Magnús Á. Sigurgeirsson ritaði athyglisverða grein er hann nefnir „Þáttur úr gossögu Reykjaness – Gosskeið fyrir um tvö þúsund árum“ í Náttúrufræðinginn (72) árið 2004. Þar fjallar hann aðallega um eldgos á undan síðasta gosskeiði á Reykjanesskaganum fyrir um 2000 árum.
„Gosmenjar sem varðveittar eru frá þessum tíma, veita mikilvægar upplýsingar um goshætti og umfang eldvirkninnar. Þótt enn sé margt á huldu um þetta gosskeið liggur fyrir ýmis vitneskja um það sem vert er að taka saman. Kveikjan að greininni eru athuganir höfundar á gosmenjum á Reykjanesi, suðvestasta hluta Reykjanesskaga, en þar kveður mikið að myndunum frá þessu tímabili.“
Í inngangi segir Magnús að „náttúrufar Reykjanesskaga hefur dregið að sér athygli náttúrufræðinga allt frá 18. öld er Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson stunduðu sínar rannsóknir þar. Hefur athyglin einkum beinst að hraunum og gígum, jarðhita og misgengjum, en allt setur þetta sterkan svip á ásýnd Reykjanesskaga. Allskýr mynd hefur fengist af eldvirkni á skaganum á nútíma, einkum síðustu tvö árþúsundin. Á því tímabili var eldvirknin bundin við tvö gosskeið sem stóðu yfir allt að fjórar aldir hvort. Á báðum gosskeiðunum, sem aðgreinast af um þúsund ára löngu hléi, urðu öll eldstöðvakerfin fjögur á Reykjanesskaga virk. Í ljósi þessarar vitneskju og þess sem vitað er um eldri gos má telja sennilegt að eldvirkni á fyrri hluta nútíma hafi verið með líkum hætti.“
Þá segir: „Síðasta gosskeið á Reykjanesskaga var á tímabilinu 900-1200 og einkenndist af þrennum eldum sem stóðu yfir í nokkra áratugi hver. Á 10. öld runnu hraun á Hellisheiði og að öllum líkindum í Heiðmörk. Einnig var þá gos í sjó undan Reykjanesi. Á 12. öld geisuðu Krýsuvíkureldar og runnu þá Ögmundarhraun og Kapelluhraun (Nýjahraun). Líklegt er að hraun hafi einnig komið upp í Brennisteinsfjöllum um sama leyti. Tvívegis gaus í sjó undan Reykjanesi. Á 13. öld brunnu Reykjaneseldar og runnu þá fjögur hraun á vestanverðum Reyjanesskaga. Á Reykjaneshrygg hafa margsinnis orðið til „gígeyjar“ sem fjöldi skerja og boða er til vitnis um. Slíkar eyjar eru berskjaldaðar fyrir rofmætti sjávar og eyðast jafnan hratt. Vel þekkt eru afdrif Nýeyjar sem myndaðist í neðansjávargosi árið 1783 um 55 km undan Reykjanesi. Sú eyja hvarf í hafdjúpið innan árs frá því hún skaut upp kollinum. Langlífari gígeyjar hafa þó einnig orðið, s.s. Eldey og Geirfuglasker.
Ummmerki um allmörg neðansjávargos á Reykjaneshrygg hafa varðveist á landi. Við strönd Kerlingarbáss, þar sem gígaraðir á Reykjanesi liggja að sjó, hafa hvað eftir annað hlaðist upp öskugígar. Þar má nú skoða leifar þriggja slíkra gíga. Neðansjávargos fjær landi hafa skilið eftir sig öskulög á jarðvegi, fundist hafa a.m.k. ellefu slík lög á Reykjanesskaga. Öskulögin veita mikilvægar upplýsingar um gossögu eldstöðvakerfisins síðustu sex þúsund árin.“
Í greininni er rakin aldur nokkurra hrauna og gjóskulaga á Reykjanesskaga fyrir um tvö þúsund árum, s.s.:
Hraun: Eldstöðvakerfi: 14C-aldur: Gjóskul.tímat.: ~Áætl. aldur:
Eldra Stampahraun Reykjanesi 2155/35 >1400ár >2000 ár ~1900 ára
Tjaldstaðahraun Reykjanesi >1400 ár <2000 ár ~1900 ára
Eldvarpahraun eldra Reykjanesi 2150/65 >1100 ár ~2100 ára
Sundhnúkahraun Reykjanesi 2350/90 >1100 ár <2000 ár ~1900 ára
Óbrinnishólar Trölladyngja 2142/62 >1100 ár <2000 ár ~2000 ára
Eldra Afstapahraun Trölladyngja >1100 ár ~2000 ára?
Hólmshraun Brennisteinsfjöllum >1100 ár ~2000 ára?
Stórabollahraun Brennisteinsfjöllum >1100 ár ~2000 ára
Vörðufellsgígar Brennisteinsfjöllum >1100 ár ~2000 ára
Reykjafellshraun Hengill 1857/87 >1100 ~1900 ára
Eldborg undir Meitlum Hengill 2025/65 >1100 ár ~1900 ára
Nesjahraun Hengill 1880/65 > 1100 ár ~1900 ára
Við aldursákvörðun hrauna hefur verið stuðst við gjóskulgatímatal og 14C-aldursgreiningu á koluðum gróðurleifum sem finnast undir þeim. Þær, sem og aðrar sýnatökur, geta gefið mikilsverðar vísbendingar um aldur hrauna. Taka ber niðurstöðum þó með hæfilegum fyrirvara.
Gosvirkni á Reykjanesi hefur síðustu 2000 árin einskorðast við vestari gosreinina, en á þeirri eystri hefur ekki gosið síðustu 3000 árin. Komið hefur í ljós skjálftavirkni á Reykjanesi sem einkum er bundin við vestari reinina.
„Vitað hefur verið um nokkurt skeið að hraun runnu víða á Reykjanesskaga fyrir um 2000 árum. Hraun runnu á landi allt frá Reykjanesi í vestri að Nesjavöllum í austri og gjóskugos urðu í sjó undan Reykjanesi og í Þingvallavatni. Vísbendingar hafa komið fram um nokkur gos til viðbótar, einkum í Brennisteinsfjöllum, sem gætu verið frá þessu tímabili.“
Í lokaorðum segir Magnús að „telja verði líklegt að gosskeiðið fyrir 2000 árum hafi einkennst af nokkrum aðgreindum eldum líkt og síðasta gosskeið á Reykjanesskaga. Þá urðu öll eldstöðvakerfin fjögur virk, hraun runnu á að minnsta kosti ellefu stöðum og þeytigos urðu í Þingvallvatni og í sjó undan Reykjanesi. Til að fá úr þessu skorið þyrfti hins vegar mun nákvæmari aldursgreiningar en nú eru fyrir hendi. Tiltæk gögn benda til að gosskeiðið fyrir 2000 árum hafi varað í að minnsta kosti tvær aldir og það síðasta í u.þ.b. þrjár aldir. Mikill fjöldi hrauna hefur runnið á Reykjanesskaga á nútíma.“
Heimild:
-Magnús Á Sigurgeirsson, „Þáttur úr gossögu Reykjaness“, Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags, Náttúrufræðingurinn 72 (1-2), bls. 21.-28, 2004.