Tag Archive for: bruni

Tvíbollahraun

Um kl. 15:00 í dag (22.07.2009) var tilkynnt um reyk í hrauninu milli Valahnúka og Helgafells. Slökkviliðsmenn frá SHS komu á vettvang á sexhjóli skömmu síðar. FERLIR fór að sjálfsögðu fótgangandi á vettvang. Þegar á tilkynntan stað var komið varð ljóst að mikinn reyk lagði upp úr hrauninu ofan við Kaplatóur.
Gert klártEldurinn var í jaðri Tvíbollahrauns, sunnan gömlu Selvogsgötunnar, milli Kaplatóa og Strandartorfa. Af ummerkjum að dæma virðist sem göngufólk á leið um Selvogsgötu skömmu eftir hádegi þennan dag hefði sest niður í skjólinu undir jaðri hraunsins, hvílt sig, etið m.a. epli og appelsínubát og síðan kveikt í vindlingi – áður en það hélt ferðinni áfram. Glóðin úr reyktum vindlingnum gæti óafvitandi hafa kveikt eldinn í skrjáfþurru lynginu og mosatóunum með tilheyrandi afleiðingum.
Við fyrstu sýn var að sjá sem óvinnandi vegur væri að slökkva elda og glóðir í skrjáfþurrum mosanum. Þegar reynt var að drepa í á einum stað kom sjálkrafa upp eldur á öðrum skammt frá. Hraunið sjálft er þarna úfið apalhraun og því varla á færi færustu manna að slökkva slíkan eld á þeim staðnum. Allt stefndi í að mosahraunið, eða öllu heldur mosahraunin, norðan Bláfjallavegar og austan Helgafells myndu brenna öðru sinni. Fyrra sinnið var um 980 er Tvíbollahraunið upphaflega rann. Undir því er Þríhnúkahraun, norðaustar Húsfellsbruni og suðvestar Stórubollahraun og Hellnahraun; allt mikil mosahraun. Svæðið sem heild er líka sérstaklega viðkvæmt því um vatnsverndarsvæði Hafnfirðinga er að ræða.
BrunasvæðiðÍ frétt mbl.is frá því í marsmánuði mátti lesa eftirfarandi: „Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og yfirmenn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins æfðu viðbrögð við gróðureldum við Kleifarvatn í gær. Við æfingarnar notaði þyrlusveitin tvö þúsund lítra fötu til að dæla vatni upp úr Kleifarvatni. Fatan var keypt eftir gróðureldana miklu á Mýrum árið 2006.“ (Sjá fréttina.)
Þarna var komin lausin að vandanum. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kvödd til með fyrrgreindan búnað, vatn sótt í Hvaleyrarvatn og hellt yfir eldsvæðið, aftur og aftur. Eftir u.þ.b. 20 ferðir með vatn mátti lesa eftirfarandi á mbl.is: „Slökkvistarf stendur enn yfir þar sem eldur kviknaði í mosa og öðrum gróðri í hrauni á milli Helgafells og Valahnjúka við Kaldársel í nágrenni Hafnarfjarðar um klukkan hálf þrjú í dag.
SlökkvistarfiðSamkvæmt upplýsingum slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins gengur slökkvistarf nú betur en það gerði fyrr í dag. Alltaf er þó erfitt að slökkva í mosa og þurfa slökkviliðsmenn að nota skóflur til að grafa upp mosann og komast að eldunum. Þá er erfitt að komast að svæðinu þar sem það er fjarri vegum og erfitt yfirferðar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur því verið notuð til að flytja vatn til slökkvistarfsins í dag. Hún hefur nú flogið tugi ferða með vatn á svæðið og m.a. hellt vatni yfir kanta þess.
Heldur hefur dregið úr eldinum en þó er gert ráð fyrir að slökkvistarf standi fram eftir nóttu og að eftirlit verði á svæðinu í nótt.“ Með fréttinni fylgdi að sjálfsögðu mynd frá FERLIR.
GlóðEftir að hafa verið um stund á staðnum, rætt við slökkviliðsmenn og fylgst með vatnsdreifingu þyrlumanna má segja að þar hafi æðrulausir fagmenn verið að verki. Byrjað var á því að slökkva elda upp í vindáttina (að norðanverðu), síðan hugað að jöðrunum beggja vegna og loks lokað fyrir frekari útbreiðslu eldsins til suðurs. Allt tók þetta tíma. Slökkviliðsmenn á jörðu niðri leiðbeindu flugmönnum þyrlunnar inn á svæðið. Í fyrstu virtust aðfarirnar ómarkvissar, en þegar á leið reyndust þær mjög fagmannlegar. Til að mynda var þyrlunni flogið inn yfir svæðið og vatninu sleppt úr skjóðunni á þarflegustu staðina, staðnæmst, bakkað og 2000 lítrarnir þannig nýttir til hins ítrasta. Segja má að eldurinn á svæðinu hafi þannig orðið bæði hin ágætasta æfing við erfitt slökkvistarf við tilætlaðar aðstæður og auk þess má segja að án notkunar þyrlunnar og tilheyrandi búnaðar hefði slökkvistarf þarna verið næsta vonlaust.
SlökkvistarfiðÍ stað þess að allt mosahraunið (eða öll) hafi brunnið þarna á þessum tíma brann einungs svæði sem nam ca. 15×30 metrar – og verður það að teljast lítið við framangreindar aðstæður, þökk sé ágætum slökkviliðs- og þyrluflugmönnum sem og tilheyrandi búnaði.
Undir kvöld birtist eftirfarandi frétt á www.visir.is: „Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins barðist við töluverða gróðurelda í mosa og lággróðri, í hrauni í nágrenni Hafnarfjarðar seinni part dags og fram á kvöld.
HvunndagshetjurRétt fyrir ellefu tókst endanlega að slökkva eldana en þyrla Landhelgisgæslunnar tók virkan þátt í slökkvistarfinu.
Slökkviliðsmaður, sem fréttastofa náði tali af, telur að þyrlan hafi í heildina farið um 50-60 ferðir á svæðið. Þyrlan fór með um tvö tonn af vatni í hverri ferð og jós hún því líklega á bilinu 100-120 tonnum af vatni yfir svæðið.
Í augnablikinu eru tveir slökkviliðsmenn sem vakta svæðið en ljóst þykir að töluverðar gróðurskemmdir hafi hlotist af eldinum, hve miklar er ekki ljóst á þessari stundu.
Ekki er vitað um ástæður eldsupptaka.“
Á mbl.is á sama tíma sagði: „
Slökkvistarfi þar sem eldur kviknaði í mosa og öðrum gróðri í hrauni á milli Helgafells og Valahnjúka við Kaldársel í nágrenni Hafnarfjarðar lauk á tólfta tímanum í gærkvöldi samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni en þyrla hennar var notuð til að slökkva eldinn.Samkvæmt upplýsingum slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins gekk slökkvistarf betur er líða tók á daginn. Alltaf er þó erfitt að slökkva í mosa og þurftu slökkviliðsmenn að nota skóflur til að grafa upp mosann og komast að eldunum. Þá var erfitt að komast að svæðinu þar sem það er fjarri vegum og erfitt yfirferðar. Þyrla Landhelgisgæslunnar var því verið notuð til að flytja vatn til slökkvistarfsins. Hún flaug tugi ferða með vatn á svæðið og hellti  m.a. vatni yfir kanta þess. Gert var ráð fyrir að eftirlit yrði á svæðinu í nótt.“ (Sjá fréttina HÉR.)
HÉR má sjá hvert þyrlan sótti vatnið.
Umfjöllun netmiðlanna er sett hér inn vegna þess að með því mun hún lifa þá til mun lengri tíma…

Heimild m.a.:
-mbl.is 17.04.2009.
-mbl.is 22.07.2009.
-visir.is 22.07.2009.

Tvíbollahraun

Tvíbollahraun.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja brann til kaldra kola í nótt [02.01.2010]. Slökkvilið Grindavíkur var kallað út laust eftir klukkan tvö í nótt.
Krýsuvíkurkirkja á afmælinuÁsmundur Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, sagði að útkallið hafi komið frá Neyðarlínunni kl. 02:04 og að einn bíll hafi verið sendur á vettvang. Leiðin úr Grindavík í Krýsuvík er ekki auðfarin á þessum árstíma og var slökkviliðið um hálftíma að Krýsuvíkurkirkju.
Þegar slökkviliðsmennirnir komu á vettvang var kirkjan fallin og gátu þeir ekki gert annað en að slökkva í glæðunum. Fenginn var tankbíll með vatn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í Hafnarfirði.
Ekkert rafmagn er á staðnum og ekki er vitað um eldsupptök. Nokkuð ljóst þykir að aðeins komi þar tvennt til greina: Íkveikja eða mannleg mistök. Lögreglan mun rannsaka eldsupptökin í dag.
Krýsuvíkurkirkja eftir brunanAltaristafla Sveins Björnssonar listmálara prýddi kirkjuna að sumarlagi. Hún bjargaðist enda geymd í Hafnarfjarðarkirkju yfir veturinn.
„Þetta er skelfilegt. Það er eina orðið sem ég á yfir þetta,“ sagði séra Þórhallur Heimisson, sóknarprestur í Hafnarfjarðarkirkju. Krýsuvíkurkirkja er í Hafnarfjarðarprestakalli. „Það var dýrgripur sem var þarna í Krýsuvík, einstök kirkja og gríðarlega mikið heimsótt.“
Í kirkjunni var gestabók og þúsundir gesta skrifuðu nöfn sín í hana á hverju ári. Þegar messað var í kirkjunni var hún alltaf setin til þrengsla og fjöldi fólks utandyra, að sögn Þórhalls. Hann sagði marga hafa borið vinarhug til gömlu kirkjunnar í Krýsuvík. Missir hennar sé því mikið áfall.
Leiði Sveins BjörnssonarÞórhallur sagði að altaristafla Sveins Björnssonar, sem hann málaði sérstaklega fyrir kirkjuna, hafi bjargast.  Venjan var að messa í Krýsuvíkurkirkju í lok september ár hvert. Eftir þá messu var altaristaflan tekin niður og geymd ásamt öðrum lausum kirkjugripum í Hafnarfjarðarkirkju yfir veturinn.
Krýsuvíkurkirkja var byggð árið 1857, fyrir 153 árum, og endurbyggð og endurvígð árið 1964. Kirkjan var í vörslu þjóðminjavarðar.
Krýsuvíkurkirkja var reist árið 1857 og var í umsjá Þjóðminjavarðar. Hún var aflögð fyrri hluta síðustu aldar og endurbyggð og endurvígð árið 1964. 

Krýsuvíkurkirkja á 150 ára afmælinu

Gunnþór Ingason er sérþjónustuprestur á sviði þjóðmenningar og helgihalds og hefur verið umsjónarmaður Krýsuvíkurkirkju sem helgidóms. Hann segir kirkjuna vera merka fyrir látleysi sitt. Hún hafi sögulegt gildi og bera helgihaldi fyrri tíðar vitni. Upphaf messuhalds í kirkjunni má rekja til jarðarfarar Sveins Björnssonar listmálara fyrir rúmum áratug, en hann hafi látið sig kirkjuna miklu varða. Sú hefð hefur skapast að hengja altaristöflu eftir hann í kirkjunni á vorin en taka hana niður á haustin. Altaristaflan og aðrir helgigripir hafi því ekki verið í í kirkjunni þegar hún brann.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar brunann. Varðstjóri lögreglunnar segir ekkert hægt að segja um tildrög eldsvoðans á þessari stundu. Ekki sé hægt að útiloka íkveikju.
150 ára afmælis kirkjunnar var minnst með hátíðarmessu árið 2007. Matthías Johannessen orti ljóð sérstaklega fyrir 150 ára afmælið og Atli Heimir Sveinsson tónskáld samdi tónverk við ljóðið.
Kirkjan„Menn eru í áfalli vegna þess að við upplifum þetta sem árás á varnarlaust lítið barn,“ segir Þórhallur Heimisson prestur í Hafnarfirði um Krýsuvíkurkirkju sem brann í nótt. Kirkjan heyrði undir Hafnarfjarðar-prestkall og segir Þórhallur hafa messað þar tvisvar á ári. Kirkjan var fjölsótt bæði af Íslendingum og erlendum ferðamönnum. Þórhallur segist hafa talað við slökkvilið og lögreglu um brunann.“
Um eldsupptök er ekki vitað. Sumir telja að þau megi rekja til þess að skemmtanahald meðal álfa hafi farið úr böndunum á nýársnótt, en að sögn lögreglunnar er líklegt að kviknað hafi út frá kerti eða kertum. Sjónarvottur, sem kom í kirkjuna daginn áður, tók eftir tveimur kertum á altarinu. Þar var og gestabókin.
KrýsuvíkurkirkjaLíklegt má telja að einhver eða einhverjir, sem komu í kirkjuna á nýársdag eða nýársdagkvöld, hafi kveikt á kertunum, hugsanlega til að skrifa í gestabókina, og síðan farið óviljandi án þess að slökkva logana. Eldsupptökin virðast hafa orðið austast í kirkjunni þar sem altarið var.
Þjóðminjavarslan mun án efa íhuga að láta af endurbyggingu kirkjunnar á þessum stað. Með því getur hún sparað einhverja aura. Aðrir vilja að kirkja verði byggð að nýju í Krýsuvík og mun það væntanlega ganga eftir.

Heimild:
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/01/02/krysuvikurkirkja_brann_i_nott/
http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item319188/
http://www.dv.is/frettir/2010/1/2/kirkjubruninn-menn-eru-i-afalli/

Krýsuvíkurkirkja

Ný Krýsuvíkurkirkja.

Kapella

Í Fréttabréfi Ættfræðifélagsins 2017 er m.a. fjallað um „Kapelluhraun og Heilaga Barböru„:

„Á hverjum degi bruna þúsundir bíla um Keflavíkurveginn með ökumenn og farþega sem eru óvitandi um einstaka náttúru- og menningarperlu sem leynist nánast alveg við veginn. Þessi perla er lítil kapella sem stendur á örlítilli hæð sunnan við álverið í Straumsvík. Hæð, sem er hluti af Kapelluhrauninu, sem hefur verið skafið og eyðilegt á stóru svæði umhverfis þessar einstöku minjar.

Kapellan

Kapellan í Kapelluhrauni áður en hún var grafin upp.

Í annálum er sagt frá miklu eldgosi í Trölladyngju árið 1151 og rann þaðan hraun frá Undirhlíðum til sjávar. Gosið var hluti af svo kölluðum Krýsuvíkureldum, sem urðu á langri gossprungu á Reykjanesskaganum. Þá er einnig talið að Ögmundarhraun, suðvestur af Krýsuvík, eins og við þekkjum hana í dag, hafi runnið yfir gamla Krýsuvíkurbæinn sem stóð niður undir sjó. Þar er að finna mjög merkar mannvistarleifar og óbrennishólma.

Kapellan

Kapellan – líklenski heilagrar Barböru endurgert.

Margt styður aldursgreiningar hraunanna, m.a. annálar og geislakolsmælingar. Í Kjalnesingasögu, sem er talin skráð eftir 1300, er einnig minnst á hraunið, sem þar er kallað Nýjahraun. En einmitt sú nafngift bendir til þess að hraunið hafi runnið eftir að land byggðist, og trúlega að mönnum ásjáandi. Nýjahraunsnafnið var notað allar miðaldirnar en síðar einnig nafnið Bruni. Á síðustu öldum fóru menn að kalla hraunið Kapelluhraun eftir lítilli hálfhruninni kapellu sem fannst í hrauninu. Kapellan er í landi Þorbjarnarstaða, eyðibýlis nálægt Straumi. Hún stendur við mjóa götuslóð sem rudd hefur verið yfir hraunið, og var alfaraleið suður með sjó öldum saman.
Kapellan er talin vera frá kaþólskum tíma. Kristján Eldjárn rannsakaði kapellurústina, ásamt fleirum, árið 1950. Þar fundust ýmsir munir, m.a. líkneski af Heilagri Barböru, verndardýrlingi gegn eldi, hruni, jarðhræringum og hita. Barbara var píslarvottur sem dó fyrir trúna, og var hálshöggvin af föður sínum, Hún var samkvæmt helgisögum uppi í lok 3. aldar e. Kr. Faðir hennar á að hafa læst hana inn í turni til að gæta meydóms hennar, og því er turn eins konar einkennistákn hennar. Líkneskið sem fannst í kapellunni sýnir einmitt Heilaga Barböru með vitann í fanginu. Það var brotið og aðeins fannst efri hluti þess í þrem pörtum. Styttubrotið er um 3,3 cm á hæð, en hefur líklega verið um 5,5 cm þegar styttan var í heilu lagi.

Kapellan

Kapellan – endurgerð.

Allt bendir til þess að hér hafi menn gert bæn sína í kaþólskum sið, áður en lagt var á hraunið, minnugir sagna um eldflóð og óáran, og heitið á Heilaga Barböru sér til verndar. Kapellan, sem er endurhlaðin, er opin í vest-suðvestur, og inni í henni hefur verið komið fyrir stækkaðri eftirmynd af líkneskinu. Það er sannarlega vel þess virði að heimsækja Heilaga Barböru þegar menn eiga leið suður með sjó, hvort sem þeir gera þar bæn sína eða ekki. Þótt eldgosahrinur einkenni Reykjanesskagann og um 850 ár séu frá þeirri síðustu, er fátt sem bendir til þess að eldur verði þar fljótlega uppi, eins og segir í fornum skræðum. En í hrauninu og kapellunni tengjast sagan og jarðfræðin, trúin og lífskjörin, og þar getum við einnig dregið lærdóm af því hvernig ekki á að fara með umhverfi einstakra og dýrmætra minja.“

Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins, 1. tbl. 01.02.2017, Kapelluhraun og Heilög Barbara, bls. 2.

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðiarinnar, sem lá framhjá henni.