Tag Archive for: Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa

Við „Brú milli heimsálfa“ á vestanverðum Reykjanesskaganum, skammt ofan við Stóru-Sandvík eru tvö skilti, sitt hvoru megin við brúna.

Á vestari skiltinu stendur eftirfarandi:

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa. Vestara skiltið.

„Þú getur ímyndað þér að þú standir nú á Norður-Ameríkuflekanum, sjötta stærsta jarðskorpufleka jarðarinnar. Fyrir um 200 milljónum ára var hann samfastur Evrasíu-, Afríku, og Suður-Ameríkuflekanum eða allt þar til risa meginlandið Pangea tók að klofna í sundur. Atlantshafið tók að myndast í suðri milli Afríku og Suður-Ameríku fyrir um 135 milljónum ára, en aðskilnaður Ameríku og Evrasíu flekana hófst hins vegar fyrir um 65 milljónum ára.

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa – Ameríkuflekinn.

Í vestanverðri Norður-Ameríku má finna tiltölulega ung fjöll þar sem flekinn lendir í átökum við Kyrrahafsflekann. í austanverðri norður-Ameríku er að finna Appalaciafjöllin sem urðu til fyrir meira en 250 milljónum ára er risameginlandið Pangea var að myndast.

Mikill fjöldi fólks á Norður-Ameríkuflekanum býr í stórborgum. Þar er sömuleiðis að finna mikið landflæmi sem eru óbyggðir að kalla, t.d. á Kanadaskyldinum sem er gífurlega stór forngrýtisskjöldur sem var til fyrir um þremur milljörðum ára.

Brú milli heimsálfa

Brúin milli heimsálfa.

New York er fjölmennasta borgin á Norður-Ameríkuflekanum (19.6 milljónir íbúa árið 2012). Hæsti tindurinn er McKinleyfjall í Bandaríkjunum (6.149 metra yfir sjávarmáli) en mesta dýpið er í Púertó Ríkó rennunni (6.648 metrar undir sjávarmáli).“

Á austara skiltinu stendur:

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa. Austara skiltið.

„Þú getur ímyndað þér að þú standir nú á Evrasíuflekanum, stærsta jarðskorpufleka jarðarinnar. þar er að finna sumar elstu bergmyndanir jarðskorpunnar,nánar tiltekið í Austur-Síberíu á víðáttumestum sléttum jarðar.

Norður-Ameríkuflekinn fjarlægist Evrasíuflekann í vestri og Atlantshafið víkkar um leið. Í austri streyma Kyrrahafs- og Filippseyjaflekarnir inn undir Evrasíuflekann og mynda eldfjallaeyjaboga, s.s. Japan og Filippseyjar.

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa – Evrasíuflekinn.

Í suðri reka Indlands- og Ástralíuflekana í norður. Við árekstur þessara fleka verður til hæsti fjallgarður í heimi, Himalajafjöll.

Um 75% mannkyns búa á Evrasíuflekanum en dreifing íbúanna er ákaflega mosjöfn. Flestir búa í Evrópu, Indlandi, Kína og í Suðaustur-Asíu. þessi svæði eru jafnframt þéttbýlustu svæði jarðar.

Tokyo er fjölmennasta borgin á Evrasíuflekanum (35.7 milljónir íbúa árið 2011). Hæsti tindurinn er Everestfjall í Nepal (8.850 metrar yfir sjávarmáli) en mesta dýpið í Galatheudjúpinu (10.540 metrar undir sjávarmáli).“

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa – austurveggur gjárinnar.