Tag Archive for: Bólkvos

Brandur

Guðmundur Guðmundsson, fyrrum bóndi á Ísólfsskála, gat í örnefnalýsingu sinni um Skollanef í Slögu, austan Bólkvosa. Í þeim eru Stórusteinar. Sonur hans, Ísólfur, sagði og frá Skollahrauni sunnan þess sem og Kistu. Hraunið er hluti af Höfðahrauni, sem átti uppruna í Höfða og Moshólum á 12. öld. Aðrir hlutar þess eru Leggjarbrjótshraun og Katlahraun.

Skollanef

Í Skollahrauni eru hlaðnar refagildur, sem ekki er getið í fornleifaskráningu fyrir fyrirhugaðan Suðurstrandarveg um hraunasvæðin, líkt og svo margt annað.
Ætlunin var að ganga um hraunið millum nefnsins og Hraunsness og skoða hvort þar kynnu að leynast fleiri áður óþekktar mannvistarleifar.
Mosinn var frosinn og hraunin því auðvel yfirferðar. Skammt austan við Skollanef eru tvær vörður á brunahæð og neðan þess er klettur í hrauninu, nefndur Kista.
Í örnefnalýsingu Guðmundar Guðmundssonar frá Skála segir m.a.: „Rétt innan við bæinn skagar Kistaklapparnef fram úr Slögunni, sem heitir Skollanef. Niður af henni, austur af túni, út í hrauni, er klettur, sem sker sig úr að lögun og heitir Kista.“
Þegar Ísólfur Guðmundsson, bóndi á Skála, var spurður um svæðið svaraði hann: „Skollahraun er suður af því; þar var og er enn greni. En er vitað, hvers vegna Slaga er nefnd svo? Sv.: Nei.“
Í örnefnalýsingu
Lofts Jónssonar fyrir Ísólfsskála segir: „Bjallinn er klettastallur og nær frá Hjálmarsbjalla og inn í Ból sem er undir fellinu Slögu vestast. Hæðarbunga vestan undir Slögu heitir Slögubringur. Stór klettur er þar sem Hattur heitir en er skráður á kort Grettistak.
Austan við Bólið eru smálautir sem heita Bólkvosir. Lengra austur með Slögu að sunnan, ofan við skriður, er bergstallur sem heitir Hrafnshreiður. Stórusteinar er stórgrýti sem fallið hefur hæst úr Slögu. Þar innan við er Langakvos. Upp af Löngukvos er móklettur sem kallaður er Móklettur. Fyrir austan Löngukvos er Skollanef og er nokkurs konar öxl eða klapparnef fram úr Slögu.

Innri-Stórusteinar

Skollahraun er þar suður af. Í hrauninu austan við túnið er sérstæður klettur sem heitir Kista. Hvammur austan Skollanefs með stórum steinum er Innri-Stórusteinar. Austan og uppi á Slögu fyrir norðan Innri-Stórusteina eru sjö grastorfur sem heita Sláttutorfur.
Skálamælifell er austur af Slögu og skarðið þar á milli heitir Mælifellsskarð. Þar eru tvö vatnsstæði sem sjaldan þorna. Grasbrekkur austan Skálamælifells heita Fyrstabrekka, Önnurbrekka og Þriðjabrekka. Og síðan tekur við Bjallinn í Klifinu. Við endann á Bjallanum í Klifinu að austan er gjá og nær hún langleiðina suður á Vondanef.“

Brandur

Vörðurnar Brandur og Bergur.

Í Skollahrauni hlóðu Bergur frá Skála og vinnumaður á bænum sitt hvora vörðuna um miðja 20. öld þegar þeir sátu þar yfir fé. Hafa vörðurnar síðan verið nefndar eftir hleðslumönnunum og nefndar Brandur (sú nyrðri) og Bergur. Í fornleifaskráningu fyrir svæðið eru vörðurnar taldar til fornleifa, sem er í sjálfu sér allt í lagi því þá ættu að verða minni líkur á að þær verði eyðilagðar – eða hvað?
Stórusteinar í Bólkvos voru flestir teknir þegar malarnám var stundað þar og notaðir í uppfyllingu í bryggjur í Járngerðarstaðarhverfi. Slaga hefur hins vegar gefið af sér nýja Stórusteina niður í Bólkvos, sem eflaust eiga eftir að verða fleiri er fram líða stundir.
Í Skollahrauni er fjölbreytt hraunalandslag. Hrauntröð liggur niður hraunið neðan við Skollanef.
StórusteinarBeggja vegna hennar eru sléttur. Enn neðar er Hraunsnes með sínum miklu hraundröngum og stórbrotnum jarðmyndunum. Neðarlega vestast í Skollahrauni má sjá leifar af sjávardranga, sem hraunið hefur umlukið á leið þess til sjávar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Ísólfsskála.

Hraunasvæðin