Tag Archive for: Búrfellskot

Búrfellskot

Tekið verður hús á Þormóðsdalsbóndanum Þorsteini Hraundal og frú. Af því tilefni var gengið að draumóranámum Einars Benediktssonar utan í Búrfelli, beggja vegna Seljadalsár, upp með hinum forna Seljadalsvegi er lá áleiðis til Þingvalla áður en Konungsvegurinn 1907 kom til, yfir steinhlaðnar brýr norðan Leirtjarnar og vestan Silungatjarnar, að Nærseli, fjárborg skoðuð sem og gömul fjárhústóft utan í Grímannsfjalli áður en kveðju var kastað á Þormóðsdalsbóndann (og frú) að lokinni gönguferð.

Tóftir Búrfells(kots) - Hafravatn fjær

Áður en lagt var af stað voru rifjaðar upp örnefnalýsingar fyrir Þormóðsdal og Miðdal yfir göngusvæðið. Heimildarmaður og skrásetjari þessara lýsinga var Tryggvi Einarsson í Miðdal, en hann þekkti einnig vel til í Þormóðsdal, sem er næsta jörð norðan Miðdals. Tryggvi fæddist í Miðdal árið 1901 og átti þar heima alla sína tíð.
„Upp með Seljadalsá að Þormóðsdal eru melar, er Þormóðsdalsmelar heita. Vestur af Þormóðsdalsmelum eru grastorfur, er Torfur heita. Í túninu í Þormóðsdal, skammt sunnan við bæinn, er talið, að Þormóður, sem bærinn dregur nafn sitt af, sé grafinn. Er þar en[n] að sjá upphlaðið leiði. Hefur því verið haldið við, svo lengi sem ég man eftir. Eru ámæli á leiði þessu, að sé það slegið, eiga að farast 3 stórgripir. Leiðið var slegið með vilja og vitund einu sinni í minni tíð. Fórust þá á árinu 3 stórgripir á hryllilegan hátt. Í túninu norðan við Þormóðsdalsbæinn er stór hóll, er Gapi heitir; vestan undir Gapa er Gapamýri.

Gamla þjóðleiðin ofan Búrfells(kots)

Norður af Þormóðsdalsbænum er fell, sem Þverfell heitir að gildragi nokkru austar. Þá tekur við Þormóðsdalsfjall að svonefndum Efri-Sukkum. Á austanverðu Þormóðsdalsfjalli er laus klettur, er Grettir heitir.
Úr Sukkum kemur lækur, er rennur í Seljadalsá, þar sem heitir Árnes. Heitir sá lækur Árneslækur. Bugða í Seljadalsá myndar Árnes. Árnes er allstórt, þurrlent og grasgefið. Voru þar aðalútengjaslægjur Þormóðsdals. Árnes er nú ræktað tún. Upp með Árneslæk að vestan var sauðahús Þormóðsdals. Sést þar vel fyrir tóftum. Frá Árnesi upp með Seljadalsá að norðan, er alllöng valllendismóaspilda; þar mótar fyrir seltóftum. Var það nefnt Nærsel. Nokkru innar með ánni er hóll við ána, sem Hesthóll heitir.“
Og þá heim að Miðdal: „
Norðan við gamla Miðdalstúnið var mýri sem Mómýri hét (nú ræktað tún), mótak var þar gott, mórinn svartur og harður. Ruðningur 4 til 6 stungu mórinn 6 til 9 stungur niður. Ofan við Mómýri er Móholt. Norðan við Mómýri og upp með Seljadalsá er Búrfellsmýri. Austur af Búrfellsmýri eru Hringholtin, en austan við Hringholtin er mýri sem Hringur heitir. Sunnan við Hring er urðarhjalli sem Klif heitir. Norðan við Búrfellsmýri er Búrfell, sunnan við Búrfell er kargaþýfður mói, þar var Búrfellskot. Sést vel fyrir bæjarrústum þar. Búrfellskot var hjáleiga frá Miðdal. Sunnan í Búrfellstind er Búrfellsbrekka. 

Brúin norðaustan Leirtjarnar

Vestan í Búrfelli neðarlega eru grastorfur sem Búrfellstorfur heita. Norðan í Búrfelli eru grónir hjallar er Tjaldstaður heitir. Inn með Búrfelli að norðan er Búrfellsfoss  í Seljadalsá. Norð-austan við Búrfell er Fellsmýri. Austan við áðurnefndan Hring eru Leirtjarnarmelar, þar er jarðfastur bergdrangur sem Grettir heitir. Sunnan við Leirtjarnarmela er Leirtjörn. Sunnan við Leirtjörn er Leirtjarnarurð, þar er fjárrétt og Stekkur. Suð-austur af Leirtjörn er allstór mýri er Leirtjarnarmýri heitir. Austur af Leirtjarnarmýri eru hólar sem Leirtjarnarhólar heita. Norður úr Leirtjörn rennur Leirtjarnarlækur eftir mýri er Leirtjarnarlækjarmýri heitir. Frá Leirtjarnarlæk inn með Seljadalsá er mýrarkriki er Breiðiklofi heitir. Austan við Breiðaklofa er hóll sem Þúfhóll heitir. Austan við Þúfhól er mjótt mýrardrag niður að Seljadalsá sem Oddnýjarklofi heitir. Nokkru innar með Seljadalsá er mjótt gróðurdrag sem Mjóiklofi heitir, þar tekur við Silungatjarnarhæð. Fyrir sunnan Silungatjarnarhæð er Silungatjörn. Fyrir sunnan Silungatjörn er Silungatjarnarurð. Austan við Silungatjarnarhæð er Silungatjarnarlækur sem rennur  í Seljadalsá. Austan við Silungatjörn er Silungatjarnarmýri. Sunnan við Silungatjarnarmýri eru Silungatjarnarbrúnir. Austan við Silungatjarnarmýri er áverandi hóll er Moshóll, heitir. Nokkru innar með Seljadalsá þrengist verulega að Seljadalsá, þar heitir Þrengsli. Austan við Þrengslin er Seljadalur.“

Önnur brú á gömlu þjóðleiðinni til Þingvalla

Tryggvi minntist á Búrfellskot. Í Jarðabókinni 1703 er bærinn nefndur Búrfell. Tóftir bæjarins, sem verður að teljast kot, jafnvel á þeirra tíma mælikvarða, sjást enn vel utan í suðvesturhlíð Búrfells. Gamla þjóðleiðin frá Reykjavík og austur á Þingvöllu lá neðan við bæinn og áfram áleiði upp hlíðina að Búrfellshálsi. Gatan var rakin áfram um hálsinn. Ætlunin var að rekja hana allt upp að vaði á Seljadalsánni norðaustan við Silungatjörn.
Norðan Leirtjarnar sést gatan vel. Gott útsýni er suður yfir vatnið, að Gildruhálsi. 

Haldið var yfir hina hlöðnu brú yfir mýrardrag norðnorðaustan tjarnarinnar. Handan hennar lá gatan upp á örfoka melhæð, niður hana að handan og liðaðist síðan með lágum hæðum til norðausturs. Skammt vestan Silungatjarnar var komið að annarri hlaðinni brú yfir bleytufláka. Handan hans var komið inn á nýjan veg að sumarbústaðabyggð við vatnið, en með þrautseigju var hægt að rekja gömlu götuna áfram um lúpínusvæði og afgirta einstaka sumarbústaðareiti. Hún lá svo til alveg að tjörninni, mjög greinilega, en fjarlægðist hana síðan er nær dró Seljadalsánni. Þegar að ánni var komið lá gatan að vaði og síðan áfram áleiðis inn að Þrengslum.

Hluti hinnar gömlu þjóðleiðar um sumarhúsabyggð vestan Silungatjarnar

Reyndar er alveg ótrúlegt hversu einstaklingar hafa fengið frjálsar hendur að raska þessrai fornu þjóðleið. Verður bæði við Þjóðminjasafnið (áður fyrr) og Fornleifavernd ríkisins að sakast í þeim efnum – því einungis svolitla meðvitund (andstæða sofandaháttar) hefði þurft til að vernda þennan kafla leiðarinnar, sem annars er að mestu óraskaður.
Við vaðið var beitt til norðurs, að Nærseli, norðan Seljadalsár, ofarlega í Neðri-Seljadal. Á litlum grónum „bleðli“ norðan árinnar mótar fyrir tóftum. Kargaþýfi er á svæðinu, en kvöldsólin opinberaði allan sannleikan um hinu horfnu húsaskipan. Tóftirnar voru tvær; sú eystri er stök. Dyraop snýr til suðurs, líkt og í vestari tóftinni, sem virtist þrískipt. Stærsta rýmið var nyrst, en síðan tvö minni framan við það, til beggja ganghanda. Tóftirnar eru mjög grónar og því að líkindum gamlar. Álitlegur lækur vestan við þær hafa ákvarðar staðsetningu þeirra á sínum tíma. Ofan við tóftirnar vottar fyrir hleðslu í læknum og í honum skammt vestan við þær virðist hafa verið lagaður (eða jafnvel hlaðinn) brunnur eða aðgengilegt vatnsstæði.
NærselNeðan við tóftirnar mótar fyrir stekk, ofan við barð er hallar niður að Seljadalsánni. Ekki var að sjá aðrar mannvistaleifar, sem telja má með öruggri vissu, í næsta nágrenni við tóftirnar og ekki var að sjá að þarna hefðu verið gerðir garðar eða önnur mannvirki er bent gætu til varanlegri búsetu.
Ekki getið um selstöðu frá Þormóðsdal í Jarðabókinni 1703. Í henni segir að Úlfarsfell hafi haft „selstöðu góða“, en ekki hvar. Í heimildum er þó getið um Nærsel í Seljadal, en ekki er vitað hvar það hefur verið. Viðey á að hafa haft selstöðu á þessum slóðum og samnýtt selstöðu með Bessastöðum. Það er ekki ólíklegt því í Jarðabókinni 1703 er sagt frá því að Þormóðsdalur hafi haft „dagslættir í Viðey“. Þarna gæti hafa verið um hlunnindaskipti að ræða.

Seljadalur

Seljadalur (Nærsel) – uppdráttur ÓSÁ.

Fyrir liggur þó vísbending um Nærsel. Stórt skilti (loftmynd) frá Skógræktinni er rétt innan við beygjuna inn í Þormóðsdal (frá Hafravatnsvegi) og á því eru örnefni, m.a. Nærsel og það sýnt beint framan við bæinn þeim megin árinnar, en Árnes Búrfellsmegin við. Þetta passar ekki miðað við örnefnalýsingu Tryggva frá Miðdal. en hann segir um Þormóðsdal (mörk Miðdals og Þormóðsdals eru um ána): “ Úr Sukkum kemur lækur, er rennur í Seljadalsá, þar sem heitir Árnes. .. Árneslækur…. Bugða í Seljadalsá myndar Árnes. Árnes er allstórt, þurrlent og grasgefið. … Árnes er nú ræktað tún. Upp með Árneslæk að vestan var sauðahús Þormóðsdals. Sérst þar vel fyrir tóftum. Frá Árnesi upp með Seljadalsá að norðan, er alllöng valllendismóaspilda; þar mótar fyrir seltóftum. Var það nefnt Nærsel. Nokkru innar með ánni er hóll við ána, sem Hesthóll heitir….“
Framangreind lýsing getur alveg passað við tóftirnar sem lýst hefur verið. Svo má velta fyrir sér frá hvaða jörð Nærsel var? Og hvaða sel er þá “fjærsel“? E.t.v. Nessel?
Þekkt er víða um land að kot hafi vaxið upp úr seljum. En einungis örfá dæmi eru um það í landnámi Ingólfs, s.s. í Seljadal ofan við Fossárdal í Hvalfirði og Straumssel ofan við Hraunin. En tóftir þessar virðust ekki hafa hýst kot. Þær voru og keimlíkar öðrum selrústum á Reykjanesskaganum til þess; þrískiptar (vistarverur, búr og eldhús), auk stekks. Þá kemur afstaða og staðsetning tóftanna heim og saman við sambærileg mannvirki víða á svæðinu. 

Haldið var norðvestur með norðanverðum Seljadal, að tóftum fjárhúss og fjárborgar. Jarðýtu hafði verið ekið niður mýrlendið skammt vestan fjárhússtóftarinnar (sauðahússins) og má telja mildi að ekki hafi verið farið yfir hana. Greinilegt er að þarna standa til verulegar framkvæmdir því búið er að koma fyrir miklu magni svína- og hænsnaskíts innan nýrrar girðingar.

Fjárhústóft (sauðahús) frá þormóðsdal

Líklegt má telja að þarna eigi innan skamms að „lagfæra“ hlíðina norðanverða og gera hana að bitvænni högum fyrir hross. Dalsbóndinn mun vera þarna að verki. Vonandi er hann vel meðvitaður um minjar að svæðinu, hvort sem um er að ræða Nærselið, fjárhúsið eða fjárborgina. Og auðvitað hlýtur Fornleifavernd ríkisins, sem jafnan vakir yfir framkvæmdum sem þessum, að hafa gert viðhlítandi fyrirbyggjandi ráðstafanir svo varðveita megi menningarminjarnar á svæðinu??!!
Aftur var tekið hús á Þormóðsdalsbónda. Hafði hann þá hitað kaffi fyrir þátttakendur og bar vel á beina. Þá gekk hann með þeim að námusvæðinu og benti á fyrrum námuop, sem nú hefur verið lokað með fyrirgjöf. Sagðist hann hafa fyrrum séð op á námugöngum, bæði norðan og sunnan Seljadalsár. Göngin norðan árinnar hefðu verið mun lengri. Leifar járnbrautarteina hefðu verið innan við opin. Göngin sjálf hefðu ekki verið stærri en svo að meðalmaður hafi þurft að ganga um þau hokinn. Rutt hefði verið fyrir opin til að koma í veg fyrir slysahættu. Auðvelt væri hins vegar að moka þau út að nýju, ef einhverjum sýndist svo.
Bóndinn benti FERLIR á leifar járnbrautarteina í ánni neðan við námusvæðið. Þá hefur fyrrum bónda hugkvæmst að nota þá í girðingarstaura því styttur úr þeim má sjá uppi í hlíð Búrfells þar sem núverandi girðing liggur nú. 

Lefar brautarteina við gömlu gullnámuna við ÞormóðsdalLítið hefur verið fjallað um gullvinnsluna við Þormóðsdal (Miðdal), en í Öldinni okkar (1905) er sagt frá því er gull fanst við rætur Öskjuhlíðar. Þar segir m.a.: „Það varð uppi fótur og fit í Reykjavík laugardagsmorguninn 1. apríl, þegar sú fregn barst um bæinn, að gull hefði fundizt í mýrarkrikanum vestan undir Öskjuhlíðinni rétt fyrir sunnan gamla Hafnarfjarðarveginn.“ Gullfréttin flaug víða. Áhöfn á breskum togara, sem legið hafði í höfninni, sigldi til Englands með fréttina. Reiknað var með að erlendir gullgrafarar myndu senn streyma til Reykjavíkur. Bæjarstjórn hélt fund um málið. Skipuð var nefnd um rannsókn málsins. Gullsarf. reyndar í ofurlitlu magni, var lagt fram. Námasvæðið var afmarkað og hlutafélagið Málmur stofnað. Stofnendur voru níu menn, en mönnum var frjálst að kaupa sér hluti í félaginu. Stefnt var að því að kaupa bor og hefja frekari leit að gulli á svæðinu. Ekkert varð úr verki og framkvæmdin dagaði uppi. Ekki er vitað hvað varð um hlutaféð, 100-250 þús. kr. Árið 1908 birtist frétt um að hlutafélagið Málmur væri komið í fjárþröng. Fram kom að búið væri að verja 24 þús. kr. til vélakaupa og rannsókna og að félagið væri komið í 4500 kr. skuld. Hvað varð um mismuninn er enn ekki vitað, tæpri öld síðar.
Talið var að gullævintýrið í Öskjuhlíðinni hafi verið búið til til að afla hlutafjár í einhverju, sem ekki var til. Hið litla gull, sem sýna átti tilefnið, hafi í raun og veru komið úr gullnámu við Þormóðsdal.
Frábært veður. Gangan tók
2 klst og 2 mín. (Kvöldsólin sveipaði Seljadalinn og Nærselið dulúðlegri birtu).

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þormóðsdal.
-Örnefnalýsing fyrir Miðdal.
-Öldin okkar.
-Þorsteinn Hraundal.

Silungatjörn og nágrenni í kvöldsólinni

Leirtjörn

Gengið var eftir Seljadalsvegi til austurs undir sunnanverðu Búrfelli.

Búrfellskot

Búrfellskot – uppdráttur ÓSÁ.

Ætlunin var að fylgja veginum upp fyrir tóftir Búrfellskots og inn fyrir norðanverða Leirtjörn, ganga síðan suðurfyrir tjörnina, líta á Miðdalsstekk og halda síðan áfarm að upphafsstað. Vegurinn svonefndi er gömul gata er lá frá Reykjavík upp með Hafravatni og áleiðis til Þingvalla. Hann er vel greinilegur á köflum, t.a.m. í Seljadal. Þar liggur hann í gegnum gamla hlaðna rétt sunnan undir Kambhól, Kambsrétt. Slóðinn er flóraður á þessum kafla. Þessi gata var lögð á seinni hluta 19. aldar og var um tíma aðalvegurinn til Þingvalla eða þangað til gamli Þingvallavegurinn var lagður í tilefni af koungskomunni 1907. Í örnefnalýsingu fyrir Miðdal segir m.a.: „… norður að gamla-Þingvallavegi er Rjúpnaás heitir. Austur af Rjúpnaás er Efri-Djúpidalur, sá konunglegi dalur; árið 1907 sá faðir minn Einar Guðmundsson í Miðdal að öllu leyti um aðbúnað og móttöku Friðriks VIII, Danakonungs á leið sinni til Þingvalla. Var dalurinn allur flöggum prýddur, byggður var eldhússkúr en matarveisla í tjaldbúðum. Fékk faðir minn lof fyrir stundvísi og aðbúnað allan.“
Þegar lagt var af stað komu fram vangaveltur um örnefnið Búrfell.
Mörg fjöll á Íslandi bera sama nafn eins og Mælifell, Sandfell og Búrfell. Það er augljóst hvers vegna fjöll heita Sandfell og talið er að Mælifell heiti svo m.a. af því að þau helmingi ákveðna ferðamannaleið. En hvers vegna ætli fjöll heiti Búrfell? Það fyrsta sem kemur væntanlega upp í hugann er búrhvalur því ef litið er á mynd af slíku dýri þá eru ákveðin líkindi með útliti hvalsins og sumum Búrfellum einkum þeim sem eru stapar. Þar sem fjöllin þykja oft lík að lögun hefur stundum verið talað um Búrfellslag eða Búrfellslögun fjalla. Það er til önnur skýring á nafninu og hún er sú að það tengist matargeymslu eða eins og segir á vef Örnefnasafns Stofnunar Árna Magnússonar (sjá http://www.ornefni.is/) „og þá helst stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr.“ Sum Búrfellin eru kölluð Matarfell af sjó svo sem Búrfell á Snæfellsnesi og Búrfell í Reykjarfirði á Ströndum en Búrfell á Gnúpverjaafrétti er kallað „fjallið fyrir innan Heklu“ og Búrfell á Tjörnesi er kallað Kistufell. Ástæða þess er sú að sjómenn trúðu því að ef þeir nefndu Búrfell á nafn gætu þeir egnt á sig búrhvalinn. Þetta voru því svokölluð varúðarnöfn. Talið er að það séu a.m.k. 47 fjöll hér á landi sem bera nafnið Búrfell. Á sama hátt mætti tíunda um örnefnið Leirtjörn því þær eru fjölmargar hér á landi. A.m.k. þrjár eru t.a.m. svo til nágrannar á umræddu svæði, ef einungis er tekið mið af landakortinu. 

Búrfellskot

Búrfellskot.

Tóftir Búrfellskots eru enn greinilega ofan við gamla veginn, sem hefur legið svo til í gegnum hlaðið á kotinu. Búrfellskot er merkt í eyði suðvestan undir Búrfelli. Þar er Leirtjörn suðaustur af og Hafravatn vestan. Ekki er minnst á kotið í Jarðabókinni 1703, en þar er hins vegar fjallað um Búrfell. Það var önnur hjáleiga af tveimur frá Miðdal. hin var Borgarkot. Undir það síðasta var Búrfell nafn á húsi, sem var rifið í kringum 1980. Grunnurinn sést enn neðan og suðvestan við Búrfellskotið, sem hér er fjallað um
Um Búrfell, sem þá er sennilega sama og Búrfellskot, segir m.a.: „Nú í eyði og hefur í eyði legið hjer um 8 ár. Fóðrast kunnu ii kýr og ekki meira. Torfskurður til húsa og eldiviðar var nægur. Þessi hjáleiga var fyrst það menn vita uppbyggð fyrir vel 20 árum, þar sem menn meina að fyrir lángri ævi muni býli hafa verið, og veit þó enginn til þess annað, en hvað fornar girðingar og húsabrotaleifar, sem þar voru fyrr en nú að nýju var uppbyggt, sýna fornrar byggðar merki. Lagðist þetta kot mest í eyði fyrir óbærilegum átroðningi þjóðgötu, sem þar liggur í gegnum túnið, og er þetta kot ekki þess erfiðis vert, sem kosta vildi að gjöra þar bygð að nýju, sá ágángi ferðamann gæti af hrundið og þykir því ei aftur byggjandi.“
Samkvæmt framansögðu mun Búrfell eða Búrfellskot hafa byggst um 1680, upp úr fornum leifum. Kotið var, skv. örnefnaskrá, gháleiga frá Miðdal.
Á einni torfunni, sem rís nokkuð hátt í neðri hlíðum fellsins, eru tóftirnar, nú grónar og orðnar nokkuð jarðlægar. Neðan við þær liggur grannur gróinn vegur til austurs upp skáhlíðina, áleiðis inn að Leirtjörn. Hann er víða horfinn beggja vegna. Neðan hans er önnur gömul gata, eldri, sennilega aflögð reiðleið. Efri vegurinn virðist geta hafa verið vagnvegur, a.m.k. manngerður.
Þegar tóftirnar eru gaumgæfðar má sjá móta fyrir þremur rýmum í megintóftinni. Erfitt er að greina fleiri hús, en svæðið allt um kring er mjög grasloðið og stórþúfótt. Vottar fyrir rými vestan við tóftina. Ofan við rústina er greinilegur lítill garður, einnig gróinn. Austur og norðurveggurinn sjást greinilega, en engar hleðslur. Ofan við norðausturhornið er hvylft inn í brekku. Sunnan við hana og austan við garðinn gæti mótað fyrir lítilli tóft.
Megintóftin er með tveimur sæmilega góðum rýmum og þá virðist hafa verið rými framan við vestara rýmið, þar sem hafa verið dyr er vísað hafa til suðvesturs, niður hlíðina, að veginum.
Seljadalsvegur, brúin (t.h.) og Leirtjörn fjærAf koti að vera hefur það verið mjög lítið og einfalt að allri gerð, ólíkt kotum t.d. á Sléttunni og víða annars staðar, sem voru jafnan margflóknari. Hins vegar bera tóftirnar yfirbragð selshúsa, en garðurinn fyrir aftan þær tengir þær frekar kotbúskap. Slíkur garður, fast við hús, eru sjaldgæft í seljum á Reykjanesskaganum (landnámi Ingólfs). Þeir þekkjast þó, s.s. í Brunnastaðaseli og Helguseli, en þar er hann minni og er að öllum líkindum leifar af stekk. Ekki er með öllu útilokað að garðurinn hafi fyrrum verið hluti af stekk við selshús, en ýmislegt bendir til þess að þá hafi þau vaxið upp úr seli og garðurinn verið notaður til matjurtargerðar við lítið örreitiskot þarna í hlíðinni.
Fleiri mannvirki gætu verið falin þarna á þúfnablettum. Vatn er í Seljadalsánni, Leirtjörn og Hafravatni, en vatnsgangurinn hefur þá jafnan verið til drjúgur.
Frá þessum stað hefur varðveist eftirfarandi þjóðasaga: „Í Búrfellskoti undir sunnanverðu Búrfelli voru bræður tveir með móður sinni; hétu þeir Bikar og Bolli. Þar handan við Búrfellsháls undir Búrfellsbrekku, skammt frá bænum, var lítið vatn, og í því mikil silúngsveiði. Þegar móðir þeirra eltist og hætti bústjórn, skiptu þeir bræður landi með sér, og hlaut Bikar fremri hlutalandsins, þar sem Bikar-Hólar [eyðibýlið Hólar er þarna skammt vestar] eru nú, og dregur bærinn nafn af honum. En Bolli byggði upp kotið efri jaðrinum, þar sem nú er eyðibýlið Bollastaðir (Búrfellskot). 

Leirtjörn og Nykurtjörn neðst, en Seljadalsvegurinn ofar (rauður)

Móðir þeirra bræðra fylgdi Bolla syni sínum. Ekki leið á laungu, áður þeir bræður fóru að deila um veiðina í vatninu; vildi Bolli hafa hana hálfa, en Bikar spillti veiðinni fyrir bróður sínum, því hann vildi einn eiga veiðina alla, og fór Bolli halloka fyrir ofsa hans. Varð þá móðir þeirra bræðra svo reið, að hún lagði það á, að vatnið skyldið þaðan í frá verða fúlasta leirtjörn meðan þeir lifðu, sem ekkert kvikindi þrifist í, og svo varð síðan. Óx þar síðan lítið annað en stargresi. Aftur hefur úr ræst því tjörnin er nú hin myndarlegasta.“ Líklegra er hér fremur um flökkusögu að ræða en þjóðsögu því sambærilegar sögur eru til víðar um land.
Áfram var gatan rakin inn með sunnanverðu Búrfelli uns komið var að mýrarhafti. Um það rann lækur úr Leirtjörn og er steinhlaðin brú yfir mýrina og lækinn (ein af fjölmörgum óþekktum fornleifum á Reykjanesskaganum). Handan brúarinnar liggur gatan í sneitðin til norðausturs með lágum hól. Ofan hans stefnir gatan að Kambshól í miðhafti Seljadals.
Næstu vötn við Leirtjörn eru Silungatjörn að austan og Krókatjörn að sunnan. Norðan við hina síðarnefndu er Nykurtjörn, minni en hin vötnin. Gengið var til suðvesturs með austanverðri Leirtjörn. Um er að ræða mýrarfen að mestu. Skoða þarf betur austurjaðar gróninganna því undir hæðarbrúnum gætu leynst fornar tóftir. 

Stekkur við sunnanverða Leirtjörn

Sunnan við tjörnina er hlaðinn tvískiptur stekkur með leiðigarði, sem einnig hefur verið notað sem fjárrétt. Stekkurinn er heillegur og því líklegt að hann hafi verið notaður við fráfærur frá Miðdal eftir að seljabúkapur lagðist niður skömmu fyrir aldarmótin 1900. Mannvirkið lætur lítið yfir sér, en er engu að síður fallegt þar sem það kúrir undir gróinni skriðu Gildrudalsáss. „Þar á sléttri klöpp voru refasteinsgildrur, en enskir hermenn stálu þeim í skotbyrgi“, eins og segir í örnefnalýsingu.
Sesselja Guðmundsdóttir gekk um þessar slóðir fyrir skemmstu sbr.: „S
krapp í bláber og gekk hluta gamla Seljadalsvegarins. Gaman að sjá aftur gömlu brúna yfir mýrina við Leirtjörn, ofan Búrfells. Tók nokkrar myndir. Nú er verið að hamast við að skemma hæðina fyrir ofan Miðdalshúsið, verðið að flytja þangað útmokstur í stórum stíl úr einhverjum gripahúsum þannig að heiðargróðurinn fer undir draslið sem og gamla þjóðleiðin að hluta, arfinn kominn í stað fjölbreytilegs lynggróðurs! Einnig búið að leggja jeppavegi þarna út og suður fyrir hrossaútgerð. Eitt hrossið var svo aðgangshart að það beit í bakpokann minn (sem ég var með á bakinu) og hékk þar lengi! Allt á fallanda fæti í heimi hér!“
Rétt er að geta þess að til að komast eftir vegarslóða upp með sunnanverðu Búrfelli þarf að fara í gegnum þrjú hlið. Fremsta hlið er læst með keðju (lykillinn er undir steini hægra megin við hægri hliðstólpann), en hin eru krækt aftur. Hliðin virðast vera þarna í tvennum tilgangi; annars vegar til að koma í veg fyrir akstur að nýlegum borunarsvæðum væntanlegra gullgrafara, en gamlar gullnámur eru í norðanverðu Búrfelli, og hins vegar til að koma í veg fyrir að fólk geti séð hvernig ofanvert landið hefur verið lítilsvirt, sbr. frásögn Sesselju. Miðað við umfang framkvæmdanna þar hafa þær eflaust verið háðar umhverfismati.
Framundan er gönguferð um gamla Seljadalsveginn framhjá Búrfellskoti, inn með Leirtjörn norðnverðri og upp í Seljadal að Nærseli. Þar verður vent til vesturs og stefnan tekin á Þormóðsdal og gömlu gullnámurnar.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mínútu.
(Heimild m.a. örnefnalýsing fyrir Miðdal).

Miðdalsstekkur við sunnanverða Leirtjörn

Búrfellskot

Þegar gengið er um suðurhlíðar Búrfells má sjá stakar gróðurtorfur í Búrfellsbrekku, aðallega gras, millum gróðurvana melfláka. Tóftir eru í suðvesturhlíðum Búrfells austan við Seljadalsá. Þær kúra þarna á lágum hól út úr hlíðinni. Neðan við tóftirnar liggja þjóðvegir, hlið við hlið.

Búrfellskot

Búrfellskot.

Í svari Örnefnastofnuna (SS) við fyrirspurn um uppruna nafnsins Búrfells í ágúst 2002, kemur fram að „Búrfellin eru a.m.k. 47 talsins á landinu, nokkuð há stapafjöll mörg hver með klettum ofantil. Vel má vera að nafnið hafi upphaflega verið ósamsett, Búr, en síðari liðnum -fell, bætt við til skýringar. Búr er einmitt til sem nafn á þverhníptum klettum í sjó. Líklegt er að nafnið Búrfell sé dregið af orðinu búr í merk. ‘matargeymsla’, og þá helst sem stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr“.
Þegar gengið er um suðurhlíðar Búrfells má sjá stakar gróðurtorfur í Búrfellsbrekku, aðallega gras, millum gróðurvana melfláka.
Búrfellskot er merkt í eyði suðvestan undir Búrfelli. Þar er Leirtjörn suðaustur af og Hafravatn vestan. Ekki er minnst á kotið í Jarðabókinni 1703, en þar er hins vegar fjallað um Búrfell. Það var önnur hjáleiga af tveimur frá Miðdal. hin var Borgarkot. Undir það síðasta var Búrfell nafn á húsi, sem var rifið í kringum 1980. Grunnurinn sést enn neðan og suðvestan við Búrfellskotið, sem hér er fjallað um.

Búrfellskot

Búrfellskot – loftmynd.

Um Búrfell, sem þá er sennilega sama og Búrfellskot, segir m.a.: „Nú í eyði og hefur í eyði legið hjer um 8 ár. Fóðrast kunnu ii kýr og ekki meira. Torfskurður til húsa og eldiviðar var nægur. Þessi hjáleiga var fyrst það menn vita uppbyggð fyrir vel 20 árum, þar sem menn meina að fyrir lángri æfi muni býli hafa verið, og veit þó enginn til þess annað, en hvað fornar girðingar og húsabrotaleifar, sem þar voru fyrr en nú að nýju var uppbyggt, sýna fornrar byggðar merki. Lagðist þetta kot mest í eyði fyrir óbærilegum átroðningi þjóðgötu, sem þar liggur í gegnum túnið, og er þetta kot ekki þess erfiðis vert, sem kosta vildi að gjöra þar bygð að nýju, sá ágángi ferðamann gæti af hrundið og þykir því ei aftur byggjandi.“
Samkvæmt framansögðu mun Búrfell eða Búrfellskot hafa byggst um 1680, upp úr fornum leifum.
Á einni torfunni, sem rís nokkuð hátt í neðri hlíðum fellsins, eru tóftirnar, nú grónar og orðnar nokkuð jarðlægar. Neðan við þær liggur grannur gróinn vegur til austurs upp skáhlíðina, áleiðis inn að Leirtjörn. Hann er víða horfinn beggja vegna. Neðan hans er önnur gömul gata, eldri, sennilega aflögð reiðleið. Efri vegurinn virðist geta hafa verið vagnvegur, a.m.k. manngerður.
Þegar tóftirnar eru gaumgæfðar má sjá móta fyrir þremur rýmum í megintóftinni. Erfitt er að greina fleiri hús, en svæðið allt um kring er mjög grasloðið og stórþúfótt. Vottar fyrir rými vestan við tóftina. Ofan við rústina er greinilegur lítill garður, einnig gróinn. Austur og norðurveggurinn sjást greinilega, en engar hleðslur. Ofan við norðausturhornið er hvylft inn í brekku. Sunnan við hana og austan við garðinn gæti mótað fyrir lítilli tóft.

Búrfellskot

Búrfellskot – uppdráttur ÓSÁ.

Megintóftin er með tveimur sæmilega góðum rýmum og þá virðist hafa verið rými framan við vestara rýmið, þar sem hafa verið dyr er vísað hafa til suðvesturs, niður hlíðina, að veginum.
Af koti að vera hefur það verið mjög lítið og einfalt að allri gerð, ólíkt kotum t.d. á Sléttunni og víða annars staðar, sem voru jafnan margflóknari. Hins vegar bera tóftirnar yfirbragð selshúsa, en garðurinn fyrir aftan þær tengir þær frekar kotbúskap. Slíkur garður, fast við hús, eru sjaldgæft í seljum á Reykjanesskaganum (landnámi Ingólfs). Þeir þekkjast þó, s.s. í Brunnastaðaseli og Helguseli, en þar er hann minni og er að öllum líkindum leifar af stekk. Ekki er með öllu útilokað að garðurinn hafi fyrrum verið hluti af stekk við selshús, en ýmislegt bendir til þess að þá hafi þau vaxið upp úr seli og garðurinn verið notaður til matjurtargerðar við lítið örreitiskot þarna í hlíðinni.
Fleiri mannvirki gætu verið falin þarna á þúfnablettum. Vatn er í Seljadalsánni, Leirtjörn og Hafravatni, en vatnsgangurinn hefur þá jafnan verið til drjúgur. (En hvað höfðu kotbændur s.s. með vatn að gera öðru jöfnu)? Sunnar eru nú tún (sennilega frá Miðdal)
Niðurstaðan gæti verið þessi: Þarna er um að ræða tóftir svonefnds Búrfellskots (vantar nánari upplýsingar um það), sem að öllum líkindum hefur orðið til upp úr fornu seli eða öðru eldra koti. Graslendi hefur verið þarna ágætt fyrrum þótt nú séu þar einungis stöku gróðurblettur, þar sem fyrrnefnd „tún“ áttu að hafa verið.
Frá kotshólnum er ágætt útsýni yfir niðurdalinn og að Hafravatni.
En hvort þarna hafi fyrrum verið sel skal enn ósagt látið – þangað til annað kemur í ljós. Tóftir Búrfellskots (Búrfells) eru í skjóli undir suðvesturhlíð Búrfells, í skjóli fyrir rigningaráttinni – líkt og selja var jafnan háttur á þessu landssvæði.
Þjóðleiðin fyrrnefnda, er gerði kotbónda og fólki hans erfitt fyrir, hefur væntanlega legið meðfram Hafravatni og áfram áleiðis til Þingvalla. Mörg sambærileg dæmi eru til um áþján ábúenda af ferðafólki því ekki var það allt á ferð með fríðu föruneyti.

Búrfellskot

Búrfellskot.

Um göturnar fór einnig fólk, sem hafði það eitt að markmiði að njóta þess litla af þeim fáu er á vegi þess varð – og þá voru kotbændunum, af mörgum, enginn griði gefinn, og það þótt hann hafi dags daglega varla haft nóg fyrir sig og sína. Og ekki hafa húsakynnin verið rífleg, en skjólgóð hafa þau verið fólki á langri leið.
Skv. upplýsingum Sesselju Guðmundsdóttur, sem þekkir þetta svæði orðið býsna vel, konu með mikla reynslu, er „gamli vegurinn þarna elsta gatan til Þingvalla um Seljadal og liggur þétt með Leirtjörn, en sveigir svo til norðurs yfir mýrina (þar gömul torfbrú, var vel sjáanlega f. nokkrum árum) og liggur norður fyrir Silungatjörn að mig minnir. Þessi gata er mjög skýr í gegnum Kambsréttina og áfram inn á heiðina. Hef verið að skoða hana Mosfellsheiðarmegin (er að hnita hana). Ef þú leggur bílnum við gamla bílskúrinn f. ofan Miðdalshúsið og gengur þar beint upp á hæðina til NA þá kemur þú strax á þessa götu. Svo er nú ekki slæmt að hafa öll bláberin þarna á haustin, þ.e.a.s. áður en gæsin étur þau frá manni – sem gerist of oft“!
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Jarðabók ÁM og PV 1703.
-Örnefnastofnun – http://www.ornefni.is/d_skoda.php

Búrfellskot

Búrfellskot – gata.