Tag Archive for: Bergvötn

Keflavíkurberg

Sturlaugur Björnsson er bæði áhugasamur og margfróður um hinar merkilegstu minjar í núverandi Reykjanesbæ. Hann tók á móti hópnum í Keflavík.

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Var þegar haldið að Keflavíkurborg, fjárborg (fjárrétt) norðan bæjarins, skammt ofan við Grófina. Borgin er á klapparhól. Við hana hefur verið settur landmælingastöpull. Austan borgarinnar liggur Stafnesvegur. Sést hann mjög vel þar sem hann liðast áleiðis upp á heiðina.

Keflavík

Brunnur ofan Stekkjarhamars.

Þá var haldið að Helguvík. M.a. var letrið, HPP (Hans P. Petersen), á klettunum vestan víkurinnar barið augum. Sturlaugur lýsti tilurð þess og leiddi hópinn síðan um Keflavíkurbjargið upp frá Grófinni.

Þar var komið við í Stekkjarlág, gömlum samkomustað Keflvíkinga. Í þá daga voru nefnilega til alvöru Keflvíkingar. Við Stekkjarlág benti Sturlaugur á ræðustól gerður af náttúrunnar hendi, sté í hann og hélt stutta tölu um það markverðasta á svæðinu; lýsti m.a. tóft, sem þarna er (væntanlega stekkur) og leiddi hópinn síðan að Drykkjarskálinni, gerði krossmark yfir og bauð fólki að drekka.

Keflavík

Stekkur í Stekkjarlág undir Stekkjarhamri.

Um er að ræða stóran grágrýtisstein með skál ofan í. Í henni var ávallt tilbúið tært vatnið til handa þeim, sem áttu leið um bjargið á leiðinni milli Leiru og Víkur. Neðar er klettanef, mörk Keflavíkurbjargs og Hólmsbergs.

Þá fór Sturlaugur með hópinn að Brunninum, ferköntuðum steinbrunni ofan við bjargið. Sagði hann þá trú hafa verið á brunninum að í honum myndi vatn aldrei þrjóta. Í kringum brunninn eru smátjarnir.

Keflavík

Drykkjarsteinn ofan Keflavíkurbjargs.

Haldið var að Berghólsborg og hún skoðuð. Um er að ræða heillega og stóra borg á Hólmsbergi skammt sunnan Leiru. Sunnan hennar átti að vera rétt, sem enn sér móta fyrir. Gengið var yfir að Bergvötnum (Leirutjörnum) því þar átti að vera sel sunnan við vötnin. Erfitt var að átta sig á hvar það gæti nákvæmlega verið, en þarna eru hleðslur á nokkrum stöðum, sennilega stekkir eða kvíar. Selið sjálft átti að vera á bjarginu neðan við vötnin. Þarna er vel gróið og greinilegt að vötnin og nágrenni hafa verið vinsæl til beitar. Leita þarf betur við þau að þessu seli.
Sturlaugur komst að þessu sinni einungis yfir hluta þess, sem markvert þykir í Reykjanesbæ. Framundan er ferð með honum að Ásarétt á Háaleiti, um Háaleitið og að Nónvörðu.

Sturlaugur Björnsson

Sturlaugur Björnsson.