Færslur

Atlagerðistangaviti

Eftirfarandi var skrifað um Vatnsleysuströnd (Narfakot, Halldórsstaði, Hlöðunes og Atlagerðistangavita) í Morgunblaðið árið 1970:

Gerðistangaviti

Atlagerðistangaviti.

“Þetta var á einum hinna frosthýru daga í fyrri viku, þegar loftið var tært, eilítið skæni á pollum eftir nóttina, en sól á suðurhveli, og þeim ekkert að vanbúnaði, sem langaði í hressandi helgargöngu um íslenzka náttúru; hún er söm við sig, sami yndisleikinn, hvort sem er kalt eða svalt, eða hlýjan leikur um mannfólkið sem kemur blóðinu óneitanlega á meiri hreyfingu, en kuldinn.

Vatnsleysuströnd - Hlöðuneshverfi

Vatnsleysuströnd – Hlöðuneshverfi.

Förinni var heitið suður á Vatnsleysuströnd, til þeirrar strandar, sem Spegillinn í eina tíð, ætlaði að innlima í Reykjavík á þeim árunum sem vatn skorti í höfuðborginni. Greið er förin, þegar Hafnarfirði sleppir, suður Kapellu hraun, framhjá Straumi, og áfram allar götur eftir Hvassahrauni, sem í raun réttri heitir Afstapahraun, og sunnan við það erum við þá einu sinni enn komin i Kúagerði. Raunar er Kúagerði merkur staður í samgöngusögu þjóðarinnar. Það var eini staðurinn, þar sem hœgt var að brynna hestum í ósöltu vatni á þessum hraun fláka á Innnesjunum, og kom slíkt í góðar þarfir, bæði þeim ríðandi og gangandi. Í vesturjaðri þess var lítil graslaut með smátjörn í, fast við veginn á vinstri hönd. Heitir lautin Kúagerði, og var mikill án ingarstaður, jafnvel í heiðnum sið. Ég hef það fyrir satt, og sagði mér það maður, ættaður frá Hvassahrauni, sem var einu sinni stofufélagi minn á Vífilsstöðum, að kaffið hefði alltaf verið salt á þeim bæ, og þó var Kúagerði örskotsspöl í burtu.

Hlöðunes

Hlöðunes.

Síðan lagður var akfær vegur frá Keflavík til Reykjavíkur, hefur það oftast verið siður, að menn hefðu ekki tíma til að stanza og var þó meiri ástæða áður, en núna, þegar þetta hlemmiskeið liggur milli staða, — en í þetta skiptið, síðast liðinn sunnudag, gerðum við okkur dagamun, sveigðum til hægri út á gamla veginn, framhjá Vatnsleysunum, þar sem hann Þorvaldur okkar kæri ræktar svín, framhjá Flekkuvík, hinni frægu, þar sem Jónasi Hallgrímssyni var ekki i eina tíð betur treyst en svo um land að fara til að grafa í Flekkuleiði, að hann fékk rautt ljós. Jónas varð þá að útvega leyfi til rannsóknarinnar hjá séra Pétri Jónssyni á Kálfatjörn, en Páll Vigfússon bóndi i Flekkuvík var lengi tregur, því að Jónas segir: „Ég hét þeim að láta Flekku kyrra, ef ég fyndi hana, og kvaðst gera þetta í virðingarskyni, svo sem oft hefði verið gert við helga menn.”

Hlöðunes

Hlöðunes – túnakort 1919.

Og áfram allar götur framhjá Kálfatjörn, en þeim stóra stað tilheyrði fjárborgin mikla, Staðarborg, sem er vel sýnileg frá þessum gamla þjóðvegi, þar austar og ofar í hrauninu. Í þetta sinn er ákveðið að heimsækja Gerðistangavita, sem löngum hefur lýst bátum og skipum, sem meðfram Vatnsleysuströnd sigla. Hlutverk hans er nú orðið svipur hjá sjón, en fallegt er engu að síður niður við vitann. Og þótt Gerðistangaviti hafi nú að mestu lokið sínu dygga hlutverki, hefur hann áreiðanlega bjargað mörgum sjómanninum heilum í höfn, lýst þeim, sem þráir höfn.

Hlöðunes

Miðhús.

Við ökum út af veginum við Halldórsstaði, litlu býli, og leggjum bílnum okkar við hliðina á þriggja metra djúpum, hlöðnum brunni, sem er enn við lýði á þessari vatnslausu strönd, en þó sennilega núna aðeins handa svínum í kaldri kró.
Í suðvestri blasir við okkur annað býli Narfakot. Vafalaust hafa báðir þessir bæir verið fyrrum eins konar hjáleigur aðalbæjarins, Hlöðvisness. Heitir hann í dag Hlöðunes, og er í eyði.

Þetta var stór staður, og kenndur við þann, er þar byggði fyrstur manna. Þar í túninu á þessi Hlöðvir að vera heygður og heitir þar enn Hlöðvishaugur.

Hlöðunes

Hlöðunes – tóftir.

En áður en við höldum niður í fjöruna við Gerðistangavita, skulum við aðeins staldra við nafnið Narfakot. Það er nefnilega komið inn í Íslandssöguna á mjög merkan hátt. Meira að segja líka inn í bókmenntirnar. Áður fyrri, þegar Danir ráku hér „velferðarríki” sitt með möðkuðu mjöli og fleiru tilheyrandi til sálubóta, skorti allt, jafnvel snæri til að hengja sig, hvað þá, að hægt væri að nota til veiðiskapar, var það einnig bannað með „majestets” skipun, að verzla við annan kaupmann, en þann, sem staðsettur var í manns eigin „Krummavík”.

Hlöðunes

Tóftir Hlöðversness.

Gerðust margir brotlegir, meðal annarra bláfátækur bóndi á hjáleigu frá Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd, sem hét Hólmfastur Guðmundsson. Fór með 13 fiska til kaupmannsins í Keflavík að auki 2 knippi af hertum sundmögum og lagði þar inn, þegar honum bar að Guðs og manna lögum og hans hátign ar Danakóngs, að leggja þetta allt inn hjá Knúti Stormi, kaupmanni í Hafnarfirði. Fyrir þetta var Hólmfastur dæmdur til að kaghýðast á Kálfatjarnarþingi, 27. júlí 1699. Með því að áðurnefndur Stormur vildi ekki taka skektu hans upp í sektina. Þótt Hólmfastur fengi nokkru síðar bæði uppreisn æru og skaðabætur, hefur Laxness gert hann ódauðlegan og komið honum inn í ísl. bókmenntir sem samfanga Jóns Hreggviðssonar í dýflissunni á Bessastöðum og segir nú frá því.

Hlöðunes

Brunnur við Halldórsstaði.

Jón Hreggviðsson hafði spurt Hólmfast: „Var þér ekki útlátalaust að leggja fiskana inn í því umdæmi þar sem þér er skipað að verzla af mínum allra náðugasta herra?”
„Og þetta átti að koma fyrir mig, Hólmfast Guðmundsson.”

„Þú hefðir betur hengt þig í spottanum,” sagði Jón Hreggviðsson. „Hvenær hefur heyrzt í fornum bókum, að danskir hafi dæmt til hýðingar mann með mínu nafni í landi hans sjálfs hér á Íslandi?”
„Það er heiður að vera höggvinn. Jafnvel lítill karl verður maður af því að vera höggvinn. Lítill karl getur farið með vísu um leið og hann er leiddur undir öxina. Aftur á móti verður hver maður lítill á því að vera hýddur,” sagði Hólmfastur.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir – tóftir.

En því minnumst við á Hólmfast hér, að meðal mannanna, sem dæmdu hann vegna þessa „glæps”, sem við góðu heilli í dag, gætum sett tvö upphrópunarmerki við, sem háðsmerki, vegna þess, að við í dag búum við frjálsa verzlun, — voru einmitt tveir menn frá þessu Narfakoti, sem við okkur blasir í suðvestri, þeir Bjarni og Brynjólfur Þórólfsson, sem þá bjuggu þar.

Og nú látum við gamla sögu lönd og leið, göngum framhjá gömlum hvalbeinum, sem áður voru notuð fyrir hlunna og beint niður í fjöruna hjá vitanum.

Gerðistangi

Gerðistangi – minjar.

Á vegi okkar verða gamlar verbúðir, hlaðnar úr hraungrýti, bátur liggur ofarlega í landi, og við hugsum með okkur,: „Það er ekki hægt að setja hann út, nema á flóði.” Raunin varð önnur, þetta reyndist hin ákjósanlegasta vör sunnan við Gerðistangann. Einkennilegt var smágert þangið, þegar komið var fram undir sjó. Við þekktum það ekki, en fallegt var þar álitum. Einstakur æðarbliki styggðist og flaug á braut. Annars urðum við ekki vör við fugla. Skorkvikindi skriðu að venju undir þarabrúski, en það hæfir ekki þessari miklu strönd að minnast á slík kvikindi.

Hlöðunes

Hlöðversleiði. Narfakot í baksýn.

Þarna á ströndinni er margt að sjá, bæði lifandi og dautt. Vel má vera, að það vindi á þessari strönd, en samt sem áður held ég, að hún geymi í fórum sínum svo mikla fjársjóði, að erfitt reynist að gera þá upp. Fjöruferð meðfram þessari úfnu strönd, meðfram skerjunum, meðfram vörunum, er að minnsta kosti þeirra peninga virði, sem maður verður að greiða samvizku sama manninum í tollskýlinu við Straum, þegar aftur er haldið heim. Ég lofa þvi, að ég skal síðar skrifa meir og betur um Vatnsleysuströnd, og áður en mig varði, rann bíllinn inn í óða umferðina á Hafnarfjarðarveginum, þar sem vegir liggja til allra átta og flestra óþekktra, en ég vona samt heim til mín. – Fr.S.”

Heimild:
-Morgunblaðið, Fr.S.; Úti á víðavangi, 255. tölublað (08.11.1970), bls. 6.

Hlöðunes

Tóftir Bjarghóls v.m. Atlagerðistangi h.m. “Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði.” Klöpp var einnig afbýli sem fór í eyði fyrir aldamótin 1900. Jörðin einnig nefnd Hlöðversnes. Þar var tvíbýli og seinni bærinn nefndur Hlöðversneskot, Gilsbakki og Vesturkot.