Tag Archive for: Breiðholtssel

Breiðholt

Í skýrslu Borgarsögusafns Reykjavíkur um „Borgarhluta 6 – Breiðholt„, segir m.a. um sögu bæjarins Breiðholts, Breiðholtssel og nágrenni:

Breiðholtsbærinn

Breiðholt
Landamerki Breiðholtsjarðarinnar lágu í vestri, suðri og suðaustri að nágrannajörðunum Digranesi, Hvammkoti (Fífuhvammi) og Vatnsenda, sem tilheyrðu upphaflega Seltjarnarneshreppi en síðar Kópavogshreppi. Í norðri og norðvestri lágu landamerki Breiðholts að jörðunum Bústöðum, Ártúni og Árbæ. Til norðausturs afmarkaðist land Breiðholts af Elliðaánum.
Elstu heimildir um jörðina Breiðholt eru frá 14. öld. Elsta örugga heimildin er skrá frá 1395 yfir jarðir sem Viðeyjarklaustur eignaðist í tíð Páls ábóta. Þó er talið líklegt að jarðarinnar sé getið í eldri heimild, í skrá um leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá 1313, þar sem talað er um jörðina „Holt“, en þar er sennilega átt við Breiðholt.

Breiðholt

Breiðholt og nágrenni – herforingjakort frá 1906.

Vísbendingar eru um að við bæinn hafi verið kirkjugarður og kirkja, en mannabein fundust nokkrum sinnum við jarðrask á bæjarhólnum og í nágrenni hans í lok 19. aldar og á fyrri hluta 20. aldar.
Kirkju í Breiðholti er ekki getið í kirknaskrá Páls biskups um 1200 en af frásögn um jarteikn í Þorláks sögu hins helga frá 1325 að dæma virðist hafa verið þar bænhús eða kirkja sem helguð var heilögum Blasíusi. Hann var verndari nautasmala og svínahirða, tóvinnufólks, vefara, skóara, steinhöggvara og skipasmiða og gott þótti að heita á hann gegn allskyns hálskvillum meðal annars. Frásögnin segir frá því að dag einn hafi Hallur smalamaður Snæbjörns bónda á „Bútsstöðum“ (Bústöðum) komið heim frá fé og fallið í öngvit. Þegar hann rankaði við sér hafði hann misst mál sitt og var mállaus í sjö daga.
Breiðholt
Snæbjörn bóndi hét þá á hinn heilaga Blasíus biskup að smalamaðurinn skyldi ganga í Breiðholt og gefa þangað lýsi ef hann mætti endurheimta heilsu sína, en þegar það dugði ekki til kallaði bóndi til Guð og Þorlák biskup. Litlu síðar sofnaði smalinn og komu þá biskuparnir báðir Blasíus og Þorlákur til hans í svefni. Eftir það vaknaði hann alheill lofandi Guð og hina blessuðu biskupa. Í öðrum heimildum kemur einnig fram að bænhús hafi verið í Breiðholti, en aflagt fyrir 1600. Rústir kirkjunnar og kirkjugarðsins eru nú horfnar, en líklegt er talið að kirkjan hafi staðið fast upp að bæ, jafnvel á eða við sjálfan bæjarhólinn og grafreiturinn umhverfis hana.
Breiðholt varð eign konungs við siðaskipti eins og aðrar jarðir Viðeyjarklausturs og kemur fyrir í Fógetareikningum frá 1547 til 1552. Árið 1580 var jörðin á meðal nokkurra konungsjarða í Skálholtsstifti sem ákveðið var að láta ganga til framfærslu eða stuðnings prestum í tekjurýrum brauðum, eins og kemur fram í opnu bréfi Jóhanns Bochholts lénsmanns til Gísla Jónssonar Skálholtsbiskups frá því ári. Jörðin var þannig afhent kirkjunni og heyrði eftir það undir Víkurkirkju og seinna Dómkirkjuna í Reykjavík.

Breiðholt

Breiðholt – örnefni.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 er jörðin sögð lénsjörð fyrir prest sem þjónaði kirkjum á Seltjarnarnesi, honum til framfærslu eða uppihalds. Ekki er getið um að á staðnum hafi þá verið kirkja eða bænhús. Á jörðinni voru þá tveir ábúendur. Á öðrum helmingnum bjuggu hjónin Þórálfur Höskuldsson og Ásta Jónsdóttir og voru þar fimm í heimili. Bústofn þeirra var fjórar kýr, sjö ær, tvær gimbrar, einn sauður veturgamall, sjö lömb og einn foli þrevetur. Á hinum helmingi jarðarinnar bjó Loðvík Jónsson. Hjá honum voru þrír í heimili og bústofninn þrjár kýr, ein kvíga mylk, einn kálfur, þrjár ær, fjögur lömb og eitt hross. Til hlunninda töldust hrísrif, torfrista og stunga, mótaka og lyngrif nokkurt. Engjar spilltust af vatnságangi. Dýrleiki var óviss en landskuld var eitt hundrað sem skiptist jafnt á milli ábúendanna tveggja.
Breiðholt
Seint á 18. öld munu hafa búið í Breiðholti Hjörtur Eiríksson (um 1743-1793) og Rannveig Oddsdóttir (f. um 1744) ásamt börnum sínum, en þau fluttu þaðan 1788 að Bústöðum.
Prestar munu að jafnaði ekki hafa setið í Breiðholti, en þó bjó þar séra Árni Helgason sem var dómkirkjuprestur og biskup á árunum 1814-

Breiðholt

Breiðholt – túnakort 1916.

1825.
Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 var Breiðholt lénsjörð, dýrleiki ekki metinn en sýslumaður mat hana á 20 hundruð.
Árið 1856 fékk þáverandi ábúandi í Breiðholti, Árni Jónsson, sérstök verðlaun fyrir jarðabætur.

Á síðari hluta 19. aldar virðist jörðin hafa legið undir miklum ágangi ferðamanna því þá þurftu ábúendur þar oftar en ekki að auglýsa að bannað væri að nota Mjóumýri sem áningarstað eða til beitar, en Mjóamýri var lægðardrag suðaustarlega í landi Breiðholts, vestan undir Vatnsendahvarfi (á þeim slóðum þar sem gatan Jaðarsel liggur nú).

Breiðhol

Breiðholtsbærinn 1916.

Seint á 19. öld bjuggu í Breiðholti hjónin Björg Magnúsdóttir (1847-1930) og Jón Jónsson (1840-1898) ásamt börnum sínum þrettán. Í búskapartíð þeirra var allstórt bú í Breiðholti. Dóttir þeirra, Þóra Petrína Jónsdóttir (1891-1987), hefur sagt frá búskaparháttum, staðháttum og örnefnum í Breiðholti á þeim tíma. Samkvæmt frásögn hennar voru þá um sex til tíu kýr á býlinu, um 200 fjár og sex til átta hross. Einnig voru hross og naut Reykvíkinga tekin í hagagöngu yfir sumarið. Smjör, rjómi og skyr var selt til Reykjavíkur og stundum mjólk. Volg laug var í mýrinni fyrir neðan túnið í Breiðholti og var hella lögð út yfir laugina og þvottur þveginn þar. Mór var tekinn við Engjarnar svokölluðu í Breiðholtsmýri, niður undir Digraneshálsi. Þar þótti góður mór og fengu ýmsir að taka þar mó, m.a. kunningjar úr Hafnarfirði sem annars urðu að brenna mosa. Mikill umferð ferðamanna og gestagangur var í Breiðholti á þessum tíma, t.d. komu þar við bændur austan úr sveitum með fé sitt á leið til slátrunar á haustin og börn úr Reykjavík komu í berjamó.
Skömmu eftir lát Jóns árið 1898 keypti breskur maður, H.A. Payne að nafni, jörðina Breiðholt af kirkjunni fyrir 10.500 krónur, en Björg bjó þar áfram ásamt börnum sínum til ársins 1903. Í borgarhlutanum Breiðholti eru nú þrjár götur nefndar eftir þremur af dætrum Jóns og Bjargar: Maríubakki, Lóuhólar og Þórufell.

Breiðholt
Árið 1906 keypti bæjarstjórn Reykjavíkur Elliðaárnar af H.A. Payne ásamt jörðunum Breiðholti, Árbæ og Ártúni og eignaðist þannig allan veiðirétt í ánum. Breskir veiðimenn munu hafa haldið áfram að leigja Elliðaárnar fram að fyrri heimsstyrjöld en eftir það tóku íslenskir veiðimenn við. Árið 1925 fól bærinn Rafmagnsveitu Reykjavíkur umsjón með Elliðaánum en frá því að Stangveiðifélag Reykjavíkur var stofnað árið 1939 hefur það haft Elliðaárnar á leigu. Við Elliðaárnar er mikið af örnefnum sem tengjast veiðum í ánum.
Efri veiðihús Payne voru á árunum 1937-1940 lánuð Húsmæðrafélagi Reykjavíkur sem hafði þar sumardvalarstað fyrir efnalitlar mæður og börn þeirra en árið 1940 voru þau tekin til afnota af hernámsliðinu. Annað húsanna, líklega styttra húsið sem stóð sunnar og var vörslumannshús, hefur staðið fram yfir 1960 því það er sýnt á korti af svæðinu frá því ári, en líklega hefur það verið fjarlægt skömmu síðar, því það sést ekki á loftmynd.

Búskapur í Breiðholti á 20. öld
Breiðholt
Í upphafi 20. aldar komst jörðin Breiðholt í eigu Reykjavíkurbæjar, eins og áður segir. Með lögum árið 1923 var jörðin svo lögð undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Búskapur var þó áfram stundaður í Breiðholti fram yfir miðja 20. öld.
Þegar bærinn keypti Breiðholt árið 1906 var jörðin leigð til ábúðar Guðna Símonarsyni, sama ábúanda og verið hafði þar, líklega frá því að Björg Magnúsdóttir flutti þaðan 1903, með þeirri kvöð að leggja mætti vatnspípur um landið og að ekki yrði tekinn meiri fénaður í það til hagagöngu en formaður bæjarstjórnar samþykkti.
Breiðholt
Bæjarhús og tún Breiðholtsbæjarins voru mæld upp og teiknuð á kort árið 1916. Á kortinu má sjá að þá stóðu sjö hús í samfelldri bæjarröð á hlaðinu. Húsin stóðu þar sem nú er opið svæði milli húsanna Grjótasels 21 (b. 1979) og Skógarsels 39 (b. 1992). Þar eru sjáanlegar rústir sem eru leifar af síðustu baðstofu eða íbúðarhúsi bæjarins.
Þrjú útihús stóðu sunnan við bæinn, þar sem nú er húsið Grjótasel 21. Fleiri útihús voru ofar í brekkunni austur af bænum, á þeim slóðum þar sem gatan Seljaskógar liggur nú vestan húsanna númer 20-24 við Akrasel. Tún bæjarins voru afmörkuð með túngörðum. Í gegnum hlaðið lá vegur frá nágrannabænum Fífuhvammi innst í Kópavogsdal, sem hélt svo áfram austur að Vatnsendavegi.
Eignin var brunavirt árið 1924 og voru húsin í bæjarröðinni þá enn sjö talsins auk þriggja útihúsa. Syðst í röðinni var geymsluhús eða skemma sem sneri göflum í norður-suður (5,5×3,3 m að stærð,), byggð úr bindingi en með torf- og grjótvegg við norðurgafl.
Breiðholt
Áfastur við austurhlið hennar var geymsluskúr úr sama efni (5,5×1,8 m að stærð,). Norðan við skemmuna var íbúðarhús eða baðstofa sem sneri göflum í vestur-austur (10×5 m að stærð), byggð úr bindingi og klædd utan á hliðum með torfi og grjóti, en stafnar klæddir borðum og járni. Geymslukjallari (1,6 m hár) var undir vesturhluta hennar og við vesturgaflinn var lítill inngönguskúr (sjá myndir 14 og 15). Við norðurhlið baðstofunnar var eldhússkúr (10 x 2,5 m að stærð), byggður úr bindingi með norðurhlið úr torfi og grjóti. Við norðurhlið hans var önnur eldhúsbygging (8×4 m að stærð), byggð úr torfi og grjóti. Eldiviðarhús úr torfi og grjóti (8×3 m að stærð) var við norðurhlið þeirrar byggingar.

Gróðrarstöðin Alaska í Breiðholti

Breiðholt

Breiðholtsfjósið – síðar Gróðrastöðin Alaska.

Jón H. Björnsson landslagsarkitekt (1922-2009), sem stofnaði og rak gróðrarstöðina Alaska við Miklatorg (Vatnsmýrarveg 20) frá 1953, keypti eignina Breiðholt árið 1960 og tók um leið við því leigulandi og erfðafestulandi sem henni fylgdi. Í Breiðholti kom Jón upp annarri gróðrarstöð undir nafninu Alaska og hafði þar jafnframt sumardvalarstað fyrir fjölskylduna. Þá stóðu á landinu íbúðarhúsið og steinsteyptu útihúsin sem byggð höfðu verið á fimmta áratugnum, en auk þess gömul bárujárnsklædd skemma og skúrbygging sem notuð var sem hænsnahús. Af loftmyndum að dæma virðist gamla baðstofan hafa staðið allt fram á síðari hluta áttunda áratugarins.
Jón girti allt svæðið af og flutti þangað alla trjáplönturækt sem hann hafði áður haft í Hveragerði. Þarna hafði Jón viðamikla ræktun og trjáplöntusölu til ársins 1963 en varð þá að gera hlé á rekstri stöðvarinnar vegna mikils tjóns sem varð á ræktuninni vegna vorhrets og var rekstur Alaska þá leigður út í nokkur ár. Eftir að Jón tók aftur við fyrirtækinu árið 1967 rak hann einnig teiknistofu í Breiðholti, í íbúðarhúsinu sem byggt hafði verið á fimmta áratugnum.

Breiðholt

Breiðholt – loftmynd 1957.

Í byrjun áttunda áratugarins missti Jón mikinn hluta landsins þegar ákveðið var að taka Breiðholtsblett I úr erfðafestu vegna skipulags og væntanlegra byggingarframkvæmda á svæðinu. Ræktunarlönd og fyrrum tún sem tilheyrðu Breiðholtsbletti I lentu vestan götunnar Skógarsels við skipulag og uppbyggingu Seljahverfisins á þessum tíma og voru á því svæði (Suður-Mjódd) sem afhent var Íþróttafélagi Reykjavíkur, sem byggði þar seinna upp aðstöðu sína. Eftir þetta færðist rekstur gróðrarstöðvarinnar meira í átt að verslunarrekstri í stað trjáplönturæktunar og árið 1975 innréttaði Jón fjósið og hlöðuna á staðnum sem verslunar- og geymsluhús og var verslun Alaska opnuð þar í nóvember það ár.

Breiðholtssel

Breiðholt

Breiðholtssel – uppdráttur ÓSÁ.

Selið var líklega ekki langt frá gatnamótum Heiðarsels og Hjallasels. Í örnefnaskrá Breiðholts segir: „Neðan við Mjóumýri er svo Selhryggur, sem er að mestu í Fífuhvammslandi, en upp af honum og norðan hans eru Selflatir og Selið. Það hvorttveggja er í Breiðholtslandi.“ „Frá Miðmundahæð og beina línu austur að Markakletti hét Selhryggur …“ . Upp af Selhrygg og norðan hans var Selið og Selflatir. Þóra [Jónsdóttir] man ekki eftir selrústum. Sel og Selflatir voru í Breiðholtslandi … . Selflatir voru á milli Selhryggs og Fálkhóls.“ Færikvíar voru notaðar í Breiðholti og í örnefnalýsingu er frásögn Þóru Jónsdóttur sem sat yfir ásamt systur sinni í mörg sumur: „Hinumegin við Rásina var blettur, þar sem færikvíar voru hafðar. Tæplega fimmtíu ær voru mjólkaðar í kvíunum. Þóra sat hjá mörg sumur með eldri systur sinni. Þær voru með ærnar á ýmsum stöðum, Hörðuvöllum, Kjóavöllum (sem mest voru í Vatnsendalandi) og víðar. Valdir voru beztu blettir, sem völ var á að beita ánum á, og var leyft að fara með þær í annarra lönd í því skyni.“
Breiðholt
Lýsing: Horfið, en greina má rúst á loftmynd af Breiðholti frá árinu 1970, norðan megin við Rásina. Þar má greina þriggja hólfa rúst sem gæti hafa verið selið og líklega sá blettur sem færikvíarnar voru á,
eins og kemur fram í örnefnaskrá.

Heimild:
-Byggðakönnun, Borgarhluti 6 – Breiðholt, Borgarsögusafn Reykjavíkur 2021.

Breiðholt

Breiðholtssel – loftmynd 2020.