Tag Archive for: Búi

Lesbók Morgunblaðsins

Í Lesbók Morgunblaðsins 1966 skrifar Björn Þorsteinsson; „Blaðað í örnefnaskrá„.

Björn Þorsteinsson

Björn Þorsteinsson.

„Örnefni geyma mikinn fróðleik um land og þjóð, og dálítil örefnafræði er handhæg hjálpargrein við sögukennslu. Allir Íslendingar þekkja talsvert af örnefnum, ef vel er að gáð, og sú þekking getur komið nemendum að margs konar liði við nám sitt, ef kennaranum tekst að fá þá til þess að hagnýta sér hana; hæfileg örnefnafræði getur jafnvel leitt einstaklinga til sjálfstæðra athuguna, ef rétt er að farið. Engin aðgengileg rit eru til um örnefni á íslenzka tungu og fáar ritgerðir. Þeirri, sem hér fer á eftir, er ætlað að bæta örlítið úr skák. Hún geymir lítil vísindi, en er einkum ætluð til að vekja athygli kennara á viðfangsefni, sem er hugtækara en flesta grunar.

Hvalfjörður

Það eru töfrar og myndaugði örnefnanna, sem orka einkum á skáldið, því að staðina hefur það aldrei séð. Saga og ævintýr hafa skráð landið, sem við byggjum, markorðum í gervi örnefna, og kynslóðirnar hafa oft stytt sér stundir við það að svara þeim. Þau eru vörður við veg okkar um landið og birta okkur brot úr sögunni, ef við gefum þeim gaum. Þau greina frá uppruna landnámsmanna, trú og siðum, sem hér hafa tíðkazt, atvinnuháttum og verkmenningu. Þau eru brotasilfur úr atburðasögum og opinbera ýmist skáldsýnir nafngefenda eða gremju þeirra, háð eða gleði. Dynskógar, Fjallið eina, Heiðin há, Helgrindur, Ljósufjöll — eru meðal þeirra örnefna, sem hressa hugann, gefa umhverfinu aukið gildi.

Þyrill

Þyrill.

Innarlega við Hvalfjörð hefst Þyrill með háu, klofnu blágrýtisenni og þyrlar vindum við fjarðarbotn. Hann horfir sem egypzkur sfinx yfir Geirshólm og Geirstanga, Harðarhæð, Helguhól, Kötlugróf og Önundarhól, en er sjálfur markaður Helguskor (Helguskarð í Harðar sögu) og Indriðastíg. Þessi örnefni og mörg önnur í nágrenninu kröfðust sögu, og Harðar saga Grímkelssonar varð til, spunnin úr þráðum fornra nafngifta, farandsagna, hugmyndaflugs og virkilegra atburða. Hólmurinn mun draga nafn af lögun sinni, er geirlaga, og hefur söguhetjan sennilega hlotið nafn af hólminum.

Geirshólmi

Geirshólmi.

Árið 1238 berjast þeir Sturla Sighvatsson og Gissur Þorvaldsson um yfirráð á Íslandi. Um hásumarskeið sendi Sturla nær flesta fylgdarmenn sína til Hvalfjarðar, og fóru þeir út í Geirshólma, drógu þar að föng og öfluðu heldur með harðindum til. Gissur treystist ekki að reka ræningjana úr vígi þeirra í firðinum. Síðar um sumarið bar fundum þeirra saman á Örlygsstöðum í Skagafirði. Þar felldi Gissur Sturlu og marga aðra Sturlunga. Tiltektir Sturlu í Geirshólma hafa eflaust orkað á höfund Harðar sögu, er hann lýsir framferði Hólmverja. Sagan sýnir glöggt, hvernig örnefni hafa stuðlað að því, að sagnir geymdust og sögur urðu til.

Þjóðerni og örnefni

Flekkudalur

Flekkudalur.

Landnáma hermir, að Ingólfur landnámsmaður hafi komið frá Dalsfirði í Noregi. Þótt við ættum enga Landnámabók, þá væri auðvelt að grafast fyrir um uppruna frumbyggja hins forna Kjalarnessþings. Í Dalsfirði í Noregi getur að finna bæi, sem bera nöfnin Kleppsvík, Eiðisvík og Flekkudalur. Þá eru einnig á þeim slóðum Vestur-Noregs staðir, sem bera nöfnin: Akurey, Engey, Esjuberg, Gullbringa, Hengill, Kaldá, Kjós, Kléberg, Kollafjörður, Skeggjastaðir, Tröllafoss, Viðey og Vífilsstaðir. Það er auðvitað ekki einber tilviljun, að öll þessi örnefni og fjöldi annarra eru vel þekkt bæði í landnámi Ingólfs og fjörðum í Noregi.
Sogn heita bæir í Kjós og Ölfusi, en þeir, sem reistu þá í árdaga, hafa eflaust verið frá Sogni í Noregi. Fólk frá Gaulum hefur reist Gaulverjabæ, frá Vors Vorsabæina, en þrír bæir eru með því nafni í Árnesþingi og einn í Rangárþingi. Í Noregi finnast flest íslenzk árheiti, m.a. eru tvær Rangár norður í Naumdælafylki, en þaðan á Ketill hængur að hafa komið og nam Rangárvellina. Nafnið mun merkja þverá, þ.e. vatnsfall, er fellur í annað fljót.

Kaldá

Kaldá.

Ekki komu allir landnámsmenn frá Noregi, eins og kunnugt er. Allmargir þeirra höfðu talsverð kynni af öðrum þjóðum, einkum brezkum, áður en þeir héldu til Íslands, og með þeim var allmargt af írsku og skozku þjónustufólki og þrælum. Norrænir menn setjast að á skozku eyjunum á 9. öld, einkum síðari hluta aldarinnar, og útrýma að talsverðu leyti því fólki, sem fyrir var.

Kirkjuból

Tóftir Kirkjubóls á Suðurnesjum.

Þeir voru nafnglaðir mjög og skírðu hóla, læki, vötn og víkur og önnur kennileiti eftir fornum fyrirmyndum heima í Skandinavíu. Þannig er allur meginþorri örnefna á Hjaltlandi (um 99%) og Orkneyjum af norrænni rót, en hafa mörg gengizt mjög í munni: Kirkabister, Kirkjubólstaður; Stoura Clett, Stóri klettur; Kirkwall, Kirkjuvogur; Aithness, Eiðsnes o.s.frv. Norrænar nafngiftir ná um Suðureyjar og Katanes á Skotlandi (Caithness) og víkingabyggðir Englands, en gætir því minna sem sunnar dregur og norrænt landnám varð fámennara í hlutfalli við fólk það, sem fyrir var í landinu. Þá eru ýmsar skemmtilegar samsvaranir milli staðanafna á Íslandi og Suðureyjum.

Hekla

Hekla.

Hermann Pálsson, sem er Íslendinga kunnugastur um eyjarnar, segir þar þrjú fjöll með heitinu Hekla. Hvorki munu þau búin hökli úr ís né öðru, sem til klæða má líkja, og verður þar með vafasöm sú forna skýring, að nafnið Hekla sömu merkingar og kápa. Um Steinunni gömlu, frændkonu Ingólfs landnámsmanns, segir, að hún galt honum „heklu flekkótta, enska“, fyrir Rosmhvalanes allt utan Hvassahrauns, og munu það ódýrust jarðakaup á Íslandi.

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar skálatóftir á hól.

Það er ekki nýtt af nálinni, að Reykvíkingar afli sér stássklæða af Bretlandi, og enn fást þar heklur góðar. Fjallsnafnið Hekla mun sennilega dregið af útliti fjallsins, eins og algengt er um fjallanöfn (Skjaldbreiður, Hlöðufell, Tindafjöll o.s.frv.). Af sömu rót og orðið Hekla eru orð eins og hak og hækill, og hefur Hermann tjáð mér, að tindar eða hök hreyki sér á hinum suðureysku Heklum, og hefur slíkur tindur trjónað á Heklu að fornu, en fjaUið breytzt að útliti í hverju gosi. Og það kennir fleiri „íslenzkra“ fjallagrasa á Suðureyjum. Í Ljóðhúsum (Lewis) eru m.a. Grænafjall og Esjufjall, og þaðan er skammt í Kjósina eins og í landnámi Ingólfs. Þá er þar Laxá og Vatnslausa, en ókunnugt er mér um Vatnsleysuströndina þar um slóðir.

Leirvogur

Leirvogur (MWL).

„Flestar víkur og vogar bera norræn heiti: Breiðvik, Mjóvík, Miðvík, Sandvík, Leirvogur, Þaravogur o.s.frv.“ (Hermann). Þá heita hinar smærri eyjar norrænum nöfnum: Papey, Bjarnarey, Grímsey, Hvalsey, Vaðlaey, Örfirisey, og fleiri norræn og „íslenzk“ örnefni telur Hermann Pálsson á Suðureyjum í bókinni Söngvar frá Suðureyjum, sem Norðri gaf út 1955. Samsvörun staðanafna í Ljóðhúsum og Kjósarsýslu mun þannig til komin, að landnámsmenn komu hingað þaðan að sunnan, eins og Landnáma greinir, og fluttu örnefnin með sér, en upphaflega eru þau ættuð frá Noregi. Helgi bjólan, sonur Ketils flatnefs Suðureyjajarls, nam land að Hofi á Kjalarnesi, en Örlygur gamli, fóstursonur Patreks helga, biskups í Suðureyjum, reisti fyrstur bú að Esjubergi. Þá nam Svartkell af Katanesi (Caithness) á Skotlandi Kjósina utanverða og bjó á Kiðafelli og síðar Eyri, en Katanes er handan fjarðar, og Kalman hinn suðureyski dvaldist um skeið við Hvalfjörð á leið sinni að Kalmanstungu. Hér eins og víðar styðja örnefnin frásagnir Landnámu af upphafi Íslandsbyggðar.

Esjan og œttir fjalla

Esja

Esja – örnefni.

Flestir Íslendingar þekkja Esjuna, öldung reykvísks fjallahrings. Hún er hlaðin meira en til hálfs úr blýgrýtishraunlögum frá fyrra hluta tertíera tímans eða a.m.k. 50 milljón ára gömlum. Efst í fjallinu eru svonefnd gráu lög úr ljósara blágrýti en önnur berglög í hlíðum þess, en undir þeim eru jökulurðir. Helgi Péturss taldi lög þessi til orðin á jökultíma, en verið getur, að þau séu nokkru eldri.

Þingvellir

Misgengi á Þingvöllum.

Einhvern tíma á tertíaröld gerðust þau undur, að Ísland rifnaði um þvert frá norðri og norðaustri til suðurs, gríðarlegar sprungur grófust í blágrýtisberggrunn landsins, og miðbik þess seig um hundruð og þúsundir metra ofan í jörðina. Mikil sprunga les sig norður eftir botni Atlantshafs, en hér gekk hún á land og umturnaði meistaraverkum skaparans. Hin hrapandi fold reyndi að bæta sér upp niðurlæginguna með eldgosum og hamagangi og tókst það viða, sigdalurinn um miðbik landsins fylltist gosefnum, varð jafnvel meira en barmafullur, en hér syðra og norður í Bárðardal hafði eldgangurinn ekki við. Mosfellsheiðin gerði talsverða tilraun til þess að hækka landið, og frá henni mun nokkur hluti Reykjavíkurgrágrýtisins runninn, en hvorki hún né Mosfellið, sem einnig er fornt eldfjall, en miklu yngra, gátu hreykt sér svo að dygði. Esjan stóð eftir á sprungubarmi og vesturhlíðar Bárðardals norður í Þingeyjarsýslu.

Esja

Esjan.

Örnefnið Esja er allsérkennilegt og rauninni engrar merkingar í íslenzku máli. „Það er aðeins nafn“, eins og Englendingar segja, þegar þeir eru inntir eftir merkingu fornra örnefna í landi sínu. Slík torskilin örnefni hafa Íslendingar löngum talið ættuð sunnan af Írlandi. Þau hafa rumskað við ímyndunarafli manna, orðið markorð, sem kröfðust andsvars, jafnvel heillar sögu.

Kistufell

Kistufell.

Í þjóðtrúnni hefur nafnið Esja orðið að heiti á auðugri ekkju, sem kemur sunnan af Írlandi og lendir skipi sínu í Leiruvogi ásamt þeim Andríði og Kolla. Landnáma greinir m.a. frá því, að Örlygur gamli nam land að Esjubergi. Sú saga hefur verið of kunn, til þess að fram hjá henni yrði gengið og unnt væri að gera Esju að landnámskonu. Þjóðsagan tók því það ráð að losa Örlyg við lítt kunna afkomendur sina og láta hann á gamalsaldri gefa Esju upp land og bú. Þannig komst hún að Esjubergi. Andríður ruddi braut gegnum skógana og bjó að Brautarholti, en Andríðsey liggur fyrir landi, og þar á Andríður að vera heygður. Sonur hans var Búi, sá er Esja fóstraði, en fjall fyrir ofan bæinn á Esjubergi heitir Búi. Kolli hóf búskap í Kollafirði, Þormóður í Þormóðsdal, Eilífur í Eilífsdal, Korpúlfur á Korpúlfsstöðum o.s.frv. Þarna var fenginn kveikurinn í Kjalnesinga sögu. Vinnukonur sínar sóttu Kjalnesingar fornu þó ekki út í Þerney, því að þeir vissu betur en mörg okkar um uppruna nafnsins. Það er dregið af fornu heiti á fugli þeim, sem við nefnum kríu, en hét áður þerna á íslenzku og ber nafnið „terne“ á dönsku enn í dag. Kjalnesinga saga er ofin úr þráðum örnefna og farandsagna fólki til skemmtunar og á lítið skylt við sagnfræði. Sama er að segja um Harðar sögu og Hólmverja og Bárðar sögu Snæfellsáss.

Esja

Esja.

Nafnið Andríður er ókunnugt annars staðar en í örnefninu Andríðsey, þekkist hvorki í Noregi né á Íslandi, svo að mér sé kunnugt. Það merkir andstæðingur, sá sem er manni andsnúinn, fer gegn manni. Verið getur, að þræll eða leysingi hafi hlotið eyjuna sér til framdráttar.

Kollafjarðargrjót

Kollafjarðargrjót.

Nafn Kollafjarðar er erfiðara viðfangs. Fyrri liður virðist ef. et. eða fl. af mannsnafninu Kolli eða ef. ft. af Kolur. Nöfn þessi merkja sköllóttur og kollóttur og voru m.a. notuð um krúnurakaða munka á miðöldum. Þetta virðast hafa verið allalgeng mannanöfn bæði í Noregi og hér á landi á víkingaöld og getur oft í bæjanöfnum. Austan hafsins þekkjast: Kollaland, Kollaruð, Kollastaðir, Kollasetr o. s. frv., en hér heima koma nöfnin m.a. fram í bæjarheitunum: Kollabær, Kollabúðir, Kollagata og Kollsá.

Kollafjörður

Kollafjörður (MWL).

Það verður því að teljast líklegt, að firðir, sem svo heita, séu annað hvort kenndir við menn, sem hétu Kollur eða Kolli, eða nafnið sé aðflutt frá Noregi eða skozku eyjunum. Það getur varla verið dregið af nafnorðinu kolla, sem notað er um margskonar kvendýr, sbr. æðarkolla, söðulkolla, af því að þá ætti nafn fjarðanna að vera Kollnafjörður eða Kollufjörður, en kollu-örnefni eru mörg hér á landi: Kolludalur, Kollugil, Kolluhóll o.s.frv.
Korpúlfsstaðir, einnig nefndir Kortólfsstaðir, eiga að vera kenndir við einhvern Korpúlf. Korpur er hrafnsheiti, og kemur það nafn fram í heimildum á 13. öld. Korpúlfur merkir því hrafn-úlfur, en það nafn kemur vitanlega hvorki fram hér né í Noregi nema í bæjarnafninu í Mosfellssveitinni. Ýmsar gerðir af nafninu birtast í heimildum, en sjálfsagt mun sú upphaflegust, sem birtist í Kjalnesingasögu. Korpúlfsstaðir voru meðaljörð, 20 hundruð að fornu riti, og sennilega til hennar stofnað á 10. öld.

Esja

Andríðsey

Andríðsey.

Þegar leita skal hér skýringar á torræðum örnefnum, þá er ráðlegast að svipast um í nágrannalöndunum austan hafsins, fornum heimkynnum landnámsmannanna. Sá hefur löngum verið siður útflytjenda að hafa á braut með sér örnefnaskrár fornra átthaga og nefna kennileiti í nýbyggðum, eftir því sem þeir áttu að venjast áður.

Esja

Esja.

Þannig fóru Engilsaxar að, er þeir fluttust til Englands frá Norður-Þýzkalandi endur fyrir löngu, Englendingar, er þeir námu Norður-Ameríku og Ástralíu, norrænir víkingar, er þeir námu Ísland, Íslendingar, er þeir námu Grænland og Ísendingabyggðir Kanada eða fluttust úr sveitum í kaupstaði, svo að dæmi séu nefnd. Þótt við Íslendingar eigum allglöggar ritaðar heimildir um uppruna þjóðarinnar, þá er okkur ómaksins vert að leita víðar fanga til sögu okkar.
Nálæg Balestrand í Sogni, frægum ferðamannastað, er lítill fjörður er nefnist Esefjord. Þar upp af stendur fjallið Esefjell og Esebotten (Seterhytte, forn selstaða), en bærinn Ese stendur þar einnig við fjörðinn. Svo segir Árni G. Eylands, sem er Íslendinga kunnugastur í Noregi, að í daglegu tali nefnist sú jörð Ese-gardene, af því að fornar bújarðir í Noregi skiptist nú yfirleitt í mörg býli.

Kjalarnes

Útialtari við Esjuberg – minnismerki um hina fyrstu kirkju á Íslandi.

Fleiri Esju-nöfn má finna í Noregi og á hinu forna norræna menningarsvæði. Þannig stendur bærinn Esjuberg á vesturströnd landsins, en esjuberg er norskt nafn á tálgusteini, ljósu klébergi. Þessi bergtegund var notuð að fornu til margra hluta, m.a. voru gerðar úr henni grýtur og ausur, og einnig notuð í afl í smiðjum.

Esja

Esja.

Á sænsku er til orðið assja, þ.e. smiðja, afl, — í málýzkum verður það eisa, á norsku esja, sem er sama orðið og eisa, er merkir kulnandi glóð á íslenzku. — Í Nedenesamti í Noregi stendur bærinn Hesnes neðra og efra, (Bygh 8, Fjærre Herred, bls. 1199). Talið er, að þar sé um Esjunes að ræða, sem um getur í Fornmannasögum 8, IX, 17 og 505, en í nágrenni bæjanna eru tálgusteinsnámur (klæbersten). Það mun því fullvíst, að nafnið Esja sé norskrar ættar eins og gríðarmörg önnur örnefni hér á landi. Þannig mun fjallið við Esjufjörðinn norska hafa upphaflega borið nafnið Esja, eins og bæjarnafnið ber með sér, en síðar hefur fjalli verið bætt aftan við örnefninu til lítiUar prýði. Þar með er ekki sagt, að formóður Esjunnar okkar sé að leita í Sogni í Noregi; hún getur allt eins staðið á skozku eyjunum, eins og áður segir.

Kléberg

Kléberg úr Esjunni.

Það er þó líklegt, að Esjunni kippi á einhvern hátt í kyn til forfeðra sinna austan hafsins, en ættfræði fjalla hefur aldrei verið stunduð hér á landi. Íslendingar hafa löngum hamazt við að rekja ættartölur manna, hrossa, nauta og sauða, en hundar og fjöll hafa setið á hakanum hjá íslenzkum ættfræðingum af lítt skiljanlegum ástæðum.

Snældusnúður

Snældusnúður úr Esju.

Fjöll eru auðvitað misjafnlega ættgöfug og ættmörg. Einna sterkust eða fjölfjölluðust fjallaætt hér á landi er Búrfell, Búrfellsættin, sem síðar verður vikið að. Það er eins konar Reykjahlíðavætt meðal fjalla vorra, en hún mun sunnlenzk að uppruna. Esjan er hins vegar einstaklingur, sem á sér enga frændur hérlenda mér vitanlega nema uppi á VatnajöklL Þar eru Esjufjöll, en aldur þeirrar nafngiftar er mér ókunnur. Esjutjarnar hjá Þrándarstöðum undir Jökli er getið í Víglundarsögu, sem telst frá 14. öld. Nú nefnist hún Æsutjörn, en Æsuberg er suður á Reykjanes. Ekki er mér kunnugt um kléberg eða tálgutein á þeim slóðum.
Esjan og Esjufjöllin munu sennlega draga nafn af ljósu litartrafi, sem minnt hefur nafngefendur á hið ljósa esjuberg handan Atlantshafsins.

Átrúnaður

Hof

Hof á Kjalarnesi – túnakort 1916.

Hof og helgistaðir: Um allt land er fjöldi örnefna, sem minnir á fornan og nýjan átrúnað. Við upphaf landsbyggðar kenndu menn staði við Krist og Þór, kirkjur og hof. Allir kannast við bæi, sem heita Hof, Hofstaðir, Hoffell, Hofgarðar, Hofteigur, en hér þekkjast 44 bæir með slíkum nöfnum. Talið er að þar hafi staðið heiðin musteri að fornu, en erfitt hefur reynzt að finna þeim fullyrðingum stað með fornleifagreftri. Engar óumdeilanlegar hofrústir hafa fundizt enn sem komið er á hinu norræna menningarsvæði nema helzt í Uppsölum í Svíþjóð. Þar greina fornar heimildir, að verið hafi mikill helgi- og blótstaður í heiðnum sið, og hafa menn þótzt finna þar minjar um fornt musteri. Mjög hefur þá greint á um það, hvernig hofið hefur litið út og hve stórt það hefur verið. Síðastliðið vor kom út doktorsritgerð í Danmörku:

Önnur grein

Hof

Hof í Öræfum.

Hörg, Hof, Kirke — eftir Olaf Olsen fornleifafræðing. Engar örugga heimildir finnast fyrir því, að ásatrúarmenn hafi nokkurs staðar reist guðum sínum stórhýsi. Þeir blótuðu þá úti, færðu þeim fórnir í helgum lundum eða á öðrum blótstöðum, hörgum, og hafa eflaust stundum reist þar býli fyrir guðamyndir og áhöld, sem lutu að dýrkun goðanna. Örnefnið hörgur gefur til kynna, að þar hafi verið helgistaður í heiðni. Þannig munu örnefnin Hörghóll, Hörgsdalur, Hörgshlíð, Hörgaeyri, Hörgsland oð Hörgsholt — vitna um forna blótstaði, og er hugsanlegt, að þar hafi sums staðar verið skýli eða smáhýsi tengd heiðindómi, en minjar um slíkt hús töldu menn sig finna í Hörgsdal í Mývatnssveit. Hof-nöfnin gefa einnig til kynna, að þar hafi verið fornir helgistaðir, menn fært guðunum fórnir á ákveðnum árstímum og jafnframt slegið upp blótveizlum eftir helgi samkomur.

Hofsstaðir

Hofsstaðir í Garðabæ.

Þannig munu ýmsir höfðingjar hafa reist sér allmikla veizluskála, og teljast rústir skálans á Hofstöðum við Mývatn öruggastar minjar slíkrar byggingar. Þessir skálar hafa ekki verið musteri í sjálfu sér, heldur bæjarhús, sem notuð voru m.a. til helgihalds. í einni gerð Landnámu segir, að „Hof í Vatnsdal og Hof á Kjalarnesi hafa hér á landi stærst verið, einkum stórt hundrað fóta á lengd; það syðra var 60 fóta breitt. Kór eða goðastúka var hjá hverju hofi; þar voru í goðin.“

Jólavallagarður

Jólavallagarður við Skálholt.

Nú er vant að segja, hve forn þessi vísdómur er, en víst mun hann ekki hafa staðið í frumgerðum Landnámu, heldur vera síðar til kominn. Það mun allöruggt, að engin hús hafi verið reist 60 feta breið að fornu; svo miklar voru ekki einu sinni dómkirkjurnar á Hólum og í Skálholti. Allt um það hafa a.m.k. margir Hof-bæir veríð helgistaðír að fornu; þar hafa menn blótað goðin, en ekkert sjáanlegt samband virðist hafa verið milli goðadýrkunar og þingaskipanarinnar. Vorþingstaðir liggja yfirleitt víðsfjarri „hofgörðum“, og standa goðanna í samfélaginu breyttist lítið við kristnitökuna.

Ölfusvatn

Ölfusvatn – blótsteinn.

Ari fróði segir þó, að Grímur geitskór hafi lagt til hof það fé, sem honum var greitt fyrir starf sitt að stofnun alþingis á Þingvelli; hann virðist m.ö.o. gera ráð fyrir, að þá hafi einhverri heildarskipan verið komið á goðadýrkunina, hofin hafa verið stofnanir a.m.k. á síðasta skeiði heiðninnar.
Hér er um meira vandamál að ræða en marga hefur gunað. Hjalli utan í Vörðufelli heitir Hofin. Þar á hof að hafa staðið að fornu. Í Efra-Langholti í Ytrihrepp nefnist partur í túni á Hofum, og stóðu þar fjárhús. Einungis rækilegur fornminjagröftur getur greitt úr vandamálinu. Hof virðist að fornu einkum hafa merkt búgarð, og er sú merking enn drottnandi í þýzku, sbr. Bauernhof. Á „Hofgörðum“ voru víða helgistaðir. Af þeim sökum mun heitið hafa komizt inn í þýðingar rita sem heiti á heiðnu musteri, en þar með er ekki sagt, að ásatrúarmenn hafi reist guðum sínum slíkar byggingar.

Goð- og Grímsnöfn

Grímshóll

Grímshóll framundan.

Í einstökum goðum var Þór tignaður almennast hér á landi, enda eru allmargir staðir við hann kenndir. Margir hafa gist Þórsmörk á síðustu árum, Þórshöfn er norður á Langanesi og önnur á Miðnesi suður, Þórsnes er á Snæfellsnesi og tangi á Viðey við Reykjavík heitir svo, og margir aðrir staðir eru kenndir við þennan ástsæla guð. Njörður átti Njarðvíkur við Vogastapa og Borgarfjörð eystra, Baldri var helgaður Baldursheimur víð Mývatn og í Eyjafirði og Freysnes er á Héraði austur. Óðinsnafnið er óþekkt í íslenzkum örnefnum, en Óðinn naut mikillar virðingar í Danmörku og átti þar m. a. borgina Óðinsvé (Odense). Hér bar guðinn ýmis heiti, og er hugsanlegt, að einhver þeirra séu bundin í örnefnum.

Grímshóll

Á Grímshól.

Við Mosfellsdal er Grímarsfell eða Grímsféll, – en Grímshóll heitir hæsta bunga Vogastapa. Gríms-örnefni eru gríðarlega mörg hér á landi: Grímseyjar eru tvær, Grímsár margar, Grímsvötn Grímsnes, Grímstunga o.s.frv. Ýmsum þessum örnefnum eru tengdar sagnir um menn, sem báru nafnið Grímur, en önnur eiga sér enga slíka nafnfesti.

Eiríksjökull

Eiríksjökull 2008.

Einar, Eiríkur og Sigurður voru engu fátíðari nöfn en Grímur, en þeirra verður þó lítt vart í örnefnum, nema nokkrir staðir eru kenndir við Eirík rauða, og Eiríksjökull mun ekki ýkja fornt örnefni á jökli þeim, sem Grettis saga nefnir Balljökul. Gríms-nöfnin vekja því nokkrar grunsemdir. Það er ótrúlegt, að menn að nafni Grímur hafi verið svo umfram þá, sem báru önnur algeng nöfn, að af þeim sökum skarti nafn þeirra margfalt oftar á landabréfum. Grímur var ekki einungis mannsnafn, heldur einnig Óðinsheiti“ og að auki dverga, orma, hafra, og þess eru nokkur dæmi í fornsögum, að Grímur er dulnefni. Í norskri þjóðtrú er til vættur, sem nefnist grím (með löngu íi), oftast fossegrim, en er þó til sem fjalla-vættur (Harðangur). Í Danmörku var til vatnavættur, limgrim, og landvættur sem kallaðist kirkegrim. Þess verður einnig vart í íslenzkum þjóðsögum, að vættur heiti Grímur“ (Bjarni Einarsson: Munnmælasögur 17. aldar, cxlviii). Svo sagði Þorsteinn galdraprestur á Setbergi við Hafnarfjörð á 17. öld, að tveir menn gengu eitt sinn til sauða sinna, en heyrðu þá sagt ógnarlegri röddu; „Þektu, Grímur, fjallásana í skyndi“. Eljagrímur er heiti á éljagangi, snjóhryssingsveðri og gefur sennilega til kynna, að Grímur hafi ekki verið nein hollvættur í þjónustu veðurguðanna.

Grímannsfell

Grímannsfell.

Það er lenzka í Mosfellssveit að nefna fellið Grímansfell eða jafnvel Grimmansfell. Í sóknarlýsingum 19. aldar er nafnið jafnan ritað Grímansfell, en þar er Úlfarsfell einnig nefnt Ulfmansfell. Hins vegar stendur skýrum stöfum í Jarðabók Arna Magnússonar frá 1704, að Mosfell eigi selstöðu „undir Grímarsfelli“. Það skiptir minna máli, að Seltirningar segja í sömu bók, að Nes við Seltjörn eigi selstöðu undir Grímafelli. Grímar er fágætt nafn að fornu.

Skúlatún

Skúlatún og Skúlatúnshraun. Helgafell fjær.

Sá trúnaður, að menn dæju í fjöll eða hóla, hefir verið all almennur hér að fornu. Hyammverjar trúðu, að þeir dæju í Krosshóla hjá Hvammi, frændur Sel-Þóris í Þórisbjörg og víðar í rituðum heimildum eru sagnir um slíkan átrúnað. Hér á landi eru að minnsta kosti átta Helgafell. Kunnust eru Helgafellin á Snæfellsnesi, við Mosfellsdal, suðaustur af Hafnarfirði og í Vestmannaeyjum. Sennilega eru þau öll tengd hinum forna átrúnaði sem um getur í Eyrbyggju. Það er því líklegt að Ingólfur og ætt hans hafi ætlað sér bústað í Helgafelli undan Lönguhlíðum eftir dauðann.
Örnefni benda eindregið til þess, að
menn hafi verið vel heiðnir að fornu um Innnesin, eins og vera ber. Þar eru tvö heilög fell, Þórsnes, Hof og Hofstaðir en auk þess Tröllafoss og undarlega margir staðir kenndir við menn, eins og Grímarsfell, Úlfarsfell, Vífilsfell og fjöldi bæja og annarra staða. Það verður að teljast líklegt, að þeir Úlfar og Vífill hafi haft svipaðan átrúnað og Sel-Þórisniðjar og Hvammverjar forðum. Fjöll og fell, sem að fornu hlutu mannsnöfn eða voru kennd við einstaka menn, munu flest hafa verið tengd einhverri helgi í heiðnum sið: Ásmundarnúpur, Geirólfsgnúpur, Jörundarfell, Spákonufell og Þorbjörn.
Helgi bjóla á Hofi á Kjalarnesi kom frá Suðureyjum, en Vilbaldur Dufþaksson af Írlandi nam Búland í Skaftafellssýslu, og hét einn sonur hans Bjólan, en það telst sama og írska nafnið Beólán. Sennilega er of langsótt að tengja bæjarnafnið írskri nafngift.

Þvottahellir

Þvottahellir í Botnsdal.

Víða eru Ullar-nöfn hér á landi, en sum þeirra munu eflaust dregin af ull. Það eru einkum staðir við ár, þar sem ull hefur verið þvegin og breidd til þerris eftir þvott. Þannig eru Ullarbrekkur hjá Varmá í Mosfellssveit og Ullarhóll hjá Neðra-Hálsi í Kjós.

Búahellir

Búahellir?

Búi heitir fellið, sem gengur út úr Esjunni upp af Esjubergi. Búi er samstofna við orðið bóndi og búandi. Mér er ókunnugt um þetta orð sem örnefni annars staðar nema í samsetningu: Bústaðir er bær í Reykjavík og Vopnafirði og Einbúi er algengt nafn á einstökum hólum. — Í Noregi bera margir bæir nafnið Buen, en þar er það yfirleitt talið merkja búð, samanber verbúð og búðseta. Í miðaldaheimildum er nokkrum sinnum getið manna, sem bera á Norðurlöndum nafnið Búi, en aldrei hefur það verið algengt mannsnafn.
Það mun sæmilega öruggt, að Búi Andríðsson, sem um getur í Kjalnesingasögu, sé þjóðsagnapersóna eins og ástmær hans, Fríður Dofradóttir úr Dofrafjöllum í Noregi. Það er líklegt, að fjallið Búi sé kennt við vætti, — verndarvættur þeirra á Esjubergi hafi búið í fjallinu. Dísa- og landvættatrú Íslendinga að fornu þarfnast nánari rannsókna en unnar hafa verið hingað til. Slík rannsókn gæti leitt í ljós, hvort telja beri Búa til landvætta. — Þess ber að gæta, að orðið landbúi er einnig til að fornu í merkingunni búandi og leiguliði.“

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 39. tbl. 06.11.1966, Björn Þorsteinsson, Blaðað í örnefnaskrá, bls. 4 og 12-13.
-Lesbók Morgunblaðsins, 40. tbl. 13.11.1966, Björn Þorsteinsson, Blaðað í örnefnaskrá, bls. 4 og 13.

Esja

Esjan.

Búahellir

Í Kjalnesingasögu segir frá Búa, sem hélt til í helli í Laugargnípu. Í viðræðum við Harald Jónsson í Varmadal fékkst staðfest að hellirinn væri til, nefndur Búahellir.

Kjalarnes

Kjalarnes – kort.

Hellirinn er ofarlega í Búa (Laugargnípu) og erfitt að komast upp í hann. Sjálfur hafi hann einu sinni reynt að klifra þangað upp en í upphafi skal endirinn skoða því erfitt getur reynst að komast niður aftur. Best væri að síga ofan frá, í hellinn og síðan fara áfram á bandinu niður fyrir.
Gengið er að skriðu fjallsins frá Grundará, sem kemur úr gili (Gljúfrinu) skammt norðar. Op hellisins horfir mót vestri.

Í Kjalnesingasögu segir t.d.. að Helgi bjóla hafi numið Kjalarnes og búið á Hofi. Hann átti Þórnýju, dóttur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmannsins. Synir þeirra hétu Þorgrímur og Arngrímur.

Esjuberg

Búahellir?

Örlygur hinn írski leitaði á náðir Helga bjólu að ráði frænda síns, Patreks biskups á Írlandi. Fékk Helgi honum bústað. Þar reisti Örlygur kirkju. Andríður, Kolli og Esja koma síðar. Helgi tekur við þeim.

Kolli sest að í Kollafirði. Örlygur var þá háaldraður og gaf upp land og bú fyrir Esju en upp frá því heitir þar að Esjubergi. Andríður var á hinn bóginn hjá Helga á Hofi hinn fyrsta vetur og sórust hann og synir Helga í fóstbræðralag. Helgi gefur honum síðan land undir bú, Brautarholt, og bað einnig til handa honum konu, Þuríðar, systur Þormóðs í Þormóðsdal.

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir og Hrafnhólar.

Þorgrímur, sonur Helga, fékk Arndísar á Skeggjastöðum og var því tvöfalt brúðkaup á Hofi.
Þegar Helgi andast tekur Þorgrímur við búinu á Hofi og mannaforráðum (goðorði) en Arngrímur reisir sér bæ sem hann kallar Saurbæ. Synir hans eru þeir Helgi og Vakur en sonur Þorgríms heitir Þorsteinn. Þorgrímur er blótmaður mikill og reisir sér stórt hof. Sonur hans, Þorsteinn, er sagður „uppivöslumaður mikill“. Sonur Andríðs og Arndísar, Búi, er aðalpersóna sögunnar. Hann er sagður einrænn. Kolfinnur er kynntur til sögu. Hann býr í skjóli móður sinnar, Þorgerðar á Vatni, og er ekki eins og fólk er flest. Hann er kolbítur, beit steiktan börk af viði og gætti katla móður sinnar.

Lauganýpa

Lauganýpa.

Búi er í fóstri hjá Esju. Hann vill aldrei blóta og er loks dæmdur sekur skógarmaður á Kjalarnesþingi fyrir „rangan átrúnað“. Hann er með öðrum orðum brottrækur úr mannlegu samfélagi og réttdræpur. Ákæruefnið bendir til þess að hann sé kristinn eins og raunar kemur skýrt fram í sögulok.

Búi fer allra sinna ferða eins og ekkert hafi í skorist. Hann hefur hnýtt um sig slöngu sem er eina vopn hans. Fram kemur að kærleikar eru með honum og móður hans. Þeir Þorsteinn hyggjast taka hann af lífi og veita honum eitt sinn eftirför. En Esja kemur honum til bjargar. Yfir þá lýstur svo miklu myrkri að þeir sáu ekki handa sinna skil. Síðar drepur Búi Þorstein og ber eld í hofið sem brennur til kaldra kola. Esja fær honum bústað, herbergi með baði í helli nokkrum undir Laugargnípu í fjallinu ofan við Esjuberg, þ.e. Esju.“

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Kjalarnesið er sagnaríkt. Margar minjar er þar að finna ef vel er að gáð sem og skírskotun til gamallar sögu og sagna fyrri tíðar.
Haraldur segir umhverfið þarna hafa breyst mikið á skömmum tíma. Um 1920 hafi t.d. áin breytt um farveg. Áður hafi hún runnið mun vestar. Þegar staðið væri uppi á Búa og horft yfir Esjuberg og nágrenni hefði fyrir 50 árum mátt sjá móta fyrir gömlum tóftum á túninu og þannig nokkurn veginn mátt átta sig á hvernig gamla bæjarstæðið hafi litið út. Nú væri þetta meira og minna horfið. Ef taka ætti mið af breytingunni á þessum rúmlega fimmtíu árum, sem hann hafi verið þarna, þá gæti svæðið og þar með fjallið hafa litið allt öðruvísi út fyrir einhverjum öldum síðan, hvað þá árþúsundi. En hellirinn væri þarna upp í klettunum.

Heimild fengin af:
-http://www.flensborg.is/sveinn/Skrar/handr/Kjalnesingas.htm

Esjuberg

Esjuberg um 1900.

Esjuberg

Þegar Kjalnesingasaga er lesin má m.a. berja augum eftirfarandi:
„Andríður reisti bæ í brautinni og Buahellir-22kallaði Brautarholt því að skógurinn var svo þykkur að honum þótti allt annað starfameira. Andríður setti þar reisulegt bú saman.
Þann vetur er Andríður bjó fyrstan í Brautarholti andaðist Helgi bjóla í Hofi. Það þótti mönnum hinn mesti skaði því að hann var hinn vinsælasti maður.
Um vorið skiptu þeir bræður föðurarfi sínum. Hafði Þorgrímur föðurleifð þeirra og mannaforráð því að hann var eldri, en Arngrímur útjarðir. Hann reisti bæ við fjörðinn er hann kallaði Saurbæ. Hann fékk borgfirskrar konu er Ólöf hét. Þau gátu tvo sonu saman er hétu Helgi og Vakur. Þeir urðu fræknir menn en ekki miklir á vöxt.
Þorgrímur reisti bú um vorið að Hofi. Var það brátt stórkostlegt enda stóðu margar stoðir undir, vinir og frændur. Gerðist hann héraðsríkur.
Andríður og Þuríður (frá Þormóðsdal) höfðu búið nokkura vetur í Brautarholti gátu þau son saman. Sá var vatni ausinn og kallaður Búi. Hann var brátt mikið afbragð annarra manna ungra, meiri og sterkari en aðrir menn og fríðari að sjá.

Buahellir-23

Esja bjó að Esjubergi sem fyrr var sagt. Hún bauð til fósturs Búa syni Andríðs og fæddist hann upp að Esjubergi. Búi var kallaður einrænn í uppfæðslu. Hann vildi aldrei blóta og kveðst það þykja lítilmannlegt að hokra þar að. Hann vildi og aldrei með vopn fara heldur fór hann með slöngu eina og knýtti henni um sig jafnan.
Það vor er Búi var tólf vetra en Þorsteinn son Þorgríms var átján vetra stefndi Þorsteinn Búa um rangan átrúnað til Kjalarnessþings og lét varða skóggang. Þessa sök sótti Þorsteinn og varð Búi sekur skógarmaður. Eigi lét Búi sem hann vissi og öllum ferðum sínum háttaði hann sem áður. Hann fór jafnan í Brautarholt að finna föður sinn og móður og svo gerði hann enn. Af þessu öllu saman urðu fáleikar miklir millum húsa.
Buahellir-24Búi dvaldist nokkurar nætur í Brautarholti og er hann bjóst heim kom Þuríður móðir hans að honum og mælti: „Það vildi eg son minn að þú færir eigi svo óvarlega. Mér er sagt að Þorsteinn hafi hörð orð til þín. Vildi eg að þú létir fara með þér hið fæsta tvo vaska menn og bærir vopn en færir eigi slyppur sem konur.“
Búi segir: „Skyldur er eg að gera eftir þínum vilja en þungt er fóstru minni að annast slíka fleiri sem eg er. En vant er að sjá þótt fund okkarn Þorsteins beri saman hverjir frá kunna að segja þótt eg eigi við liðsmun nokkurn. Mun eg fara að sinni sem eg hefi ætlað.“
Eftir það fer Búi leið sína austur með sjá og þegar fékk Þorsteinn njósn af. Þeir tóku þá vopn sín og urðu saman tólf. Búi var þá kominn á hæð þá er heitir Kléberg er hann sá eftirförina. Nam hann þá staðar og tók að sér steina nokkura. Þeir Þorsteinn fóru mikið og er þeir komu yfir læk þann er þar var þá heyra þeir að þaut í slöngu Búa og fló steinn.
Sá kom fyrir brjóstið á einum manni Þorsteins og fékk sá þegar bana. Þá sendi Búi steina nokkura og hafði mann Buahellir-25fyrir hverjum. Voru þeir Þorsteinn þá mjög komnir að Búa. Sneri Búi þá af hæðinni annan veg. Var þá leitið eitt í millum þeirra. Í því laust yfir myrkri því að hvergi sá af tám sér.
Nú líður á til vetrar. Þá fer Búi einn aftan seint út í Brautarholt og var þar um nóttina. Um morguninn fyrir dag var hann á fótum. Sneri hann þá austur á holtið þar er hann sá gjörla til bæjarins að Hofi. Veður var heiðríkt og bjart. Hann sá að maður kom út snemma að Hofi í línklæðum. Sá sneri ofan af hliðinu og gekk stræti það er lá til hofsins. Kenna þóttist Búi að þar var Þorsteinn. Búi sneri þá til hofsins og er hann kom þar sá hann að garðurinn var ólæstur og svo hofið. Búi gekk þá inn í hofið. Hann sá að Þorsteinn lá á grúfu fyrir Þór. Búi fór þá hljóðlega þar til er hann kom að Þorsteini. Hann greip þá til Þorsteins með því móti að hann tók annarri hendi undir knésbætur honum en annarri undir herðar honum. Með þeim hætti brá hann Þorsteini á loft og keyrði höfuð hans niður við stein svo fast að heilinn hraut um gólfið. Var hann þegar dauður. Búi bar hann þá út úr hofinu og kastaði honum undir garðinn. Síðan sneri hann inn aftur í hofið. Hann tók þá eldinn þann hinn vígða og tendraði. Síðan bar hann login um hofið og brá í tjöldin. Las þar brátt hvað af öðru. Logaði nú hofið innan á lítilli stundu. Búi sneri þá út og læsti bæði hofinu og garðinum og fleygði lyklunum í logann. Eftir það gekk Búi leið sína.
Buahellir-26Sneru Esja og Búi þá fyrir ofan garð með fjallinu og þar yfir ána og síðan gengu þau einstigi upp í fjallið og til gnípu þeirrar er heitir Laugargnípa. Þar varð fyrir þeim hellir fagur. Var það gott herbergi. Þar var undir niðri fögur jarðlaug. Í hellinum voru vistir og drykkur og klæði.
Þá mælti Esja: „Hér muntu nú fyrst verða að byggja.“
Helga Þorgrímsdóttir, kona Búa, bjó að Esjubergi með börnum þeirra Búa. Þá stóð enn kirkja sú að Esjubergi er Örlygur hafði látið gera. Gaf þá engi maður gaum að henni. En með því að Búi var skírður maður en blótaði aldrei þá lét Helga húsfreyja grafa hann undir kirkjuveggnum hinum syðra og leggja ekki fémætt hjá honum nema vopn hans.“

Buahellir-27

En hver voru viðbrögð sagnfræðinga við framangreindri sögn? Hér er eitt dæmi: „Þessi saga er nú svo að segja tómur skáldskapur og ekkert í henni bygt á fornum arfsögnum. Hún er saman sett á öndverðri 14. öld; það er því ómögulegt, að skoða hana sem sjálfstætt heimildarrit. Höfundurinn hefir notað eitthvert Landnámuhandrit og tekið úr því nafn Helga bjólu til að byrja með og segir frá Örlygi og Pátreki byskupi eftir þeirri bók, en breytir til eftir eigin geðþótta og býr til nýja menn og tengdir, sem aldrei hafa átt sér stað: lætur t. d. Helga vera giftan dóttur Ingólfs landnámsrnanns og eiga við henni tvo sonu; alt þetta er tilbúningur. Hann hefir þekt fleiri rit eða heyrt úr þeim; hann nefnir Konofogor konung á Írlandi; svo nefnist smákonungur einn í Óláfs sögu helga, er Eyvindr úrarnorn barðist við. Þaðan er nafnið komið inn í Kjalnesingasögu. Hér þarf ekki vitnanna við. Þegar svo á stendur, er það hæpið, að ég ekki segi ómögulegt, að hofslýsingin í þessari sögu sé forn sagnararfur, sem hafi gengið ætt frá ætt og loks hafnað í sögunni. Þegar lýsingín svo er krufin til mergjar, sannast það til hlítar, at svo er ekki máli farið. Lýsingin er blátt áfram »lærður« samtíningur úr öðrurn og eldri ritum, aukinn af höfundi sögunnar eftir hans eigin ímyndun og hugarburði.“
Buahellir-28Og hér er lýsing fornfæðings á aðstæðum að Esjubergi: „Þaðan fór eg út að Esjubergi. Þar fyrir austan bæinn sést móta fyrir ferhyrndri girðingu gamalli, sem er kölluð kirkjugarðr, og þar á kirkjan að hafa staðið til forna; enn lítið eða ekkert sést þar fyrir kirkjunni inni í garðinum. Að Esjubergi var reist einhver hin fyrsta kirkja á Íslandi. Síðan fór eg út að Hofi til að leita eftir leifum þeim, sem þar kynni að finnast af Kjalarnesshofi hinu mikla, sem þar stóð: Kjalnesingasaga segir um hof þetta, bl. 402 : „Hann (Þorgrímr) var blótmaðr mikill; lét hann reisa hof mikit í túni sínu, þat var c fóta langt, en sextugt á breidd“. Melabók segir, I.n. 1843, 3352 6 : „Hof í Vatnsdal ok Hof á Kjalarnesi hafa hér á landi stærst verit, einkum(?) stórt hundrað fóta á lengd, þat syðra var ok L X fóta breitt“.
Litlar eða engar leifar sjást nú af hofi þessu; austan til við bæinn í túninu hefir verið gamall heygarðr, sem nú hefir að mestu leyti verið gjörðr úr kálgarðr, þar suðr af gengr langr hóll og nokkuð mjór fram í mýrina, sem nú er kallaðr Goðhóll; á hofið að hafa staðið þar eftir munnmælum; framan til í hólnum er bergklöpp, og þvers fyrir framan hann er kelda eða fen, sem kölluð er blótkelda, enn niðr á hólnum sjálfum sjást engin merki til tóttar. Niðr frá kálgarðinum sést fyrir dálítilli girðingu, sem auðsjáanlega er ekkert úr hofinu, heldr eitthvað nýjara; þar fyrir neðan, ofan til á Goðhólnum, er eins og lægð og þar umhverfis lægðina, er eins og votti fyrir einhverri upphækkun. Eg kannaði það alt með stálstaf mínum, og fann þar grjót á þrjár hliðar djúpt niðr, enn að ofan er eins og hin girðingin liggi fram undir lautina. Breiddin milli þess, er eg fann grjótið niðri í, er hér um bil 40 fet.
Eg get alls eigi sagt, hvort þetta eru nokkur Buahellir-29mannaverk eða ekki, enn sé það, þá eru þau gömul. Eg skal og geta þess, að að Hofi eru allar byggingar bygðar nær því úr tómu torfi, þvíað þar er nær engan stein að fá. í nánd. Þetta eru allar þær leifar, sem eg gat séð á þessum stað, ef það annars getr heitið því nafni. Það er eigi óhugsanda, að þetta kynni að vera endin á hofinu, enn hinn hluti hofsins sé undir girðingunni og heygarðinum, sem áðr er um talað. Enn eitt er hér, sem sýnist nokkuð óeðlilegt, sem er, að hofið hefir þá staðið í nokkrum halla, nl. endi þess undan brekkunni, ef þetta skyldi vera leifar af hofsendanum; annars þykir mér jafnvel eðlilegra, að hofið hafi staðið lengra upp frá Goðhólnum, þar sem gamli heygarðrinn var, því að þar fyrir gæti vel heitið Goðhóll þar niðr undan, sem gengr fram í mýrina fram að Blótkeldunni. Það væri helzt tiltök að rannsaka, þar sem eg þóttist finna grjótið niðri í; kæmi þá í Ijós, hvort þar eru nokkur mannaverk eða ekki. Eg skal geta þess, að fram á Goðhólnum hefir hofið ekki getað staðið, nema það hafi verið gjört af timbri, eða tóttin þá síðar sléttuð út.“

Buahellir-30„Búi heitir fellið, sem gengur út úr Esjunni upp af Esjubergi. Búi er samstofna við orðið bóndi og búandi. Mér er ókunnugt um þetta orð sem örnefni annars staðar nema í samsetningum: Búastaðir er bær í Vopnafirði og Einbúi er algengt nafn á einstökum hólum. — Í Noregi bera margir bæir nafnið Buen, en þar er það “ yfirleitt talið merkja búð, samanber verbúð og búseta. Í miðaldaheimildum er nokkrum sinnum getið manna, segir t.d. um nafnið Búi, en aldrei | hefur það verið algengt manhsnafn. Það mun sæmilega öruggt, að Búi Andríðsson, sem um getur í Kjalnesingasögu, sé þjóðsagnapersóna eins og ástmær hans. Fríður Dofradóttir úr Dofrafjöllum í Noregi. Það er líklegt, að fjallið Búi sé kennt við vætti — verndarvætti þeirra á Esjubergi hafi búið í fjallinu. Á Vestfjörðum eru allmörg örnefni kennd við dísir: Landdísabrekka, Landdísahóll, Landdísalækur og Landdísasteinn, en þar hefur einnig verið landbúi eíns og Landbúasteinn í landi Gilsbrekku í Súgandafirði gefur til kynna. Dísa- og landvættatrú íslendinga að fornu þarfnast nánari rannsókna en hingað til hafa verið unnar. Slík rannsókn gæti leítt í ljós, hvort telja beri Búa til landvætta. — Þess ber að gæta, að orðið landbúi er einnig til að forna í merkingunni búandi og leiguliði.“

Buahellir-31

Sjá einnig kafla Kjalnesingasöguhttp://www.snerpa.is/net/isl/kjalnes.htm
Þegar Kjalnesingasaga er lesin þarf að huga að því hvort eggið gæti hafa komið á undan hænunni og hvort Íslendingasögurnar gæti hafa orðið einhverjum innblástur í þjóðsögur um Íslendinga. Íslendingasögurnar voru ritaðar á 12. öld, en Kjalnesingasaga á 14. öld. Sögulegar skáldsögur hafa tíðkast í seinni tíð og hafa án efna tíðkast fyrrum, sbr. álfa-, huldufólks-, trölla-, útilegumanna- og kynjasögurnar fyrrum gefa svo vel til kynna. Sögurnar eiga oftast uppruna sinn í nærumhverfinu þar sem þekktra örnefna er getið til að nánari staðsetningar. Í sögunum er bæði reynt að útskýra örnefnin eða gefa þeim sennilegar skýringar. Kjalnesingasaga er afbrigði slíkra sagna.
Buahellir-32Ljóst er að bæjarnöfnin, s.s. Hof, Brautarholt, Saurbær, Esjuberg, Kollafjörður, Vatn og Korpúlfsstaðir voru til í kjölfar landnáms hér á landi. Réttra landnámsmanna er víðast hvar getið með stuðningi Landnámu- og Íslendingabókar, en þegar kemur að umhverfislýsingum fæðist fyrsta eggið. Fjallið Esja er sagt nefnt eftir hinni fjölkyngnu Esju á Esjubergi, en líklegra er þá að bærinn hafi verið nefndur eftir fjallinu. Engar vísbendingar er að finna um að nefnd Esja hafi fest þar búsetu eftir Örlyg Hrappson. Örlygur var kristinn líkt og Kolli, skipsfélagi hans er byggði Kollafjörð og nágranni hans, Helgi Bjóla, í Hofi.
Og eggin eru fleiri er koma á undan hænunum í Kjalnesingasögu; Búi sprettur úr einu egginu, Ólöf væna úr öðru, Kolfinnur á Vatni úr því þriðja og svo mætti lengi telja. Allir spinnast þræðir afkvæma og forfeðra saman í útskýranlega frásögn af því hvernig kristið samfélag í nýjum heimi þurfti að víkja fyrir heiðnu nútímafjölmennningar- samfélagi þar sem krafa er gerð um að hinir fáu verði eins og allir hinir. Þetta er stutt tímabil í Íslandssögunni, en afdrifarríkt. Sagan er í rauninni kennslubók í einelti og afleiðingum þess.
Buahellir-33Búi fæddist að Brautarholti, en er alinn upp af fóstru sinni, Esju, að Esjubergi. Rudd skógargata er millum bæjanna. Á miðri leið er Hof. Þar búa örlagavaldarnir, einkum eftir trúarskiptin á þeim bænum. Búi, líkt og margir nærþenkjandi Íslendingar, lætur sér umbúnaðinn og valdboðin litlu máli skipta. Hann fer sínar leiðir og leiðir hjá sér dægurþrætur þeirra er öllu og öllum vilja stýra og stjórna. Þó kemur að því að hann telur sig knúinn að verjast eineltinu – og það gerir hann það með afdrifarríkum afleiðingum; drepur húsráðanda á Hofi og brennir hofið (reyndar eftir sá hinn sami hafði áður árangurslaust reynt að drepa búa með ofurefli liðs). Á leiðinni að Esjubergi kemur hann við á „Hólum“ og lýsir þar víginu á hendur sér. Líklegar er þar um „Skrauthóla“ frekar en „Sjávarhóla“ að ræða, enda um mun eldra jarðarmark að ræða.
Buahellir-34Esja felur Búa í helli í Esjunni sbr. 4. kafla Kjalnesingasögu: „Sneru þau þá fyrir ofan garð með fjallinu og þar yfir ána og síðan gengu þau einstigi upp í fjallið og til gnípu þeirrar er heitir Laugargnípa. Þar varð fyrir þeim hellir fagur. Var það gott herbergi. Þar var undir niðri fögur jarðlaug. Í hellinum voru vistir og drykkur og klæði.“
Í örnefnalýsingu fyrir Esjuberg er getið um „Laugalæk“ austan og neðan við bæinn. Á mörkum Móa heitir lækurinn Móalækur.“ Í örnefnalýsingu fyrir Móa er sagt að lækurinn sé á mörkunum og ofan við beygju á honum sé „Gvendarbrunnur“. Í dag er land þarna allt umturnað frá því sem var, komin slétt tún og reglulegir skurðir á milli sléttanna. Erfitt er því nú að staðsetja bæði „Laugalæk“ og „Gvendarbrunn“ af nákvæmni. Engrar volgrur eða líklega laug er nú að finna undir Laugargnípu. Að sögn nálægra íbúa sjást þar aldrei votta fyrir gufum á vetrum. Bóndinn á Völlum lét t.a.m. bora fyrir heitu vatni fyrir nokkrum árum, en án árangurs.
Buahellir-35Í dag eru Búi, Búahellir og nú síðast Búahamar á landakortum vestan Gljúfurdals, vestan Grundarár. Tóftir bæjarins eru austan árinnar, en útihúsin vestan hennar. Mjög líklegt verður að telja að Grundará hafi áður heitið Laugará og þá runnið, líkt og árfarvegurinn bendir til, niður með vestanverðum Árvelli og austan Esjubergs. Síðan hafi áin breytt um farveg, líkt og ár eiga tilhneigingu til, og þá runnið vestar, niður með Grund og klofið útihúsin frá bænum, líkt og nú má sjá. Í Árbókinni 1703 segir að skriður hafi hlaupið á Esjuberg 1602 og síðan aftur 1608. Skriðurnar ofan Esjubergs benda augljóslega til þess að áin, hvaða nafni, sem hún hefur verið nefnd á hverjum tíma, hefur hlaupið útundan sér ofar en einu sinni og oftar en tvisvar. Af þeim ástæðum hefur fyrsti landnámsbær Örlygs Hrappsonar verið færður niður á sléttlendið og þá líklegast að Hofi. Víst er að að „hin fyrsta kirkja á Íslandi“ hefur mjög ólíklega verið reist í skriðunum neðan Gljúfurdals, að fenginni reynslu. Ef svo ólíklega hefur verið gæti kirkjustæðið og kirkjugarðurinn hafa verið suðaustan við núverandi bæ bæ (6413111-02146192), en ekki vestan hans eins og sýnt er á kortum.
Buahellir-36Af framangreindri lýsingu í Kjalnesingasögu um „Búahelli“ má leiða líkum að nefnt einstigi hafi átt að vera beint ofan við núverandi Esjubergsbæ – í og undir Lauganípu. Þar má sjá árfarveg koma nánast þvert á bergið og sameinast núverandi Grundará. Vatn hefur hins vegar þá áráttu að leita stystu leiða niður á jafnsléttu undan halla. Skv. þeirri kenningu hefur vatnið úr „einstiginu“ runnið áleiðis niður að Esjubergi. Til að komast yfir gilfarveginn hefur það þurft að renna upp á við á kafla, en það verður að teljast ólíklegur kostur.
Niðurstaðan um „Búahelli“, skv. Kjalnesingasögu, er sú að um þjóðsagna- og draumkennda lýsingu sé að ræða með hliðsjón af hugmyndum og tilgangi skráarritara. „Staðsetningin“ á hellinum, skv. sögunni, á að vera í Laugagnípu, en einhverra hluta vegna hefur áhugasamt fólk fært staðsetninguna yfir Grundarána og þá hafi það orðið til þar í hömrunum örnefnið „Búi“, „Búahamar“ og „Búahellir“. Líklega er það vegna þess að eina sýnilega litla „svartholið“ í nágrenninu er þar í hömrunum, en ef grannt er skoðað hefur hvorki nokkrum manni geta tekist að klifra þangað upp án klifursbúnaðar né geta dvalið þar í grunnri holunni vegna gólfhallans.

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað, Björn Þorsteinsson, Nokkrir örnefnaþættir, 12. júlí 1964, bls. 629-630.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Hofalýsingar í fornsögum og goðalíkneski eftir Finn Jónsson, 13. árg, 1898, bls. 32-33.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Rannsókn á blóthúsinu að Þyrli og fleira i Hvalfirði og um Kjalarnes, eftir Sigurð Vigfússon, 1880, 1. árg. 1880-1881-, bls. 66-69.

Esja

Gengið á Esjuna.