Tag Archive for: Búahellir

Búahellir

Í Kjalnesingasögu segir frá Búa, sem hélt til í helli í Laugargnípu. Í viðræðum við Harald Jónsson í Varmadal fékkst staðfest að hellirinn væri til, nefndur Búahellir.

Kjalarnes

Kjalarnes – kort.

Hellirinn er ofarlega í Búa (Laugargnípu) og erfitt að komast upp í hann. Sjálfur hafi hann einu sinni reynt að klifra þangað upp en í upphafi skal endirinn skoða því erfitt getur reynst að komast niður aftur. Best væri að síga ofan frá, í hellinn og síðan fara áfram á bandinu niður fyrir.
Gengið er að skriðu fjallsins frá Grundará, sem kemur úr gili (Gljúfrinu) skammt norðar. Op hellisins horfir mót vestri.

Í Kjalnesingasögu segir t.d.. að Helgi bjóla hafi numið Kjalarnes og búið á Hofi. Hann átti Þórnýju, dóttur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmannsins. Synir þeirra hétu Þorgrímur og Arngrímur.

Esjuberg

Búahellir?

Örlygur hinn írski leitaði á náðir Helga bjólu að ráði frænda síns, Patreks biskups á Írlandi. Fékk Helgi honum bústað. Þar reisti Örlygur kirkju. Andríður, Kolli og Esja koma síðar. Helgi tekur við þeim.

Kolli sest að í Kollafirði. Örlygur var þá háaldraður og gaf upp land og bú fyrir Esju en upp frá því heitir þar að Esjubergi. Andríður var á hinn bóginn hjá Helga á Hofi hinn fyrsta vetur og sórust hann og synir Helga í fóstbræðralag. Helgi gefur honum síðan land undir bú, Brautarholt, og bað einnig til handa honum konu, Þuríðar, systur Þormóðs í Þormóðsdal.

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir og Hrafnhólar.

Þorgrímur, sonur Helga, fékk Arndísar á Skeggjastöðum og var því tvöfalt brúðkaup á Hofi.
Þegar Helgi andast tekur Þorgrímur við búinu á Hofi og mannaforráðum (goðorði) en Arngrímur reisir sér bæ sem hann kallar Saurbæ. Synir hans eru þeir Helgi og Vakur en sonur Þorgríms heitir Þorsteinn. Þorgrímur er blótmaður mikill og reisir sér stórt hof. Sonur hans, Þorsteinn, er sagður „uppivöslumaður mikill“. Sonur Andríðs og Arndísar, Búi, er aðalpersóna sögunnar. Hann er sagður einrænn. Kolfinnur er kynntur til sögu. Hann býr í skjóli móður sinnar, Þorgerðar á Vatni, og er ekki eins og fólk er flest. Hann er kolbítur, beit steiktan börk af viði og gætti katla móður sinnar.

Lauganýpa

Lauganýpa.

Búi er í fóstri hjá Esju. Hann vill aldrei blóta og er loks dæmdur sekur skógarmaður á Kjalarnesþingi fyrir „rangan átrúnað“. Hann er með öðrum orðum brottrækur úr mannlegu samfélagi og réttdræpur. Ákæruefnið bendir til þess að hann sé kristinn eins og raunar kemur skýrt fram í sögulok.

Búi fer allra sinna ferða eins og ekkert hafi í skorist. Hann hefur hnýtt um sig slöngu sem er eina vopn hans. Fram kemur að kærleikar eru með honum og móður hans. Þeir Þorsteinn hyggjast taka hann af lífi og veita honum eitt sinn eftirför. En Esja kemur honum til bjargar. Yfir þá lýstur svo miklu myrkri að þeir sáu ekki handa sinna skil. Síðar drepur Búi Þorstein og ber eld í hofið sem brennur til kaldra kola. Esja fær honum bústað, herbergi með baði í helli nokkrum undir Laugargnípu í fjallinu ofan við Esjuberg, þ.e. Esju.“

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Kjalarnesið er sagnaríkt. Margar minjar er þar að finna ef vel er að gáð sem og skírskotun til gamallar sögu og sagna fyrri tíðar.
Haraldur segir umhverfið þarna hafa breyst mikið á skömmum tíma. Um 1920 hafi t.d. áin breytt um farveg. Áður hafi hún runnið mun vestar. Þegar staðið væri uppi á Búa og horft yfir Esjuberg og nágrenni hefði fyrir 50 árum mátt sjá móta fyrir gömlum tóftum á túninu og þannig nokkurn veginn mátt átta sig á hvernig gamla bæjarstæðið hafi litið út. Nú væri þetta meira og minna horfið. Ef taka ætti mið af breytingunni á þessum rúmlega fimmtíu árum, sem hann hafi verið þarna, þá gæti svæðið og þar með fjallið hafa litið allt öðruvísi út fyrir einhverjum öldum síðan, hvað þá árþúsundi. En hellirinn væri þarna upp í klettunum.

Heimild fengin af:
-http://www.flensborg.is/sveinn/Skrar/handr/Kjalnesingas.htm

Esjuberg

Esjuberg um 1900.

Árvellir

Ætlunin var að skoða fornminjar við Grundará undir Kerhólakambi Esju, öðru nafni Búa. Þar mun móta fyrir görðum Grundar, Esjubergs og Árvalla sem og tóftum bæjanna og öðrum mannvirkjum frá fyrri tíð. Þessar minjar virðast vera lítt þekktar þrátt fyrir að skammt frá hafi um langan aldur verið ein fjölfarnasta þjóðleið landsins (Vesturlandsvegurinn).

Forn gata ofan Esjubergs - Búi fjærÍ Kjalnesingasögu segir frá Esju á Esjubergi. Ofan núverandi bæjarstæðis þess bæjar er að sjá bæði forna garða og tóftir. Tilgangurinn var m.a. að skoða hvorutveggja og auk þess átti að freysta uppgöngu um einstigi þess fræga Búahellis (sem sumir segja að sé ekki til) í Búa.
Þá lágu fyrir heimildir um kirkju að Esjubergi. Sumir segja hana hafa verið þá fyrstu hér á landi. Á túninu átti, skv. fyrirliggjandi upplýsingum, að móta fyrir ferköntuðum garði og tóft.
Áður en lagt var af stað var auk þessa lagst yfir örnefnalýsingar af Esjubergi með góðri aðstoð frá Jónínu Hafsteinsdóttur á Örnefnastofnun Íslands. Í þeim kemur m.a. fram að (hafa ber í huga að þjóðvegurinn hefur verið færður, t.d. liggur hann nú undir Leiðhamra, en ekki upp Kleifina svonefndu og inn með Esjurótum eins og áður var): „
Vesturmörkin, milli Esjubergs og Skrauthóla, eru um Gvendarbrunn í Flóðará og beint upp Esju. Milli Móa og Saltvíkur eru merkin Móalækur um Gvendarbrunn og upp í há-Esju um Laugarnípu, sem er há nípa upp af Árvelli. Leiðhamrar eru þrír talsins. Austasti hluti þeirra tilheyrir Esjubergi, en hitt Móum. Úr honum er línan í Varmhóla, þar sem þeir eru hæstir, en það er hólaþyrping hér upp af. [Aths. Odds Jónssonar við Esjuberg.

 

Stekkur frá Grund neðan GljúfurdalsDys var upp af Varmhólum.] Upp af Leiðhömrum er mýri, þar sem tekinn var upp mór frá Esjubergi. Upp af Leiðvelli er flöt, er nefnist Kirkjuflöt. Þar var sagt, að hefði verið bænhús eða kirkja. Viðurinn í hana átti að hafa verið fluttur um Leiðvöll. [Hér er komin önnur vísbending um hugsanlega staðsetningu kirkju í landi Esjubergs.]
Ofan við veg er landið miklu breiðara, enda á Esjuberg land ofan vegar með Flóðará. Við gamla veginn, þegar kemur upp úr Kleifunum í Mógilsárlandi, er dys, sem nefnd er Dyngja. Þar átti að kasta steini í, er farið var framhjá. [Athugasemdir Sigríðar Gísladóttur, húsfreyju á Esjubergi við örnefni jarðarinnar. Sigríður er uppalin á Esjubergi og hefur átt þar heima óslitið frá árinu 1957. Dysin er/ var í landi Esjubergs. Var eyðilögð með stórvirkum vinnuvélum vorið 1981.]
Holtið, sem það er í, heitir Dyngjuholt. Austur af Dyngjuholti er mýri, sem kölluð er Dyngjumýri. Þar var tekinn mór, fyrst frá Grund og síðar frá Esjubergi, og sjást grafirnar þar vel ennþá.
Stekkur frá Árvöllum - Lauganípa fjærEinu sinni endur fyrir löngu stálu tveir strákar messuklæðum úr Móakirkju og skáru þau niður í skóna sína. Þeir voru síðan hengdir í Sjálfkvíum í Móanesi og dysjaðir þar allri alþýðu til viðvörunar. Sjálfkvíar eru klettar niður við sjó [skammt neðan við núverandi þjóðveg]. Dálítið bil er á milli þeirra, og fellur sjór þar inn um flóð.
Austur af bænum á Esjubergi er hóll í túninu, sem heitir Bænhúshóll. Rétt hjá, var sagt, að væri kirkjugarður, og mótaði fyrir honum í æsku G. S.  Austur af bænum og túninu er eyðibýlið Grund. Það tók af í skriðuhlaupi seint á 19. öld. Á Grund var byggt fjárhús og fjárrétt, þar sem fjósið hafði áður staðið.
Mýrin fyrir vestan melinn, niður af Stekkjarhól, heitir Grundarflóð. Þar vestur af heitir Hólmi. Austan og neðan við Esjuberg er Laug. Úr henni kemur lækur, sem heitir Laugarlækur, en heitir Móalækur, þegar kemur niður að Móum. Austur af Grund er hóll, sem heitir Grundarhóll, rétt austur af Grundarbæ.
Neðan við gamla veginn uppi í brekkunni rétt utan við Stekkjarhól er Rauðistígur og Rauðastígsbrekkur, 3 brekkur niður af Rauðastíg. Um Rauðastíg er hægt að fara upp klettana um smágil. Er þá komið upp á Skörð upp á Gljúfurdal. Farið er á tveim stöðum upp á Gljúfurdal, upp af Grund  um Grundarsneiðingu og upp af Árvelli um Árvallasneiðingu. Í Gljúfrinu er grjótdrangur, sem nefnist Hryggur.
Kirkjutóftin á Esjubergi?Vestur af bæ og heldur ofar er eyðibýlið Árvöllur. Utan við Árvöll er dalur, sem heitir Árvallardalur. Í honum er blettur, sem kallaður er Jarðföll, eins og uppgrónar torfur og vatnspyttir á milli. Austan við bæinn heita Skörð og Skarðabrún. Skörðin ná frá Festi í Mógilsárlandi að Búa, sem er hnúkurinn austan við Gljúfurdalsmynnið rétt upp af Grund. Þar undir er Búahellir framan í klettunum, en niðri í Gljúfrunum heitir Litlibúi. Það er hólhnúkur upp af Stórabúa, en þaðan er nokkuð langt upp í Þverfell.
Að vestan var línan um Gvendarbrunn, sem var uppsprettulind rétt neðan við gamla veginn fyrir vestan Árvallardal. Þar eru merki milli Esjubergs og Skrauthóla.“
Í Jarðabókinni 1703 kemur fram að skriða hafi spillt jörðinni og auk þess að; „Skriður fordjarfa tún, engjar og úthaga merkilega, so að hætt er bæði mönnum, húsum og fjenaði… Selstöðu á jörðin undir Svínaskarði að sunnan, og er þar berjalestur góður… Afbýlismaður heima við bæinn þar sem kallast Litla Esjuberg.“ Um Arvöllur segir m.a.: „Skriða fordjarfar so sem sagt er um heimajörðina“.
Bræðurnir Árni og Gísli Snorrasynir eru aldir upp að Esjubergi. Gísli sagði tóftir Árvalla vera ofan við Esjubergsbæinn, en leifar Grundar væru varla sýnilegar því bærinn hefði farið undir skriðu.  Tóftin við Grundarána væri sennilega rétt.

Túngarður á Esjubergi

Árni sagði bæjartóftirnar ofan við Esjuberg standa í svonefndu Árvallatúni. Tóftirnar beggja vegna Grundaáar væru sennilega leifar Grundar. Áin hefði áður runnið til vesturst með fjallsrótunum, en í miklum skriðum um 1830 hefði hún breytt sér og Grund þá lagst í eyði. Þá sagði hann máttlitla fornleifarannsókn hafa farið fram í garðinum vestan við Esjuberg, en hann vissi ekki hvað hefði komið út úr því. Gísli taldi hins vegar að þar hefðu fundist bein.
Í  Kjalnesinga sögu er talað um bæinn Esjuberg þar sem landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson bjó þegar hann kom til Íslands frá Suðureyjum í Skotlandi. Í sögunni er sagt frá því að írsk kona að nafni Esja hafi komið í Kollafjörð og hafa menn þá leitt að því líkum að nafnið sé írskt að uppruna. Bærinn Esjuberg á Kjalarnesi er einnig nefndur á nokkrum stöðum í Landnámu án þess að vikið er að skýringu á nafninu.
Í Kjalnesingasögu er sagt frá því að írskir menn hafi komið á skipi í Leiruvog í Kollafirði. Meðal þeirra var kona, Esja að nafni, og var hún sögð ekkja og mjög auðug. Hún tók við bæ Örlygs og bjó að Esjubergi.
Brautarholtskirkja á Kjalarnesi telja menn afkomanda fyrstu kirkju á Íslandi, þeirrar kirkju sem suðureyski landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson reisti á Esjubergi skömmu fyrir árið 900 og frá segir í Landnámu og víðar.
Í samantekt um „Rannsóknir og rannsóknaskýrslur fornleifadeildar og Þjóðminjasafns 1974 – 2004“ kemur fram að GÓ hafi annast rannsóknir 1981 á Esjubergi á Kjalarnesi. Um hafi verið að ræða rannsókn á svonefndri kirkju Örlygs. Að þessum upplýsingum fengnum var leitað til Guðmundar og hann spurður um niðurstöður rannsóknarinnar. Þær helstu eru tíundaðar hér á eftir.
Í Landnámu (Sturlubók segir í 12. kafla: „Örlygur hét son Hrapps Bjarnarsonar bunu; hann var að fóstri með hinum (helga) Patreki byskupi í Suðureyjum.  

Minjar í túninu suðvestan Esjubergs

(Hann) fýstist að fara til Íslands og bað, að byskup sæi um með honum. Byskup lét hann hafa með sér kirkjuvið og járnklukku og plenárium og mold vígða, er hann skyldi leggja undir hornstafina. Byskup bað hann þar land nema, er hann sæi fjöll tvö af hafi, og byggja undir hinu syðra fjallinu, og skyldi dalur í hvorutveggja fjallinu; hann skyldi þar taka sér bústað og láta þar kirkju gera og eigna hinum helga Kolumba.
Með Örlygi var á skipi maður sá, er Kollur hét, fóstbróðir hans, annar Þórólfur spör, þriðji Þorbjörn tálkni og bróðir hans, Þorbjörn skúma; þeir voru synir Böðvars blöðruskalla.
Þeir Örlygur létu í haf og fengu útivist harða og vissu eigi, hvar þeir fóru; þá hét Örlygur á Patrek byskup til landtöku sér, að hann skyldi af hans nafni gefa örnefni, þar sem hann tæki land. Þeir voru þaðan frá litla hríð úti, áður þeir sáu land, og voru komnir vestur um landið. Þeir tóku þar, sem heitir Örlygshöfn, en fjörðinn inn frá kölluðu þeir Patreksfjörð. Þar voru þeir um vetur, en um vorið bjó Örlygur skip sitt; en hásetar hans námu þar sumir land, sem enn mun sagt verða.
Örlygur sigldi vestan fyrir Barð; en er hann kom suður um Snæfellsjökul á fjörðinn, sá hann fjöll tvö og dali í hvorutveggja. Þar kenndi hann land það, er honum var til vísað.
Árvellir - loftmyndHann hélt þá að hinu syðra fjallinu, og var það Kjalarnes, og hafði Helgi bræðrungur hans numið þar áður.
Örlygur var með Helga hinn fyrsta vetur, en um vorið nam hann land að ráði Helga frá Mógilsá til Ósvíf(ur)slækjar og bjó að Esjubergi. Hann lét þar gera kirkju, sem mælt var.
Örlygur átti margt barna; hans son var Valþjófur, faðir Valbrands, föður Torfa, annar Geirmundur, faðir Halldóru, móður Þorleifs, er Esjubergingar eru frá komnir. Þeir Örlygur frændur trúðu á Kolumba. Dóttir Örlygs hins gamla var Vélaug, er átti Gunnlaugur ormstunga, sonur Hrómundar í Þverárhlíð; þeirra dóttir var Þuríður dylla, móðir Illuga hins svarta á Gilsbakka.“
Esjuberg er, eins og að framan er lýst, getið í Landnámu sem jörð landnámsmannsins Örlygs Hrappssonar. Á Esjubergi stóð kirkja samkvæmt kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá því um 1200. Esjuberg var á meðal jarða Viðeyjarklausturs eins og sjá má af skrá frá árinu 1395 um kvikfé og leigumála á jörðum klaustursins. Jarðarinnar er getið í fógetareikningunum frá 1547-1552 og er þá komin í eigu konungs.
Lögfesta fyrir Esjuberg var lesin upp á manntalsþingi þann 9. júní 1801 en inntak hennar ekki skráð.
Björn Stephensen dómsmálaritari bjó á Esjubergi frá því um 1814 til dauðadags, þann 17. júní 1835. Eftir hann liggur Grund - loftmyndlýsing á landamerkjum Esjubergs og Mógilsár. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 kemur fram að hjáleigur Esjubergs eru tvær; Grund (Austurbær) og Árvöllur, báðar 10 hundruð að dýrleika. Neðanmáls er greint frá því að engar upplýsingar er að finna í jarðabókum um hjáleigurnar nema hvað 1802 er Austurbæjar getið getið sem Johnsen telur að sé sama jörð og sýslumaður og prestur kalla Grund.
Í fasteignamatinu 1916-1918 eru Árvellir og Grund taldar með Esjubergi.
Í opinberri Skrá um friðlýstar fornleifar frá 1990 segir um framangreindar kirkjuminjar að Esjubergi: „Esjuberg. I) Kirkjugrunnur forn, skamt austur frá bænum
. Sbr. Árb. 1902: 33-35. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 17.11.1938. II).“
Einnig er tiltekin „Grjótdys, sem kölluð hefur verið Dyngja, við gamla reiðveginn, á mel 2 km austur frá bænum. Skjal undirritað af KE 28.07.1964. Þinglýst 04.08.1964.“ [Þá dys segir SG hafa verið eyðilagða 1981, líkt og að framan greinir].
Gísli upplýsti í samtalinu að framangreind Dyngja hefði verið mokað í burtu á örskotsstund þegar byrjað var að nota malarnámusvæðið austan við Leiðhamra við norðanverðan Kollafjörð. Hann vissi ekki til þess að nokkur maður, hvað þá stofnun, hefði æmt eða skræmt vegna þessa.
Örnefnalýsingarnar af Esjubergi gáfu von um hugsanlega lausn að aldagamalli gátu, þ.e. hvar hin fyrsta kirkja hér á landi var reist.

Malartökusvæðið ofan við Leiðhamra - gamla þjóðleiðin sést til hægri

Svæðið umhverfis Bænhúsahól hefur verið rannsakað (GÓ 1981), en svo virðist sem ekkert hafi verið litið á Kirkjuflöt ofan Leiðhamra. Þar á loftmynd er að sjá gamla tóft. Þá staðfesta bræðurnir Árni og Gísli Snorrasynir frá Esjubergi tilvist Grundar, er mun hafa farið undir skriðu um 1830. Við hana sjást enn minjaleifar, auk þess sem Grundarhóll (41) staðfærir fyrrum bæjarstæðið nokkuð örugglega. Leiðinlegast er þó að Dyngjunni, gamalli vegdys á friðlýsingarskránni, var raskað með einu vélskóflutaki, án þess að nokkur æmti né skræmti, hvorki fólk né tilheyrandi stofnun (sjá athugasemdir við örnefnalýsinguna). Dæmigert – jafnvel nú á dögum.
Í grein Brynjúlfs Jónssonar í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1902 er rakin frásögnin í 12. kafla Landnámu. Þá segir: „Í túninu á Esjubergi, austur frá bænum er rúst, sem frá ómunatíð hefur verið kölluð kirkjutóft eða stundum bænhústóft. Og girðing sem, sem er áföst við hana, er kölluð kirkjugarður. Rústin snýr frá austri til vesturs, nál. 4 fðm. löng og nær 3 fðm. breið. Hornin eru hér um bil rétt. Utantil er hleðsla, eigi mjög aflöguð; enda er hæðin aðeins tvö steinalög, eð sumstaðar þrjú, hvert ofan á öðru. Grjótið er hnöllungagrjót, en þó eigi mjög hnöttótt og sumt er með nokkrum köntum.
Að ofan er rústin ávöl af grjóti. Lítur út fyrir, að ofan á hana hafi verið kastað lausum steinum, annaðhvort sem fallið hafi úr henni sjálfri – Grjóthraukur í gerðinuhafi hún verið hærri, – eða sem skriðuhlaup hefði kastað þangað. Eigi haggaði eg við rústinni, er eg skoðaði hana í voru (1901). Var það bæði, að þá var annríkt hjá mönnum og verkamenn óhægt að fá, enda ilt að gjörða vegna rigninga. Þóttist eg sjá, að það mundi mikið verk, en ósýnt um árangur. Þó lét eg grafa með öllum vesturgaflinum, í þeirri von, að þar sæi merki dyra. En þeirra sást enginn vottur. Undirstaðan sýndist óhögguð yfir um þvert og lá á skriðugrjóti – sem þar er alstaðar undir jarðvegi… eins og rústin kom mér fyrir sjónir, gat eg varla talið hana líklega til að vera hústóft. Hitt gæti verið, að hér hefði verið hærri bygging; hústóft, nfl. staðið ofan á því sem nú er eftir. Þó leizt mér svo á brúnir rústarinnar að þær mundu ójafnari en þær eru, ef ofan á þeim hefði verið hærri hleðsla, sem hefði fallið. Eg hefi síðan hugsað um þetta, og hefir nú komið í hug, að rústin muni vera upphækkun eða „grunnur“ undan kirkjunni Örlygs, og hafi hún verið gjör af viði einum, – eins og t.a.m. skáli Gunnars á Hlíðarenda…
Girðingin, sem kölluð er kirkjugarður, er fyrir austan rústina; er austurgafl hennar áfastur suðvesturhorn girðingarinnar. Hún er 11 faðma breið frá austri til vesturs, og 12 fðm. löng frá norðri til suðurs. Sér glögt til hennar öllum megin; hefir þó skriða runnið fram á norðurvegg hennar. Framhald af honum gengur vestur á móts við kirkjutóftina og verður þar smá-girðing við norðurgafl tóftarinnar, 4 fðm. frá austri til vesturs og 6 fðm. frá norðri til suðurs, en gengur að sér vestantil…“.
Uppkast úr gerði austan EsjubergsGuðmundur Ólafsson gróf í þessa tóft, eins og fram hefur komið. Þegar hann var spurður um niðurstöður rannsóknarinnar svaraði hann eftirfarandi: „
Ég byrjaði á smá rannsókn þarna árið 1981. Tilefnið var ósk um rannsókn frá kirkjunnar mönnum í tilefni af því að þá var kristniboðsár. Ég flaug líka yfir svæðið og tók myndir. Rannsóknarsvæðið var í skriðum nokkru austan við bæinn, þar sem talið var að væru leifar kirkjunnar. Fljótlega kom í ljós að rústirnar voru mun yngri en frá landnámsöld, þannig að þetta gátu ekki verið leifar af Kirkju Örlygs.  Steinhleðslurnar sem sagðar voru vera leifar kirkjunnar voru að öllum líkindum frá 16. eða 17. öld.  Nokkru neðar voru mannvistarlög sem bentu til eldri byggðar, eða allt frá 11. – 12. öld, en það voru leifar sem bentu frekar til íveruhúsa en kirkju (móöskudreif og viðarkolaaska). Það var líka augljóst að skriður höfðu farið yfir allt þetta svæði og að það yrði afar erfitt að finna og grafa upp frekari minjar á þessu svæði. Þá var líka ljóst að rústin væri ekki leifar af  kirkju Örlygs og að hennar yrði að leita annars staðar. Rannsókn var því hætt.“
Af ummerkjum á vettvangi að dæma er ljóst að hver skriðan á eftir annarri hefur hlaupið yfir það úr Gljúfurdal. Eldri minjar eru og verða því grafnar undir þeim yngri. Líklegt er því að niðurstaða Guðmundar sé skynsamleg, auk þess sem hún er byggð á rannsóknum.
Tóft norðan gerðisinsÞegar FERLIR gekk um svæðið „austan“ Esjubergs með hliðsjón af lofmyndum af svæðinu virtist áhugaverðasta svæðið samt sem áður vera órannsakað. Hafa ber í huga að munnmæli sögðu kirkjutóftina vera austan við bæinn og jafnan var bent á líklegustu staðsetningu hennar m.v. eðlilegt sjónarhorn frá bænum. Ekki er vitað hversu glöggar upplýsingar seinni tíma ábúendur höfðu fengið frá fyrri ábúendum um nákvæma staðsetningu tóftarinnar og annarra örnefna eða hvort einhverju sinni hefði einhver giskað á hana að þeim óvörðuspurðum, líkt og dæmi eru um. Hafa ber í huga að í lýsingum er gjarnan notuð önnur viðmið en eiginlegar höfuðáttir. Var t.d. gjarnan miðað við útnorður á Reykjanesskaganum, þ.e. beint út á sjó. Ef tekið er mið af því ætti „austur“ af bænum Esjubergi að vísa á fyrrnefnt svæði. Þegar gengið var um það mátti vel sjá að „grundvöllurinn“ lá lægra en landið umhverfis.

Esjuberg um 1900

Óljóst mótaði fyrir leifum af hlöðnum veggjum, ferningslaga. Beygur fylgdi göngunni yfir reitinn. Upphleyingar voru á stöku stað – og niðurgróningar á öðrum. Hlaðnir grjóthraukar voru auk þess á stangli, mögulega uppsöfnun úr gröfum. Hvorutveggja bentu því til gamalla grafstæða. Norðan garðsins var forn tóft með vestur/austur legu. Við austurenda hennar var þvertóft er gæti gefið heykuml til kynna. Samt sem áður kom vöknuðu efasemdir um að þarna hafi verið fjárhús. Þau voru einfaldlega ekki með þessu lagi fyrrum og auk þess samræmdist byggingarlagið ekki slíkum mannvirkjum frá seinni tíð. Það virtist líkara skálum þeim er reistir voru til forna.
Jarðirnar Grund og Árvellir fóru í eyði eftir skriðuföll 2. september árið 1886. Þá urðu 9 jarðir á Kjalarnesi fyrir stórskemmdum.
Ákveðið var að freysta ekki uppgöngu í Búahelli að svo komnu máli. Slíkt þrekvirki krefst mun meiri undirbúnings – og áræðis.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Landnáma (Sturlubók), 12. kafli.
-Kjalnesingasaga, 2. kafli.
-Árni Snorrason.
-Gísli Snorrason.
-Páll Eggert Ólason.
-Fasteignamat.
-Skrá um friðlýstar fornleifar 1990.
-Ari Gíslason – Örnefnastofnun Íslands – Esjuberg.
-Kjalnesingar – frá 1890, 1998.

Garður í túninu Esjubergi

Esjuberg

Þegar Kjalnesingasaga er lesin má m.a. berja augum eftirfarandi:
„Andríður reisti bæ í brautinni og Buahellir-22kallaði Brautarholt því að skógurinn var svo þykkur að honum þótti allt annað starfameira. Andríður setti þar reisulegt bú saman.
Þann vetur er Andríður bjó fyrstan í Brautarholti andaðist Helgi bjóla í Hofi. Það þótti mönnum hinn mesti skaði því að hann var hinn vinsælasti maður.
Um vorið skiptu þeir bræður föðurarfi sínum. Hafði Þorgrímur föðurleifð þeirra og mannaforráð því að hann var eldri, en Arngrímur útjarðir. Hann reisti bæ við fjörðinn er hann kallaði Saurbæ. Hann fékk borgfirskrar konu er Ólöf hét. Þau gátu tvo sonu saman er hétu Helgi og Vakur. Þeir urðu fræknir menn en ekki miklir á vöxt.
Þorgrímur reisti bú um vorið að Hofi. Var það brátt stórkostlegt enda stóðu margar stoðir undir, vinir og frændur. Gerðist hann héraðsríkur.
Andríður og Þuríður (frá Þormóðsdal) höfðu búið nokkura vetur í Brautarholti gátu þau son saman. Sá var vatni ausinn og kallaður Búi. Hann var brátt mikið afbragð annarra manna ungra, meiri og sterkari en aðrir menn og fríðari að sjá.

Buahellir-23

Esja bjó að Esjubergi sem fyrr var sagt. Hún bauð til fósturs Búa syni Andríðs og fæddist hann upp að Esjubergi. Búi var kallaður einrænn í uppfæðslu. Hann vildi aldrei blóta og kveðst það þykja lítilmannlegt að hokra þar að. Hann vildi og aldrei með vopn fara heldur fór hann með slöngu eina og knýtti henni um sig jafnan.
Það vor er Búi var tólf vetra en Þorsteinn son Þorgríms var átján vetra stefndi Þorsteinn Búa um rangan átrúnað til Kjalarnessþings og lét varða skóggang. Þessa sök sótti Þorsteinn og varð Búi sekur skógarmaður. Eigi lét Búi sem hann vissi og öllum ferðum sínum háttaði hann sem áður. Hann fór jafnan í Brautarholt að finna föður sinn og móður og svo gerði hann enn. Af þessu öllu saman urðu fáleikar miklir millum húsa.
Buahellir-24Búi dvaldist nokkurar nætur í Brautarholti og er hann bjóst heim kom Þuríður móðir hans að honum og mælti: „Það vildi eg son minn að þú færir eigi svo óvarlega. Mér er sagt að Þorsteinn hafi hörð orð til þín. Vildi eg að þú létir fara með þér hið fæsta tvo vaska menn og bærir vopn en færir eigi slyppur sem konur.“
Búi segir: „Skyldur er eg að gera eftir þínum vilja en þungt er fóstru minni að annast slíka fleiri sem eg er. En vant er að sjá þótt fund okkarn Þorsteins beri saman hverjir frá kunna að segja þótt eg eigi við liðsmun nokkurn. Mun eg fara að sinni sem eg hefi ætlað.“
Eftir það fer Búi leið sína austur með sjá og þegar fékk Þorsteinn njósn af. Þeir tóku þá vopn sín og urðu saman tólf. Búi var þá kominn á hæð þá er heitir Kléberg er hann sá eftirförina. Nam hann þá staðar og tók að sér steina nokkura. Þeir Þorsteinn fóru mikið og er þeir komu yfir læk þann er þar var þá heyra þeir að þaut í slöngu Búa og fló steinn.
Sá kom fyrir brjóstið á einum manni Þorsteins og fékk sá þegar bana. Þá sendi Búi steina nokkura og hafði mann Buahellir-25fyrir hverjum. Voru þeir Þorsteinn þá mjög komnir að Búa. Sneri Búi þá af hæðinni annan veg. Var þá leitið eitt í millum þeirra. Í því laust yfir myrkri því að hvergi sá af tám sér.
Nú líður á til vetrar. Þá fer Búi einn aftan seint út í Brautarholt og var þar um nóttina. Um morguninn fyrir dag var hann á fótum. Sneri hann þá austur á holtið þar er hann sá gjörla til bæjarins að Hofi. Veður var heiðríkt og bjart. Hann sá að maður kom út snemma að Hofi í línklæðum. Sá sneri ofan af hliðinu og gekk stræti það er lá til hofsins. Kenna þóttist Búi að þar var Þorsteinn. Búi sneri þá til hofsins og er hann kom þar sá hann að garðurinn var ólæstur og svo hofið. Búi gekk þá inn í hofið. Hann sá að Þorsteinn lá á grúfu fyrir Þór. Búi fór þá hljóðlega þar til er hann kom að Þorsteini. Hann greip þá til Þorsteins með því móti að hann tók annarri hendi undir knésbætur honum en annarri undir herðar honum. Með þeim hætti brá hann Þorsteini á loft og keyrði höfuð hans niður við stein svo fast að heilinn hraut um gólfið. Var hann þegar dauður. Búi bar hann þá út úr hofinu og kastaði honum undir garðinn. Síðan sneri hann inn aftur í hofið. Hann tók þá eldinn þann hinn vígða og tendraði. Síðan bar hann login um hofið og brá í tjöldin. Las þar brátt hvað af öðru. Logaði nú hofið innan á lítilli stundu. Búi sneri þá út og læsti bæði hofinu og garðinum og fleygði lyklunum í logann. Eftir það gekk Búi leið sína.
Buahellir-26Sneru Esja og Búi þá fyrir ofan garð með fjallinu og þar yfir ána og síðan gengu þau einstigi upp í fjallið og til gnípu þeirrar er heitir Laugargnípa. Þar varð fyrir þeim hellir fagur. Var það gott herbergi. Þar var undir niðri fögur jarðlaug. Í hellinum voru vistir og drykkur og klæði.
Þá mælti Esja: „Hér muntu nú fyrst verða að byggja.“
Helga Þorgrímsdóttir, kona Búa, bjó að Esjubergi með börnum þeirra Búa. Þá stóð enn kirkja sú að Esjubergi er Örlygur hafði látið gera. Gaf þá engi maður gaum að henni. En með því að Búi var skírður maður en blótaði aldrei þá lét Helga húsfreyja grafa hann undir kirkjuveggnum hinum syðra og leggja ekki fémætt hjá honum nema vopn hans.“

Buahellir-27

En hver voru viðbrögð sagnfræðinga við framangreindri sögn? Hér er eitt dæmi: „Þessi saga er nú svo að segja tómur skáldskapur og ekkert í henni bygt á fornum arfsögnum. Hún er saman sett á öndverðri 14. öld; það er því ómögulegt, að skoða hana sem sjálfstætt heimildarrit. Höfundurinn hefir notað eitthvert Landnámuhandrit og tekið úr því nafn Helga bjólu til að byrja með og segir frá Örlygi og Pátreki byskupi eftir þeirri bók, en breytir til eftir eigin geðþótta og býr til nýja menn og tengdir, sem aldrei hafa átt sér stað: lætur t. d. Helga vera giftan dóttur Ingólfs landnámsrnanns og eiga við henni tvo sonu; alt þetta er tilbúningur. Hann hefir þekt fleiri rit eða heyrt úr þeim; hann nefnir Konofogor konung á Írlandi; svo nefnist smákonungur einn í Óláfs sögu helga, er Eyvindr úrarnorn barðist við. Þaðan er nafnið komið inn í Kjalnesingasögu. Hér þarf ekki vitnanna við. Þegar svo á stendur, er það hæpið, að ég ekki segi ómögulegt, að hofslýsingin í þessari sögu sé forn sagnararfur, sem hafi gengið ætt frá ætt og loks hafnað í sögunni. Þegar lýsingín svo er krufin til mergjar, sannast það til hlítar, at svo er ekki máli farið. Lýsingin er blátt áfram »lærður« samtíningur úr öðrurn og eldri ritum, aukinn af höfundi sögunnar eftir hans eigin ímyndun og hugarburði.“
Buahellir-28Og hér er lýsing fornfæðings á aðstæðum að Esjubergi: „Þaðan fór eg út að Esjubergi. Þar fyrir austan bæinn sést móta fyrir ferhyrndri girðingu gamalli, sem er kölluð kirkjugarðr, og þar á kirkjan að hafa staðið til forna; enn lítið eða ekkert sést þar fyrir kirkjunni inni í garðinum. Að Esjubergi var reist einhver hin fyrsta kirkja á Íslandi. Síðan fór eg út að Hofi til að leita eftir leifum þeim, sem þar kynni að finnast af Kjalarnesshofi hinu mikla, sem þar stóð: Kjalnesingasaga segir um hof þetta, bl. 402 : „Hann (Þorgrímr) var blótmaðr mikill; lét hann reisa hof mikit í túni sínu, þat var c fóta langt, en sextugt á breidd“. Melabók segir, I.n. 1843, 3352 6 : „Hof í Vatnsdal ok Hof á Kjalarnesi hafa hér á landi stærst verit, einkum(?) stórt hundrað fóta á lengd, þat syðra var ok L X fóta breitt“.
Litlar eða engar leifar sjást nú af hofi þessu; austan til við bæinn í túninu hefir verið gamall heygarðr, sem nú hefir að mestu leyti verið gjörðr úr kálgarðr, þar suðr af gengr langr hóll og nokkuð mjór fram í mýrina, sem nú er kallaðr Goðhóll; á hofið að hafa staðið þar eftir munnmælum; framan til í hólnum er bergklöpp, og þvers fyrir framan hann er kelda eða fen, sem kölluð er blótkelda, enn niðr á hólnum sjálfum sjást engin merki til tóttar. Niðr frá kálgarðinum sést fyrir dálítilli girðingu, sem auðsjáanlega er ekkert úr hofinu, heldr eitthvað nýjara; þar fyrir neðan, ofan til á Goðhólnum, er eins og lægð og þar umhverfis lægðina, er eins og votti fyrir einhverri upphækkun. Eg kannaði það alt með stálstaf mínum, og fann þar grjót á þrjár hliðar djúpt niðr, enn að ofan er eins og hin girðingin liggi fram undir lautina. Breiddin milli þess, er eg fann grjótið niðri í, er hér um bil 40 fet.
Eg get alls eigi sagt, hvort þetta eru nokkur Buahellir-29mannaverk eða ekki, enn sé það, þá eru þau gömul. Eg skal og geta þess, að að Hofi eru allar byggingar bygðar nær því úr tómu torfi, þvíað þar er nær engan stein að fá. í nánd. Þetta eru allar þær leifar, sem eg gat séð á þessum stað, ef það annars getr heitið því nafni. Það er eigi óhugsanda, að þetta kynni að vera endin á hofinu, enn hinn hluti hofsins sé undir girðingunni og heygarðinum, sem áðr er um talað. Enn eitt er hér, sem sýnist nokkuð óeðlilegt, sem er, að hofið hefir þá staðið í nokkrum halla, nl. endi þess undan brekkunni, ef þetta skyldi vera leifar af hofsendanum; annars þykir mér jafnvel eðlilegra, að hofið hafi staðið lengra upp frá Goðhólnum, þar sem gamli heygarðrinn var, því að þar fyrir gæti vel heitið Goðhóll þar niðr undan, sem gengr fram í mýrina fram að Blótkeldunni. Það væri helzt tiltök að rannsaka, þar sem eg þóttist finna grjótið niðri í; kæmi þá í Ijós, hvort þar eru nokkur mannaverk eða ekki. Eg skal geta þess, að fram á Goðhólnum hefir hofið ekki getað staðið, nema það hafi verið gjört af timbri, eða tóttin þá síðar sléttuð út.“

Buahellir-30„Búi heitir fellið, sem gengur út úr Esjunni upp af Esjubergi. Búi er samstofna við orðið bóndi og búandi. Mér er ókunnugt um þetta orð sem örnefni annars staðar nema í samsetningum: Búastaðir er bær í Vopnafirði og Einbúi er algengt nafn á einstökum hólum. — Í Noregi bera margir bæir nafnið Buen, en þar er það “ yfirleitt talið merkja búð, samanber verbúð og búseta. Í miðaldaheimildum er nokkrum sinnum getið manna, segir t.d. um nafnið Búi, en aldrei | hefur það verið algengt manhsnafn. Það mun sæmilega öruggt, að Búi Andríðsson, sem um getur í Kjalnesingasögu, sé þjóðsagnapersóna eins og ástmær hans. Fríður Dofradóttir úr Dofrafjöllum í Noregi. Það er líklegt, að fjallið Búi sé kennt við vætti — verndarvætti þeirra á Esjubergi hafi búið í fjallinu. Á Vestfjörðum eru allmörg örnefni kennd við dísir: Landdísabrekka, Landdísahóll, Landdísalækur og Landdísasteinn, en þar hefur einnig verið landbúi eíns og Landbúasteinn í landi Gilsbrekku í Súgandafirði gefur til kynna. Dísa- og landvættatrú íslendinga að fornu þarfnast nánari rannsókna en hingað til hafa verið unnar. Slík rannsókn gæti leítt í ljós, hvort telja beri Búa til landvætta. — Þess ber að gæta, að orðið landbúi er einnig til að forna í merkingunni búandi og leiguliði.“

Buahellir-31

Sjá einnig kafla Kjalnesingasöguhttp://www.snerpa.is/net/isl/kjalnes.htm
Þegar Kjalnesingasaga er lesin þarf að huga að því hvort eggið gæti hafa komið á undan hænunni og hvort Íslendingasögurnar gæti hafa orðið einhverjum innblástur í þjóðsögur um Íslendinga. Íslendingasögurnar voru ritaðar á 12. öld, en Kjalnesingasaga á 14. öld. Sögulegar skáldsögur hafa tíðkast í seinni tíð og hafa án efna tíðkast fyrrum, sbr. álfa-, huldufólks-, trölla-, útilegumanna- og kynjasögurnar fyrrum gefa svo vel til kynna. Sögurnar eiga oftast uppruna sinn í nærumhverfinu þar sem þekktra örnefna er getið til að nánari staðsetningar. Í sögunum er bæði reynt að útskýra örnefnin eða gefa þeim sennilegar skýringar. Kjalnesingasaga er afbrigði slíkra sagna.
Buahellir-32Ljóst er að bæjarnöfnin, s.s. Hof, Brautarholt, Saurbær, Esjuberg, Kollafjörður, Vatn og Korpúlfsstaðir voru til í kjölfar landnáms hér á landi. Réttra landnámsmanna er víðast hvar getið með stuðningi Landnámu- og Íslendingabókar, en þegar kemur að umhverfislýsingum fæðist fyrsta eggið. Fjallið Esja er sagt nefnt eftir hinni fjölkyngnu Esju á Esjubergi, en líklegra er þá að bærinn hafi verið nefndur eftir fjallinu. Engar vísbendingar er að finna um að nefnd Esja hafi fest þar búsetu eftir Örlyg Hrappson. Örlygur var kristinn líkt og Kolli, skipsfélagi hans er byggði Kollafjörð og nágranni hans, Helgi Bjóla, í Hofi.
Og eggin eru fleiri er koma á undan hænunum í Kjalnesingasögu; Búi sprettur úr einu egginu, Ólöf væna úr öðru, Kolfinnur á Vatni úr því þriðja og svo mætti lengi telja. Allir spinnast þræðir afkvæma og forfeðra saman í útskýranlega frásögn af því hvernig kristið samfélag í nýjum heimi þurfti að víkja fyrir heiðnu nútímafjölmennningar- samfélagi þar sem krafa er gerð um að hinir fáu verði eins og allir hinir. Þetta er stutt tímabil í Íslandssögunni, en afdrifarríkt. Sagan er í rauninni kennslubók í einelti og afleiðingum þess.
Buahellir-33Búi fæddist að Brautarholti, en er alinn upp af fóstru sinni, Esju, að Esjubergi. Rudd skógargata er millum bæjanna. Á miðri leið er Hof. Þar búa örlagavaldarnir, einkum eftir trúarskiptin á þeim bænum. Búi, líkt og margir nærþenkjandi Íslendingar, lætur sér umbúnaðinn og valdboðin litlu máli skipta. Hann fer sínar leiðir og leiðir hjá sér dægurþrætur þeirra er öllu og öllum vilja stýra og stjórna. Þó kemur að því að hann telur sig knúinn að verjast eineltinu – og það gerir hann það með afdrifarríkum afleiðingum; drepur húsráðanda á Hofi og brennir hofið (reyndar eftir sá hinn sami hafði áður árangurslaust reynt að drepa búa með ofurefli liðs). Á leiðinni að Esjubergi kemur hann við á „Hólum“ og lýsir þar víginu á hendur sér. Líklegar er þar um „Skrauthóla“ frekar en „Sjávarhóla“ að ræða, enda um mun eldra jarðarmark að ræða.
Buahellir-34Esja felur Búa í helli í Esjunni sbr. 4. kafla Kjalnesingasögu: „Sneru þau þá fyrir ofan garð með fjallinu og þar yfir ána og síðan gengu þau einstigi upp í fjallið og til gnípu þeirrar er heitir Laugargnípa. Þar varð fyrir þeim hellir fagur. Var það gott herbergi. Þar var undir niðri fögur jarðlaug. Í hellinum voru vistir og drykkur og klæði.“
Í örnefnalýsingu fyrir Esjuberg er getið um „Laugalæk“ austan og neðan við bæinn. Á mörkum Móa heitir lækurinn Móalækur.“ Í örnefnalýsingu fyrir Móa er sagt að lækurinn sé á mörkunum og ofan við beygju á honum sé „Gvendarbrunnur“. Í dag er land þarna allt umturnað frá því sem var, komin slétt tún og reglulegir skurðir á milli sléttanna. Erfitt er því nú að staðsetja bæði „Laugalæk“ og „Gvendarbrunn“ af nákvæmni. Engrar volgrur eða líklega laug er nú að finna undir Laugargnípu. Að sögn nálægra íbúa sjást þar aldrei votta fyrir gufum á vetrum. Bóndinn á Völlum lét t.a.m. bora fyrir heitu vatni fyrir nokkrum árum, en án árangurs.
Buahellir-35Í dag eru Búi, Búahellir og nú síðast Búahamar á landakortum vestan Gljúfurdals, vestan Grundarár. Tóftir bæjarins eru austan árinnar, en útihúsin vestan hennar. Mjög líklegt verður að telja að Grundará hafi áður heitið Laugará og þá runnið, líkt og árfarvegurinn bendir til, niður með vestanverðum Árvelli og austan Esjubergs. Síðan hafi áin breytt um farveg, líkt og ár eiga tilhneigingu til, og þá runnið vestar, niður með Grund og klofið útihúsin frá bænum, líkt og nú má sjá. Í Árbókinni 1703 segir að skriður hafi hlaupið á Esjuberg 1602 og síðan aftur 1608. Skriðurnar ofan Esjubergs benda augljóslega til þess að áin, hvaða nafni, sem hún hefur verið nefnd á hverjum tíma, hefur hlaupið útundan sér ofar en einu sinni og oftar en tvisvar. Af þeim ástæðum hefur fyrsti landnámsbær Örlygs Hrappsonar verið færður niður á sléttlendið og þá líklegast að Hofi. Víst er að að „hin fyrsta kirkja á Íslandi“ hefur mjög ólíklega verið reist í skriðunum neðan Gljúfurdals, að fenginni reynslu. Ef svo ólíklega hefur verið gæti kirkjustæðið og kirkjugarðurinn hafa verið suðaustan við núverandi bæ bæ (6413111-02146192), en ekki vestan hans eins og sýnt er á kortum.
Buahellir-36Af framangreindri lýsingu í Kjalnesingasögu um „Búahelli“ má leiða líkum að nefnt einstigi hafi átt að vera beint ofan við núverandi Esjubergsbæ – í og undir Lauganípu. Þar má sjá árfarveg koma nánast þvert á bergið og sameinast núverandi Grundará. Vatn hefur hins vegar þá áráttu að leita stystu leiða niður á jafnsléttu undan halla. Skv. þeirri kenningu hefur vatnið úr „einstiginu“ runnið áleiðis niður að Esjubergi. Til að komast yfir gilfarveginn hefur það þurft að renna upp á við á kafla, en það verður að teljast ólíklegur kostur.
Niðurstaðan um „Búahelli“, skv. Kjalnesingasögu, er sú að um þjóðsagna- og draumkennda lýsingu sé að ræða með hliðsjón af hugmyndum og tilgangi skráarritara. „Staðsetningin“ á hellinum, skv. sögunni, á að vera í Laugagnípu, en einhverra hluta vegna hefur áhugasamt fólk fært staðsetninguna yfir Grundarána og þá hafi það orðið til þar í hömrunum örnefnið „Búi“, „Búahamar“ og „Búahellir“. Líklega er það vegna þess að eina sýnilega litla „svartholið“ í nágrenninu er þar í hömrunum, en ef grannt er skoðað hefur hvorki nokkrum manni geta tekist að klifra þangað upp án klifursbúnaðar né geta dvalið þar í grunnri holunni vegna gólfhallans.

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað, Björn Þorsteinsson, Nokkrir örnefnaþættir, 12. júlí 1964, bls. 629-630.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Hofalýsingar í fornsögum og goðalíkneski eftir Finn Jónsson, 13. árg, 1898, bls. 32-33.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Rannsókn á blóthúsinu að Þyrli og fleira i Hvalfirði og um Kjalarnes, eftir Sigurð Vigfússon, 1880, 1. árg. 1880-1881-, bls. 66-69.

Esja

Gengið á Esjuna.