Í frétt Minja- og sögufélags Vatnsleysustrandar má lesa eftirfarandi um „brúsapalla“ í sveitarfélaginu:
„Brúsapallar voru víða um sveitir landsins á árunum 1940 til 1970. Þar þjónuðu þeir hlutverki sínu fyrir mjólk sem beið þess að verða sótt, á leið sinni í mjólkurbúið. Þar beið líka stundum heimasætan og annað fólk sem þurfti bílfar um sveitina.
Árið 2009 voru nokkrir brúsapallar friðaðir í Noregi þar sem talið var að þeir hefðu að geyma merkan hluta af menningarsögu sveitanna, hvað snerti bæði framleiðsluhætti og félagslíf.
Í Sveitarfélaginu Vogum eru enn uppistandandi tveir brúsapallar, smáhýsi sem standa við afleggjarana að Litla-Bæ og Bakka og Þórustöðum. Sannarlega merkur hluti menningarsögu sveitarfélagsins.
Er ástæða til að halda sögu þessara brúsapalla okkar lifandi? Hefðu vegfarendur um sveitina okkar hugsanlega gagn og gaman af að fræðast um hluta menningarsögu okkar við smáhýsin við Vatnsleysustrandarveg?“
Á mbl.is var grein um brúsapalla undir fyrirsögninni „Kennari, hvað er brúsapallur?“
„Nú eru komin ný orð yfir þetta, ferlega ljót, nánast afstyrmi að því er mér finnst: samnemendur eða samstúdentar .
Öllum er ljóst að samfélag okkar, sem og þau sem við höfum mest saman að sælda við, breytist ört. Það veldur því að við þörfnumst sífellt nýrra orða til að gera okkur jarðvistina léttbærari og skiljanlegri. Ný orð yfir ný fyrirbæri gera okkur kleift að vera virk í þessum nútíma sem þó staldrar svo stutt við áður en sá næsti birtist.
Í því augnamiði smíðum við nýyrði mörg, lögum erlend orð að íslensku beygingar- og hljóðkerfi og tökum gömul íslensk orð, sem misst hafa af hraðlestinni, orðið eins konar strandaglópar eins og orðið skjár svo dæmi sé nefnt. Mörg hinna nýju orða verða gildir þegnar málsamfélagsins, önnur týnast brátt; verða undir í samkeppninni.
Fylgifiskur alls þessa er náttúrlega sá að sum gömul og gegn orð glatast með öllu eða verða svo fágæt í munni manna og skrifum að þeir sem þau nota teljast til sérvitringa, eins konar fornmanna sem neita að hlýða kalli tímans.
Þessi orð verða úti og rata ekki til hinna nýju byggða af því að þeirra virðist engin þörf lengur. Þau verða samferða í útlegðina gömlum atvinnuháttum og verkmenningu sem gengin er sér til húðar.
Þannig er það staðreynd að allsendis væri ómögulegt að kenna börnum vorum og unglingum ljóðið um Bjössa á mjólkurbílnum án þess að því fylgdu nákvæmar orðskýringar. Þannig stendur í Íslensku orðabókinni: „Brúsapallur: pallur á mótum þjóðvegar og heimreiðar að býli þar sem mjólkurbrúsar eru settir fyrir mjólkurbílinn.“
Það vekur athygli að sögnin, sem fylgir skýringunni, er í nútíð (eru). Nú er tími brúsapallanna liðinn og líklega væri réttara að nota þátíðina (voru).
Brotthvarf brúsapallanna úr íslensku þjóðlífi var fyrir nokkrum árum tilefni þessarar vísu manns sem virðist sakna ákaft horfins tíma:
Öðruvísi allt í gær;
aldni tíminn fallinn.
Okkar bíður engin mær
við engan brúsapallinn.
Brúsapallurinn horfni er einungis eitt dæmi ótal margra um orð sem látið hafa í minni pokann fyrir þessu óttalega skrímsli sem við köllum þróun, jafnvel framfarir, og engu eirir.
Stundum gerist það og að orð sem notuð hafa verið í áratugi, jafnvel aldir, um fyrirbæri sem enn eru í fullu gildi í samfélaginu, verða að víkja, gjarna vegna erlendra áhrifa. Að sumum þessara orða þykir mér mikil eftirsjá.“
Í Degi árið 1956 er stutt skrif um brúsapalla:
„Brúsapallar ættu að vera á hverjum stað, þar sem mjólk þarf að skilja eftir við veginn og mjólkurbíllinn tekur síðan. Ef einhverjum finnst þetta hégómamál, ættu þeir að hugleiða það ofurlítið nánar og hafa þá jafnframt hreinlætið í huga. Brúsarnir eru settir á vegarbrún. Bílar fara um og aursletturnar ganga yfir brúsana þegar blautt er um. Í þurrki leggur rykmökkinn yfir þá. En verstur er þó staðurinn sjálfur, þar sem þeir standa á. Þar er traðk manna, hunda og stórgripa. Eitt og annað loðir svo við botngjörðina þegar brúsarnir eru látnir á pallinn. Það hristist að mestu af á leiðinni og þá gjarnan á aðra brúsa er neðar standa. En ef svo ólíklega skyldi vilja til, að eitthvað væri enn eftir þegar að því kemur að hella mjólkinni í vigtina við móttöku í mjólkursamlaginu, er hætt við að mjög óvelkomin óhreinindi verði nærgöngul við hina ágætu mjólk.
Ekki skal í efa dregið að vígreifar hersveitir Jónasar samlagsstjóra, sem hafa þrifnaðinn að vopni, auk sjóðandi vítisvéla, grandi sýklum og öllum þeim ósýnilegu og mögnuðu kvikindum, sem teljast óvinveittar heilbrigði dauðlegra manna og kynnu samkvæmt framansögðu að eiga greiðari leið en æskilegt væri inn á aðalstöðvar mjólkuriðnaðarins. En betra væri samt að loka þessari leið með þeirri þrifnaðarráðstöfun að hafa brúsapalla á hverjum bæ og eru þessar línur skrifaðar í því skyni að þeim mætti fjölga sem fyrst og sem mest. – Spói.“
Á vefsíðu Þjóðminjasafnsins er fjallað um brúsapalla:
„Árið 1960 var ekki langt þar til gjörbylting varð í landbúnaði á Íslandi. Vélvæðingin var skammt undan og vélknúin farartæki, dráttarvélar og jeppar leystu af hólmi þarfasta þjóninn við flutninga á landbúnaðarafurðum, jarðvinnu og heyskap. Fjósin stækkuðu, mjaltavélar komu til sögunnar og mjólkurframleiðsla jókst. Í fyrstunni var víða haldið áfram að setja mjólkina í brúsa og hún keyrð í veg fyrir mjólkurbílinn, sem var búinn sogdælu sem dældi mjólkinni í tank bílsins. Næsta stig þróunar varð að við hvert fjós skyldi vera mjólkurhús til þess að uppfylla gæðakröfur sem settar voru til framleiðslu mjólkurafurða. Þar með var því marki náð að mjólkurbíllinn kæmi heim á hvern bæ til þess að sækja mjólkina. Brúsapallar urðu við það svipur hjá sjón. Þeir gegndu þó áfram hlutverki eins konar póstkassa uns þeir hurfu alveg úr vegkantinum og póstkassar með samræmt útlit festir á þar til gerða staura við heimreiðar bæja.“
Á bloggsíðunni bilablogg.is segir m.a. af sannleiknum um Bjössa á mjólkurbílnum:
„Starf mjólkurbílstjóra var margþætt á þessum árum og fólst að hluta til í því að koma pökkum á milli staða. Ekki þurfti meira til en það og útkomuna þekkjum við í textanum við ítalska lagið Poppa Piccolino sem varð einfaldlega að: „Bjössi á mjólkurbílnum„.
Höfum í huga við lestur textans í heild hér fyrir neðan að Björn var kvæntur maður og faðir tveggja ungra barna, en alls urðu börnin fjögur. Björn var maður sem fólkið í sveitinni fagnaði þegar hann birtist með nauðþurftir og annað. Hann þótti með eindæmum lunkinn bílstjóri og í minningarorðum um Björn skrifaði dóttir hans að „[…] varla var til sú bíldrusla sem hann gat ekki gert gangfæra“.
Höfum líka í huga að maðurinn sem gerði Kolbein kaftein að hamfarakjafti í íslenskri þýðingu Tinnabókanna samdi textann um Bjössa og var það sem fyrr segir gert af glettni. Má sjá fyrir sér Loft Guðmundsson, sposkan á svip, hripa niður textann sem er svona:
Hver ekur eins og ljón
Með aðra hönd á stýri?
Bjössi á mjólkurbílnum,
Bjössi á mjólkurbílnum.
Hver stígur bensínið
í botn á fyrsta gíri?
Bjössi á mjólkurbílnum,
Hann Bjössi kvennagull.
Við brúsapallinn bíður hans mær,
Hæ, Bjössi keyptirðu þetta í gær?
Og Bjössi hlær, ertu öldungis ær,
Alveg gleymdi’ ég því.
Þér fer svo vel að vera svona’ æst
æ, vertu nú stillt ég man þetta næst.
Einn góðan koss, svo getum við sæst á ný.
Hann Bjössi kann á bil og svanna tökin.
Við brúsapallinn fyrirgefst mörg sökin.„
Heimildir:
-https://www.facebook.com/510788858933519/photos/br%C3%BAsapallar-voru-v%C3%AD%C3%B0a-um-sveitir-landsins-%C3%A1-%C3%A1runum-1940-til-1970-%C3%BEar-%C3%BEj%C3%B3nu%C3%B0u-%C3%BEei/584589608220110/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1364905/
-https://www.thjodminjasafn.is/syningar-vidburdir/adrar-syningar/ljosmynd-manadarins/hver-ekur-eins-og-ljon
-Dagur, 52. tbl. 06.10.1956, Fokdreifar, bls. 4.
-https://www.bilablogg.is/frettir/sannleikurinn-um-bjossa-a-mjolkurbilnum