Nokkrir svonefndir „brimkatlar“ eru við strandir Reykjanesskagans, misstórir þó. Þeir eru flestir við ströndina undir bjargbrúnum, s.s. Herdísarvíkurbergi, Krýsuvíkurbergi og Staðarbergi. Einnig eru dæmi er um slíka katla neðan hraunstanda, s.s. neðan Skollahrauns, en sá er hinn stærsti á Skaganum.
Brimketillinn í sjávarklettunum vestast í Staðarbergi utan við Grindavík er sennilega sá margumtalaðisti. Hann, líkt og aðrir bræður hans, hefur myndast í stöðugum öldugangi þegar brimið lemur bergið. Basaltbergið er misfast fyrir, ýmist sem hraunmulningur, berghella eða þéttar hraunrásir. Þar sem sjórinn mætir þeim síðastnefndu á hann erfiðara um vik að vinna á þéttu berginu. Við það myndast framangreindir tímabundnir „katlar“, ekki ólíkt og skessukatlar í móbergi. Í báðum tilvikum leika steinar lykilhlutverkin í samvinnu við vindinn í tilviki skessukatlanna og sjóinn í tilfelli brimkatlanna.
Hafið hefur mikil áhrif á landmótun á Reykjanesi. Með því að fylgjast með brimi skella á klettunum má sjá þann kraft sem býr í Norður-Atlantshafinu. Aldan vinnur á föstu berginu með því að þrýsta þétt saman lofti í rifum og sprungum. Við útsogið dregur sjórinn loftið með sér. Þá verður til undirþrýstingur. Þannig brýtur hafið upp hraunhelluna smám saman. Við bætist svo rof vegna bergbrota þegar aldan skellur með ofurkrafti á sjávarkletta og laust grjót og þeytir hvorutveggja upp í loft. Þar sem lausara hraunhrap er fyrir myndast sjávarhellar. Þegar þung aldan steypist inn í rásirnar myndast mikill þrýstingur með þeim afleiðingum að „þakið“ innst gefur sig. Þegar það gerist myndast nokkurs konar „strandgeysir“ þar sem aldan nær að spýjast upp innan á ströndinni með tilheyrandi strókamyndun.
Hraunið umhverfis framangreindan Brimketil er gróft, sprungið og með háum úfnum jöðrum og yfirborði. Líklega hefur það runnið í Reykjaneseldum á árunum 1210-1240.
Um Brimketilinn austan Grindavíkur er til þjóðsaga. Laugin sú arna mun áður hafa heitið Oddnýjarlaug. Þjóðsaga segir frá nátttröllinu Oddnýju sem bjó í Háleyjabungu, rétt vestan við Brimketil, ásamt Hróari manni sínum og syni þeirra Sölva. Eina nóttina fór hún út að Ræningjaskeri rétt austan við Brimketil til að ná í hvalhræ sem hafði rekið að landi. Í bakaleiðinni hvíldi hún sig og baðaði í Brimkatli. Þegar hún hélt loks heim á leið komst hún ekki langt þar sem sólin kom upp um það leyti. Varð hún því að steini og sást þarna lengi sem hár bergdrangur, allt þar til sjórinn braut hann smám saman niður. Brimketill hefur því einnig verið nefndur Oddnýjarlaug í höfuð á nátttröllinu.
Nú hefur metnaðarfull göngubrú verið handeruð í átt að Brimkatli, en smíðin sú virðist misheppnuð. Í fyrsta lagi fæst ekki nægileg yfirsýn yfir Brimketilinn frá enda brúarinnar. Brúarendinn hefði þurt að ná lengra út til austurs. Í öðru lagi er annar minni brimketill vestan við miðja brúnna. Fjölmargir ferðamenn, sem heimsækja staðinn telja að þar sé hinn eiginlegi „Brimketill“ því þeir ná aldrei sjónhendingu að þeim eina og sanna.
Austan Ísólfsskála er tilkomumesti brimketillinn á Reykjaneskaganum. Hann er á svonefndum „Kvennagöngubásum“. Básar eru nefndir svo austan við Rangargjögur; Skálabásar, Kirkjubásar og Kvennagöngubásar allt þangað til komið er að Hraunsnesi. Þar austan við er Mölvík.
Þegar Ísólfur Guðmundsson á Ísólfsskála var spurður árið 1983 um tilefni nafnsins Kvennagöngubásar svaraði hann: „Þar var kvenfólk sagt baða sig“. Að öllum líkindum hefur Ísólfur haft í huga þekktu þjóðsöguna um Oddnýjarlaugina vestar á ströndinni.
Hið réttara er að Básunum austan við Ísólfsskála var skipt upp á milli bæjarins og kirkjustaða, sem fyrrum voru að hluta til eigendur jarðarinnar. Þannig átti Kálfatjörn um tíma rekaítök í Skálalandi, í svonefndum Kirkjubásum, líkt og Garðakirkja átti rekaítök í Kirkjubásum í Krýsuvíkurlandi austan Bersenda. Rekinn skipti hlutaðeigandi miklu máli í þá daga, líkt og kveðið er á um Jónsbók og fleiri gildandi lögbókum. Kvaðir voru á jarðeigendum af kirkjujarðanna hálfu að sinna reka sínum til jafns við þá. Þannig þurfti bóndinn á Ísólfsskála að þjóna presti Kálfatjarnarsóknar og fylgast með rekanum. Kvenfólkinu á Skála var ekki ætlað það hlutverk að ganga rekann lengra en að Kvennagöngubásum, enda þótt Skálabóndi ætti allan reka frá þeim að Dágon á Seltatöngum, en þangað var öðrum ekki ætlað gangandi en karlmönnum.
Brimketillinn í Kvennagöngubásum er hinn tilkomumesti og þangað hafa meðlimir Sjósundsfélaga farið til að njóta hinna tilkomumiklu náttúrulegu aðstæðna.
Hraunið umhverfis Kvennagöngubása er talið hafa runnið um 1151 en Staðarbergshraunið vestan Grindavíkur er talið hafa runnið um 1221.
Ó.