Tag Archive for: Bleikdalur

Sel í Bleikdal

Í Blikdal (Bleikdal) eiga að vera leifar selja frá Brautarholti, Saurbæ, Borg, Hjarðarnesi, Nesi, Mýrarholti, Ártúni og Hofi, s.s. Hofselin gömlu. Ætlunin var að reyna að finna og skoða selleifarnar í Blikdal. Blikdalur er um 7 km langur svo gangan var a.m.k. 14 km.

 Blikdalur

Selin í Blikdal eru í landnámi Ingólfs – þess fyrsta norræna manns er nam land hér á landi til lífsframbúðar. Í 8. kafla Sturlubókar afskriftar Landnámu segir að „Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út.“

Jarðabók Árna og Páls segir að Brautarholt (kirkjustaður) hafi haft „selstöðu og beitiland á kirkjan á Blikdal og liggur það til jarðarinnar, tekur nú mjög af sjer að gánga af skriðum og vatnsgángi. Haglaust er að mestu á jörðunni bæði sumar og vetur.“
Um Ártún (kirkjujörð frá Saurbæ) segir: „Selstöðu og beit hefur jörðin frí á Bleikdal um sumar og vetur í Saurbæjarlandi.“
 BlikdalurOg um Saurbæ (kirkjustaður): „Fjárupprekstur, hestagöngu og selstöðu hefur jörðin í sínu eigin landi, þar sem heitir Blikdalur.“
Hjarðarnes (kirkjujörð frá Saurbæ) er nefnt: „Fjárupprekstur hefur jörðin frí á Blikdal í Saurbæjarlandi. Item selstöðu frí ibidem.“
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er einnig vikið að beitilandi og
selstöðum fleiri jarða á Blikdal.
Um Hof segir: „Selstaða segja menn að hjeðan hafi brúkuð verið á Blikdal, þar sem heita Hofsel gömlu, hvort frí eða fyrir toll nokkurn til Brautarholts vita menn ekki.“
Borg (kirkjujörð frá Brautarholti): „Selstöðu á jörðin frí í Blikdal þar sem er Brautarholts kirkjuland.
 BlikdalurUm Nes, eina af hjáleigum Brautarholts segir Jarðabókin: „Selstöðu hefur jörðin brúkað frí í Blikdal þar sem er Brautarholtskirkjuland.“
Mýrarholt, kirkjujörð frá Brautarholti, hefur samkvæmt Jarðabókinni eftirfarandi selstöðu: „Selstöðu má jörðin hafa með frjálsu í Brautarholtskirkjulandi í Blikdal.“
Samkvæmt framangreindum  heimildum eiga að hafa verið allt að átta selstöður í Blikdal. Hvort þær hafi allar verið í sama selinu eða víðar í dalnum átti eftir að koma í ljós.

Blikdalur

Seltóft í Blikdal.

Í greinargerð Þjóðskjalasafns segir að til íhugunar sé varðandi jarðir í Kjalarneshreppi að samkvæmt Jarðabók Árna og Páls átti konungur eða hafði átt allar jarðir í hreppnum innanverðum, þ.e. Þerney, Álfsnes, Fitjakot, Varmadal, Stardal, Hrafnhóla, Þverárkot, Gröf (Norðurgröf), Velli, Kollafjörð, Mógilsá, Esjuberg, Móa, Saltvík og Skrauthóla. Einn einstaklingur var eigandi að Brautarholti og Bakka og hafði þá yfirráð yfir jörðum Brautarholtskirkju, Borg og Mýrarholti, og átti einnig hluta úr Hofi og Lykkju.
Í landamerkjabréfi jarðanna frá 1922 er merkjum í Blikdal lýst þannig að þau liggi eftir beinni stefna í Strítu á fjallsbrún og „þaðan sem vötnum hallar suður fram í Bleikdalsbotn, og síðan þaðan eins og Bleikdalsá ræður í sjó niður.“

Blikdalur

Blikdalur.

Blikdalur [Bleikdalur] er nefndur í máldaga Saurbæjarkirkju frá því um 1220. Þar segir: „Bru scal hallda a blic dals a. þar milli fialls oc fioru. ær sa vill sem j saurbæ byr.“ Sömu upplýsingar koma fram í Vilchinsmáldaga frá 1397. Fjallað er um eignarrétt Brautarholtskirkju á Blikdal samkvæmt máldögum og visitasíum undir Brautarholti hér að framan.
Skúli Magnússon segir í Lýsingu Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem samin var á
árunum 1782 – 1784 um Blikdal: „Undir síðast greindar jarðir [þ.e. Brautarholt og Saurbæ] liggur dalur einn, Bleikdalur að nafni. Skerst hann inn milli Esju og Esjuháls. Eru þar sel og góðir hagar.“
 Blikdals er ekki getið sérstaklega í biskupsvisitasíum í Saurbæ. Kirkja þar átti 30 hndr. í heimalandi en samkvæmt máldögum voru það jarðirnar Ártún og
Hjarðarnes.
Árið 1812 var lögð fyrir sáttanefnd ákæra Saurbæjarbónda á hendur bóndans í Arnarholti fyrir ágang hrossa á óðals- og kirkjulandi Saurbæjarkirkju. Ekki er ólíklegt
að þar hafi verið um Blikdal að ræða. Í byrjun 5. áratugar 19. aldar hafði Runólfur Þórðarson í Saurbæ kirkjulönd Saurbæjar og Brautarholts til umráða. Þessi svæði lágu í Bleikdal [Blikdal]. Þann 17. maí 1842 gaf Runólfur út viðvörun til íbúa Kjalarneshrepps þess efnis að þeir mættu ekki reka stóðhross, lömb eða annan geldan fénað þangað án hans leyfis. Í tilkynningunni, sem var þinglesin þann 1. júní 1842, minnist hann á Ártúnsrétt og nauðsyn þess að reisa nýja rétt.

Blikdalur

Blikdalur innanverður.

Í tilkynningu sem ábúandinn á Saurbæ undirritaði 26. maí 1850 lýsir hann því yfir að hann hafi ákveðið að banna „innan og utansveitarmönnum“ að stunda stóðhestarekstur í Blikadal. Ábúandinn telur sig hafa rétt til þessa því hann hafi Blikadal á leigu. Í tilkynningunni kemur einnig fram að gamlar stóðhryssur sem „hvergi annars staðar tolla” séu undanþegnar banninu. Tilkynningin var þinglýst 31. maí 1850.
Á manntalsþingi, sem haldið var á Esjubergi þann 8. júní árið 1860, var lesin upp tilkynning frá A. Björnssyni [í Brautarholti], Ásbirni Ásbjörnssyni [í Mýrarholti] og Runólfi Þórðarsyni [Saurbæ], sem dagsett var 31. maí sama ár, en í henni banna
þeir notkun á Bleikdal.

Þann 17. maí 1873 skrifaði umráðamaður Brautarholtskirkju undir tilkynningu þess efnis að enginn mætti reka fé á Bleikdal [Blikdal] án þess að hafa til þess leyfi frá bændunum á býlunum tveimur Mýrarholti og Brautarholti, sem höfðu einhvers konar byggingarleyfi fyrir dalnum. Yfirlýsingin var þinglesin þann 20. maí 1873.
Þann 29. maí 1890 var landamerkjabréf jarðarinnar Bakka undirritað. Það var þinglesið 3. júní sama ár. Þar er að finna upplýsingar um Blikdal: Að norðanverðu ræður Ártúnsá að Bleikdalsmynni, þaðan eru landamerki í Urðargeira, þaðan í Pollalæk en úr Pollalæk ræður garðlag sem ber í þúfu
sunnanvert við Grænhól, úr þeirri þúfu beina stefnu í Fjósgróf við sjó fram. Hér er minnst á garðlag í dalnum.
 Landamerkjabréf Saurbæjar var undirritað í maí 1890 og þinglesið 3. júní
1890. Í því er að finna upplýsingar um Blikdal: „Á Bleikdal eiga allar jarðirnar óskipta beit en slægjur þannig: að Hjarðarnesin (bæði kotin) hafa slægjur fyrir ofan götu milli Heygils og Bolagils, en Ártún fyrir neðan götu frá Selgilslæk að Heygilslæk.“ Hér er getið um Selgilslæk.
Í fasteignamatinu 1916-1918 eru með Brautarholti taldar allar hjáleigur, Andríðsey og kirkjujarðirnar Brekka, Arnarholt, Mýrarholt, Prestshús og 2.2 hundruð í Bakkaholti. Landið er talið allmikið, láglent og því fylgir hálfur Blikdalur en þar uppfrá er afrétt.

Blikdalur

Tóft í Blikdal.

Landamerkjabréf fyrir Brautarholt ásamt jörðunum Bakkaholti, Brekku, Arnarholti, Mýrarholti og Presthúsum var undirritað 31. maí 1921. Því var þinglýst 22. júní 1922. Í lok landamerkjabréfsins er að finna upplýsingar um Blikdal: „Ennfremur fylgir Brautarholti Bleikdalur allur sunnan Bleikdalsár, suður og austur á fjallsbrún eins og vötnum hallar, ennfremur Andriðsey á Hvalfirði.“
Árið 1922 var samið nýtt landamerkjabréf fyrir Saurbæ. Það var undirritað 8. maí það ár og þann 22. júní var það þinglesið. Þar er líka að finna upplýsingar um Blikdal: „Gagnvart Melalandi eru mörk frá jarðföstum steini með þúfu á við sjó, fyrir sunnan svokallaðan Markalæk, fyrir norðan Hjarðarneskot og svo þaðan beina stefnu í tvo steina báða merkta með M.K. og stendur annar þeirra í stórasandhól fyrir norðan veginn en hinn sem er stærri stendur að sunnan verðu við veginn.
 BlikdalurFrá merkjasteinum þeim er við veginn standa er bein stefna í Strítu á fjallsbrún og þaðan sem vötnum hallar suður fram í Bleikdalsbotn, og síðan þaðan eins og Bleikdalsá ræður í sjó niður. Á Bleikdal eiga allar jarðirnar óskifta beit en slæjur þannig að Hjarðarnes og Hjarðarneskot hafa slæjur fyrir ofan götu milli Heygils og Bolagils, en Ártún fyrir neðan götu frá Selgilslæk að Heygilslæk.“

Blikdalur

Blikdalur – Saurbæjarsel.

Rétt aðeins er minnst á Blikdal [Bleikdal] á nokkrum stöðum í fasteignamati árins 1932. Í umfjölluninni um afréttarland Saurbæjar er sagt að hálfur Blikdalur sé afréttarland hennar en að nyrðri hluti sé kirkjujarðarinnar. Þar kemur einnig fram að: „6 + 8 [þ.e. Hjarðarnes og Ártún] nota líka. Í kaflanum um Arnarholt kemur fram að
hálfur syðri hluti Blikdals sé upprekstrarland jarðarinnar og í umfjölluninni um
jörðina Brautarholt er nefnt að afréttarland jarðarinnar sé hálfur syðri hluti Blikdals.
Við sameiningu Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar, 3. apríl árið 1998, eignaðist borgin þann hluta Blikdals sem Kjalarneshreppur hafði keypt árið 1960.
Þann 13. september árið 2000 keypti Reykjavíkurborg hluta Saurbæjar í óskiptri sameign í Blikdal norðan Blikdalsár.

 

Margir þverlækir eru í Blikdal

Í bókinni „Upp á sigurhæðir –  Saga Matthíasar Jochumsonar“ eftir Þórunni Erlu Valdimarsdóttur er að finna eftirfarandi texta á bls 259: „Matthías segir frá því þegar Guðrún (dóttir Runólfs óðalsbónda í Saurbæ – viðbót HÓ) sendi honum úr selinu í Blikdal ber í skjólu og fáeinar línur með. Matthías nefnir ekki hvað Guðrún skrifaði, en bregst svo glaður við að hann ríður fram á dal til að þakka henni sendinguna.Sól skein „hlæjanda í heiði“ og Blikdalurinn var hinn hýrasti. Í fyrri útgáfunni að Söguköflum Matthíasar hefur allt er varðar þetta tildragelsi verið fellt niður. Þessi stund í dalnum leið í algleymi svo auðvelt er að ímynda sér hvað þau Guðrún gerðu. Eftir þetta fór samdráttur þeirra að „verða hljóðbær“.
Á bls. 260 segir ennfremur: „Annað ástarkvæði, „Daladrósin“, er skrifað í sömu stílabók og því greinilega um Guðrúnu uppi í selinu:

Hátt í dalnum, sólarsalnum,
Situr stillt og þýð,
Snotur, hýr og hnellin,
Há og grönn og smellin,
dala-drósin blíð.

Saurbæjarsel

Saurbæjarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Hún er þar innan um lömbin; ástin rís með yndisþrá í ungu brjósti hennar, en rósin hnígur og hún er ein eftir í dalnum þegar sá sem hún elskar fer frá henni….en hann kemur loks aftur úr austri. Lok þessa kvæðis er bara í stílabókinni en ekki í Ljóðmælum Matthíasar. Þar er sá sem hún elskar úti á hafi, ann henni heitt og biður fjallavindinn að færa sér koss „eldheitrar meyjar“ við „úrsvalan foss“.
Raunveruleikinn var nokkurn veginn eins og í kvæðinu nema hvað hann varð mun svartari þegar samdráttur þeirra Matthíasar og Guðrúnar varð lýðum ljós. Dagurinn sæli í Blikdalnum er á berjatíma haustið 1872 en barn þeirra fæðist í janúar 1874. Samband þeirra virðist því hafa staðið í marga mánuði. Það er ekki fyrr en Guðrún verður þykkari sem skelfingin vaknar.“
ÁrtúnAð sjá gerðist ýmislegt í seljum landsins þó ekki séu til margar frásagnir af lífinu þar. Það verður þó að geta þess að Matthías og Guðrún giftust sumarið 1875 eftir að Matthías hafði stungið af úr hempu og sókn frá henni óléttri haustið 1873.
Það var vel við hæfi  að rifja þetta upp við seljarústirnar í Blikdal. Efsta myndin er af seli Guðrúnar. Það er greinilega yngst af þeim 8 seljarústum, sem sjá má í dalnum. Selið er fremst fjögurra selja norðan árinnar. Fjögur sel eru sunnan hennar. Öll selin eru á tiltilölulega afmörkuðu svæði. Fremsta selið stendur efst. Það er tvískipt tóft með dyr mót vestri. Þaðan hefur verið auðvelt að fylgjast með aðkomufólki. Selsstígurinn liggur beint að tóftinni. Austan hennar er tóft, sennilega af eldra seli, sem hefur verið nokkurn tíma í notkun. Norðar er tvískiptur stekkur. Sjá má grjót í honum líkt og í nýrri seltóftinni.
Efsta tóftin að norðanverðu er einnig tvískipt og stakt hús við hliðina. Dæmigert sel á Reykjanesskaganum. Vestar eru Ártúnfleiri tóftir og vestan við beygju á ánni eru jarðlægar tóftir, greinilega mjög gamlar. Handan árinnar er tóftir austast í grónum hól. Á sléttlendi við ánna eru ógreinilegar tóftir ca. 25 m vestar. Skammt vestan þeirra eru tóftir tveggja selja, líkum þeim sem sjá má austast að norðanverðu, tvískipt hús með öðru við hliðina. Tóftirnar eru allar grónar en vel mótar fyrir veggjum. Selin að norðanverðu eru öll við lækjasitrur, en suðurselin eru á árbakkanum.
Það eru sem sagt leifar átta selja í Blikdal. Tækifærið var notað til að rissa nokkur seljanna upp. Dalurinn er gróinn að norðanverðu og auðvelt að greina svæðin þar sem selin voru. Staðsetningin er heppileg því þar sem selin eru má heita logn þegar blæs annars staðar í dalnum. 

Hofssel

Hofssel í Blikdal.

Að sögn Páls Ólafssonar, bónda í Brautarholti, var Blikdalurinn tvískiptur; Brautarholt átti suðurdalinn og Saurbær norðurdalinn. Nes, Borg og Hof tilheyrðu Brautarholtsstorfunni og Ártún, Hjarðarnes og Mýrarholt (Mýrarhús) tilheyrðu Saurbæjartorfunni. Á handrituðu örnefnakorti af norðanverðum Blikdal er getið um Selfjall, Selgil, Selgilsbolla, Sel og Ha[?]ssel.
Blikdalsáin var í leysingum líkt og að vorlagi, snjór þakti læki, en á einstaka stað mátti sjá lífsneista að vori.
Rústir Ártúns eru rétt austan við Vesturlandsveginn. Ofan þeirra má enn sjá grónar rústir hinnar gömlu Ártúnsréttar, sem nefnd er hér að ofan. Kjalnesingaréttin nýrri (Arnarhamarsréttin) er nokkru sunnar, undir lítilli klettarhæð, Arnarhamri.
Stefnt er að annarri ferð í Blikdal (Bleikdal) fljótlega. Til fróðleiks má geta þess að orðið „bleik“ þýðir „mjólk“ á gelísku.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Máldagar Saurbæjarkirkju frá 1220 og 1315.
-Landnám Ingólfs. I. bindi. Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu. Verðlaunaritgerð eftir Skúla Magnússon, landfógeta. Reykjavík 1935-1936, bl. 136.
-Upp í Sigurhæðir. Saga Matthíasar Jochumssonar eftir Þórunni Erlu Valdimarsdóttur, bls. 259.
-Jarðabók JÁM og PV 1703. III. bindi.
-Landamerkjabréf
-www.obyggðanefnd.is

Blikdalur

Blikdalur.