Tag Archive for: Bíldfellssel

Bíldfellssel

Leitar var leifa Bíldfellssels. Leitin var sérstaklega áhugaverð af tveimur ástæðum; í fyrsta lagi er ekki getið um selstöðu frá Bíldsfelli í Jarðabókinni 1703, en á móti kemur að örnefnin „Selhlíð“ og „Seljamýri“ eru til í suðvestanverðu fellinu og neðan þess.
Bildfellssel-501Jafnan, þar sem „sel“-örnefni koma fram í heimildum, má ætla að örnefnið hafi orðið til vegna selstöðu þar eða í námunda. Við leit FERLIRs neðan Selhlíðar fundust líka fornar tóftir, nánast jarðlægar, er ætla megi að kunni að hafa verið selstaða frá Bíldsfelli til forna.
Ögmundur Sigurðsson gerði örnefnalýsingu fyrir Bíldsfell árið 1921. Í henni má m.a.lesa eftirfarandi:
„Þessarar jarðar er fyrst getið í Landnámu, er þar sagt: „Þorgrímur Bíldur nam lönd öll fyrir ofan Þverá og bjó að Bíldsfelli. Leysingi hans var Steinröður, son Malpatrix af Írlandi. Hann eignaðist öll Vatnslönd.“
Þetta mun hafa gerzt nálægt miðri landnámsöld, eða nálægt 900. Þorgrímur Bíldur var bróðir Önunds Bílds, þess er nam land ofan til í Flóa, og bjó í Önundarholti. Þeir bræður höfðu herjað á Írlandi, áður þeir kæmi til Íslands.
Billdsfell-502Steinröður hefir verið Íri, fyrst þræll, og síðan leysingi Þorgríms Bílds. Hann virðist hafa verið af góðum ættum og vel mannaður. Þorgrímur gaf honum frelsi og gifti honum dóttur sína, „hann eignaðist öll Vatnslönd.“
Þá er þetta gjörðist var ekki til nafnið Grafningur, en löndin meðfram Þingvallavatni, sem þá hét Ölfusvatn, og Úlfljótsvatni nefndust Vatnslönd, þar sem nú eru lönd Ölvisvatns, Villingavatns og Úlfljótsvatns.
En nú vita menn eigi, hvar bær Steinröðar, Steinröðarstaðir, hafi staðið. Nokkrir ætla, að það hafi verið í Vatnsbrekku í Nesjalandi. Þar kvað votta fyrir rústum miklum, mjög gömlum, en eigi er hægt að segja um það með vissu.
Billdsfell-503Þverá er sama áin, sem nú nefnist Tunguá, er skilur lönd Tungu og Torfastaða. Hefir þá Bíldsfellsland náð frá Tunguá að Vatnslöndum, þ.e. Úlfljótsvatnslandi. Tunga hefir síðar byggzt.
Eigi er hægt að vita, hvort ættingjar Þorgríms Bílds héldu óðali sínu langt eða skammt, en hins má geta, að þeir bræður, Önundur og Þorgrímur Bíldur, urðu kynsælir menn.
Það líða þessu næst 300 ár, að Bíldsfells er hvergi getið í handritum. Á þrettándu öld, eða árið 1220, ritar Magnús biskup Gissursson máldaga kirkjunnar á Bíldsfelli. Hefir hann eflaust gert það á eftirlitsferð (visitatio). Máldaginn hljóðar svo:
„Kirkja að Bíldsfelli er helguð Maríu drottningu, Pétri postula, Nicolas biskupi. Kirkja á X hundr. í landi, klukkur II, altarisklæði II, tjöld um sönghús og eldbera.“ Magnús Gissursson var biskup í Skálholti frá 1216-1236, ágætur höfðingi, af ætt Haukdæla.

Billdsfell-504

Næst, þá er Bíldsfells er getið, er það 177 árum síðar, eða árið 1397. Það er enn máldagi kirkjunnar, sem til er frá þeim tíma, eftir Vilchin biskup (Vilchinsmáldagar). Hann var biskup í Skálholti 1394-1406. Lét hann rita máldaga allra kirkna í biskupsdæminu, og þykja þeir merkilegir.
Ennþá líður langur tími, þangað til getið er um Bíldsfell. Það er eigi fyrri en eftir 1700, að Árni Magnússon og Páll Vídalín fara um og meta jarðir á Íslandi. Það mun hafa verið 1706, að Árni ritaði í jarðabók sína um Bíldsfell: „Munnmæli eru, [að] hér hafi til forna kirkja verið, merki til þess eru kirkjugarðsleifar kringum fornt hússtæði, þar sem nú er enn geymsluhús ábúanda. Rök vita menn hér engin önnur til, og enginn man hér hafi tíðir veittar verið. Jarðardýrleiki óviss, því jörðin tíundast engum.
Í örnefnalýsingu fyrir Bíldsfell segir m.a.: „N
eðst í Hlíðinni, upp af Grjótunum, er Bláimelur, en Breiðabrekka upp af honum. Innst á Hlíðinni, næst Fjallaskarði, eru Miðaftanshnúkar. En þar sem Hlíðin er hæst heitir Háþúfa, og niður af henni Háþúfubrekkur.

Billdsfell-506

Uppi á háhlíðinni eru Háþúfutorfur. Vestan til, spölkorn vestar en Háþúfa, er Háaberg, og brekkan vestan undir því heitir Háabergsbrekka. Niður af henni, meðfram ánni, er Seljamýri.“
Og að lokum skal þess getið að Ögmundur mælti svo fyrir, að þessi litla bók (örnefnalýsingin) fylgdi Bíldsfelli, þó eigendaskipti verði á jörðinni, og sé jafnan í vörzlum þess búanda, sem býr á Bíldsfelli.
Efst í nefndri Seljamýri mótar fyrir tóftum. Þær eru að vísu orðnar jarðlægar í þýfi og mosa, en enn má sjá rými. Þarna er greinilega um mjög fornar mannvistarleifar að ræða, áður óþekktar, sem ástæða væri til að rannsaka. Mjög líklega hefur selstaða þessi verið orðin gleymd þegar gerð Jarðabókarinnar var undirbúin á síðari hluta 17. aldar.  

Heimild:
-Ögmundur Sigurðsson, Hafnarfirði 10. júlí 1921 – örnefnalýsing, ÖÍ.

Bíldsfell

Bíldsfelll séð til norðausturs.