Tag Archive for: Camp Pershing

Elliðaárdalur

Í Morgunblaðinu 2016 er fjallað um bókina „Elliðaárdalur – Perla Reykjavíkur„:

Elliðaárdalur„Elliðaárdalur er stærsta græna svæðið innan Reykjavíkur, hluti af umhverfi og menningarsögu borgarinnar og eitt vinsælasta útivistarsvæði höfuðborgarinnar. Í nýrri bók um Elliðaárdalinn, Elliðaárdalur – Perla Reykjavíkur, er fjallað um gróðurfar, fuglalíf og fjölbreytilega jarðfræði dalsins og einnig sögustaði og friðlýstar minjar.
Í eftirfarandi kafla úr bókinni er í máli og myndum gerð grein fyrir ýmsum minjum frá stríðsárunum síðari.

Stríðsminjar í Elliðaárdal
Í síðari heimsstyrjöldinni, 1940-1945, var kömpum, þ.e. braggaþyrpingum setuliðsins, komið upp nánast alls staðar í borgarlandinu þar sem því varð við komið. Þar á meðal voru nokkrir í Elliðaárdal.

Kampar og stríðsminjar í landi Ártúns

Camp Ártún

Camp Ártún 1942.

Fimm herkampar voru í landi Ártúns, þar af þrír á því landi sem nú er undir borgarvernd og einn í jaðri þess. Tveir kampar voru sitt hvorum megin við bæjarhólinn.
Camp Alabaster (Camp Pershing) var skammt frá Elliðaárstöð. Þar voru aðalstöðvar breska setuliðsins eftir að þær voru fluttar úr Menntaskólanum í Reykjavík við Lækjargötu. Alabaster var nafn á hernaðaráætlun Breta við töku Íslands. Þann 13. maí 1942 flutti bandaríska setuliðið hluta af aðalstöðvum sínum eða „Iceland Base Command HQ“ í þennan kamp. Breyttu þeir nafni hans í Camp Pershing.
Camp Battle var norðan við Camp Alabaster/Pershing, hinum megin við bæjarhól Ártúns.

Camp ÁrtúnCamp Hickham var í Ártúnsbrekku, þar sem jarðhýsin eru nú, reistur af bandaríska setuliðinu. Camp Fenton Street var á þeim slóðum sem bílaumboðið BL er nú.
Þann 22. apríl 1942 tóku Bandaríkjamenn við yfirstjórn hers bandamanna á Íslandi úr höndum Breta. Af því tilefni fór herforingi Breta af landi brott en við yfirstjórn breska hersins hér tók fylkisforingi og voru aðalstöðvar hans í Camp Fenton Street.

Camp Pershing

Camp Pershing 1942.

Auk þessa var einn kampur á Ártúnshöfða (Camp Ártún) og tveir kampar voru vestan við Elliðaár, á móts við Ártún (Camp Pony og Camp New Mercur).
Eins og nærri má geta höfðu kamparnir mikil áhrif á líf fólksins á svæðinu. Til að mynda var öryggisgæsla svo ströng að jafnvel börnin þurftu vegabréf til að komast heim til sín. Eftirminnilegt þótti að Elliðaárstöðin var máluð í felulitunum á stríðsárunum, ekki hvít eins og alltaf. En svo var raunar um ýmis önnur mannvirki einnig.
Þegar setuliðið hvarf af landi brott í stríðslok fluttust íslenskar fjölskyldur inn í Camp Fenton Street og fékk hann þá nafnið Elliðaárhverfi. En nú hafa nær öll hernaðarmannvirki verið fjarlægð úr landi Ártúns. Einu ummerkin eru í Ártúnsbrekkunni. Annars vegar er það dæld eftir sandpokavígi sem nú er að mestu fallið saman. Hin ummerkin eru undir yfirborði jarðar, neðanjarðarbyrgi, sem búið er að hylja munnann á með jarðvegi.

Camp Baldurshagi

Camp Baldurshagi

Camp Baldurshagi – þar sem Fákssvæðið varð síðar. Horft í átt að Breiðholti.

Hann var þar sem nú er skeiðvöllur hestamannafélagsins Fáks á Víðivöllum. Þetta var stór kampur með um 100 bröggum sem breska setuliðið reisti.
Fyrst voru þarna breskir hermenn úr Duke of Wellington hersveitinni. Síðar, þegar landgönguliðar bandaríska sjóhersins komu til landsins, 7. júlí 1941, fengu þeir þar inni. Bretarnir fluttust þá að Geithálsi þar sem þeir reistu nýjan kamp. Ummerkin sem nú sjást eftir Camp Baldurshaga eru leifar af braggagólfum og sökklum. Ennfremur var eitt húsið úr kampinum flutt í Seláshverfi og gert að íbúðarhúsi. Nafnið á kampinum er raunar villandi því að hinn upphaflegi Baldurshagi er við Suðurlandsveg.
Meðal íbúa í Camp Baldurshaga árið 1941 var Ralph Hannam, sem eftir stríðið settist að í Elliðaárdal.

Skotbyrgi
BreiðholtshvarfÍ Breiðholtshvarfi, ofan við Árbæjarlón, er steypt skotbyrgi af þeirri gerð sem algeng var á stríðsárunum og finnast enn m.a. í Öskjuhlíð. Þetta er steinkassi, um 3 m á hvern veg, og hefur verið skotrauf framan á honum. Þakplata byrgisins er steypt og hefur lítið látið á sjá. Veggir eru hins vegar hlaðnir úr holsteini og eru þeir farnir að molna nokkuð.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 294. tbl. 15.01.2016, Elliðaárdalur – Perla Reykjavíkur, bls. 62.

Eliðaárdalur

Elliðaárdalur.