvergi getið, að Ari hafi skrifað Landnámu, nema í eftirmálanum við Landnámu Hauksbókar. Þar ritar Haukur lögmaður svo: „Nú er yfir farit um landnám þau, er verit hafa á Íslandi, eptir því sem fróðir menn hafa skrifat, fyrst Ari prestr inn fróði Þorgilsson ok Kolskeggr inn vitri. En þessa bók ritaða [ek] Haukr Ellinzson eptir þeiri bók, sem ritat hafði herra Sturla lögmaðr, inn fróðasti maðr, ok eptir þeiri bók annarri, er ritat hafði Styrmir inn fróði, ok hafða ek þat ór hvárri, sem framar greindi, en mikill þori var þat, er þær sögðu eins báðar, ok því er þat ekki at undra, þó þessi Landnámabók sé lengri en nökkur önnur.“
Þeir, sem ritað hafa um Landnámu, hafa venjulega veitt ættvísinni þar mesta athygli. Það hafa víst verið til menn frá fyrstu byggð Íslands, sem hafa fengizt við að rekja ættir manna og leggja þær á minnið, og á endanum var svo mikið af því fært í letur. Það eru ekki ættartölurnar, sem gera Landnámu frumlega, heldur það, að ættirnar eru tengdar við staði. Grundvöllur hennar er staðfræðilegur, og í hlutarins eðli urðu nöfn og ættir landnámsmannanna óaðskiljanlegt frá staðfræðinni. Það er auðvelt fyrir menn, sem hafa gott minni, að muna ættartölur án þess að hafa ef til vill nokkurn tíma þekkt eða séð nokkurn mann af ættinni. Öðru máli gegnir um staði eða sveitir, sem menn hafa aldrei augum litið; það er ekki auðvelt að muna það í réttri röð eða gera sér grein fyrir útliti þeirra og takmörkum, og ef menn reyna að lýsa þessu munnlega eða skriflega, þá er hætt við, að mjög fipist fyrir þeim.
Nú eru flestir á einu máli um það, að staðfræðin í Landnámu sé merkilega góð, svo að höfundinum skjátlist furðulega sjaldan, og þó eru sumir, sem álíta, að þessi frábæra staðfræðilega þekking eigi rót sína að rekja til upplýsinga frá ýmsum mönnum hvaðanæva af landinu, sem höfundurinn hafi náð í og síðan fært í eina heild.
Rit eins og Landnáma hlýtur þegar í upphafi að hafa verið áformað af einum manni, og enginn er líklegri til að hafa gert það en Ari fróði, eins og Haukur lögmaður segir.
Nú vildi svo til, að einmitt um þær mundir, sem ætla má, að Ari hafi verið að safna efninu í Landnámu, fór fram staðfræðileg skipting landsins í kirkjusóknir. Þegar biskupsstóll hafði verið settur í Skálholti og tíundarlögin samþykkt af Alþingi 1096 eða 1097, varð að koma föstu skipulagi á biskupsdæmið. Biskup átti að ákveða takmörk kirkjusóknanna. Þetta varð ekki gert heima í Skálholti, biskup og aðstoðarmenn hans urðu að ferðast um landið til að koma þessu á. Það hefur verið mikið verk og erfitt, en þó fara engar sögur af því; það hefur sjálfsagt farið fram með friði og spekt, og því ekki þótt í frásögur færandi.

Landnáma. Landnámabók eða Landnáma er elsta heimild um landnám Íslands, byggð á Íslendingabók Ara Þorgilssonar. Hún hefur að geyma upptalningu landnámsmanna Íslands. Hún telur einnig upp ættir landnámsmanna, 3000 eiginnöfn og 1400 örnefni. Hún er upprunalega talin hafa verið rituð á fyrri hluta 12. aldar en það eintak er glatað. Til eru fimm endurskrifanir á henni:
Sturlubók; endurskrifuð á 17. öld af Jóni Erlendssyni upp úr aldagömlum skinnhandritum eftir Sturlu Þórðarson sem brunnu í brunanum í Kaupmannahöfn árið 1728.
Hauksbók; skrifuð af Hauki Erlendssyni um 1299 en einungis eru til 18 blöð af henni sjálfri en Jón Erlendsson gerði eftirrit sem er fullkomlega varðveitt.
Melabók; talin vera rituð um 1272 af Snorra Markússyni lögmanni á Melum.
Skarðsárbók; pappírshandrit frá fyrri hluta 17. aldar skrifað af Birni Jónssyni á Skarðsá.
Þórðarbók; einnig 17. aldar pappírshandrit skrifað af Þórði Jónssyni prófasti í Hítardal.
Nú lítur út fyrir, eins og áður hefur verið tekið fram, að Ari hafi verið handgenginn Gissuri biskupi, og því liggur nærri að ætla, að hann hafi tekið þátt í þessu
verki, og að þaðan stafi hin mikla staðfræðilega þekking, sem Landnáma ber svo ljóst vitni um. Ari hefur líklega ferðazt um þrjá fjórðunga landsins, en af einhverjum ástæðum ekki um Austfirðingafjórðung og því notið þar aðstoðar Kolskeggs Ásbjarnarsonar.
Það er næsta ótrúlegt, að Gissur biskup og aðstoðarmenn hans hafi lagt alla sóknaskiptinguna og allt, sem henni var samfara, á minnið. Þeir hljóta að hafa fært það að meira eða minna leyti í letur. Sama má segja um Ara, ef hann var þar með í för. Hann hefur ritað minnisgreinar um allt það, sem hann sá og heyrði á ferðum sínum. Síðan hefur hann fært það allt til bókar, og þannig hefur Landnáma orðið til. Hvenær hann lauk við hana, er ekki auðið að segja með vissu, en líklegt er, að hann hafi verið að safna fróðleik svo lengi sem honum entist aldur.
Annars lítur út fyrir, að Landnáma hafi verið lítið þekkt á tólftu öld, enda fengust menn þá mest við að rita helgar þýðingar og konunga sögur. Um aldamótin 1200 fara menn að veita meiri athygli íslenzkum fræðum, og má vera, að það sé því að þakka, að þá tók Styrmir fróði Landnámu Ara til meðferðar og gerði hana kunna, og svo byrja menn fyrir alvöru að rita íslendingasögur.
Engin þjóð á slíka heimild um uppruna sinn eins og Íslendingar þar sem er Landnámabók. Því miður er Frum-Landnáma ekki lengur til, og næsta gerð hennar, Styrmisbók, er líka glötuð að öðru en því, að hún hefur verið tekin upp í Sturlubók, Hauksbók og Melabók. í öllum þessum gerðum hafa ættartölurnar verið stórum auknar, en staðfræðinni hefur líklega verið tiltölulega lítið breytt.
Við höfum beðið mikið tjón við það, að svo mikið af fornritum okkar hefur glatazt eða einungis varðveitzt í brotum. Ég held, að einna tilfinnanlegasta tjónið hefði verið, ef Islendingabók hefði týnzt með öllu. Þar skall þó hurð nærri hælum. Brynjólfur biskup fann á 17. öld skinnhandrit af henni, líklega frá því um 1200, og lét síra Jón í Villingaholti gera tvær afskriftir af því; síðan hvarf gamla handritið og hefur aldrei komið aftur í leitirnar. Ef Íslendingabók hefði ekki þannig verið bjargað, hefðum við haft næsta óljósar hugmyndir um Ara; við hefðum þekkt hann bara af formála Snorra og tilvitnunum til hans hér og hvar í ritum.
Til allrar hamingju höfum við Íslendingabók hina síðari, og hún gefur okkur skýra mynd af höfundinum og vinnubrögðum hans — þessum gáfaða, hógværa og vandvirka fræðimanni, sem gerir sitt ítrasta til að leita sannleikans, svo að hann geti sagt sem sannast og réttast frá. Þannig varð hann faðir íslenzkrar sagnaritunar og lagði grundvöllinn að íslenzkum bókmenntum. Á þeim grundvelli var gott að byggja, því að hann var traustur. Þetta getum við aldrei nógsamlega þakkað Ara fróða.“
Heimild:
-Skírnir, 1. tbl. 01.01.1948, Ari Þorgilsson fróði – Halldór Hermannsson, bls. 5-29.