Tag Archive for: Býjasker

Sigurður Eiríksson

Gengið var með Sigurði Eiríkssyni í Norðurkoti og fleirum eftir gömlu kirkjugötunni milli Býjaskers og Hvalsness. Leiðirnar fyrrum þarna á millum voru tvær; Neðri-gatan, sem lá með ströndinni, og Efri-Efri-gatagatan, sem lá ofar í landinu.
Gatan síðarnefnda sést víða enn mjög vel og er ætlunin að ganga hana milli hverfanna og jafnframt skrá á spjöld sögunnar – því ekki er vitað til þess að henni hafi áður verið lýst, hvorki á prenti né skjá. Sigurður þekkir örnefnin best núlifandi manna og kann að segja sögur af eftirminnilegum atburðum. Þetta var því söguleg ganga.
Byrjað var þó á því að skoða Bæjarskersgötuna þar sem frá var horfið.
Reynt var að skrá niður það helsta er fyrir augu bar á leiðinni, en vegna þess hversu margt það var, verður sumt að bíða betri síðna.
Sigurður býr nú að Norðurkoti III, austan Stafnesvegar. Þegar hann vildi hliðra til og hleypa yngra fólkinu að búskapnum í Norðurkoti mættu honum ýmsar hindranir, sem bæði eðlilegt og sjálfsagt hefði verið að leysa af verandi ráðamönnum í Sandgerði. Má þar t.d. nefna viðurkenningu á búsetu í hina ágæta nýja húsi, sem sumir vildu flokka undir sumarbústað.
Norðurkot IIISkv. túlkun þeirra mátti Sigurður ekki hafast þar við yfir vetrarmánuðina. Hann þurfti þá að greiða fullt verð fyrir rafmagn, vera án þjónustu sveitarfélagsins og svo mætti lengi telja. Auðvitað verður að flokka þessi viðbrögð undir þröngsýni og lýsir kannski best þeim er þau sýndu – og hafa sýnt. En nóg með það að sinni…
Gangan hófst við leifar gamla bæjarins Bæjarsker. Þar eru nú engin ummerki eftir gömlu götuna.
Að sögn Sigurðar má sjá Neðri-götuna stutta kafla á þremur stöðum, s.s. við Norðurkot. Annars væri hún að mestu horfin. Í lýsingu segir Sigurður m.a. svona frá þessari götu: „Neðri göngugatan milli hverfa, stundum kölluð kirkjugata. Hún lá með bæjum. HólkotÉg man vel eftir henni á Háabakkahólnum. Þar var hún vel merkjanleg eftir miðju Norðurkotstúni. Kom gatan upp úr Fúluvíkinni um hlaðið í Fuglavík, í traðir sem liggja með Fjósakotstúni sunnan til sjávar. Gatan þar er vel sjáanleg í dag, lá með sjó yfir Melabergsá og í gegnum hlaðið á Nesjum og Löndum. Efri-gata var notuð líka og víða sjáanleg.“
Gengið var í fyrstu yfir að og framhjá tóftum Hólkots, Hábæjar og Miðkots. Þar eru á öllum stöðum tóftir torfbæja og hlaðnir grjótveggir.
Efri-gatan kom glögglega í ljós sunnan við Setberg, vestan Stafnesvegar. Götunni var fylgt áleiðis til suðurs. Þegar komið var á móts við Kambsstekk benti Sigurður á grónar leifar hans skammt ofan þjóðvegarins.

Skammt sunnar mátti sjá móta fyrir nánast jarðlægum hlöðnum görðum: „Gilsgarðar, sagði Sigurður“: Gilsgarðar voru hlaðnir af Þorgils Árnasyni í Hamrakoti.
Skammt sunnar staldraði Sigurður við, snérist um 90° og benti til austurs, áleiðis upp heiðina: „Þetta er forvitnilegt, hluti gamals vegar, sem átti að liggja héðan til Keflavíkur. Hér má sjá hvernig mótar fyrir veginum, sem byrjar hér við Efri-götu ofan Vatnagarðs. Hluti vegarins var skemmdur töluvert þegar slitlag var sett á Stafnesveg. Var mjög vel hlaðinn og breiður.
Gamlir menn sögðu, að hestvagnar hafi átt að geta mæst Götuhlutinná honum. Hann hefði átt að liggja til Keflavíkur en draugar hefðu stoppað áframhald. Voru menn hér í hverfinu svona framsýnir og langt á undan tímanum og einhverjir draugar, e.t.v. mennskir, tafið og viljað láta hann liggja með byggð?“
Sigurður taldi að þarna hefði getað verið um vegabótavinnu að ræða. Þegar fjármagn hefði skort var ekki lengra farið. Eflaust hefur líka verið ágreiningur um vegstæðið, sem er svolítið einkennilega staðsett, millum Fuglavíkur og Melabergs.
MarkavarðaOfan við þjóðveginn eru Fuglavíkurstekkir; Neðri-Stekkur (grjóthlaðinn) og Efri-Stekkur (torfhlaðinn). Efri stekkurinn ber við sjónarröndina. Eftir er að skoða hann nánar, en ekki er ólíklegt að þar kunni undir háum gróningunum að leynast fjárborg. Ætlunin er að skoða þessi mannvirki betur fljótlega.
Framundan til hægri mátti sjá Markavörðuna svonefndu. Um hana sagði Sigurður: „Markavarðan er á mörkum milli Fuglavíkur og Melabergs. Varðan er neðst í Almenningum og í klöpp við hana er höggvið L.M. Almenningur var samkomulag milli fjárbænda í Bæjarskershverfi og Fulavíkurhverfi, suður í Nesjar. Almenningur hafði þann tilgang að fé kæmist í fjöru. 

Hábær

Hábær.

Vel má sjá móta fyrir útlínum stekksins. „Kambsstekkurinn er norðast í Setbergsgirðingu (eða Bárugirðingu). Gæti hafa verið stekkur frá Syðstakoti?“, segir í lýsingu Sigurðar. Suðaustan við hann er lítil tjörn, sem þornar á sumrum. Stekkurinn er norðan í svonefndu Kambsgili, sem er aflíðandi slakki upp í landið.
Þá liggur gatan innan girðingarinnar í Norðurkoti og færist smám saman nær henni við þjóðveginn. Þegar komið var inn fyrir Norðurkot III (Bjarghús), þar sem Sigurður býr núna, var staldrað við. Það er í svonefndu Gili.

Kambsstekkur

Austan við húsið í Norðurkoti I er sæmileg tjörn. Hana sagðist Sigurður hafa búið til á sínum tíma. Norðan við Norðurkotsbæinn er Lón, nefnt Skurðir. Um Norðurkotstjörnina segir Sigurður: „Hún var mikið minni hér áður og náði Háibakki mikið ofar og var mjótt haft á milli upp í tangann sem nú er orðinn hólmi. Var farið á steinum yfir á Háabakkann. Pabbi (Eiríkur) byrjaði að laga til og búa til hólma um 1939. Hólmarnir voru búnir til með því að aka grjóti á ís og laða æðarfugl að og smám saman fjölgaði fugli. Var það aðallega úti í hólmunum, en eftir að minkurinn kom, þá flutti fuglinn sig upp í landið.“ Sigurður lýsti því hvernig æðarvarpinu var komið á legg, baráttunni við nálægan varg, sem reyndust vera kettir úr Bæjarskershverfi, uppsetningu 5 km langra varnarneta umleikis o.fl.
Brókarlaut er austar, þar sem Stafnesvegur fer upp brekku suðvestan Norðurkots III. Sagði Sigurður nafnið hafa komið til vegna þess að vegagerðarmenn við veginn hafi þurft að klæðast hlífðarbrókum vegna þess hversu blautt vegarstæðið hafi verið.
Gatan við KlapparkotshólFarið var yfir heimreiðina að Norðurkoti. Þar á hægri hönd mátti sjá leifar af gömlum hlöðnum túngarði. Gatan liggur þarna upp stutta hæ
ð. Á hægri hönd er aflangur klapparhóll, Klapparkotshóll. „Klapparkot stóð vestur undir hólnum“, sagði Sigurður. Þar má enn sjá tóftir þess. Skammt sunnar mátti sjá leifar Hamrakots, hjáleigu frá Fuglavík. Við þær er trjárækt austanvert. Að sögn Sigurðar plantaði Una í Fuglavík, systir Jónínu, þessum trjám löngu eftir að kotið var aflagt. Kotið stóð við Hamrakotshól. Vestar, austan Fuglavíkurbæjarins, var Móhús. Sunnan við Fuglavík er Fuglavíkurtjörn. Hún var einnig nefnd Varptjörn. Sést hún vef frá götunni, sem og annað er lýst hefur verið.
Fuglavíkurbærinn er vestan við Norðurkot. Frá fundi húsfreyjunnar þar, Jónínu, á fornum ártalssteini, segir annars staðar á vefsíðunni.
Ofan götunnar, móts við Hamrakot, er aflangur klettur með hárri fuglaþúfu á, grónar leifar vörðu. „Álfakirkja heitir hann þessi“, sagði Sigurður. Sagðist hann ekki þekkja til sagna af álfum þarna, en þær gætu þó tengst konu einni (Stína) er umsetin var álfum. Bjó hún fyrrum í Hamrakoti. Hún kom þangað einus inni á ári og gekk þá um Hólinn. „Sögur hef ég heyrt um dularfulla hegðun og hvörf hennar þegar hún var ung í Hamrakoti. Ein er sú að bankað var þar að kvöldi, fór hún til dyra en kom ekki aftur og var horfin. Fannst hún inn á Njarðvíkurfitjum. Fleiri sögur eru til skráðar.“
Ofar má sjá steypta veggi Hóla. Faðir Sigurðar, sem bjó í Fjósakoti niður við Fuglavík, byggði húsið, nýbýlið, 1934. Sigurður (f: 1929) flutti síðan í húsið ásamt foreldrum sínum, en það brann árið 1937. Um það leyti var Norðurkotið laust til ábúðar og fluttist þá fjölskyldan þangað. 

Álfakrikjan

Eiríkur Jónsson keypti Norðukotið af Guðmundi Gíslasyni, sem fékk að vera þar áfram meðan hann lifði. Eiríkur reif öll hús í Norðurkoti, sem þá voru úr torfi og grjóti, og reisti ný.
Þarna, upp frá Fuglavík, liggur Fuglavíkurvegur. Um hana segir Sigurður: „Fuglavíkurvegur, gömul leið til Keflavíkur. Man eftir honum liggja frá Efri-götu sunnan Norðurkotsafleggjara, norðan hænsnakofa, norðan Háamels og upp, beygði svo norður af Folaldatjörn og inn á Einstæðingsmel, vestan Gotuvörðu á Sandgerðisvegi. Gotuvarða er ný upphlaðin og merkt af okkur Guðmundi Sigurbergssyni.“
Efri-gataUtan við Hóla og ofan Stafnesvegar er Siggavarða. Ekki sagðist Sigurður vita hvaðan nafngiftin er komin, en hann og Jónína í Fuglavík væru sammála um að hún væri gömul. Skammt sunnar er Dagmálavarða á ílangri Dagmálahæð. Um var að ræða eyktarmark frá Fuglavík.
Frá þessum stað við gömlu götuna benti Sigurður til vesturs og sagði að þarna neðar hefði verið býli er nefndist Vatnagarðar eða Vatnagarður. Sunnar hefðu Kaðalhamrar verið, niður við ströndina. Um væri að ræða stórtgrýttan kletthöfða. Sagði hann fróða menn hafa talað um að nafnið væri sennilega keltneskt. Svo væri og um mörg önnur áhrifaorð í íslensku. Tók hann sem dæmi orðið „geir“ í merkingunni „mör“. Þannig mætti nefna geirfuglinn „mörfugl“, en það væri einfaldlega rökrétt þegar afurð hans væri skoðuð í samhengi. Mörgæsin væri t.a.m. ekki ólíkur þeim fugli, sem reyndar er ekki  útdauð eins og hann. Fleiri dæmi tók Sigurður af nafngiftum kelta og áhrif þeirra á þessu svæði við gömlu kirkjugötuna.

Seinna, um 1945 varð gert samkomulag um að loka þessu til að stjórna flæðihættu. Norðurkot hafði alltaf aðgang að sinni spildu í gegnum Almenning, þangað til 2005, að Melabergsbændur girtu hana af einhliða.“
LindinÞrátt fyrir leit á klöppum við vörðufótin sást engin áletrun. Hún mun þó geta leynst þarna undir sandi, sem fokið hefur um svæðið og þakið misfellur.
Það kom líka augsýnilega í ljós á götukaflanum, sem framundan var. Allt Melabergssvæðið vestanvert er sandoprið þótt takist hafi að rækta þar upp á seinni árum. Gatan er því horfin í sandinn. Syðst á svæðinu staðnæmdist Sigurður við litla tjörn. „Hér neðar er Lindarsandur og þetta er Lindin. Lindarkot var hér skammt ofar, rétt ofan þjóðvegarins, og enn ofar er Melaberg. Í Lindinni þraut aldrei vatn. Hún var hlaðinn niðurgenginn brunnur. Tröppur voru hér að suðvestanverðu og hlaðið umleikis, líkt og sjá má í brunninum forna á Merkinesi. Sandurinn fyllti síðan brunninn og nú er hann horfinn. Það væri létt verk og löðumannlegt að grafa hann upp og gera aðgengilegan áhugasömum ferðalöngum um svæðið“. Í örnefnalýsingu fyrir Melaberg segir um lind þessa: „Er sandur þessi niður undan bænum Melaberg og heitir Lindarsandur. Dregur hann nafn af lind þeirri, sem er þar vestan við túnið. Hún var vatnsból og talin eins konar lífslind. Þetta sýnist þó vera ómerkileg hola í slétta grund og mun hafa verið talin hættuleg skepnum. Þau ummæli voru á Lindinni, að aldrei mætti fylla hana upp. Þetta var þó gjört á síðari hluta 19. aldar, og hlaut sá, er verkið vann, ógæfu nokkra. Hann hafði lokið verkinu, en var eigi genginn frá Lindinni er hann tók sjúkleika, sem varaði í nokkur ár, og fleira gekk

 báglega um tíma. Voru ummælin talin valda. 

Smalinn

Lindin var grafin upp aftur og hreinsuð; hefir ekki ógæfa á legið síðan. Þó Lindin sé eigi enn þá vatnsból Melabergs, er vatnið í henni hreint og tært. Hún hefir nú fengið þann umbúnað, að partur af tunnu hefir verið festur í botninn, og góður gangvegur er nú niður í holuna á einn veg. Geta kýr og aðrar skepnur gengið þangað sjálfkrafa til brynningar sér.“
Leiðin liggur nú yfir að því er virðist gamlan árfarveg, svonefnda Melabergsá. Utan við hana eru nokkrir steina á lágu hloti. Komið var að „Melabergsbræðrum og smalanum“; þremur stórum steinum á lágri aflangri hæð. Þjóðsaga kveður á um tilurð steinanna, smalinn austast og bræðurnir þétt saman vestar. Í kringum þá eru minni steinar; ær er urðu að steinum líkt og hinir fyrrnefndu.

Norður-Nesjar

Í lýsingu Magnúsar Þórarinssonar: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Melaberg“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, sem Félag Suðurnesjamanna gaf út í í Reykjavík, 1960, bls. 131-133, segir m.a. um neðanvert svæðið nálægt Melabergi: „Upp af Skjólgarðsbökkum, norðan við Melabergsá ofanverða, eru tveir stórir klettar með 3—4 faðma millibili; heita þeir Melabergsbræður, en í daglegu tali stytt í „Bræður“. Um 20—30 föðmum austar er einn steinn af sömu stærð og líkri lögun; heitir hann Smali.
Milli þessara einstæðu kletta eru nokkrir tugir smærri steina, sem eru öðru vísi en annað grjót á þessum slóðum. Þeir eru sléttir, ljósir að lit, líkir að stærð og lægri í vesturendann. Ef á að lýsa þeim nánar, þarf að hafa sömu aðferð og þegar skoðað er gott málverk, en það er: að vera í hæfilegri fjarlægð og horfa á þá frá réttri hlið.
Bezt er að standa spölkorn fyrir sunnan þá eða suðaustan og hugsa sér Suðurnesjaveðrá
ttu, útsynning með hryðjum eða éljum. Er þá ekki öðru líkara en að þarna sé fjárhópur og snúi allar „kindurnar“ í veðrið og séu að bíta. Enda segir gamla sögnin, að Melabergsbræður, ásamt með sauðamanni og búsmala, hafi þarna dagað uppi um eina fagra sólarupprás einhvern tíma í fyrndinni.
Efri-gata

Margar og miklar sögur hafa gengið frá Melabergi og Melabergsmönnum; eru nokkrar þeirra skráðar í þjóðsögum. Það var í munnmælum, á unglingsárum mínum, að Melaberg hafi einhvern tíma áður verið stórbýli með 50 hurðir á járnum, aðrir sögðu 80 og einstöku maður komst upp í hundrað. Enginn hefir þó getað sagt, hvar þennan fróðleik er að finna.“
Þegar lengra var haldið blasti Másbúðarvarða við niður við ströndina; sundvarða í Keili. Komið var að gatnamótum Hvalsnesgötu frá Keflavík og Efri-götu. Frá þeim tók gatan svo til beina stefnu á efsta grjótgarðinn við Nesjar. Ekki er auðvelt við fyrstu sýn að greina götustæðið, en úr því rættist fljótlega. Á leiðinni var gengið yfir jarðlægan garð Norður-Nesja. Tóftir bæjarins eru á lágum hól sunnan við túngarðinn. Hleðslur sjást enn er forma fyrrum bæjarstæðið. Um hann og fleira á leiðinni má t.d. lesa í Rauðskinnu.

Fuglavík

Fuglavík – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var ofan garðs við Nesjar og Lönd. Þar fylgdi gatan utanverðum görðum. Að sögn Sigurður má enn greina Virkið (Virkishól) og Gömlu Nesjar á bak við bílskúrinn á Nesjum. Másbúðarhólmi er neðar, landfastur á fjöru.
Nýlegt sumarbýlissvæði var á hægri hönd er lengra var haldið og þá Bursthús. Nýlenda var síðasti bærinn á hægri hönd áður en haldið var heim á hlað að Hvalsnesi. Frægastur ábúenda á Hvalsnesi er að ölluk líkindum séra Hallgrímur Pétursson.
Að lokinni göngu bauð Sigurður þátttakendum til stofu í Norðurkoti III. Til að bæta um betur fyrir hinar ellefu sortir og laufabrauð á borðum eftir fyrri ferðina galdraði hann fram rúsínur í súkkulaðihjúp og bauð rjúkandi kaffi með.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mínútur.

Heimild:
-Sigurður K. Eiríksson í Norðurkoti (f. 1929 – d. 2016)

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

 

Býjaskersrétt

Í Faxa 1980 spyr Skúli Magnússon „Hvort er réttara; Býjasker eða Bæjarsker?

„Halldóra á Bæjarskerjum sendi Faxa pistil um örnefnið Bæjarsker, sem birtist í 2. tbl. 1980. Hallaðist hún jafnvel að því að kalla eigi jörðina Býjasker. Vitnar hún þar í nokkrar heimildir frá seinni tímum máli sínu til stuðnings.

Býjasker

Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla, sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan Reykjanesskaga. Væntanlega heftir Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög. Víkin fyrir innan eyrina var kölluð Sandgerðisvík. Víkin þótti ákjósanleg til útgerðar mótorbáta. Fyrsti mótorbáturinn, sem kom til Sandgerðis, hét Gammur RE 107. Kom hann 4. febrúar 1907 og komu þar með mótoristar til starfa. Sá fyrsti hét Olaf Olsen, sem var síðar þekktur maður í Njarðvíkum.

Meðal annars til ritgerðar eftir Magnús Þórarinsson frá Flankastöðum. Líklega mun óhætt að treysta frásögnum hans, enda hefur maðurinn skráð einhverjar bestu ritgerðir sem til eru um Suðurnes. Greinarnar eru nákvæmar, á góðu máli og bera vott um mikla glöggskyggni höfundarins á umhverfi sitt. Bókin „Frá Suðurnesjum„, sem út kom 1960, er að miklu leyti handverk Magnúsar, og ber þess glöggt vitni. Þátturinn um leiðir og örnefni á Miðnesi er t.d. stórmerkur og virðist traust heimild. Bókin er eflaust sú besta sem komið hefur frá Suðurnesjum, enda skrifuð af heimamönnum, er þekktu nágrenni sitt allt frá æsku.
Frá SuðurnesjumEn svo ég snúi mér að efninu var erindið að skýra frá nokkrum niðurstöðum, sem ég fann, eftir að hafa kannað lítillega heimildir um örnefnið Býjasker.
Eftir því sem ég komst næst við lestur Fornbréfasafnsins, sem er ein aðalheimild Íslendingasögunnar, hefur snemma orðið venja að skrifa „Býja-“ í stað „Bæjar-„. Í nafnaskrá Fornbréfasafns er orðið býr gefið upp í merkinu bær. Vel má vera að þarna liggi ráðningin. Í orðabók Menningarsjóðs er hins vegar talað um býjarbyggð, „að hafa býjarbyggð“, í merkingunni að annast févörslu. Orðið er gamalt og tíðkast lítið í nútímamáli. Einhverjum kynni að detta í hug skyldleika orðsins við dönsku, jafnvel að áhrifa gæti þaðan. Ekki þarf það að koma til greina, þar eð orðmyndin „Býja-“ kemur strax fyrir um 1270. Skyldleiki getur hafa orðið við norskuna, enda höfðu Íslendingar meiri samskipti við Norðmenn á þessum tíma, en suður til Danmerkur.
Nafnið Bæjarsker kemur fyrst fyrir í Landnámu. Þar er frásögn af hólmgönguáskorun Hrolleifs í Heiðabæ í Þingvallasveit gegn Eyvindi í Kvíguvogum syðra.
Segir, að þeir hafi í staðinn „keypt löndum. Eyvindr bjó nokkra vetr síðan í Heiðabæ ok fór síðan á Rosmhvalanes til Bæjarskerja …“. (Ísl.sögur I, bls. 230-31. Rvík 1953).
Fram að þessu hefur gullaldarmálið staðið fyrir sínu, og trúlega er þetta upphaflegur ritháttur nafnsins. En er á leið breyttist orðið í meðförum, og um 1270 er það: „bíasker“, í skrá yfir hvalskipti Rosmhvelinga, sem prentuð er stafrétt í Fornbréfasafni. (II. bindi, bls. 77).

Býjasker

Býjasker – loftmynd 2020.

Í Hítardalsbók, sem hefur að innihalda kirknaskrá, frá um 1367, (handritið talið skr. um ca. 1650), er rætt um „Býjasker“. (Fornbr.sa. III, bls. 221). Á Bæjarskerjum var þá kirkja, helguð heilögum Úlafi Noregskonungi. Þarna kemur nafnið fyrst fyrir í núverandi mynd. Er það síðan skrifað þannig allar götur til 1570, nema í reikningum Kristjáns skrifara á Bessastöðum. Þeir reikningar eru yfir tekjur af konungsjörðum víða um land fyrir árin 1547-48. Þar er jörðin kölluð „Beersker“. Trúlega kennir þar þýskra áhrifa, enda var Kristján ættaður frá Þýskalandi (Fornbr.s. XII, bls. 116). Hins vegar kemur fram í VII. bindi Fornbréfasafns, bls. 53, að máldagi Brautarholtskirkju á Kjalarnesi, var lesinn upp, á héraðsþingi á „Bæjarskerjum“ 6. febr. 1749. Máldaginn var hins vegar frá miðöldum og hefur trúlega verið lagður fram sem sönnunargagn í einhverju máli, sem þá var háð. Þarna kemur orðið í ljós, við upplestur og bókfærslu á 18. öld.

Býjasker

Býjaskershverfi – túnakort 1919.

Ekki hafði ég tíma til að kanna ítarlega Alþingisbækurnar, gerðabækur þingsins, allt frá miðöldum, sem eru önnur aðalheimild (Íslandssögunnar, ásamt Fornbréfasafni). Einnig Alþingisbækur eru gefnar út stafrétt, og hafa því töluvert málsögulegt gildi. En við lauslegt yfirlit bókanna sýndist mér, að þar kæmi oftar fyrir Býjasker en Bæjarsker.
Ég hygg að Bæjarsker sé upphaflega nafngiftin, og skírskota þá til Ara fróða.

Býjasker

Býjasker – loftmynd 1954.

Fljótt virðist málvenjan hafa orðið Býjasker, sú orðmynd orðið algengust, en hin horfin. Því er ekki óeðlilegt þó gamalt fólk hafi notað meir það orð. Síðan hefur nafngiftin komist á prentaðar bækur og loks á landakort á 19. öld.
Sjálfur finnst mér fara betur í málinu orðið Bæjarsker en Býjasker. Hið seinna er svolítið dönskuskotið þrátt fyrir allt. Ég held því, að það sé ekki röng þróun þó jörðin hafi [í seinni tíð frekar gengið undir nafninu Bæjarsker, því líklega er það upphaflega nafnið.“ – Skúli Magnússon

Í tveimur tölublöðum Faxa 1983 fjallar Halldóra Thorlacius um Jón Jónsson, bónda, og ættbálk hennar á Bæjarskerjum:

Býjasker

Býjasker – Jón Jónsson.

„Á Bæjarskerjum í Miðneshreppi býr Jón Jónsson, 87 ára gamall. Hann er fæddur laugardag í mið-þorra 1896.
Jón segir svo frá: „Á Bæjarskerjum hefur sama ættin búið í 128 ár. Árið 1855 fluttist afi minn, Oddur Bjarnason austan úr Vestur-Skaftafellssýslu til Suðurnesja. Keypti hann Bæjarskerin og bjó þar til æviloka.
Með honum komu, faðir hans Bjarni Oddson, eiginkona Guðný Sveinsdóttir og börn þeirra, Bjarni, Ragnhildur og Jón faðir minn. Hann var fæddur að Borgarfelli 13. apríl 1855 og því ekki nema rétt mánaðar gamall þegar foreldrar hans lögðu upp í þessa löngu ferð, sem tók hálfan mánuð.
Nærri má geta að það hefur verið erfið ferð fyrir móður og barn að fara þessa löngu leið. Á þessum tíma voru vegir ekki eins góðir og nú gerist. Aðeins hestavegir og óbrúaðar ár. Ekki er heldur víst að hestar hafi verið til fyrir alla fjölskylduna.
BýjaskerÁrið 1870, 4. febrúar, varð afi minn úti á Miðnesheiði. Hafði hann farið til Keflavíkur í kaupstaðarferð. En þangað voru flestar vörur sóttar á þeim tíma. Oft kom það fyrir að menn voru ekki vel búnir þegar farið var að heiman. Þegar svo til Keflavíkur kom þurftu þeir að bíða hálfu og heilu dagana eftir afgreiðslu. Þeir voru orðnir þreyttir og svangir þegar lagt var aftur af stað á heiðina. Þó Miðnesheiði þyki ekki erfið yfirferðar nú voru vegir lélegir á þessum tíma og kennileiti fá. Þá var hún villugjörn í stormum og stórhríð á vetrum.
Þegar afi minn dó var faðir minn 15 ára. Hann varð aðalstoð móður sinnar. Vegna erfiðleika missti amma mín jörðina. Þá eignaðist hana séra Sigurður Sívertsen prestur á Útskálum. Amma og faðir minn fengu þar ábúð áfram.
Og þegar faðir minn giftist fékk hann lífstíðarábúð.
Móðir mín, Þuríður Einarsdóttir, var fædd á Kirkjubóli í Útskálasókn. Í móðurætt var hún ættuð úr Garðinum en faðir hennar Einar Pálssonar var úr Vestur-Skaftafellssýslu.
Foreldrar mínir giftu sig 21. júní 1890 og bjuggu á Bæjarskerjum til æviloka. Eins og víða á Suðurnesjum munu efnin ekki hafa verið mikil. Faðir minn var laginn við tré og járn. Hafði hann smiðju og smíðaði fyrir nágrannana. Ég minnist þess að hann smíðaði nálar og skeifur en þó mest ljábakka. Einnig gerði hann við ýmis amboð. Mun þessi vinna hans hafa drýgt tekjurnar nokkuð. En með sparsemi og mikilli vinnu voru foreldrar mínir alltaf sjálfum sér nógir.

Býjasker
Foreldrar mínir eignuðust fimm börn. Oddur var elstur. Fæddur árið 1884. Kona hans var Helga Bjarnadóttir, ættuð austan úr Árnessýslu. Þau bjuggu í Norður-Miðkoti. Einar var fæddur 1886. Hann var alla ævi til heimilis hér að Bæjarskerjum. Ragnhildur var fædd 1890. Hún var alltaf hér heima. Missti hún unnusta sinn Jónas Bjarna Benónýsson í febrúar 1914. Hún eignaðist einn son Jónas Bjarna Jónasson, fæddan 24. maí 1914. Ragnhildur var með hann hér á Bæjarskerjum. Hún annaðist foreldra okkar þegar aldur færðist yfir þá. Síðan okkur bræðurna og var okkur stoð og stytta meðan henni entist aldur og heilsa til. Bjarni var fæddur 1893. Kona hans var Guðrún Benediktsdóttir. Móðir hennar var ættuð úr Garðinum, en faðir hennar austan af fjörðum. Bjarni og Guðrún byggðu sér hús í Sandgerði er þau nefndu Haga. Börn þeirra eru Sigurður og Jóna. Ég var yngstur. Fæddur laugardag í mið-þorra 1896.

Býjasker
Þ
egar foreldrar okkar systkinanna voru látin keyptum við Einar og Ragnhildur jörðina Bæjarsker aftur. Var hún þá komin í eigu Bjarna Péturssonar blikksmiðs í Reykjavík. Það er árið 1938 sem hún kemur aftur í eigu ættar okkar.
Ekki er hægt að segja að búið hafi verið stórt á nútíma mælikvarða. Þar voru 30-40 fjár og 3-6 kýr. En svo var alltaf töluvert útræði héðan. Faðir minn gerði alltaf út. Það var aðaltekjulind heimilisins. Hann gerði út Heklu sem var 8 – 10 manna far. Við vorum allir feðgarnir á sama báti. Faðir minn hafði meiri áhuga á sjómennsku en landbúnaði. En honum þurfti líka að sinna. Oft þegar komið var að landi mátti maður fara að smala og huga að skepnunum.

Býjasker

Býjasker – sjóbúð.

Þegar ég var að alast upp var fjölmennara hér í hverfinu en nú er. Það var stór hópur ánægðra barna sem lék sér hér á túnunum þegar tími gafst til leikja, en börn þá voru látin vinna strax og kraftar leyfðu.
Hér var saltfiskverkun. Fiskurinn var vaskaður niður við sjó. Sjórinn var borinn í stór kör uppi á kampinum og vaskaður þar. Það voru aðallega konur sem vöskuðu en börn og unglingar breiddu fiskinn til þerris. Seinnipart sumars komu skip hér á víkina og tóku bæði þurrkaðan saltfisk og þurrkaða fiskhausa til útflutnings.

Býjasker

Býjasker – fjárhús.

Heyskapur byrjaði yfirleitt ekki fyrr en í júlí. Hér var allt slegið með orfi og ljá á mínum uppvaxtardögum. Farið var á fætur kl. 3-4 á næturnar til þess að slá. Það var gert til þess að nota rekjuna (náttfallið). Þá beit betur. Var staðið við slátt fram undir hádegi og þá lagði maður sig oft. Ef rekjan var næg var slegið allan daginn. Það var ánægjulegt að koma út um lágnættið í góðu veðri og finna þögnina og kyrrðina. Sjá og heyra fuglana og allt líf vakna þegar kom fram á morgun.

Býjasker

Býjaskersrétt 1983.

Smalamennskan var mér nú hugljúfust. Að ganga um heiðar og líta að fé. Ég tala nú ekki um á vorin þegar ærnar voru að bera. Finna nýborin löb og hlúa að þeim og ánni.
Í Leirunni var mjög góð fjörubeit og okkar fé sótti þangað mikið yfir Miðnesheiðina. Aðallega sótti það í Bergvík og Sjálfkvíar sem eru fyrir utan Litla-Hólmsjörðina. Einnig sótti það í Helguvíkina. Þangað niður var einstigi og því erfitt að fylgja því eftir. Það þurfti að vakta féð því það vildi sækja langt út í fjöru í þarann. Það uggði ekki að sér þegar féll að. Varð því að fara og reka frá fjörunni áður en hálffalið var að.

Býjaskerstétt

Býjarskersrétt-uppdráttur.

Göngur og réttir þóttu mér skemmtilegar. Héðan áttu smalar að fara lengst austur í Selvog. Voru sendir 4- 5 menn og voru 3-4 daga í ferðinni. Farið var austur í Selvog og gist þar. Síðan var réttað í Selvogsrétt fé sem austanmenn höfðu smalað. Okkar fé var svo rekið til Grindavíkur. Þar var gist og réttað daginn eftir. Þaðan var rekið í Vogarétt. Þegar búið var að draga þar var fé Miðnesinga rekið áfram gegnum Njarðvíkurnar og áfram yfir Miðnesheiði og réttað í réttinni fyrir ofan Bæjarsker.
Þórarinn Snorrason
Tvisvar fór ég þessar ferðir og gisti ég þá hjá Þórarni í Vogsósum. Þangað var gott að koma, góður matur og gott rúm fyrir þreytta smala.
Lengst hef ég komist norðan megin á Reykjanesskaganum, inn að Hvassahrauni og réttað í Vogarétt. Ekki voru allir sáttir við það að ég færi ekki nær höfuðstaðnum en þetta. Var mér einu sinni skipað í Gjárétt og þá þurfti ég að fara í Hafnarfjörð. Því hafði ég nú ekki áhuga á svo ég fékk mann fyrir mig. Var það Ólafur Pétursson frá Knarrarnesi. Gerði hann það með glöðu geði. Þurfti ég því ekki að fara lengra en að Hvassahrauni.
Nú er maður orðinn gamall og stirður. Hættur að fara til kinda um Miðnesheiði. Ég læt mér nægja að horfa á kindurnar sem frændur og vinir eiga hér á túnunum í kring.
Mánudaginn 2. ágúst lést Jón Jónsson á Sjúkrahúsi Keflavíkurlæknishéraðs eftir stutta legu. Hann var 87 ára og yngstur fimm Vesturbæjarsystkina, en svo voru börn Jóns Oddssonar og Þuríðar á Bæjarskerjum nefnd í daglegu tali af sveitungum sínum. Þau voru: Oddur, Einar, Ragnhildur, Bjarni og Jón.
Ég sem þetta skrifa átti því láni að fagna að kynnast þessum systkinum er ég kom hingað ung kona með manni mínum, Jónasi syni Ragnhildar. Þau reyndust mér ávallt góðir vinir og leiðbeinendur.
Við Jón vorum búin að vera samtíða hér í rúm 40 ár. Tvö síðustu árin vorum við tvö ein. Vil ég þakka þessu fólki samfylgdina.“ – Halldóra Thorlacius

Heimildir:
-Faxi, 4. tbl. 01.01.1980, Býjasker – Bæjarsker; hvort er réttara?, bls. 109-110.
-Faxi, 6. tbl. 01.06.1983, Jón Jónsson á Bæjarskerjum – Halldóra Thorlacius, bls. 152-153.
-Faxi, 7. tbl. 01.09.1983, Jón Jónsson á Bæjarskerjum – Halldóra Thorlacius, bls. 181.
Býjasker