Bautasteinar eru ekki margir hér á landi. Til forna þótti þó tilhlýðanlegt að reisa höfðingjum slík minnismerki að þeim látnum.
Bautasteinar voru einnig notaðir sem leiðarmerki og gegndu sama hlutverki og vörður hér á landi, eða til minningar um tiltekinn atburð. Legsteinar hafa og verðir gerðir sem bautasteinar. Þá er það jafnan haft fyrir sið að tala um að einhver reisi sér eða öðrum bautastein þegar hann fer af stað með tiltekna framkvæmd, þ.e. að framkvæmdin eigi að verða honum til merkisminnis.
Orðið BAUTA er samstofna beatan á ensku og botzen á þýsku. Í Íslenskri Orðabók Menningarsjóðs segir að orðið „bauta“ merki að „slá“. Karlkynsorðið „bauti“ merki bautasteinn eða legsteinn. Farbauti og hylbauti eru einnig gömul líkindaorð um ráðendur. Snorri notar orðið oftar en einu sinni í Heimskringlu [bautaðarsteinn] sem steinminnismerki til forna í Svíþjóð og Danmörku, í tvennum skilningi. Í Hávamálum segir m.a.: „sjaldan bautarsteinar standa brautu nær, nema reisi niðr at nið“. Vísar það til þeirra steina er varða alfaraleiðina líkt og í Róm til forna. Þá kveður og að með sama hætti: „her skal standa steinn ‘ naer brautu;’ or, má eigi’ brautar-kuml’.“
Gamlir vegir í Svíþjóð virðast hafa verið varðaðir með slíkum „bautasteinum“, allt til þessa tíma, þótt margir hafi þeir fallið og grafist undir yfirborðið. Þúsundir eru þó enn þekktir þar í landi. Orðið „bautasteinn“ var einnig notað um minnismerki er reist voru vegna virðingar vina og vandamanna á látnum manni eða konu, hvort sem um var að ræða af eðlilegum ástæðum, í stríði, á sjó eða vegna veikinda. Í einstaka tilvikum voru þeir reistir vegna dálætist á lifandi fólki. Venjulega voru þeir þó grafsteinar. Margir voru einnig minnismerki um fólk, sem lést í fjarlægari löndum, þ.e. minnismerki sbr.; „þá skyldi brenna alla dauða menn ok reisa eptir bauta-steina, en síðan er Freyr hafði heygðr verit at Uppsölum þá görðu margir höfðingjar eigi síðr hauga en bautasteina. Svíar tóku lík hans ok var hann brendr við á þá er Skúta heitir, þar vóru settir bautasteinar hans.“ Sagnirnar eru frá 9. og 12. öld.
Í Heimskringlu segir m.a. um Vanlanda: „Vanlandi hét son Svegðis, er ríki tók eptir hann ok réð fyrir Uppsala auð; hann var hermaðr mikill, ok hann fór víða um lönd. Hann þá vetrvist á Finnlandi með Snjá hinum gamla, ok fékk þar dóttr hans Drífu. En at vári fór hann á brott, en Drífa var eptir, ok hét hann at koma aptr á þriggja vetra fresti; en hann kom eigi á 10 vetrum. Þá sendi Drífa eptir Huld seiðkonu, en sendi Vísbur, son þeirra Vanlanda, til Svíþjóðar. Drífa keypti at Huld seiðkonu, at hon skyldi síða Vanlanda til Finnlands, eða deyða hann at öðrum kosti. En er seiðr var framiðr, þá var Vanlandi at Uppsölum; þá gerði hann fúsan at fara til Finnlands, en vinir hans ok ráðamenn bönnuðu honum, ok sögðu at vera mundi fjölkyngi Finna í farfýsi hans. Þá gerðist honum svefnhöfugt, ok lagðist hann till svefns. En er hann hafði lítt sofnat, kallaði hann ok sagði, at mara trað hann. Menn hans fóru til ok vildu hjálpa honum; en er þeir tóku uppi til höfuðsins, þá trað hon fótleggina, svá at nær brotnuðu; þá tóku þeir til fótanna, þá kafði hon höfuðit, svá at þar dó hann. Svíar tóku lík hans, ok var hann brendr við á þá er Skúta heitir. Þar váru settir bautasteinar hans.“
Þá er getið um bautasteina í kaflanum um dauða Dómars: „Dómarr hét sonr Dómalda, er þar næst réð ríki; hann réð lengi fyrir löndum, ok var þá góð árferð ok friðr um hans daga. Frá honum er ekki sagt annat, en hann varð sóttdauðr at Uppsölum, ok var fœrðr á Fyrisvöllu ok brendr þar á árbakkanum, ok eru þar bautasteinar hans.“ Hér má sjá að karlmannsnafnið „Ómar“ hefur verið þekkt í norrænu fyrrum.
Engir bautasteinar eru þekktir á Íslandi frá þessum tíma. Rúnasteinar hafa fundist, sem gerðir voru sem minnismerki um látið fólk, s.s. rúnasteinninn við fornmannagröfina í Garði.
Bautasteinar sem slíkir eru þó ekki með öllu óþekktir hér á landi. Steinninn sem stendur við hlið altarisins í Hvalsneskirkju er áhrifameiri en flestir þeirra. Þessi steinn fannst hulinn moldu fyrir framan kirkjudyrnar fyrir mörgum árum. Á hann er meitlað hrjúfu letri nafn, Steinunn. Við vitum hver það er, og við vitum hver ritaði það í steininn. Hún var dóttir prestsins og trúarskáldsins, Hallgríms Péturssonar, og dó á fjórða aldursári, mikill harmdauði. Hún var augasteinninn hans og eftirlæti.
Þann 16. júní 1935 var Hákon Bjarnason þáverandi skógræktarstjóri í reiðtúr ofan Elliðavatns í þeim erindum að skoða þar kjarrleifar og gróður er leyndust milli hrauna og meðfram Hjöllunum. Eftir þessa ferð kom Hákon fram með hugmynd um friðland og útivistarsvæði fyrir borgarbúa og verndun kjarrleifa á þessu svæði. Upp úr þessu tóku að þróast í einstökum atriðum hugmyndir um útivistarsvæði Reykvíkinga austan og sunnan Elliðavatns.
Árið 1946 var Skógræktarfélag Íslands gert að landsambandi skógræktarmanna og var þá stofnað nýtt félag, Skógræktarfélag Reykjavíkur sem tók það við ýmsu sem Skógræktarfélag Íslands hafði unnið að, þar með talið hugmyndinni að stofnun Heiðmerkur. Hefur félagið síðan haft umsjón með og annast framkvæmdir á svæðinu samkvæmt samningi sem gerður var við bæjarstjórn Reykjavíkur þann 3. mars 1949.
Fyrsta gróðursetningin fór fram árið 1949 en þá fóru nokkrir starfsmenn félagsins á hestum með plöntur og verkfæri og gróðursettu um 5000 plöntur. Voru það, skógarfura, rauðgreni og sitkagreni og nefnist þessi lundur Undanfari.
Sama ár var lokið við að girða 1350 hektara. Nú var verkið svo vel á veg komið að tímabært var að vígja það formlega. Það gerði þáverandi borgarstjóri, Gunnar Thoroddsen á vígsluhátíð sem haldin var sunnudaginn 25. júní 1950, með því að gróðursetja sitkagreniplöntu á svokallaðri Vígsluflöt.
Í Heiðmörk hafa verið reistir a.m.k. þrír bautasteinar. Einn var reistur til minningar um Hákon Bjarnason, skógræktarstjóra 1935-1977. Á steininn er letrað, auk nafns og ártala; „Hann gaf landi sínu nýjan gróður“. Annan stein reistu skógræktarmenn til minningar um Guðmund Marteinsson, verkfræðing, formann Skógræktarfélags Reykjavíkur frá 1946 til 1979. Á þriðja steininum stendur: „Þennan stein reistu skógræktarmenn og hestamenn 1971 til minningar um Einar G. E. Sæmundssen“. Líkt og flest annað í Heiðmörkinni eru bautasteinar þessir faldir í trjágróðri.