Tag Archive for: brýr

Lækjargata

Hér segir frá hinum gömlu Reykjavíkurbrúm.

„[Lækurinn] kom úr norðausturhorni Tjarnarinnar, hlykkjaðist meðfram löndum Skálholtskots og Stöðlakots og síðan rann hann á landmerkjum Arnarhóls og Reykjavíkur til sjávar, og var ósinn rétt Reykjavík 1787vestan við Arnarhólsklett. Hafði hann þá runnið 198 faðma leið. Víðast var hann ekki nema svo sem tveggja faðma breiður og holbekktur, en um miðju var hann miklu breiðari og fram undan Stöðlakotslandi nyrzt (þar sem nú er lóðin Bankastræti 2) var dálítill hólmi í honum, grasi gróinn. Á austurbakkanum voru grænar flatir mýrarkenndar fyrir neðan túnin og höfðu bændur þar slægjur.“
„Lækurinn var mesti vandræðagripur. Átti hann það oft til að hlaupa yfir Austurvöll, svo að hann varð eins og hafsjór yfir að líta. … Fyrsta flóðið, sem menn hafa sagnir af, stafaði af sjávarfyllu. Var það árið 1799 í veðrinu mikla, þegar Básenda tók af. … Annað sjávarflóð mikið kom á jólaföstu 1832. Kom flóðið upp í lækinn og yfir allan Austurvöll. Þriðja flóðið kom á miðþorra 1863. … Stíflaðist þá lækurinn og varð af geysimikið flóð í Miðbænum, … Fjórða stórflóðið kom á þorraþrælinn (19. febrúar) 1881. …
StólpabrúinVatnið fyllti alla kjallara í Miðbænum og komst sums staðar inn í húsin. Og yfir austurhluta Austurvallar og Lækjargötu var þá ekki fært nema á bátum, því að vatnið tók mönnum þar í mitti, en í Austurstræti mitt á milli þar sem er Útvegsbankinn og Hressingarskálinn, var maður nokkur nær drukknaður.“
Á 17. bæjarstjórnarfundi árið 1843 voru ákveðnar eftirfarandi framkvæmdir í Lækjargötu:
„Veitti bæjarstjórn því 1848–1850 hundrað ríkisdali á ári til að þrengja lækjarfarveginn fram undan Stöðlakotslóð og hækka vesturbakkann á því svæði. Var þetta gert til þess að fá meiri straum í lækinn og koma í veg fyrir að hann flæddi yfir Miðbæinn svo að segja á hverjum vetri, hinum eldri til mikils ama, en börnunum til gleði, því að þá kom ágætt skautasvell á Austurvöll, og þar var æskulýðurinn alltaf á skautum, en ekki úti á Tjörn. Árið 1852 samþykkti bæjarstjórn að láta hlaða upp farveg lækjarins, að neðanverðu. Var það gert á næstum árum. Voru bakkarnir hlaðnir úr hnullungargrjóti, nema fram undan Kóngsgarði. Þar voru þeir hlaðnir úr höggnu grjóti, „hefur kannske þótt skömm að láta hið sama ávallt vera fyrir augum landshöfðingjans, sem aðrir verða að þola,“ segir Gröndal. …

Stólpabrúin

Jafnhliða þessum framkvæmdum var sú kvöð lögð á þá, sem áttu heima í Lækjargötu, að þeir settu laglegar grindur meðfram læknum, hver fyrir sinni lóð og héldu þeim við. Var þetta gert til þess að afstýra því, að menn hrösuðu þar ofan í lækinn í myrkri. Þetta var gert en lítið var um viðhald og grotnuðu grindurnar niður og brotnuðu. … Árið eftir konungskomuna [1874] voru lækjarbakkarnir hlaðnir upp frá Skólabrú suður að tjörn og á næsta ári var Lækjargatan lengd að Tjörninni.“
„Frá því ég man fyrst eftir var tíðast eitthvað verið að laga hann til, ýmist hlaða upp veggi hans, laga girðingar meðfram honum, setja á hann brýr, eða hreinsa hann. En eigi að síður var Lækurinn óþverravilpa, sem óheilnæmi og hætta stafaði af, og því hlaut að koma að því, fyrr eða síðar, að hann yrði leiddur í pípum til sjávar, farvegur hans fylltur og gerð þar gata. Veganefnd ákvað um mitt sumar 1912 að ráðist skyldi í þessa framkvæmd næsta ár, en áætlað var, að hún mundi kosta um þrjátíu þúsund krónur. … og var Læknum komið í þann farveg, sem hann enn er í, sumarið 1913.“

Lækurinn

Brýrnar yfir lækinn Kort Ohlsens og Aanums af Reykjavík frá 1801 sýnir fjórar brýr á Læknum; eina við ósinn, niður úr Arnarhólströðum, aðra fram undan Tugthúsinu/ Kóngsgarði/ Landshöfðingjahúsinu/ Stiftamtmannsbústaðnum/ Stjórnarráðinu, hina þriðju fyrir neðan Þingholtsbæina og fjórðu neðan Stöðlakots. Að öllum líkindum hafa þetta verið einfaldar plankabrýr en sumar með handriði.
Árið 1828 voru settar tvær allveglegar trébrýr á Lækinn, sú fyrri við ósinn en hin síðari fyrir framan Stiftamtmannsbústaðinn. Var sú með háum handriðum og stórum hurðum. Eftir 1834 var sett brú við endann á Austurstræti til að tengja götuna Bakarabrekkunni (Bankastræti) þar sem eini bakari bæjarins var sestur að með starfsemi sína. Stefán Gunnlaugsson land- og bæjarfógeti lét gera brú fyrir framan hús sitt Amtmannsstíg 2 árið 1838. Árið 1846 var gerð brú niður af Latínuskólanum og fékk hún nafnið Skólabrú, en það nafn færðist líka yfir á brautina upp að skólanum og seinna á götuna handan við lækinn. Trébrúin niður af Bakarabrekku var tekin niður árið 1866 og steinbrú gerð þar í staðinn og þótti hún mikið mannvirki. Seinasta brúin yfir Lækinn var gerð árið 1882 niður af Skálholtslind (þar sem Mæðragarður er nú). Sunnar voru þrír til fjórir plankar lagðir yfir Lækinn.

Arnarhólslækur í Reykjavík
Landsnefndin síðari hafði til athugunar margs kyns málefni sem vörðuðu framfarir og viðreisn ÍsKortlands, meðal annars verslunina, og gaf út það álit að stefna bæri að verslunarfrelsi. Fyrst yrði þó að leggja hornstein að kaupstöðum í landinu. Lagði hún því til að stofnaðir yrðu kaupstaðir á fimm stöðum, í Reykjavík og Grundarfirði, á Ísafirði, í Eyjafirði og á Reyðarfirði. Þá hreyfðu nefndarmenn þeirri hugmynd að Reykjavík yrði höfuðstaður landsins, þangað flytti Skálholtsbiskup og skóli staðarins en bærinn hlyti nýtt nafn, Kristjánsvík, konungi til heiðurs. Til að tryggja enn frekar að ekki fyrndist yfir nafn konungs þótti þeim vel til fallið að Eyjafjörður skipti líka um nafn og héti eftirleiðis Kristjánsfjörður.
Árið 1771 hljóðnuðu hamarshöggin í nýju tyftunarhúsi landsins á Arnarhóli. Smíði þess var lokið. Þegar stiftamtmaður tók sér þar bólfestu 1819 var það kallað Kóngsgarður, síðar fékk það nafnið Landshöfðingjahús en kallast nú Stjórnarráðshús.
Reykjavík hlaut kaupstaðarréttindi árið 1786. Sama ár voru stofnaðir kaupstaðir á fimm öðrum stöðum, í Grundarfirði, á Ísafirði, Akureyri, Eskifirði og í Vestmannaeyjum.
Þetta sama ár Bakarabrúinvar birt konungleg auglýsing þess efnis að einokunarversluninni yrði brátt aflétt. Þá hafði verið afráðið að hvort tveggja, biskupssetrið í Skálholti og skóli staðarins, yrði flutt til Reykjavíkur. Næstu árin fluttist þangað öll umboðsstjórn konungs sem til þessa hafði verið tvist og bast um landið. Reykjavík verður einnig miðstöð verslunar og vöxtur hleypur í þennan höfuðstað landsins.
Jafnskjótt og tökin linuðust á einokunarversluninni tók byggðin að fikra sig austur með sjónum frá Aðalstræti í áttina að Arnarhólslæk en hann afmarkaði í fyrstu kaupstaðarlóðina að austan. Hann var hins vegar ógreiðfær yfirferðar og breiddi sums staðar úr sér. Stundum flóði hann yfir bakka sína, vatnskrapi sytraði yfir Austurvöll og Kirkjubrú og tók mönnum í hné og klyftir og dómkirkjan nýja var umflotin vatni.
Verslun heimtar greiðar samgöngur og Arnarhólslækur var fyrsti farartálminn austur úr bænum. Niður við lækjarósinn var að vísu vað en það var einungis fært ríðandi mönnum.
Í vaxandi bæ varð ekki undan því vikist að brúa lækinn. Og brýrnar, sem ráðist var í að gera, markBankastrætia að sínu leyti nýtt upphaf í brúarsmíðum á Íslandi. Í fyrstu var efniviðurinn einvörðungu tré, síðan bættist við höggvinn steinn og loks efni framtíðarinnar, steinsteypa. Reykjavík teygði sig brátt austur yfir Arnarhólslæk og verslunin með bættum samgöngum smám saman allar götur austur yfir fjall.
Þar sem nú er Bókhlöðustígur var brú á leiðinni að tveimur hjáleigum Víkurjarðarinnar, Stöðlakoti og Skálholtskoti. Hún var kölluð Skálholtskotsbrú. Hún hefur verið elst, er eina brúin á læknum á Reykjavíkurkorti sem hinn konunglegi stjörnumeistari Lievog gerði árið 1787.
Á korti frá 1801 eru hins vegar fjórar brýr á læknum. Auk Skálholtskotsbrúar er brú við stíginn sem lá upp að þinghúsi bæjarins og Þingholt draga nafn af. Sú brú var á svipuðum slóðum og Amtmannsstígur er nú. Brú er yfir lækinn að tukthúsinu og loks er brú við Arnarhólstraðir þar sem var alfaravegur úr bænum og heim að bænum sjálfum. Sú leið var hins vegar tekin af. Stígurinn sunnan við Kóngsgarðinn tók við af henni og breið og sterk trébrú var sett þar yfir lækinn. Knudtzon kaupmaður lét reisa brauðgerðarhús sunnanvert við stíginn árið 1835 og fékk þangað þýskan bakara, Bernhöft að nafni. Stígurinn dró nafn af iðn Bernhöfts og var ýmist kallaður Bakarastígur eða Bakarabrú. Brúin var einnig kölluð Bakarabrú en annað nafn á henni var Lestamannabrúin. Það nafn dró hún af hestalestum bænda í kaupstaðarferð.
SkólabrúinStefán Gunnlaugsson sýslumaður og síðar bæjarfógeti reisti sér íbúðarhús suður af brauðgerðarhúsunum og vildi fá stíg þangað heim á kostnað bæjarins. Þegar það mál kom til umræðu á borgarafundi 1839 þótti sumum borgurunum sér misboðið og hurfu af fundi. Þeir sem eftir sátu töldu að ódýrast væri að setja „gömlu brúna“ á lækinn syðst í lóðinni og leggja síðan stíg frá henni upp að húsi sýslumanns. „Gamla brúin“, sem þá lá á lausu eins og segir í fundargerð, var annaðhvort brúin við Arnarholtstraðir eða brúin sem áður var á stígnum upp að þinghúsinu. Eftir þetta var hún kölluð Gunnlögssensbrúin.
Allt voru þetta trébrýr. Tvær af þeim brúm, sem enn átti eftir að setja yfir lækinn, voru hins vegar gerðar af höggnum steini, steinbogar eða bogabrýr eins og Rómverjar hinir fornu reistu, einu brýrnar af því tagi á Íslandi.

„Skólabrúin dýra“
Önnur bogabrúin var fyrir neðan hið nýja hús latínuskólans en bygging þess hófst 1844. Til að reisa skólahúsið komu hingað tveir norskir trésmiðir og norskur múrari sem jafnframt var steinhöggvari. Hann hlóð grunninn undir húsið sem var komið undir þak í nóvember. Sökum myrkurs var ekki hægt að ljúka því sem eftir var inni án lýsingar en ekki þótti hættandi á að láta lítt vana verkamenn vinna þar með logandi ljós sér við hlið. Veturinn 1845 var því hafist handa við að sprengja grjót í brúna og jarðþrep framan við skólann ofan við flötina sem hallaði niður að læknum. Grjótið var jafnharðan höggvið til og brúin hlaðin. Kostnaður við hið nýja skólahús fór úr böndunum af ýmsum ástæðum og það átti einnig við um kostnað við brúna. Því var hún kölluð „skólabrúin dýra“.
Nafnið Skólabrú á raunar ekki alltaf við brúna sjálfa heldur slóðann frá skólanum niður undir dómkirkju eða stíginn frá læknum upp að skólahúsinu. Í Ingólfi 1853 er steinboginn kallaður Skólabrú. Í Þjóðólfi 1867 segir að norski múrarinn hafi lagt „brú niður undir kirkjuna“.13 Benedikt Gröndal, sem réðst sem kennari við skólann 1874, segir að gangstígurinn frá læknum upp að skólanum hafi borið þetta nafn og lýsir honum nokkrum orðum. Hann var „alræmdur“ að sögn Gröndals, tíðum „illfær á vetrum í hálku og stormi, en engar grindur utan með til stuðnings og mun þetta gert eftir reglunni „per ardua ad astra“,“ þ.e. enginn verður óbarinn biskup. Yfir lækinn var „steinbrú“ og „ómerkilegt hlið á,“ segir Gröndal enn fremur.
SkólabrúinÞó að hliðið hafi verið „ómerkilegt” í augum Gröndals markaði það í raun réttri skil milli tveggja heima, Reykjavík snauðra tómthúsmanna og Reykjavík embættis- og kaupmanna. Yfir brúna áttu sauðsvartir almúgamenn sjaldan erindi. Sama átti við um brúna fyrir framan Kóngsgarðinn, Stólpabrúna eins og hún var kölluð. Á henni voru grindur og háir og miklir stólpar en sterk vængjahurð lokaði leiðinni til fulltrúa konungsins á Íslandi, stiftamtmanns og síðar landshöfðingja. Svipað hlið var sett á Gunnlögssensbrúna.
Talið er að sement hafi fyrst verið notað við húsasmíðar hér á landi þegar ráðist var í umbætur á dómkirkjunni í Reykjavík 1847. Víst er að sement ásamt kalki var meðal efnis sem flutt var til Reykjavíkur 1844 þegar hafist var handa við að hlaða grunn Lærða skólans.17 Hvort eitthvað af því var notað við það verk skal látið ósagt en ætla má að það hafi verið notað við brúarsmíðina. Liðlega tuttugu árum síðar var samið við Sverri steinhöggvara Runólfsson um að gera steinboga yfir lækinn í stað trébrúarinnar neðst á Bakarastíg. Í samningnum segir meðal annars að frágangurinn „á steinboganum og undirstöðu hans áskilur bæjarstjórnin að verði allur hinn sami með reglulega höggnum steinum og annarri vöndun verksins og traustleika eins og steinboginn undir skólabrúnni“. Þá er enn fremur tekið fram að til múrverksins skuli „brúka vandað cement og ekki kalk“. Ekki er ólíklegt að þetta ákvæði í samningnum sé einmitt til komið vegna þess að þannig hafi verið að verki staðið við Skólabrúna.

Steinboginn við Bakarastíg
SteinbogabrúinSverrir Runólfsson hafði numið iðn sína í Danmörku. Hann kom heim 1860 og var einn helsti verktakinn við ýmsar framkvæmdir í Reykjavík næstu árin, gerði „við rennur með sínu lagi og við götur og vegi bæði í Reykjavík og í sýslunni og þar með steinboga yfir lækinn í Reykjavík við hvur verk flest hann mætti ólempni bæjarstjórnarinnar þar svo furðu gegndi en kom þó öllu sínu fram,“ segir hann í ævisögu sinni.
Óvíst er hvort hugmyndin um steinbogann hefur verið runnin undan rifjum Sverris sjálfs. Haustið 1865 ritaði hann Óla P. Finsen bæjarfulltrúa bréf og bauðst til að leggja sjö álna eða um 4,4 metra breiðan múraðan steinboga með steinveggjum á báðum köntum „í stað gitterverks“, þ.e. rimla, yfir lækinn á alfaraveginum upp á Bakarastíginn og kæmi steinboginn í staðinn fyrir trébrúna sem þar var þá. Þetta orðalag, „í stað gitterverks“, gæti bent til þess að einhver bæjarfulltrúanna, ef til vill Óli P. Finsen sjálfur, hafi ámálgað það við Sverri að hann tæki að sér að gera steinboga með „gitterverki“ yfir lækinn. Kostnaðurinn gerði Sverrir ráð fyrir að yrði allt að þrjú hundruð ríkisdalir en þetta sama ár námu áætlaðar tekjur bæjarins um tólffaldri þeirri upphæð. Hér var því í mikið ráðist. Trébrúin var hins vegar orðin hrörleg enda þarfnaðist hún „aðalaðgjörðar“ þegar hér var komið sögu. Málið var rætt á fundi bæjarstjórnar. Þó að bæjarfulltrúum þætti margt óljóst í tilboði Sverris vildu þeir ekki með öllu varpa fyrir róða „hugsuninni með múraða steinbogabrú í stað trébrúar“. Þeir fólu því einum úr sínum hópi, Jóni Guðmundssyni ritstjóra Þjóðólfs, að semja við Sverri en einkum þó að setja honum ýmis skilyrði sem þeim þótti nauðsyn bera til að sett væru, gera með öðrum orðum við hann verksamning, semja verklýsingu til að vinna eftir og setja ákvæði um verklok en allt var þetta eitt og sama plaggið. Steinbogabrúin skyldi vera sjö álna breið (þ.e. um 4,4 m) með traustri og múraðri undirstöðu, segir í verksamningnum og boginn svo hæfilega upphafinn og hvelfdur að hvirfill hans að neðanverðu væri að minnsta kosti sex þumlungum hærri en bitarnir í trébrúnni í beinni línu frá botni lækjarins. Í stað steinveggja á báðum köntum eins og Sverrir lagði til vildu bæjarfulltrúarnir að kæmu fjórir stólpar úr höggnum steini með hæfilegri hæð, sinn á hverju brúarhorni og þannig um búið að járnteinn yrði þar í festur sinn hvorum megin en holur höggnar í steinbogakantinn, tvær hvorum megin milli stólpanna, og járnstólpar festir í með renndu blýi um kring. Fyrir þetta verk var bæjarstjórnin reiðubúin að greiða þrjú hundruð ríkisdali alls en í þeirri greiðslu skyldi fólgið „allt efni, er verk þetta útkrefur, að því er áhrærir grjót og cement, og vandaða uppfyllingu aftan á steinboganum sjálfum, sömuleiðis öll verk, er að þessu lúta, hverju nafni sem nefnast, og sömuleiðis öll tól og áhöld, er þar til útheimtast, þar á meðal allt tréverk (stillads), bæði að efni og smíði til þess að mynda steinbogann og halda honum uppi, uns hann er fullgjörður. Þér múrmeistarinn getið því ekki átt neinn aðgang að bæjarstjórninni um neina sérstaka borgun, eða aukaborgun fyrir neitt þess leiðis“.
Verklok miðuðust við tíunda dag frá komu póstskipsins í annarri ferð sinni hingað vorið 1866 en gert var ráð fyrir að það kæmi í maíbyrjun. Skyldi hin nýja steinbogabrú þá vera alfær yfirferðar.

Heimild:
-Vegagerðin, Framkvæmdafréttir, 33. tbl./06.
-Úr bókinni „Brýr að baki“, sögu brúargerðar á Íslandi.
-Anna Lísa Guðmundsdóttir og Helga Maureen Gylfadóttir – Lækurinn, fyrr og nú, MR, Reykjavík 2007.

Reykjavík 1801

Reykjavík 1801.