Tag Archive for: Borgarhraunsborg

Borgarhraunsrétt

Á nýlegri landakortum er Sandakravegur sýndur liggja frá Drykkjarsteinsdal í austri, með vestanverðu Fagradalsfjalli til norðurs og síðan niður á Skógfellastíg úr Fagradal um Aura. Veginum var fylgt norður með Borgarfjalli, um Nátthagakrika, framhjá Einbúa og að Kastinu með viðkomu í Selskál, Borgarhraunsréttinni og Borgarhraunsborg.

Sandakravegur

Gengið um Sandakraveg.

Þegar gengið var af gömlu þjóðleiðinni frá Grindavík til Krýsuvíkur vestast í Drykkjarsteinsdal má sjá djúpa gróna holu innan við hraunkantinn. Þarna gæti hafa verið vatnsstæði eða brunnur. Erfitt er að greina götuna að ráði fyrr en komið er inn fyrir Borgarfjallið, en þegar komið er í Nátthagakrika fer að móta vel fyrir henni. Sunnan við Einbúa er gatan mjög skýr. Kastað hefur verið upp úr henni á kafla, auk þess sem hlaðin gerði eru á tveimur stöðum við götuna.

Haldið var inn í Selskálina og hún skoðuð.

Borgarhraun

Sel við Selskál.

Ekki var að merkja nein mannvirki í skálinni, enda hefur orðið þarna mikil jarðvegseyðing. Þó er á einum stað vel grasi gróið svæði, en ekki var gott að merkja á bakka, sem þar, hvort hann væri náttúrulegur eða gæti verið hluti af einhverju mannvirki.
Gengið var til suðvesturs með vesturbrún hraunkants. Utan í honum eru grasi grónar brekkur og bollar. Hlaðinn stekkur er þar utan í bakkanum, en við leit fundust ekki önnur sýnileg mannvirki. Þó er líklegt að þau kunni að leynast þarna ef vel væri að gáð.
Stefnan var tekin til suðurs inn á hraunið, að Borgarhraunsréttinni, sem kúrir þar heilleg undir suðurjaðri hraunsins. Sumur hafa viljað nefna réttina eftir Ísólfsskála þar sem hún er í hans landi, en Skálamenn þekkja ekki slíka nafngift.

Borgarhraunsborg

Í Borgarhraunsborg.

Gengið var áfram til suðurs, að Borgarhraunsborg. Um er að ræða stóra fjárborg á grónum hraunhól. Hún er í rauninni í Litla-Borgarhrauni, skammt frá mynni Drykkjarsteinsdal.
Nafnið Selskál bendir til selstöðu og þá væntanlega frá Ísólfsskála. Stekkurinn í hraunkantinum gæti hafa verið hluti af henni. Nátthagakriki er enn ein vísbendingin og einnig Nátthagi skammt austar í Fagradalsfjalli.
Hugsanlega gæti gatan þar sem hún sést svo vel í krikanum og undir Einbúa einnig hafa verið hluti af selsstígnum. En hvað sem öllum vangaveltum líður fæst sennilega seint úr því skorið. Þetta svæði er hins vegar hið ákjósanlegasta göngu- og útivistarsvæði og margt að skoða.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Viðeyjarborg

Í Borgarhraunsborg.