Við sjóinn neðan við Bæjarsker við Sandgerði er klettarhöfði. Nefnist hann Kirkjuklettur. Höfðinn er gróinn í kollinn, en sjórin hefur smám saman verið að fletta ofan af honum. Undir má sjá móta fyrir hleðslum. Skammt ofan við höfðann eru allheilar leifar hlaðinna sjóbúða. ástæðan fyrir staðsetningunni er sú að vestan við Kirkjuklett var gamla Bæjarskersvörin, sbr. lýsingu Magnúsar Þórarinssonar:
„Þá byrjar Bæjarskersfjara: á henni eru: Kirkjuklettur, þar er talið að bænhúsið hafi staðið, fremur lágur, grasi vaxinn kletthöfði, laus neðan við túnið og norðan við vörina. Þar út af er Guðnasteinn, sem er sker skammt frá landi, sunnan við leiðina; gengur brotið af honum alla leið upp á Helluna. Stóra Gvendarsker er spöl frá landi, norðan við leiðina, en norður af því og aðeins grynnra er litla Gvendarsker. Tvö smásker eru sitt hvoru megin við vararmynnið, þau heita Vararsker. Norður af Kirkjukletti er Fiskaklettur, einstakur á sandinum. Svo eru Landskerin (þau heita svo) þar norðar og utar, en utan við Landskerin er Selningasker. Norðvestur af Selningaskeri er stóri Svartiklettur, og Svartaklettshaus þar út af.
Norður af Svartakletti er skerjaklasi, sem heitir einu nafni Sveinstangar, þeir eru sunnan og innan við Músasund. Svo er litli Svartiklettur landmegin við Sveinstangaskerin. Enn er ótalin Stóra-Jórukleif upp af litla Svartakletti, hún er föst við land. Sunnan við Músasund er grynnsli, sem brýtur á í brimi; heitir það Golmagi. Kringlóttasker er í suðurmynni Músasunds og næstum lokar sundinu. Stóra-Búðarsker er í miðju Músasundi nyrzt. Það er lítið ummáls, en hátt nokkuð og hnöttótt að lögum.“
Heimild:
-Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Melaberg“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, 1960, bls. 123-128.