Tag Archive for: Ásvarða

Hvaleyrartjörn

Litli Ratleikur Hafnarfjarðar er ætlaður sem hvatning til útiveru í og við byggðina í Hafnarfirði.
Litli Ratleikur 2021 hefur 15 nýja áhugaverða staði sem m.a. vekja athygli á sögunni. Leikurinn er samvinnuverkefni Fjarðarfrétta og Hafnarfjarðarbæjar. Guðni Gíslason lagði leikinn. Hann er á vefsíðu Fjarðarfrétta og er aðgengilegur hvenær sem er.
Þú ræður hvernig þú nýtir þér leikinn, textinn og myndirnar eiga að hjálpa þér að finna staðina og finna má fróðleikstexta um staðinn og jafnvel umhverfi hans.

1 – Hellisgerði, Bjarni riddari

hellisgerði

Hellisgerði.

Skrúðgarðurinn Hellisgerði var vígður á Jónsmessu 1923. Málfundafélagið Magni, sem stofnað hafði verið þremur árum áður, hafði frumkvæði að gerð hann og annaðist hann rekstur hans um langt skeið. Hafði einn félaganna, Guðmundur Einarsson, framkvæmdastjóri í Dverg, hvatt til þess að sérkenni Hafnarfjarðarhrauns yrðu varðveitt og þótti Hellisgerði ákjósanlegur staður til að koma upp blóma- og skemmtigarði. Í skipulagsskrá segir að tilgangurinn væri þríþættur: 1. Að vera skemmtistaður, þar sem bæjarbúar eiga kost á að njóta ánægju og hvíldar í tómstundum sínum. 2. að vekja áhuga bæjarbúa á blóma- og trjárækt. 3. að geyma óraskaðar minjar um hið sérkennilega bæjarstæði Hafnarfjarðar, þegar mannvirki framtíðarinnar hafa máð þær út annars staðar í bænum.

Var skipað fimm manna garðráð sem stjórnaði starfseminni til 1977 er starfsemi Magna lagðist niður og hefur Hellisgerði síðan verið á ábyrgð garðyrkjustjóra Hafnarfjarðarbæjar.

Bjarni riddar.

Bjarni riddari í Hellisgerði.

Árið 1950 var afhjúpuð stytta af Bjarna riddara Sivertsen sem gerð var af hinum merka listamanni Ríkharði Jónssyni. Það voru útgerðarfélögin Hrafna-Flóki og Vífill sem gáfu 25 þúsund kr. í tilefni af 25 ára afmælis Magna. Stendur styttan vestarlega í garðinum, á stalli úr hraungrýti sem sótt í Selvog þar sem Bjarni hóf verslunarstörf sín.

Bjarni Sívertsen er talinn vera frumkvöðull í Hafnarfirði. Árið 1813 flutti hann um 500 plöntur frá Skotlandi og gróðursetti víðsvegar í Hafnarfirði.

Hellisgerði er um 1,4 ha af stærð og liggur milli Reykjavíkurvegar, Hellisgötu og Skúlaskeiðs.

Skammt frá styttunni eru tóftir lítils húss sem talið hafa upphaflega verið kamar en seinna notað sem verkfærageymsla Magna-manna.

Vert er að skoða tré ársins 2017 sem Skógræktarfélag Íslands útnefndi. Það er beyki, Fagus sylvatica.

2 – Einarsreitur

Einarsreitur

Einarsreitur,

Framan af í Hafnarfirði var saltfiskur einkum þurrkaður á mölunum við sjávarsíðuna eins og á Hamarskotsmöl og Langeyrarmölum en þegar útgerðin jókst og bærinn stækkaði þurfti að finna stærri og betri svæði fyrir fiskreitina.

Frá Einarsreit. Ljósm.: Óþekktur

Framan af 20. öldinni voru margir fiskreitir útbúnir í Hafnarfirði og þá einkum í hrauninu í útjaðri hans og urðu þeim hin mestu mannvirki. Það verk að brjóta Hafnarfjarðarhraunið undir fiskreiti var mikið og erfitt starf sem oftast var unnið í akkorðsvinnu. verkfærin voru járnkarl, haki, sleggja og fleygar auk hins svokallaða Hafnarfjarðarþrífótar sem var eins konar krani, píramídalagaður gálgi með blökk og handvindu sem fjórir menn gátu komist að samtímis og lyft þannig allþungu grjóti eða dregið á milli staða. Eins og sjá má á hleðslunum hér var grjótinu ekki hrúgað upp heldur lögðu menn metnað í hleðslurnar, jafnvel þótt um ákvæðisvinnu væri að ræða.

Einarsreitur

Einarsreitur – skilti…

Einar Þorgilsson útgerðarmaður lét úbúa saltfiskreiti þennan árið 1913 og var hann stækkaður nokkuð árið 1929 en þá lét Einar jafnframt reisa hér þurrkhús sem var þá eitt það fullkomnasta hér á landi.

Nú hefur mikil íbúðabyggð risið á svæðinu en fiskreitirmir eru friðaðir og þar má finna upplýsingaskilti. Aðrar minjar um starfsemi á svæðinu eru horfnar, m.a. braggar og stríðsminjar frá síðari heimsstyrjöldinni en braggarnir voru síðar notaðir undir fjölbreytta starfsemi.

3 – Mánastígur
Fjölmörg opin svæði eru í Hafnarfirði sem eru ómerkt og gönguleiðir að þeim alveg ómerktar. Þar leynast margar náttúruperlur, ekki síst í hraununum við Álfaskeið og Arnarhraun. Aðgengi að þeim er í raun ágætt og stígar í gegnum þau, en þessir stígar eru heldur hvergi merktir.

Stígur gengur í gegnum hraunið á milli Mánastígs og Klettahrauns.

Eitt þessara svæða liggur á milli Arnarhrauns, Álfaskeiðs og Klettahrauns og er ágætt aðgengi að hrauninu um stíg sem liggur í beinu framhaldi af Mánastíg, en við hann eru aðeins þrjú hús. Hann liggur í gegnum svæðið og inn á Klettahraun.

Þaðan er tilvalið að ganga yfir Smyrlahraunið yfir á Einarsreitinn þar sem finna má minjar um fiskþurrkun.

Hraunið sem er um 1,5 ha að stærð, er að mestu ósnortið og til almenningsafnota þó einhverjir lóðarhafar hafi fikrað sig inn á bæjarlandið með sínar lóðir. Þarna má njóta fjölbreytileika hraunsins og gaman að sjá hvernig trjáplöntur ná að nýta sér sprungur í hrauninu til að dafna. Ef vel er gáð má finna þar hleðslur.

4 – Reykdalsvirkjunin

Reykdalsvikjunin

Reykdalsvirkjunin.

Árið 2001 var stofnaður vinnuhópur til að undirbúa hvernig minnast mætti á eftirminnilegan hátt brautryðjandastarfs Jóhannesar J. Reykdals og 100 ára afmælis rafvæðingar í Hafnarfirði og á Íslandi.

Hópurinn tók sér vinnuheitið Reykdalsfélagið og að frumkvæði þess var ráðist í endurbyggingu Reykdalsvirkjunar, sem upphaflega var gangsett haustið 1906.

Endurbyggingin náði til endurgerðar miðlunarlóns, stíflu og aðveitustokks, auk þess sem byggt var nýtt glerhús sem hýsir hverfil og rafal undir brúnni á Lækjargötu.

Framkvæmdum við endurbygginguna lauk seint árið 2007 og var Reykdalsvirkjun formlega endurræst þann 18. janúar 2008.

Fyrsta almenningsrafveita á Íslandi tók til starfa í Hafnarfirði árið 1904. Rafstöðin var við Austurgötu og í eigu Jóhannesar Reykdal. Vegna mikillar eftirspurnar eftir raforku í bænum árið eftir, var ákveðið að reisa nýja og mun stærri rafstöð við Hörðuvelli. Jóhannes leigði landið af staðarhaldaranum á Görðum en auk stíflunnar lét hann reisa langan vatnsstokk og stöðvarhús með íbúð fyrir stöðvarstjórann og fjölskyldu hans. Hörðuvallahúsið er fyrsta rafstöðvarhús sem reist var á Íslandi.

Reykdalsvirkjunin

Reykdalsvirknunin.

Þessi nýja virkjun var tekin í notkun haustið 1906 og var gerð fyrir 37 kw en vegna vatnsleysis gat hún aldrei framleitt meira en 22 kw. Árið 1909 keypti Hafnarfjarðarbær báðar rafstöðvarnar af Jóhannesi og í kjölfarið var stofnuð Rafljósanefnd. Rafmagnssölunni var þannig háttað á þessum árum að einungis var hægt að fá rafmagn á svokölluðum ljósatíma en hann var frá því er skyggja tók og fram til miðnættis á tímabilinu 15. ágúst til 15. maí. Á öðrum tímum var ekkert rafmagn að fá.

Árið 1914 var vatnsstokkurinn frá stíflunni og niður að stöðvarhúsi orðinn svo lélegur að ákveðið var að stytta hann og rafljósastöðin færð úr íbúðarhúsinu í nýtt hús er stóð mun nær stíflunni.

Fljótlega var ljóst að þessar tvær rafstöðvar nægðu ekki til að veita þá raforku sem Hafnarfjarðarbær þurfti á að halda. Margar leiðir voru skoðaðar en að lokum var brugðið á það ráð að reisa dísilrafstöð við Strandgötu og var það fyrirtækið Nathan & Olsen sem átti og starfrækti þá stöð. Það var árið 1922 sem sú stöð tók til starfa og sá hún bænum vestan lækjar fyrir rafmagni en eldri stöðvarnar sáu um þann hluta bæjarsins sem var sunnan lækjar. Þetta fyrirkomulag stóð stutt því að árið 1923 var neðri rafstöðin lögð niður og þremur árum síðar var svo komið að Hörðuvallastöðin gat ekki lengur séð íbúum sunnan lækjar fyrir nægilegu rafmagni. Var hún þá einnig lögð niður og eftir það sá stöð Nathan Olsen öllum bænum fyrir raforku.

Stöðvarstjórar við Hörðuvallastöðina voru Jón Þórðarson (1906-1908), Þórður Einarsson (1908-1914) og Árni Sigurðsson (1914-1926).

Reykdalsstíflan

Afrakstur Reykdalsstíflunnar fyrrum.

Árið 1901 flutti ungur trésmiður til Hafnarfjarðar, Jóhannes J. Reykdal, en hann hafði þá nýlokið námi í iðn sinni í Danmörku. Til Hafnarfjarðar kom hann í þeim erindagjörðum að stofna hér trésmíðaverksmiðju en hann taldi að Hamarskotslækurinn væri ákjósanlegur aflgjafi fyrir vélar verksmiðjunnar. Í verksmiðju þessari, sem tók til starfa árið 1903, voru átta trésmíðavélar sem allar voru knúnar áfram af fallorku lækjarins. Það var þannig gert að 94 metra langur tréstokkur var reistur og í honum var vatninu veitt í vatnskassa sem áfastur var við húsið. Fallhæð vatnsins í kassanum var tæpir fjórir metrar og í honum var 11 kílóvatta hverfill. Frá hverflinum lá aðalöxullinn inn í kjallarann undir húsinu og þaðan lágu svo reimar upp í gegnum gólfið í tvær hreyfivélar sem aftur knúðu trésmíðavélaranar.

Reykdalsvirkjun

Reykdalsvirkjun endurgerð.

Í frétt Heimskringlu af stofnun verksmiðjunnar sagði meðal annars: „Lækurinn í Hafnarfirði er um aldir og áratugi búinn að renna út í fjarðarbotninn án þess að miðla nokkru af afli sínu mönnum til nytsemdar. Nú er mannshöfnin búin að beizla hann, og er það allrar virðingarvert. Vonandi, að ekki líði langar stundir þangað til hann vinnur fleiri þarfaverkin Hafnfirðingum til þarfa og sóma t.d. að lýsa upp hús og götur þar í bænum.“ Það var einmitt raunin, því árið 1904 keypti Jóhannes níu kílóvatta rafal frá Noregi og tengdi hann við ás nýs hverfils.
Í kjölfarið réð hann Halldór Guðmundsson rafmagnsfræðing, sem þá var nýkominn heim úr námi í Þýzkalandi, til að annast lagningu raflagnanna til húsa í nágrenninu og Árna Sigurðsson, sem síðar varð fyrsti rafvirki landsins, til að sjá um tengingu raflagnanna innanhúss. Í desember 1904 voru svo fyrstu rafljósin kveikt en þá var búið að leggja rafmagn í 16 hús auk fjögurra ljóskera í bænum. Á þess­um tíma bjuggu 1.079 manns í Hafnar­f­irði.

Meðal húsanna sem tengd voru má nefna Góðtemplarahúsið, barnaskólann, trésmíðaverkstæðið og íbúðarhús Jóhannesar Reykdals við Brekkugöötu.

Fljótlega kom upp sú staða að rafstöð þessi náði ekki að sinna þeirri eftirspurn sem myndaðist og var ráðist í að reisa aðra, mun stærri, rafstöð við Hörðuvelli sem tekin var í notkun árið 1906. Trésmíðaverkstæðið seldi Jóhannes tólf Hafnfirðingum árið 19111 en þeir mynduðu sameignarfélag um reksturinn undir nafninu Dvergur, trésmíðaverksmiðja og timburverzlun Hafnarfjarðar, Flygenring & Co. og starfaði hún um áratugaskeið í bænum.

5 – Reykdalsstíflan

Reykdal

Reykdal – minnisvarði.

Fyrsta almenningsrafveita á Íslandi var reist í Hafnarfirði árið 1904. Var það athafnamaðurinn Jóhannes Reykdal sem reisti hana og átti og stóð rafstöðin við Austurgötu.

Fljótlega dugði hún ekki til og reisti Jóhannes þá nýtt stöðvarhús á Hörðuvöllum og stíflu í Hamarskostslæk um 100 m ofar.

Stíflan hefur verið endurgerð á upprunalegum stað og stokkur byggður í stíl við upphaflega stokkinn.

Rafstöð til að minnst frumkvöðulsins var svo byggð undir Lækjargötubrúnni. Sú virkjun er í raun endurgerð Hörðuvalavirkjunar sem tekin var í notkun 1906.

Setbergsbærinn

Setbergsbærinn – tóftir.

6 – Setbergsbærinn gamli
Um aldir hefur verið búið á jörðinni Setbergi við Hafnarfjörð en elstu heimildir um jörðina eru frá árinu 1505. Bærinn stóð ofarlega í Setbergstúninu en túnið lá á móti suðvestri. Upp úr 1770 var bærinn teiknaður upp og var þá hinn reisulegasti enda sýslumannssetur. Minjar Setbergsbæjarins hafa verið friðlýstar.

Til eru sögur um bænahús eða kapellu við Setbergsbæinn og á hún að hafa staðið þar sem nú er „Galdraprestaþúfa“ skammt frá bæjarrústinni. Þar réð meðal annars ríkjum sr. Þorsteinn Björnsson (d. 1675) en eftir hann liggur kvæðasafnið „Noctes Setbergenes“ eða Setbergsnætur sem varðveitt er í Árnasafninu. Kvæðasafn þetta orti hann meðal annars til að „stytta sér hið leiða líf“ eins og hann orðaði það sjálfur. Þorsteinn þessi var, að talið er, rammgöldróttur og lagði hann svo á að ekki mætti hrófla við þessari þúfu án þess að illa færi.

Upplýsingaskilti hefur verið komið upp við rústina.

7 – Stekkjarhraun

Stekkjarhraun

Stekkjarhraun – stekkur.

Stekkjahraun var friðlýst árið 2009 en það liggur á milli Setbergshverfisins og Mosahlíðarinnar. Hraunið þar kom úr Búrfelli fyrir um 8.000 árum eins og stór hluti hraunsins í Hafnarfirði og í Garðabæ sem þekur um 18 km² svæði. Meðfram því liggur Lækjarbotnalækur.

Stekkjarhraun dregur nafn sitt af stekk eða stekkjum frá Hamarskoti og Görðum og má enn sjá leifar þeirra. Í bréfi frá 1670-80 segir, að Hamarskot og Garðar hafi haft þarna stekk.

Stekkjarhraun er í beinu framhaldi af Gráhelluhrauni og hefur hraunið runnið um þröngan farveg milli Setbergshlíðar og Mosahlíðar. Aðgengi að svæðinu er gott og er það því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu. Með friðlýsingunni er einnig verið að vernda votlendisbletti við Lækinn þar sem hann rennur með Stekkjarhrauni, en þar vaxa m.a. horblaðka og starir sem eru fágætar tegundir í þéttbýli.

Rétt hjá er vatnsból, nefnist Lambadrykkur. Vestan undir hrauninu eru hvammar tveir. Nefnast þeir Atkeldan nyrðri og Atkeldan syðri, en frá þeim rennur Atkeldnalækur. At til litunar var tekið á þessum stöðum.

8 – Skotbyrgi á Mógrafarhæð

Mógrafarhæð

Mógrafarhæð – skotbyrgi.

Mógrafarhæð nefnist öxlin sem gengur suðaustur frá hábungu Ásfjalls innan við byggðina í Áslandi 3, í áttina að Bláberjahrygg. Ekki er þó talið að mótekja hafi verið á þessu svæði.

Austarlega í hæðinni er skotbyrgi sem breskir hermenn hlóðu sumarið 1940. Þeir stóðu vaktina með riffla en þar var einnig gervifallbyssu úr gildum trjálurk sem leit út eins fallstykki úr lofti.

Einnig eru skotbyrgi undir Dagmálavörðunni. Þá eru leifar fimm annarra byrgja suðaustar í fjallinu.

Ógreinilegur troðningur er í gegnum lúpínuna frá Skógarási að skotbyrginu og frá skotbyrginu að vörðunni á Ásfjalli.

9 – Varðan á Ásfjalli

Ásfjall

Ásfjall – varðan og hleðslur umhverfis.

Ástjörn og Ásfjall var friðlýst sem fólkvangur árið 1996. Fólkvangurinn umlykur friðland Ástjarnar en Ástjörn og svæðið umhverfis hana var friðlýst árið 1978.

Ásfjallið var lengi sagt lægsta fjall á Íslandi. Það mun þó ekki vera alls kostar rétt því á Austurlandi mun þó finnast fjall sem mælist lægra.

Útsýni af fjallinu er gott og sérstaklega áhugavert fyrir áhugafólk um jarðfræði og sögu höfuðborgarsvæðisins.

Á Ásfjalli eru minjar um hersetu fyrr á öldinni, m.a. eru minjar frá hersetu Breta neðan við vörðuna.

Ásfjall er hæst 127 m.y.s. Það er í raun grágrýtishæð. Ásfjall og Ástjörn bera nafn af bænum Ási, sem stóð undir fjallinu. Fjallið er víðast hulið lausum jarðlögum, en allvel gróið mosa og lyngi. Efst á því er Dagmálavarðan, sem nú hefur verið endurhlaðin.

Dagmálavarðan var fyrst og fremst leiðarmerki á fiskimið, sbr.: „Með hvarfi vörðunnar á Ásfjalli hefði líka horfið eitt ágætt fiskimið. Í endurminningum Erlends Björnssonar á Breiðabólsstöðum kemur fram að Ásvörðuslóð er eitt að þeim miðum sem mest voru sótt fram á Sviði. Önnur mið á Sviðinu heita Sandhali, Marfló, Klettslóð, Bollaslóð og Riddararnir saman. Reyndar talar Erlendur um vörður í Ásfjalli og því virðast þær hafa verið fleiri um aldamótin 1900. En miðið Ásvörðuslóð er þegar Valahnjúkarnir eru um vörður á Ásfjalli.“ Til fróðleiks má nefna að nú er aðeins annar Riddarinn eftir og er hann á Helgafelli.

Ásfjall

Svona leit varðan út árið 2007 eftir að hún hafði verið skemmd.

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar reisti árið 1987 útsýnisskífu á fjallinu, rétt við vörðuna. Með útsýnisskífunni má þekkja fjöll og staði sem fyrir augum ber.

Friðlandið við Ástjörn er 28,5 ha að stærð og var friðlýst 1978. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí utan merktra stíga. Bærinn Ás stóð í brekku vestan undir Ásfjalli. Norður frá Ástjörn var býli, sem hét Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.

Varðan á Ásfjalli var eyðilögð 2006 eða 2007 en var reist aftur með leiðsögn frá Byggðasafni Hafnarfjarðar. Mörgum þykir hún þá allt of flöt og ekki lík þeirri sem menn muna eftir fyrrum.

10 – Bleikisteinn

Bleiksteinn

Bleiksteinn.

Á Bleikisteinshálsi, efst á Hamranesi, er Bleikisteinn sem var markavarða jarðanna Hvaleyrar og Áss. Á honum er gróin fuglaþúfa, sem einhverju sinni hefur verið lítil varða á jarðfastri klöppinni.

Hamranesið er í dag að mestu útgrafið en þar var sprengt grjót til að nota við nýjustu hafnargarðana í Hafnarfjarðarhöfn. Útjaðrarnir eru þó eftir sem mynda nesið, og sjá má mikil björg, fagurlega skreytt skófum norðan vert í hálsinum.

Landmælingastólpi er við Bleikstein.

Í örnefnalýsingunni (AG) fyrir Ás segir: „Svo er hár hnúkur syðst á fjalli, sem heitir Vatnshlíðarhnúkur. Vestur af honum hallar fjallinu niður og myndar þar háls, sem nær niður á Hamranesið fyrrnefnda og heitir Bliksteinaháls eða Bleiksteinaháls. Á honum eru tveir steinar ljósir að lit, sem heita Bliksteinar. Þeir eru í hálsinum norðanverðum og eru á merkjum móti Hvaleyri.“

Ofar, á Bleikisteinshálsi, er markavarða í línu að Þormóðshöfða. Þessi varða er nokkrum metrum ofan við endimörk mikils jarðrasks utan í hálsinum.

12 – Krýsuvíkurvegurinn gamli

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli við Vellina.

„Hinn nýi vegur til Krýsuvíkur, sem nú er í smíðum, hefur vakið mikið umtal, og hefur fyrirtæki þetta að mestu sætt áfellisdómum. Er því einkum borið við, að vegagerð þessi verði vitleysislega dýr, en gagnið af henni óvíst.“ Þetta mátti lesa í ítarlegri grein Árna Óla í Lesbók Morgunblaðsins 21. júlí 1940.

Finna má ummerki gamla Krýsuvíkurvegarinn vestan við göngustíginn að undirgöngunum undir Reykjanesbraut á móts við Bónus. Þar má sjá upphlaðinn veginn með vönduðum hleðslum.

Krýsuvíkurvegur

Hér má sjá hvar vegurinn tengdist yfir á Hvaleyrarholtið. Nútímalegri vegamannvirki á Reykjanesbraut fjær.

Það skal getið að Reykjanesbrautin kom langt á eftir Krýsuvíkurveginum og leiðin út úr Hafnarfirði var um Suðurgötu og það sem nú heitir Suðurbraut.

Fjölmargir ganga fram hjá gamla Krýsuvíkurveginum sem enn hefur ekki verið merktur.

13 – Ljónagryfjan

Ljónagryfjan

Ljónagryfjan.

„Ljónagryfjan” svonefnda myndaðist þegar tekið var stórgrýti vegna hafnarframkvæmda við Suðurgarðinn i Hafnarfirði um 1950.

Fyllt hefur verið upp í gryfjuna og skemmtilegum leikvelli komið fyrir. Aðkoman að gryfjunni var fremst á myndinni.

Á áttunda áratugnum notaði Fiskimjölsverksmiðjan Lýsi & mjöl gryfjuna fyrir loðnuþró, en undir lok áratugsins notaði Hafnarfjarðarbær hana sem geymslu fyrir bílhræ í nokkurn tíma.

Töluvert var um að fólk næði sér í varahluti úr bílhræjunum um leið og það losaði sig við rusl að heiman í gryfjuna. Fyrir rest var gryfjan hreinsuð og síðar fylltu upp að hluta en í dag er þarna leikvöllur og fallegt umhverfi.

14 – Verslunarstaðurinn Fornubúðir

Fornubúðir

Fornubúðir og Slippurinn.

Hafnarfjörður var aðalhöfn Hansakaupmanna hér á landi á ofanverðri 15. öld og alla þá sextándu.

Verslunarbúðir Hansakaupmanna í Hafnarfirði voru á svoköllum Háagranda sem var ysti hluti Hvaleyrargranda. Þar höfðu þeir ríka þörf fyrir varanlegan húsakost enda fjölmennar áhafnir á skipum þeirra, jafnvel um 60 manns á hverju.

Fornubúðir voru á tanga sem náði all frá Hvaleyrarlóni og að þar sem nú er smábátabryggja.

Gísli Sigurðsson skrifaði um Fornubúðir og Hvaleyrartjörn í tímaritið Sögu árið 1963: hann, verzlunarstaðurinn við Hafnarfjörð á miðöldum. Hann er talinn hafa staðið á Hvaleyrargranda, sem líka er nefndur Hafnarfjarðargrandi eða Grandinn við Hafnarfjörð. Þarna er hann talinn hafa staðið, frá því sögur hófust um verzlun og siglingar til Hafnarfjarðar fram til ársins 1677, að verzlunarstaðurinn var fluttur norður yfir fjörðinn, í land Akurgerðis, hjáleigunnar hjá Görðum. Talið er, að færsla þessi hafi átt sér stað sérstaklega vegna þess, að þrengdist um hann af landbroti og sjávargangi.“

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn fyrrum.

Þá segir hann einnig: „.. en það, sem tekur af öll tvímæli um legu verzlunarstaðarins, eru þó ummæli Skarðsár- og Setbergsannála um drukknun þeirra Bjarnastaðafeðga, Ásbjörns Jörinssonar og sona hans. Hann vildi ríða ósinn frá verzlunarstaðnum, e« ósinn var óreiður. Við þekkjum þetta Hafnfirðingar, sem munum ósinn milli Háagranda og óseyrar meðan hann var óheftur. Þá var hann hverjum hesti ófær, með an harðast var í honum útstreymið. Að öllu þessu athuguðu mun því mega f ullyrða, að Fornubúðir, verzlunarstaðurinn við Hafnarfjörð, hafi staðið á Háagranda innst á Grandanum við Hafnarfjörð.“

Hansakaupmenn

Minnismerki um Hansakaupmenn við Hafnarfjarðarhöfn.

Kirkjan sem Hansakaupmenn reistu á Háagranda að talið er 1533 var fyrsta lúterska kirkjan hér á landi og nokkuð vegleg timburkirkja með koparþaki. Að stofnun og byggingu kirkjunnar stóðu bæði kaupmenn og skipstjórar sem lögðu stund á Íslandssiglingar en þeir voru í trúarlegu bræðralagi sem bar nafnið „Die Islandfahrerbrüderschaft“. Var kirkjan notuð til 1603.

Þann 1. júlí 2003 afhjúpuðu forsetar Íslands og Þýskalands minnismerki á Óseyrarbryggju til minningar um fyrstu lúhersku kirkjuna sem reist var á Íslandi fyrir u.þ.b. 400 árum síðan. Það var þýski listamaðurinn Hartmut Wolf sem gerði listaverkið sem myndar táknrænan gotneskan boga úr íslensku grjóti.

15 – Dráttarbrautin

Dröfn

Dröfn- leifar dráttarbrautarinnar.

Skipasmíðastöðin Dröfn var stofnuð árið 1941 en árið 1944 var hafin bygging dráttarbrautarinnar sem tekin var í notkun 1946. Áður hafði helsta skipasmíði í Hafnarfirði verið í Skipasmíðastöð Haraldar Nyborg neðan við þar sem ráðhús bæjarins er núna. Hins vegar mun Bjarni riddari Sivertsen hafa haft sína merku skipasmíðastöð á þessum slóðum, í landi Ófriðarstaða, í upphafi 19. aldar.

Dröfn hf. var lýst gjaldþrota 1995 en síðar eignaðist Vélsmiðja Orms og Víglundar dráttarbrautina en hún hefur ekki verið notum um langt árabil.

Í húsi ofan við Strandgötuna, sem í daglegu tali nefnist Drafnarhúsið, var um langt skeið blómleg iðnaðarstarfsemi. á efri hæðinni rak Dröfn öflugt trésmíðaverkstæði en á neðri hæðinni var byggingarvöruverslun Drafnar. Í hliðarbyggingu, þar sem veitingastaðir eru í dag var járn- og vélaverkstæði sem þjónustaði að mestu skipasmíðina og viðgerðir á skipum. Vestan við dráttarbrautina standa enn smíðaverkstæði skipasmíðastöðvarinnar og nýrra hús sem hýsti minni báta og bátasmíði. Ofan við vélarhús dráttarbrautarinnar var gufuofn þar sem efniviður í trébáta var gufuhitað svo auðveldara væri að aðlaga það að formi bátanna.

Dráttarbrautin

Frá Dráttarbrautinni.

Í viðtali í Þjóðviljanum 1960 sagði hinn merki sögusafnari, Gísli Sigurðsson lögregluþjónn, að í Hafnarfirði væri aðallega hægt að fá mó á þremur stöðum í Hafnarfirði. Það var í Hamarskotsmýrinni meðfram læknum, Sjávarmýrinni, þar sem skipasmíðastöðin Dröfn var síðar en þar var mórinn 18 stungur að dýpt. Þegar dráttarbrautin var byggð þar var tveggja mannhæða rof niður á móhellu.

Heimild:
-https://ratleikur.fjardarfrettir.is/litli-ratleikur-hafnarfjardar/litli-ratleikur-2021/

Setbergsbærinn

Setbergsbærinn – tóftir.