Tag Archive for: Arnarseturshellir

Arnarseturshraun

FERLIR fór í sína árlegu jólagönguferð s.l. laugardag, 11. desember. Eins og kunnugt er hefur hópurinn verið duglegur að leita uppi fornar minjar á Reykjanesskagagnum og staði, sem flestum eru gleymdir. Þessi ferð var engin undantekning, nema nú var ætlunin að finna þann stað, sem jólasveinarnir halda sig jafan á milli jólahátíða.

Skógfellastígur

Skógfellastígur.

Hvar búa jólasveinarnir? Sagnir hafa verið um að þeir, móðir og faðir ásamt jólakettinum, búi í einhverju fjallinu á milli hátíða?
Fremstu, og jafnframt hæfustu, rannsakarar sem til eru, voru settir í það verkefni að reyna að staðsetja dvalarstað jólasveinanna. Þeir skoðuðu öll hugsanleg fjöll, sem til greina komu, en niðurstaðan voru vonbrigði. Fullyrt var að hvorki jólasveinar né önnur sambærileg fyrirbæri gætu búið í fjöllum, hvað þá á fjöllum. En hvar þá?
Rannsakararnir komust að því að undirheimarnir væru einna líklegastir. Jólasveinarnir virtust alltaf eiga nóg af gjafadóti, þeir voru hvergi á launaskrá, virtust ekki hafa neinar tekjur, sáust aldrei milli 6. janúar og 12. dag desembermánaðar og notuðu ekki síma, en þurftu að búa við tiltölulegar mildar aðstæður og auðvelt væri um aðdrætti. Auðvitað þyrftu jólasveinar ýmislegt smálegt af og til allt árið auk þess þeir þurftu að geta dregið sér allt efni í gjafir og því var alveg nauðsynlegt að nærliggandi íbúar væru sammála sem einn maður að þegja um dvalarstaðinn. En hvar voru íbúar, sem gátu þagað yfir leyndarmáli?

Arnarseturshellar

Í Arnarseturshellum.

Hvar lá fiskur undir steini? Þægilegir undirheimar, milt svæði, láglendi, auðvelt með aðdrætti, hreindýramosi og traustsins verðir nágrannar? Rifjað var upp Stóra heimaslátrunarmálið!!! Einungis einn staður gat komið til greina. En svæðið var stórt. En undirheimar þess voru þó á takmarkaðir.
Lagt var af stað inn í norðanvert Skógfellahraun og gegnið áleiðis að Litla-Skógfelli. Fetaður var stígur í gegnum hraunið upp að fellinu. Á því er lítil varða.
Gamla þjóðleiðin um Skógfellaveg liggur sunnan við fellið frá Vogum og áfram áleiðis til G

Jól

Jólasveinn.

rindavíkur. Hún er mikið klöppuð í hraunhelluna. Gæti það m.a. hafa verið eftir hreindýr jólasveinanna til langs tíma?
Gatan var rakin framhjá gatnamótum Sandakravegar og síðan beygt til hægri að Stóra-Skógfelli. Framundan var Arnarseturshraunið, sem er talið hafa runnið í Reykjaneseldunum um 1226. Líklegt er að jólasveinarnir hafi flust á milli svæða, en þetta svæði er enn volgt – undir niðri – og því kjörlendi þeirra, sem vilja dyljast svo til allt árið.
Ef jólasveinarnir væru þarna einhvers staðar væri best að koma þeim á óvart með því að koma úr þeirri átt, sem síst væri von mannaferða á þessum tíma. Gengið var hljóðlega inn á hraunkantinn og áleiðis að mikill hrauntröð austan við eldgígana. Þegar stutt var eftir í tröðina sást hvar rauð húfa stóð upp úr skjannahvítum snjónum. Þegar þátttakendur nálguðust reis skyndilega upp jólasveinn undir húfunni og virtist hann hálf ringlaður og undrandi. Hann, sem er vanur að finna fók, átti greinilega ekki átt von á að fólk finndi hann.

Arnarseturshellar

Í Arnarseturshellum.

Hikandi gekk hann á móti FERLIRsfélögum, staðnæmdist í hæfilegri fjarlægð og kastaði kveðju á liðið. Það var ekki síður undrandi þótt búast megi nú við hverju sem er í FERLIRsferðum, eins og dæmin sanna.
Eftir svolitla stund hvarf feimnin af honum og hann bauðst til að fylgja FERLIR í hellinn, en einungis inn í anddyrið því annars yrði Grýla alveg brjáluð, eins og hann orðaði það. Auk þess væru hinir bræður hans enn sofandi, en sjálfur ætti hann að leggja af stað til byggða um kvöldið. Þau vildu ekki fá of marga gesti því þá væri hætta á að ekki yrði ráðið við strauminn og því enginn friður lengur.
Í ljós kom m.a., í annars dimmum hellinum, að jólakötturinn var ekki köttur,

Arnarsetur

Jólasveinn í Arnarseturshellum.

heldur hundur. Það er greinilega ekki allt satt sem sagt er.
Stekkjastaur, en það sagðist jólasveinnin heita, bauð upp á góðgæti að hætti jólasveina, sagði sögu, flutti gamanmál og vildi síðan heyra fólkið syngja jólasöngva. Þegar sungið var “Jólasveinar ganga um gólf” þurfti hann að leiðrétta texta mannanna, sem notaður var, því auðvitað er farið upp á hól en engin kanna sett upp á stól. Af hólnum var litið til manna, eins og hann sagðist sjálfur oftast gera.
Þegar sveinki var spurður af því hvers vegna sungið væri: „Jólasveinar einn og átta, ofan koma af fjöllunum…“, svaraði hann því til að auðvitað væri með þetta eins og annað; hreppstjórinn í Grindavík hafi fyrir nokkrum mílárum handtekið fjóra ræningja, sem haldið höfðu til í gjá uppi á Þorbirni og hengt þá í Gálgaklettum þarna rétt hjá. Einhver fjölmiðill hafi síðar talið þá vera „jólasveina“ og sett þá vitleysu á prent fyrir langalöngu, en hún enn ekki fengist leiðrétt. Þess vegna vissi fólk ekki betur og tryði vitleysunni, eins og svo oft vill verða. „En ekki láta þetta rugla ykkur“, sagði hann, „við erum níu og reyndar fjórum betur. Og auðvitað komum við af fjöllum á leið okkar um og yfir þau með gjafirnar. Hjá því verður ekki komist, a.m.k. ekki hérna á Íslandi.“
„En áttu ekki að vera í íslenskri lopapeysu eða rollukápu?“, spurði snáðinn í hópnum.
„Ekki á jólunum. Þá klæðumst við sparifötunum, þessum hérna“, svaraði jólasveinninn og togaði með annarri hendinni í rauðu treyjuna. „Allshvunndags erum við nú bara í lopanum og skinninu“, lambið mitt. Það hefur reynst okkur best hér á þessum slóðum.“

Arnarseturshellir

Í Arnarseturshelli.

„En segið mér eitt“, bætti jólasveinninn við og lækkaði róminn. „Hafið þið heyrt nokkurn tala um rýrnunina á skreiðinni í trönunum hérna rétt hjá?“ Hann benti í suður. Allir komu af fjöllum. Ekkert svar.
„Nú, það er svo. Þá þarf ekki fleiri orð um það – ekki meira um það“, sagði sveinki og leit flóttalega í kringum sig.
Fljótlega þurfti Stekkjastaur að hverfa til skyldustarfa, greip með sér langan lista og stóran hvítan poka, snaraði honum á bak sér, kvaddi þátttakendur og hvarf út í miðhúmið.
Einn úr hópnum, sem virtist nú fyrst vera að átta sig, leit á hina og spurði með undrunarsvip: „Hver var þetta, hver lék jólasveininn?“.
Hinir litu á hann, brostu síðan og svörðuðu einum rómi. „Þetta var sjálfur jólasveinninn, ekta jólasveinn, sástu það ekki, maður“.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – kort.

Einhverjir eltu jólasveininn út úr hellinum til að sjá hvers konar farartæki hann notaði, en allt kom fyrir ekki. Hann var horfinn með það sama. Jólasveinar virðast öðlast einhvern yfirnáttúrlegan mátt þegar að þeirra tíma kemur. FERLIR virðist því hafa verið á réttum stað á réttum tíma, rétt áður en máttur Stekkjastaurs varð virkur – ef ekki ofvirkur.

Auðvitað eiga Grindvíkingar jólasveinana, eins og svo margt annað á Reykjanesskaganum. Þeir eiga líka flest hraunin og svo til öll fjöllin og ef Hafnfirðingar hefðu ekki beitt brögðum til að ná til sín Krýsuvík á sínum tíma, ættu þeir nær allt, sem merkilegt getur þótt á skaganum – eða það segja Grindvíkingar a.m.k. Var ekki alþingismaðurinn kra(f)tlegi sem flutti tillögu um að afhenda Hafnfirðingum Krýsuvík jafnframt bæjarfulltrúi Hafnfirðinga? Hvað gátu hinir hógværu og kurteisu Grindvíkingar gert í þeirri pólitísku refskák á þeim tíma? „Pólitíkin er rúin allri kurteisi“ – eða það viðurkennir Gunnar Birgisson a.m.k. núna.

Kjöthvarfið

„Kjöthvarfið mikla“- myndin er úr eftirlitsmyndavél.

Áður en Stekkjastaur kvaddi var hann beðinn um góðar gjafir þátttakendum og öðrum til handa, einkum þó gnægð kærleika, hamingju, góðar heilsu og nægan tíma, ef hann gæti eða mætti miðla einhverju af því sem hann ætti af slíku. Veraldlegar gjafir voru afþakkaðar (þótt góðir gönguskór komi sér nú alltaf vel).

Til fróðleiks má upplýsa hér að Stóra heimaslátrunarmálið snérist um haldlagningu á miklu magni af heimaslátruðu kindakjöti hjá Grindavíkurbændum. Því var síðan stolið úr fórum yfirvalda og virtist hafa horfið af yfirborði jarðar. Íbúarnir þögðu allir sem einn. Utanaðkomandi sögðu þó að eigendurnir hefðu einungis fært það tímabundið á milli frystigáma og læst á eftir því til að tryggja betur geymslu þess, en aðrir vildu halda því fram að „einhverjir jólasveinar“ hefðu tekið það ófrjálsri hendi. En engin trúði hinum síðarnefndu að sjálfsögðu. Að einu má þó ganga sem vísu; það er löngu búið að eta öll sönnunargögnin.
Frábært veður – stilla og logn. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Arnarseturshellir

Arnarseturshellir.

Tag Archive for: Arnarseturshellir