Tag Archive for: Ártúnshöfði

Elliðaár

Um Ártúnshöfða er fjallað í „Fornleifaskrá fyrir Ártúnshöfða“ frá árinu 2021. Þar er m.a. rakin saga svæðisins frá fortíð til nútíma:

Ártúnshöfði

Ártúnshöfði.

„Landsvæðið sem núverandi borgarland Reykjavíkur nær yfir skiptist á öldum áður upp í jarðir lögbýla. Það landsvæði sem nú er skilgreint sem Ártúnshöfði tilheyrði áður að mestu tveimur bújörðum. Landið á vestanverðum höfðanum tilheyrði Ártúni en austar var land Árbæjar. Svæðið einkennist af holtum og ásum, mýrum og fornum ísaldareyrum sem nú eru sundurgrafnar vegna malarnáms. Svæðið er að mestu byggt, en við Elliðaárvog og Grafarvog eru miklar landfyllingar. Fyrir botni Elliðaárvogs eru ósar Elliðaánna sem renna nú eftir manngerðum rásum til sjávar.

Ártúnshöfði

Ártúnshöfði – strandlínan um 1900.

Á tímabilinu 1965-1975 voru gerðar miklar uppfyllingar á svæðinu svo að ásýnd og náttúra Elliðaárósa breyttist mjög. Við framkvæmdirnar urðu til tveir flatlendir tangar eða nes og er það eystra kallað Geirsnef en á vestari fyllingunni er gatan Naustavogur og smábátahöfn Snarfara. Þröngur vogur sem myndaðist vestan uppfyllinganna hefur verið kallaður Arnarvogur. Austast er svo þriðja stóra uppfyllingin landföst, á henni er gatan Sævarhöfði, en götunöfn á Ártúnshöfða enda öll á -höfði. Áður en þessar landfyllingar voru gerðar voru þarna miklar leirur og þar sem land og leirur mættust voru kallaðir Árkjaftar. Þar voru neðri veiðihúsin, sunnan við þau voru Almenningsvöð, neðstu vöðin yfir Elliðaár. Sagt er að Elliðaár og Elliðaárvogur dragi nöfn sín af skipi Ketilbjörns gamla landnámsmanns, Elliða.
Ártúnshöfði.Norðan og austan er Grafarvogur. Þar er líka mikil landuppfylling og á henni var Bryggjuhverfið byggt. Svæðinu hallar til vesturs (Ártúnsbrekka) að Elliðaánum frá gatnamótum Höfðabakka og Vesturlandsvegar. Austan við Sævarhöfða voru gamlar malarnámur og norðar grjótnámur. Það land er að mestu allt raskað.
Norðan á höfðanum við Grafarvog er Ytriurð, hár grjótbakki sem liggur niður að uppfyllingunni út í voginn og austan við Gullinbrú er Innriurð, neðan og norðan við Stórhöfða. Krossamýri var stór mýrarfláki á miðjum Ártúnshöfða þar sem nú er Breiðhöfði. Þar voru Krossamýrarblettir. Afrennsli frá mýrinni var til vesturs um Krossagil í Elliðaárvog. Austar á svæðinu var Jörfi og Borgarmýri við Vesturlandsveg.

Í landi Ártúns, Árbæjar og Bústaða
Ártúnshöfði.Svæðið sem hér er til umfjöllunar tilheyrði að mestu tveimur jörðum: Ártúni og Árbæ. Jarðirnar voru lagðar til Viðeyjarklausturs sem var stofnað árið 1226, en klaustrið hafði mikil stjórnsýsluleg völd meðan það var starfandi. Við siðaskiptin 1550 yfirtók Danakonungur allar eignir klaustursins. Konungur seldi síðan jarðirnar árið 1838 og komust þær þá í einkaeigu.
Austan við eystri Elliðaárkvíslina var jörðin Ártún, en um kvíslina lágu sveitarfélagsmörk til ársins 1929. Bæjarstæði Ártúns er á háum hól vestan undir Ártúnsbrekkunni.

Artún

Ártún.

Jarðarinnar Ártúns er ekki getið í Íslenzku fornbréfasafni en menn hafa getið sér þess til að jörðin Árland neðra, sem getið er um í Vilchinsbók frá 1379, þá eign kirkjunnar í Nesi, og í Gíslamáldaga frá 16. öld, sé umrædd jörð. Ártún var lengi vel í alfaraleið og þar var stunduð greiðasala og gistiþjónusta á seinni hluta 19. aldar.
Árið 1906 keypti bæjarstjórn Reykjavíkur jarðirnar Ártún, Árbæ og Breiðholt, ásamt hluta úr Gröf, vegna fyrirhugaðra vatnsveituframkvæmda, því fyrstu hugmyndir gengu út á að taka neysluvatn úr Elliðaánum fyrir þéttbýli í Reykjavík.

Elliðaár

Elliðaár, stífla, um 1900.

Á árunum 1920 1921 voru Elliðaárnar virkjaðar og mannvirki Elliðaárvirkjunar reist sunnan við Ártún.
Austur af Ártúni var jörðin Árbær. Gömlu bæjarhúsin eru nú innan safnsvæðis Árbæjarsafns, en jörðin lá upp með Elliðaánum og í norður að Grafarvogi. Elsta heimild um Árbæ er í skjali frá 31. júlí 1464. Þar votta Steinmóður ábóti í Viðey og Jón Narfason að Ólöf ríka Loptsdóttir hafi látið Gerrek gullsmið í Hafnarfirði fá silfur sem greiðslu fyrir jarðir Guðmundar Arasonar, sem hún og hennar maður Björn Þorleifsson höfðu keypt af konungi, en Gerrekur átti að koma silfrinu til konungs fyrir þeirra hönd. Vitað er að búið hefur verið í Árbæ frá 10. öld, eins og fornleifarannsóknir á bæjarstæði Árbæjar hafa leitt í ljós.

Árbær

Árbær.

Síðustu ábúendur í Árbæ voru hjónin Margrét Pétursdóttir og Eyleifur Einarsson sem bjuggu þar frá 1881 og dóttir þeirra Kristjana, sem tók við búinu árið 1935 og bjó þar til 1948, en þá fór bærinn í eyði. Í tíð Margrétar og Eyleifs var fjölsótt greiðasala í Árbæ,
með svipuðu móti og áður hafði verið í Ártúni.19 Saga Árbæjar, eins og Ártúns, er einnig samofin nýtingu Elliðaánna. Eins og áður segir keypti bæjarstjórn Reykjavíkur jörðina ásamt Ártúni og fleiri jörðum árið 1906 vegna fyrirhugaðra vatnsveituframkvæmda og árið 1929 voru jarðirnar Ártún og Árbær báðar lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.

Ártúnshöfði

Ártúnshöfði – fyrrum beitarhús; loftmynd 1954. Ofra má slá leifar fjarskiptastöðvarinnar.

Ártúnshöfði var áður notaður til beitar og þar var mór tekinn úr mýrum. Beitarhús voru nyrst á Ártúnshöfða þar sem nú er Eirhöfði 11. Þessi rúst er nú horfin en var mæld inn á gömul kort, auk þess sem hún sést á loftmynd frá árinu 1946.

Ártún – Fenton Street Camp – Elliðaárhverfi
Fenton Street Camp var við Ártúnsbrekku þar sem Sævarhöfði 2 er nú (2021). Í fyrstu voru þetta búðir reistar af Breska hernum fyrir stórskotaliðsfylki (Artillery Regiment) sem þó hafði þar einungis aðalstöðvar og þriðjung liðsaflans, samtals um 250 menn.
ÁrtúnshöfðiSeinna tók Bandaríkjaher við búðunum og fékk loftvarnabyssuflokkur sem taldi um 150 menn þær til íbúðar. Þegar þeir fluttu annað voru herbúðirnar notaðar um hríð af byggingarsveit hersins og fleiri fámennum liðsveitum. Eftir að setuliðið yfirgaf braggana nýttu íslenskar fjölskyldur sér hluta af kampinum sem fékk þá nafnið Elliðaárhverfi.

Ártún – Fjarskiptastöð
Á tímum hersetunnar var fjarskiptastöð breska flughersins á Ártúnshöfða við Krossamýri á svæði frá Dverghöfða í norður að Eldshöfða. Þar voru áður Krossamýrarblettir 5-12.
ÁrtúnshöfðiStöðin General Receiving Station, Artunshofdi tók til starfa í ágúst 1941, eftir að starfsemin var flutt frá Reykjavíkurflugvelli (úr Corbett Camp við Nauthólsvík). Nokkrir tugir manna störfuðu við stöðina, en hún var í nokkrum bröggum og hjá þeim stóðu allmörg grindamöstur og staurar sem héldu uppi vírunum sem mynduðu móttökuloftnet af nokkrum gerðum. Á loftljósmynd sem tekin var 6. mars 1946 má sjá sex loftskeytamöstur á Krossamýrarblettum nr. 6, 12, 11 og 10.
Braggaþyrping var á bletti nr. 7, þar sem nú er lóðin Breiðhöfði 10, og vestan við hann, þar sem nú eru bílastæði á lóðinni Þórðarhöfða 4. Á annarri loftmynd frá sama ári eru möstrin og braggarnir horfin, nema einn braggi við endann á Krossamýrarvegi.“

Heimild:
-Ártúnshöfði – Fornleifaskrá, Reykjavík 2021.
Ártúnshöfði

 

Reykjavik

Á Ártúnshöfða í Reykjavík er fallegur skógarreitur, „Fornilundur“ við fyrrum Krossamýrarblett 1, í landi Hvamms, nú Breiðhöfða 3.

Reykjavík

Ártúnshöfði – loftmynd 1954.

Krossamýrarblettir voru fimmtán skikar sem var úthlutað til leigu eða erfðafestu á árunum 1936-38. Krossamýrarvegur var lagður þar sem gatan Breiðhöfði liggur nú, frá Mosfellssveitarvegi, Vesturlandsvegi, til norðurs og var blettur nr. 1 vestan við veginn en hinir fjórtán voru austan við hann. Á flestum skikunum voru reist hús og var búskapur á mörgum þeirra. Krossamýrarblettur 1 náði yfir svæði þar sem nú eru lóðirnar Bíldshöfði nr. 4-6 og 7, Breiðhöfði 1 og 3 og hluti af Þórðarhöfða 4 vestan við Breiðhöfða, áður Krossamýrarvegur. Meðal fyrstu íbúa blettanna voru Jón P. Dungal og Elísabet Jónsdóttir á Krossamýrarbletti 1. Þau fengu leyfi til að reisa einlyft timburhús, um 60 m², á skikanum árið 1936, sem nefnt var Hvammur. Þar voru þau með garðrækt, en auk þess var þar refabú.
FornilundurÁ blettinum lögðu þau grunninn að trjálundi þar sem ræktaðar voru sjaldgæfar plöntur, eins og eplatré. Þau hlutu viðurkenningu Fegrunarfélags Reykjavíkur árið 1954 fyrir garðinn. Hluti af trjálundinum er nú hluti „Fornalundar“, lystigarðs B.M.Vallár að Bíldshöfða 7. Íbúðarhúsið Hvammur stóð vestan við Fornalund.
Íbúðarhúsið Hvammur var horfið fyrir 1984, en trjálundurinn er eftir. Engin ummerki eru lengur eftir Krossamýrarblettina en áhrifa þeirra gætir í skipulagi, staðsetningu og legu gatna.

Söguskilti um Fornalund og fyrstu ábúendur

Fornilundur

Fornilundur – Söguskiltið var gert að frumkvæði afkomenda Jóns og Elísabetar. Hönnun þess var unnin af starfsfólki Hornsteins og BM Vallár sem lögðu metnað sinn í að heiðra þessa merku sögu í samráði við afkomendur.

Í dag, fimmtudaginn 21. nóvember 2024, var afhjúpað upplýsingaskilti um sögu Fornalundar, sýningarsvæðis BM Vallár, og fyrstu ábúenda Hvamms, sem stóð við Breiðhöfða. Við þetta tækifæri komu saman afkomendur hjónanna Jóns Dungals og Elísabetar Jónsdóttur ásamt fulltrúum frá BM Vallá og Hornsteini.

Frumkvöðlar á sviði skógræktar
Á skiltinu má lesa um sögu svæðisins og hvernig fyrstu íbúar svæðisins, hjónin Jón Dungal og Elísabet Jónsdóttir, umbreyttu hrjóstugu landi í einstakan trjálund. Hjónin reistu bæinn Hvamm árið 1936 sem var 4,2 hektara landspilda sem þau leigðu af Reykjavíkurborg. Fylgdi samningnum sú skylda að leigutakar ræktuðu landið. Þau gerðu gott betur og komu upp skrúðgarði og miklum, fögrum skógi á þessu hrjóstruga svæði. Þar uxu sjaldséðar tegundir á borð við eplatré og þótti það kraftaverki næst.

Reykjavík

Fornilundur – skilti.

Þessi frumkvöðlastarfsemi vakti verðskuldaða athygli, og árið 1954 hlutu þau viðurkenningu frá Fegrunarfélagi Reykjavíkur fyrir garðinn sinn og framlag til fegrunar borgarinnar.

Lystigarður og einstakt sýningarsvæði
Þegar BM Vallá hóf starfsemi á Breiðhöfða tók fyrirtækið við trjálundinum, sem hlaut nafnið Fornilundur, og hannaði svæðið árið 1991 í anda erlendra lystigarða. Fornilundir gegnir hlutverki sýningarsvæðis fyrir vörur BM Vallár og er þar að finna tjörn, gosbrunna, bekki og blómabeð ásamt fjölbreyttu fuglalífi. Fornilundur hefur allar götur verið opinn almenningi og samkvæmt nýju deiliskipulagi Ártúnshöfða mun garðurinn stækka enn frekar og ættu íbúar og gestir að geta notið hans enn betur.

Á skiltinu í Fornalundi má lesa eftirfarandi:
„BM Vallá hóf starfsemi árið 1956 með rekstri steypustöðvar á Ártúnshöfða. Frá 1983 hefur fyrirtækið borið ábyrgð á svæðinu og séð umviðhald garðsins.

Reykjavík

Í Fornalundi.

Lystigarðurinn, sem hlaut nafnið Fornilundur, hefur gegnt hlutverki sýningarsvæðis ásamt því að vera almenningsgarður. Þangað geta garðeigendur sótt sér innblástur og skoðað vörur fyrirtækisins, t.d. hellur, hleðslusteina og garðbekki.
Fornilundur á sér merka sögu og er tákn um þrautseigju og metnað fyrstu ábúenda svæðsins. hjónanna Jóns Dungal og Elísabetar Jónsdóttur, sem um miðbik síðustu aldar lögðu grunninn að þessum einstaka trjálundi.
Samkvæmt nýju deiliskipulagi Ártúnshöfða mun garðurinn stækka enn frekar og ættu íbúar og gestir að geta notið hans enn betur. Fornilundur hefur umbreyst úr hrjóstugu landi í eina af grænum perlum Reykjavíkur, þar sem náttúra, menning og arfleifð frumbyggja Hvamms og forsvarsmanna BM Vallár fléttast saman í hjarta borgarinnar.

Saga Ártúnshöfða
ReykjavíkSögu Ártúnshöfða má rekja allt aftur til 12. aldar, þegar jarðirnar Ártún og Árbær voru lagðar til Viðeyjarklausturs. Við siðaskiptin árið 1550 yfirtók Danakonungur allar eignir klaustursins en þær voru seldar einkaaðilum árið 1838. Átrún var lengi vel í alfaraleið og þar var stunduð greiðasala og gistiþjónusta á seinni hluta 19. aldar.
Árið 1906 keypti bæjarstjórn Reykjavíkur jarðirnar vegna fyrirhugaðra vatnsveituframkvæmda og stuttu síðar, árið 1929, voru jarðairnar Ártún og Árbær báðar lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.
Árið 1933 var samþykkt í bæjarráði að úthluta landskikum úr svæðinu, sem nefndir voru Krossamýrarblettir, til loðdýraræktar. Nokkrum árum síðar, frá 1936 til 1938, var löndum þar úthlutað til leigu eða erfðafestu.
ReykjavíkMeðal fyrstu íbúa Króssamýrarsvæðisins voru hjónin Jón Dungal (1899-1972) og Elísabet Ágústa Jónsdóttir (1898-1983). Þau reistu bæinn Hvamm árið 1936 á Krossamýrarbletti 1, sem var 4.2 hektara landspilda sem þau leigðu af Reykjavíkurborg.
Fylgdi samningum sú skylda að leigutakar ræktuðu landið. Þau hjónin gerðu gott betur og komu upp skrúðgarði og miklum, fögrum skógi á þessu hrjóstuga svæði. Þar uxu sjaldséðar tegundir á borð við eplatré og þótti það krafataverki næst (Saga Ártúnshöfða 2021).
Árið 1954 fengu Jón og Elísabet viðurkenningu frá fegrunarfélagi Reykjavíkur fyrir garðinn sinn og framlag þeirra til fegrunar borgarinnar. Fornilundur hlaut einnig viðurkenningu umhverfisverndar Reykjavíkurborgar 1991 fyrir 1. áfanga.

Lystigarður verður til

Reykjavík

Fornilundur 2023.

BM Vallá hefur lagt mikinn metnað og vinnu í að fegra og viðhalda svæðinu síðustu áratugi. Fornilundur var upphaflega hannaður i anda erlendra lystigarða með margs konar dvalarsvæðum, tjörn, gosbrunnum, bekkjum og blómabeðum.
Þegar forsvarsmenn B; Vallár sóttust eftir leyfi til að byggja á lóðinni árið 1983, óskaði Borgarskipulag eftir umsögn garðyrkjustjóra borgarinnar, hafliða Jónssonar, um trjágróðurinn á svæðinu. Hafliði lýsti trjáreitnum sem einstökum og lagði til að hann yrði friðlýstur vegna sérstæðra aðstæðna og árangurs í skógrækt við erfið skilyrði. Hann nefndi sérstaklega elstu grenitrén, semvoru gróðursett þar á árunum 1951-52.

Reykjavík

Í Fornalundi.

Eftir umsögnina var ákveðið að varðveita greniskóginn sem varð til þess að grunnurinn að lystigarðinum Fornalundi var lagður. Reykjavíkurborg gerði það að slilyrði við sölu landsins að almenningur hefði aðgang að svæðinu og það var opnað í áföngum frá og með árinu 1991. Inni í miðjum lundinum er lystihús þar sem landslagsarkitekt fyrirtækisins veitir ráðgjöf til þeirra sem skipuleggja lóðaframkvæmdir. Mikið fuglalíf prýðir garðinn og gefur honum mikinn sjarma og skapar tengingu við náttúruna.“

Reykjavík

Fornilundur – skilti.

Söguskiltið var gert að frumkvæði afkomenda Jóns og Elísabetar. Hönnun þess var unnin af starfsfólki Hornsteins og BM Vallár sem lögðu metnað sinn í að heiðra þessa merku sögu í samráði við afkomendur.

Heimildir:
-https://www.bmvalla.is/frettir/soguskilti-um-fornalund-og-fyrstu-abuendur
-Ártúnshöfði – Fornleifaskrá, Reykjavík 2021.

Reykjavík

Í Fornalundi.