Þegar FERLIR var á ferð um Krossfjöll var m.a. gengið fram á áður óþekktar – og þar með óskráðar selsminjar – ofan Krossfjalla. Minjarnar eru miklar og greinilegar; sjö rými og stekkur. Það er í skjóli fyrir austanáttinni og því er um að ræða dæmigerða staðsetningu fjársels á Reykjanesskaganum, sem nú teljast vera 289 talsins. Annars er undarlegt að minjarnar hafi ekki fyrr verið skráðar, svo greinilegar sem þær eru. Hins vegar ber að hafa í huga að engar skráðar heimildir eru til um þær (svo vitað sé). En hverjum tilheyrði þessi mikilfenglega selstaða forðum? Tilheyrði hún landeigandum (Breiðabólstað (Vindheimum)) eða Þorlákshöfn? Hingað til hefur verið talið að Þorlákshafnarsel (Hafnarsel) hafi verið undir Votabergi. En gæti verið að selstaða frá Þorlákshöfn hafi verið færð á einhverjum tímapunkti?
Skoðum heimildir. Í Jarðabókinni 1703 er ekki getið um selstöðu frá Breiðabólstað, en hins vegar segir í lýsingunni: „Skipsuppsátur á jörnin í Þorlákshöfn fyrir selstöðu í heimalandi“.
Í lýsingu fyrir Þorlákshöfn segir: „Selstöðu á jörnin í Breiðabólstaðalandi, en Breiðabólstaður þar í mót skipsstöðu um vertíð“.
Í örnefnalýsingu fyrir Hjallahverfi segir m.a.: „Þorlákshöfn á ekki land til fjalls, en hefur langa sævarströnd.“
Í örnefnalýsingu fyrir Þorlákshöfn segir þó: „Þorlákshöfn á land að sjó, austan frá Miðöldu í Hraunsmörkum, vestur að Þrívörðum í Selvogsmörkum. Önnur landamerki eru bókfærð: milli Hrauns frá sjó eftir miðin á tvær vörður fyrir ofan Leirur í Skóghlíðargafl. Klappir merktar R M, upp Sand í vörðu fyrir ofan Leirur merkta M, hornmark milli Þorlákshafnar, Breiðabólsstaðar og Vindheima, og Hrauns, út miðjan Sand í vörðu í Hálfförum, hornmark Litlalands og Breiðabólsstaðar, þaðan í vörðu fyrir ofan Leirur, hornmark Litlalands og Hlíðarenda. Við hana er merkt L M, svo út miðjan Sand þar til Markhóla ber í Þrívörður. Við sjó fram tekur Nesland við og er þar hornmark á miðjum Sandi frá sjó til heiðar milli Hlíðarenda og Þorlákshafnar.“
Um landamerki jarðarinnar segir: „Að austan: Ingólfsfjalls öxl eystri í Meitlana, bærinn í Hnúka úr því komið er á Grynnraskarð, þ.e. Núpahnúkur gengur út úr fjallinu niður undan Skálafelli, en þar norður af eru tvö skörð í
Reykjafjöllin, sem Núpahnúkur er miðaður við. Dýpraskarð vestar, Grynnra-skarð austar.
Að vestan: Ekki nœr landi en svo að þegar komið er á Einstíg, þ.e. Geitafell ber í Skarð á urðinni við Bergsendann yst á Hafnarnesi, að Þorlákshóll sjáist upp yfir urðina. Er svo haldið þar til Hafnarvarða ber í bæinn, og er þá komið á Grynnraskarð. Nær landi, milli Kúlu og Hafnarvörðu má ekki fara nema í ládeyðu. Er svo beygt norður á við þar til bæinn ber í Hnúka.“
Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1978 segir m.a. í Skýrslu Þjóðminjasafnis: „Eftirtaldar fornleifar voru friðlýstar á árinu: Allar gamlar mannaminjar í Herdísarvík í Árnessýslu, fjöldi ótilgreindur, Dælaréttir í landi Skálmholts í Árnessýslu og Þorlákshafnarsel undir Votabergi
á Hellisheiði.“
Hér er, til fróðleiks, áhugavert viðtal við forstöðumann Fornleifaverndar ríkisins frá árinu 2011, en þessi mál hvíla fyrst og fremst á þeirri stofnun: Viðtalið bar hina viðeigandi yfirskrift „Skráningu fornminja áfátt: „Hvaða tillit er tekið til fornminja við mat á virkjunarkostum? Ísland, eitt Norðurlandaríkjanna, hefur ekki lokið tæmandi fornleifaskráningu. Við gerð 1. og 2. áfanga rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða vegna orkunýtingar þurftu fornleifafræðingar því að reiða sig á heimildarskráningu fornleifafræðinga 19. aldar. Minjayfirvöld telja sig hafa litlar forsendur til að svara því hvaða menningarverðmæti verði fyrir skaða vi
ð þá virkjunarkosti sem áætlunin fjallar um.
Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins, segir stöðuna í raun sorglega og að ástæðan fyrir því hversu aftarlega Íslendingar eru við skráningu fornminja sé að ekki hafi verið veitt nauðsynlegu fjármagni til slíkrar vinnu. Tími og peningar segir Kristín að sé ekki sérstakt vandamál. Athugun Fornleifaverndar fyrir nokkrum árum leiddi í ljós að um fimm ár þarf til að ljúka fullnaðarskráningu og áætlaður kostnaður þeirrar vinnu var 400 milljónir. Hún gagnrýnir jafnframt hart það misvægi sem er á fjárframlögum ríkisins. „Af því fjármagni sem ríkið ætlar til umhverfisins fá minjarnar þrjú prósent. Og það er merkileg staðreynd þegar við höfum reynt um árabil að fá fjármagn til að ljúka grundvallar skráningu fornminja,“ segir Kristín.
Náttúra og minjar
Í greinargerð sem Kristín skrifaði, og fylgir skýrslu verkefna-stjórnarinnar, er bent á að horfa beri á umhverfi og landslag í víðara samhengi en gert hefur verið og að minjar verði teknar inn til jafns við náttúru í allri framtíðarvinnu varðandi umhverfi landsins og nýtingar þess. Grunnforsenda þess að hægt sé að taka ákvarðanir um menningar arfinn sé að þekkja hann. „Það gefur auga leið að til þess að vernda menningarminjar þurfum við að vita hvar þær eru, hverjar þær eru og í hvernig ástandi þær eru,“ skrifar Kristín. Gróflega er áætlað að fornleifar á Íslandi, minjar sem eru 100 ára og eldri, gætu verið um 200 þúsund. Þær dreifast um landið allt, jafnt um byggð sem óbyggðir.
Fornfræðingar
Stór hluti þeirra svæða sem komu til umfjöllunar í 1. áfanga rammaáætlunar var óskráður og er það enn nú þegar 2. áfanga er lokið og til stendur að undirbúa þingsályktunartillögu um hvernig nýta skuli náttúruna með vali á virkjunar kostum. Við mat á svæðum þar sem gufuaflsvirkjanir koma til greina höfðu fornleifafræðingar í sumum tilfellum ekki annað á milli handanna en skráðar heimildir fornfræðinga 19. aldar þar sem grunnrannsókn hefði verið nauðsynleg. Þar sem vatnsaflsvirkjanir koma til greina höfðu fornleifafræðingar lítið sem ekkert að styðjast við. „Það er ótækt og óforsvaranlegt að fornleifafræðingum á 21. öld sé gert að vinna við þessar aðstæður,“ segir Kristín og bætir við að minjayfirvöld hafi ekki forsendur að óbreyttu til að meta hvort menningarminjar verði fyrir skaða vegna virkjanaframkvæmda sem til greina komi.
Ferðaþjónusta
Hafnarsel II – Breiðabólstaðasel II – vatnsstæði.
Fornleifar og menningarlandslag eru þáttur í menningarferðaþjónustu allra landa og telur Fornleifavernd vert að minna á að á sama tíma og farið er með það sem heilagan sannleik að 80 prósent ferðamanna segjast hafa áhuga á íslenskri náttúru þá segist stór hluti sama hóps hafa áhuga á íslenskri menningu og sögu. Það er því mat Fornleifaverndar að í framtíðarvinnu með rammaáætlun sé eðlilegt að fjallað um menningarminjar til jafns við náttúru þegar lagt verði mat á ferðaþjónustu á Íslandi. „Í raun má segja að við búum við gervimennsku því það er verið að búa til sögustaði og söfn á meðan ekkert er gert fyrir sjálfar fornleifarnar sem við eigum. Það er öfugsnúið,“ segir Kristín.“
Með greinininni eru tilgreindir minjastaðir á svæðunum, t.d. á Hengilssvæðinu: „Á Hengilssvæðinu eru tveir friðlýstir minjastaðir, annars vegar Þorlákshafnarsel og hins vegar Hellurnar (ásamt Hellukofanum svokallaða).“
Að öllu framansögðu vaknar eftirfarandi spurning þar sem ekkert hefur enn (árið 2012) verið sagt um framangreinda selstöðu ofan Krossfjalla: Hvers eiga fornleifarnar að gjalda í fornfáleikanum? Eiga þær ekki meiri virðingu skilið en vanrækslu og áhugaleysi viðkomandi yfirvalda?
Frábært veður.
Heimildir m.a.:
-Árbók Hins íslenskla fornleifafélags, 75. árg. 1978, bls. 149.
-Fréttablaðið 8. júlí 2011, viðtal við Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins, segir stöðuna í raun sorglega og að – Skráningu fornminja áfatt – bls. 11.
-Örnefnalýsing fyrir Hjallhverfi.
-Örnefnalýsing fyrir Þorlákshöfn.