Tag Archive for: Bjarnagjá

Hjálmagjá

Í skráningu „Menningarminja í Grindavíkurkaupstað“ árið 2001 er getið um helstu nafngreindar gjár miðsvæðis í bænum og nágrenni, þ.e. í Járngerðarstaðahverfi.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir.

125 hdr. 1847, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. „Selstöðu hefur jörðin og brúkar þar sem heitir Baðsvellir…Hjáleigur: Vallarhús, Lambhús, Kvíhús, Hrafnshús, Akurhús, Gjáhús, Krosshús, Garðhús, Hlaðhús.
Búðir til forna: Gullekra (tómthús), Krubba (tómthús) og Litlu Gjáhús.“ JÁM III, 15. 1803: Hjáleiga: Nyrðra Garðshorn, 1847: Hjáleigur eru: Kvíhús, Rafnshús, Akurhús, Krosshús, Hóll, Lángi, Gjáhús, Garðhús og Vallhús. JJ, 84. Stundum talað um Járngerðarstaðahverfi.
1703: „Heimræði er árið um kríng og lendíng í betra lagi…Engjar öngvar.“JÁM III, 16. „Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eins og önnur býli hér.“

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – garðhlið.

1840: „Eigi er fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt.- Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sgr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. – Bæði í túninu og utantúns eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka væri og rækt við höfð.

Grindavík

Grindavík – Silfra.

Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóttir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins og líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóttum.“

Silfra – þjóðsaga
„…og haldið er til heiðarinnar. Skammt fyrir ofan þorpið er gjáin Silfra.“, segir í örnefnaskrá AG. „Er sagt, að í henni sé fólgin kista full af silfurpeningum.“

Í öllum upptöldum gjám og svo í dalnum og Vatnsstæði var fram um aldamót töluvert af ál, en heldur var hann smár, stærstur í Silfru. Þó var hún lengst frá sjó. Þó var ég ekki viss um Stamphólsgjá, að áll væri þar. Um álaveiðar okkar strákanna á ég uppskrifað.

Grindavík

Nautagjá; „Hún er í útjaðri á túninu Drumbar og kemur þar í stað girðingar. Allt vatn í þvotta og handa kúm var tekið úr Nautagjá, og þar voru líka þvottar þvegnir… Kýr voru fjarska oft reknar til vatns í Nautagjá á vetrum, ef gott var, og þannig látnar bera vatnið sjálfar. Þessi vegalengd mun hafa
verið nær eitt hundrað faðmar eftir túninu og gæti hugsazt, að nafn gjárinnar væri frá þessu komið í fyrstunni, að nautpeningur var þar oft við drykk.“ Magnúsargjá er framhald Nautagjár, nær Vatnsstæðinu.

Allar gjár stefna eins, frá norðaustri til suðvesturs. Í raun og veru má rekja þessa gjá alla leið ofan úr Hópsheiði og gegn um allt: Krosshúsagjá, Gjáhúsagjá, Vallarhúsagjá og Flúðagjá, þetta er allt í sömu stefnu, þó höft séu heil á milli og endar út í sjó vestast á Flúðum.

Nautagjá
„Nautagjá. Hún er í útjaðri á túninu Drumbar og kemur þar í stað girðingar á svo sem 20 faðma lengd.“, segir í athugasemdum við örnefnaskrá.
„Allt vatn í þvotta og handa kúm var tekið úr Nautagjá, og þar voru líka þvottar þvegnir…Kýr voru fjarska oft reknar til vatns í Nautagjá á vetrum, ef gott var, og þannig látnar bera vatnið sjálfar. þessi vegalengd mun hafa verið nær eitt hundrað faðmar eftir túninu Drumbar, og gæti hugsazt, að nafn gjárinnar væri frá þessu komið í fyrstunni, að nautpeningur var þar oft við drykk.“

Nautagjá er í útjaðri á túninu Drumbar og kemur þar í stað girðingar á svo sem 20 faðma lengd. Ekki er hún breið, en þó stökkva hvorki menn né skepnur yfir hana. Öll talin er hún ekki lengri en 40-50 faðmar, og í hanni [svo] er hylur á einum stað nærri norðurenda. Hylji köllum við þar, sem ekki sést í botn, en þeir eru mjög misdjúpir. Í hana kemur Ræsirinn, það er rás úr Vatnsstæðinu. Stundum kom fyrir, að skepnur syntu þar inn á túnið, þegar þær sáu þar grængresið fyrir innan, en úthagar voru litlir.

Magnúsargjá – þvottastaður

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ eftir Guðjóni í Vík.

„Magnúsargjá var í raun og veru sama sprungan [og Nautagjá]. Hún var í sömu stefnu og svo sem 15 faðmar á milli endanna.“, segir í athugasemdir við örnefnaskrá.
„Allt vatn í þvotta og handa kúm var tekið úr Nautagjá, og þar voru líka þvottar þvegnir, en ull í Magnúsargjá.“
Magnúsargjá var í raun og veru sama sprungan. Hún var í sömu stefnu og svo sem 15 faðmar á milli endanna. (Allar gjár stefna frá norðaustri til suðvesturs.) Á þeirri leið var þó opin „gjóta“ með vatni í; þó var hún nafnlaus. Magnúsargjá var öll fremur grunn. Þar var enginn hylur, og á einum stað mátti stökkva yfir hana. Þar var hún svo sem einn og hálfur metri. Ég tel, að þessar gjár báðar hafi verið svo sem eitt hundrað og þrjátíu faðmar enda á milli, að meðtöldum þeim föðmum, sem á milli þeirra voru.

Kettlingapyttur (Kattargjá)

Grindavík

Grindavík – gjár.

Kettlingapyttur var þarna svo sem fimmtán faðma vestur af Magnúsargjá. Þar voru nokkrar gjótur með vatni í, og sú stærsta og dýpsta var Kettlingapyttur. Það nafn kom af því, að þar var öllum kettlingum drekkt. Pytturinn var vel djúpur. Oft voru þessi litlu dýr, blind, nýfædd, sett í lítinn poka og svo bundinn stór steinn við. Það þótti hreinlega gengið að verki þá. En aldrei var hvolpum drekkt þarna. Þeim var oftast drekkt í sjó, í Litlubótarpyttinn. Ekki vissi ég, hvernig á því stóð, en svona var þetta, þegar eg var að alast upp um aldamótin 1900, og varð ég stundum að framkvæma þetta eins og hvað annað, sem þurfti að gera. Þó fannst mér það alltaf óskemmtilegt.

Stamphólsgjá

Grindavík

Grindavík – Stamhólsgjá; loftmynd 1954.

„Beint vestur af bænum Hópi austan við veginn er hraunhóll, sem heitir Stamphóll, og gjá inn með hrauninu á Járngerðarstöðum, austur með veginum, heitir Stamphólsgjá. Austar er Gjáhólsgjá…Austan við [Gjáhóls]gjána er Gjáhóll…Þar austur af er stór hóll, sem heitir Langhóll. Álfarnir sem þar bjuggu, sóttu kirkju í Álfakirkjuna…“, segir í örnefnaskrá AG.

Bjarnagjá

„Fyrir vestan Markhól er Hvalvík… Vestan Hvalvíkurkletta er Jónsbás, u.þ.b. 80 m breiður… Vestan Jónsbáss er hár malarkampur, sem kallaður er Stekkjartúnskampur.“, segir í örnefnaskrá.
„Tóftabrunnur er fast vestan við gamla veginn, vestan við Bjarnagjá. Þá er Stekkjartúnsbarð og vestan við það Stekkjartún, sem er upp af Jónsbás og Stekkjartúnskampi…

Grindavík

Grindavík – Bjarnagjá.

Ofan við Stekkjartún er Stakibrunnur.“, segir í örnefnaskrá.

Baðstofa

„Norðaustur af Tóftatúni er Baðstofa, mikil gjá 18 faðma djúp, þar af er dýpt vatnsins í botni hennar 9 faðmar.“, segir í örnefnaskrá. „

Húsatóftir

Grindavík – Baðstofa.

Í Baðstofu var oft sótt vatn, er brunnar spilltust í stórflóðum. Þótti vatn þar mjög gott. Svo sagði Lárus Pálsson hómópati, að hann tæki hvergi vatn í meðul annars staðar en í Baðstofu. Sögn er um, að Staðarprestar hafi
fengið að sækja vatn í Baðsofu gegn því, að Húsatóftarbændur fengju að taka söl í landi Staðar.“, segir í örnefnaskrá.

Klifgjá
„Gamli vegurinn frá Grindavík liggur austan við túnið á Húsatóftum, og liggur hann um Klifgjá vestast í jaðri hennar. Þar er svokallað Klif snarbratt niður í gjána. Er það hálfgert einstigi og illt yfirferðar með klyfjahesta.“, segir í örnefnaskrá.
„Syðsti vegurinn, sem bæði kallast Staðar- og Tóttavegur, liggur til norðurs, mjög krókótt, fyrir sunnan Þórðarfell, en þó fram með því að norðanverðu, milli þess og Súlna og Stapafells, og kemur á Járngerðarstaðaveginn á landamerkjum Njarð- og Grindvíkinga, fyrir norðan Stapafell, efst í svonefndri Njarðvíkurheiði.“, segir í sóknarlýsingu.

Hjálmagjá

Húsatóftir

Húsatóftir – örnefni og minjar; ÓSÁ.

„Vestast (efst) í túni Húsatófta byrjar gjá, grasi gróin í botninn…Gjá þessi heitir Hjálmagjá.“, segir í örnefnaskrá. „Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsta með dýrlegum ljóshjálmum, sem báru mjög af lýsiskollum í mannheimi…Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika þar listir sínar á skautum í tunglsljósinu [þ.e.a.s. í lægð í Húsatóftatúni sem kallaðist Dans og þar mynduðust góð svell í frosthörkum á vetrum].“, segir í örnefnaskrá.

Draugagjá

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

„Sandgjá, svört og dimm. liggur þvert yfir Hvirflana [á merkjum Staðar og Húsatófta]. Hún er kölluð Draugagjá. Nú er hún orðin nær full af sandi.“ segir í örnefnalýsingu.

Gjár og sprungur hafa verið þekktar í Grindavík frá því búseta hófst þar, enda eru þær um 2000 ára eða eldri samkvæmt rannsóknum. Mest er um þær vestantil í bænum og suðvestast (í Járngerðarstaðahverfi). Þekktust er líklega Stamphólsgjáin og gjárnar Silfra, Magnúsargjá og Nautagjá. Merki um Hópssprungu og Strandhólssprungu voru líka þekkt í
norðanverðum bænum fyrir 10. nóvember. Samfara uppbyggingu bæjarins hefur verið fyllt upp í gjár og sprungur og í sumum tilfellum byggt ofan á þeim.

Heimildir:
-Menningarminjar í Grindavíkurkaupstað, Svæðisskráning, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2001.
-https://www.almannavarnir.is/wp-content/uploads/2025/03/Jardkonnun-Grindavik-Lokaskyrsla-ID-456140.pdf
-Járngerðarstaðir – Athugasemdir skráðar af Sæmundi Tómassyni, er hann hafði lesið yfir endurskoðaða örnefnaskrá Járngerðarstaða.

Grindavík

Grindavík – Vatnsstæðið; gjár (loftmynd frá 1954).