Tag Archive for: Bögguklettar

Afstapahraun

Gengið var til austurs upp úr Seltóu um stíg yfir Afstapahraun, að hryggjargrenjunum í Geldingahrauni, þaðan upp að Bögguklettum og Mosastígnum síðan fylgt áleiðis að Lambafelli. Áður en komið var yfir hraunið, eða öllu heldur hraunin, norðan hans, var beygt til vesturs og gengið yfir úfið Eldborgarhraunið yfir á Sóleyjarkrika.

Einir

Einir í Geldingahrauni.

Seltóan er efsta Tóan í Afstapahrauni. Neðar er Hrístóa. Tóustígur, eða Tóarstígur, gengur upp í gegnum þær. Í Seltóu eru Seltógrenin. Ekki er vitað til þess að hefðbundin selstaða hafi verið í Seltóu, en þó gæti þar hafa verið beitt frá Rauðhólsseli vestan við hraunið. Sel voru þó með ýmsu móti, s.s. kolasel og hríssel. Þannig gæti fólk hafa dvalið um tíma í Tónni til hrístöku og reitt hann síðan á hestum um stíginn er þræðir Tóurnar, Hrístóustíg og Tóustíg til norðurs.
Gengið var til austurs yfir Afstapahraunið um Seltóarstíg. Hann liggur yfir hraunið þar sem styst er að fara. Grænn einirinn var áberandi í umhverfinu. Komið var niður að sléttu mosahrauni inni í hrauninu, en eftir að hafa fylgt stígnum út úr því til norðurs um hraunhaft var fljótlega komið inn í Geldingahraun. Þar skammt austar eru Hryggjagrenin á lágum hraunhrygg í annars grónu hrauni. Fallegt og heillegt byrgi refaskyttu er þar á hryggnum, auk þess sem grenin tvö hafa verið mörkuð við opin. Skammt vestan við syðra grenið er hlaðið skeifulaga byrgi. Stígur liggur upp hraunið vestan grenjanna.

Hryggjargreni

Refaskyttubyrgi við Hryggjargrenin.

Haldið var til suðausturs og stefnan tekin á mikinn klofinn hraunhól, sem sést hafði greinilega á loftmynd. Þegar gengið var upp hraunið bar hóllinn í Dyngnahraunið neðan við Einihlíðar. Litlir hraunhólar eru beggja vegna klofans, sá að austanverðu þó sýnu stærstur þeirra. Klofinn, sem er gróin í botninn, liggur til austurs og vesturs. Allt um kring og talsverða fjarlægð er nokkuð slétt mosahraun, svonefndir Mosar.
Kletturinn hefur nafnið Bögguklettur. Klofinn er um 100 metra langur og allbreiður. Hann hefur staðið þarna nokkuð hár fyrrum, en slétta helluhraunið umhverfis hefur síðan runnið allt um kring og í gegnum klofann. Á leið sinni hefur það smurt klettaveggina beggja vegna. Þegar hraunið hjaðnaði skildi það eftir u.þ.b tveggja metra háan hraunvegg utan á klettunum. Ljóst er að hraunstraumurinn hefur komið með allnokkrum hraða að austuropinu, runnið upp á klettana, sen síðan runnið rólegar niður í gegnum klofann og klettana allt um kring.

Bögguklettar

Bögguklettar.

Bögguklettar eru bæði falleg og stórbrotin náttúrusmíð. Sú saga var sögð um nafngiftina að klettarnir hétu eftir Böggu gömlu frá Vigdísarvöllum eða öðrum bæ þar í sveit. Synir hennar tveir hafi haldið að Hvasshrauni um Mosastíg til róðra, en gleymt sjóklæðunum. Þegar það uppgötvaðist hafi móðir þeirra, Bagga, bundið þau á bak sér og haldið í humátt á eftir sonum sínum. Hún ætlaði sér þó um of á langri leið, hreppti vont veður og leitaði skjóls í klettunum, sem eru örskammt frá Mosastígnum. Við vesturenda þeirra er lítil skúti. Þar leitaði Bagga skjóls, en varð úti. Þegar hún fannst hélt hún fast um sjóklæðin því þeim skyldi þó komið til réttra eigenda, hvað svo sem um hana yrði. Hvort þarna hafi verið sagt satt skal ósagt látið.

Bögguklettar

Bögguklettar.

Frá Bögguklettum er fallegt útsýni yfir Mosana, upp á Einihlíðum þar sem má sjá hraunfossa Einihlíðabruna steypast fram af hlíðunum og þær sendnar og ljósari litum á milli. Þaðan má einnig sjá beint inn Lambafellsklofann þar sem hann ber í Dyngurnar (Grænudyngju og Trölladyngju). Þar sem staðið var við klettana varð til veðurleysa, þ.e.a. engu veðri var til að dreifa um stund. Mávahlíðarnar í suðri báru sig vel yfir umhverfið.
Haldið var upp Mosastíg, sem liggur þarna suður um hraunið með stefnu rétt austan við Lambafell og í endann á Dyngjuhálsi. Stígurinn er vel greinilegur vestan við Böggukletta, en sunnan við klettana skiptist hann og liggur hinn stígurinn norðar niður Mosana. Mosastígurinn stefnir niður að Skógarnefi og um Skógargötuna niður að Alfaraleið.

Sóleyjarkriki

Sóleyjarkriki efst. Horf frá Trölladyngju.

Í fyrstu er stígurinn á sléttu helluhrauni, en sunnar þarf að þræða úfnara apalhraun. Hann er þó vel greinilegur svo til alla leiðina í gegnum hraunið. Þarna eru nokkur hraun, hvert ofan á og utan í hverju öðru. Eldborgarhraunið er sýnu umfangsmest að vestanverðu og Dyngnahraunið að austanverðu.
Áður en komið var á stígnum út úr hrauninu að sunnanverðu var stefnan tekin til vesturs yfir úfið Eldborgarhraun og stefnan tekin á Sóleyjarkrika vestan þess.

Reynt göngufólkið var þó ekki í vandræðum með að finna greiðfærustu leiðina. Fljótlega birtist krikinn framundan, gulur og sléttur.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Frá hrauninu var áhugavert að virða fyrir sér sléttuna, Höskuldarvelli og Sóleyjarkrika, sem vatnið hefur fært úr hlíðunum vestan Trölladyngju niður á sléttlendið og myndar stærðarinnar gróna og allslétta grasflöt. Lækurinn er enn að bera með sér leir, sand og mold úr hlíðunum og heldur gróðurferð sinni áfram norður með vestanverðu Eldborgarhrauni. Þegar hærra hraunið stöðvar hann á einum stað, flytur han sig yfir að þeim næsta þar sem auðveldara er að komast áfram, því hann ætlar sér ekki að lát stöðva sig fyrr en hann kemst til sjávar. Að lokum mun hann liðast niður um Tóurnar og úr þeim niður að ströndinni við Hvassahraun, hvenær sem það svo sem verður.

Höskuldarvallavegurinn var genginn að upphafsstað. Keilir bar herðar sínar vel í vestri.
Frábært veður – logn og hlýtt. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Keilir

FERLIRsfélagar – Keilir að baki.