Tag Archive for: Dauðsmannsbrekka

Kjós

Í Degi, Íslendingaþáttum, árið 1998, er fjallað um „Morðóðan og ófróman bónda á Frossá í Kjós“.

Morðóður og ófrómur bóndi á Frossá

Reynivallaháls

Kjós.

Axlar-Björn er einn frægasti morðingi Íslandssögunnar. Öxl í Breiðuvík á Snæfellsnesi var í alfaraleið og urðu ferðamenn fegnir að fá gistingu í bænum. Björn réði þeim þá bana og rændi þeim verðmætum sem þeir höfðu meðferðis.

Fossá

Fossárrétt hin nýrri við Fossá.

Sagt er að 19 manns hafi verið vegnir í rúmum Axlarbónda, sem tekinn var, dæmdur og höggvinn fyrir ódæði sín. En Axlar-Björn var ekki sá eini sem lagðist á ferðamenn með þessum hætti. Magnús Sighvatsson, sem bjó á Fossá í Kjós á árabilinu 1729-1770, var sterklega grunaður um að myrða og ræna ferðamenn sem leið áttu um hlöð hans.
Örnefnið Dauðsmannsbrekka á Reynivallahálsi í Kjós dregur nafn sitt af þeim atburði að þar hafi maður verið myrtur og sögn er til um að þar hafi Magnús á Fossá átt hlut að máli. Magnús var ættaður af þessum slóðum. Faðir hans Sighvatur Halldórsson var frá Meðalfelli, en móðir hans Kristín Erlingsdóttir frá Esjubergi á Kjalarnesi. Var Magnús fæddur á Hurðarbaki í Kjós árið 1704.

Morð í Dauðsmannsbrekku

Kjós

Kjós – Dauðsmannsbrekka of Fossá.

Magnús Sighvatsson var forn í skapi og talinn fjölkunnugur. Hann var illa þokkaður meðal nábúa sinna og þorðu fáir á hann að leita. Honum er svo lýst, að hann hafi verið mikill og sterkur og illur viðureignar ef því var að skipta. Þessa lýsingu á Magnúsi skráði Jósafat ættfræðingur Jónasson, en hann ritaði eftir sögnum á Hvalfjarðarströnd. Hann var vel efnum búinn og héldu sumir að auður hans væri miður vel fenginn.

Gíslagata

Gíslagata upp frá Fossá.

Sagt er að maður nokkur norðlenskur hafi verið sendur suður í Reykjavík, sumir segja suður að Bessastöðum á Álftanesi, og hafði hann allmikla peninga meðferðis. Maður þessi gisti á Fossá hjá Magnúsi á suðurleið og er ekki annars getið en að allvel hafi farið á með þeim meðan heimafólk vissi til. Snemma morguns lagði ferðamaður af stað eins og leið lá yfir hálsinn suður af Fossá, en er hann var skammt kominn verður hann þess var, að tveir menn veita honum eftirför. Þekkir hann þar Magnús bónda á Fossá og Eyjólf son hans. Man hann þá eftir að hafa heyrt ýmsar misjafnar sögur af Magnúsi og kemur í hug að hér muni ekki allt með felldu.

Kjós

Kjós – Reynivallaháls.

Leitar hann nú undan suður á hálsinn, en þeir á eftir og létta eigi fyrr en þeir ná honum í brekku einni þar í hálsinum, skammt frá veginum er liggur niður frá Fossá suður að Reynivöllum. Taka þeir feðgar þegar til hans og biðja hann að afhanda sér peninga þá er hann hafði meðferðis. Norðlendingurinn tekur því fjarri og réðust þeir feðgar þá þegar á hann, og var viðureigna þeirra bæði hörð og löng, því Norðlendingurinn hafði krafta í kögglum.

Reynivallasel

Reynivallasel ofan Fossár.

Er svo skýrt frá að Magnús hafi látið Eyjólf son sinn ganga aftan að manninum og hafi Eyjólfur lagt hnífi milli herða honum, meðan Magnús glímdi við hann að framan.
Er það haft eftir manni er Guðmundur hét og bjó á Hálsi í Kjós, og reið þar skammt frá þeim suður yfir hálsinn þennan sama dag, og að hann hafi séð viðureign þeirra, en treystist ekki til að hjálpa þeim ókunna manni, þótt hann sæi dauða hans þegar vísan. Er jafnvel sagt að Norðlendingurinn hafi kallað til Guðmundar og beðið hann hjálpar, en Guðmundur sá það síðast til, að þeir feðgar höfðu kominn manninum á hné og mæddi hann þá mjög blóðrás, svo að vörn hans var á þrotum. Þeir feðgar veittu honum þá þegar tilræði með hnífnum.

Sönnunargögn skorti

Kjós
En það er af Guðmundi að segja að hann tók svo nærri sér að geta ekki bjargað manninum, að hann lagðist þegar í rúmið þegar hann kom heim og varð hann aldrei síðan samur og áður á meðan hann lifði. Einkum sótti á hann sinnisveiki og ætluðu menn að orsökin var að hann skyldi hlaupast frá þegar voðaverkið var framið.

Gíslagata

Dys við Gíslagötu.

Þegar sama dag og morðið var framið var mannsins leitað og fannst hann eftir tilvísun Guðmundar í brekku þeirri, er síðan er kölluð Dauðsmannsbrekka.
Aldrei sannaðist þetta verk til fulls upp á Magnús, enda er sagt að ekki hafi verið gerður að því neinn reki. Guðmundur vildi og mjög lítið um þetta tala og aldrei gat hann þess í votta viðurvist, og er sagt að bæði hann og aðrir nábúar hans, er líka höfðu grun um hver valdið hafi, hafi dulið það mest fyrir ótta sakir, því þeir vissu að Magnús var bæði fjölkunnugur og í öllu hinn versti viðureignar.
Guðmundur sá er hér er fjallað um var Þórðarson. Hann var fæddur 1725 og dó 1798. Hann bjó á Neðra-Hálsi og þótti merkisbóndi. Hann var faðir Lofts hreppstjóra á Hálsi og Þorsteins stúdents í Laxnesi í Mosfellssveit. Fjölmenn ætt er komin frá Guðmundi.

Prestur marinn til dauða

Kjós

Kjós – Svínaskarð.

Margar eru fleiri sagnirnar um Magnús á Fossá og þótti hann jafnan hinn mesti misindismaður og menn þóttust vissir um að hann hefði oftar orðið ferðamönnum að fjörtjóni.
Einar Torfason var prestur á Reynivöllum 1747 -1758. Hann dó snögglega í Svínaskarði er hann reið á eftir lest sinni og sonur hans fór með yfir skarðið nokkru fyrr. Fannst Einar þar fallinn af hestinum og marinn til dauða, með annan fótinn fastan í ístaðinum. Hugðu flestir að dauða hans hafi borið að af manna völdum og var Magnús á Fossá grunaður um verknaðinn, því menn þóttust áður vita að óvild var á milli þeirra, en hvað þeim hafi orðið að sundurþykkju er ekki frá greint.

Féll á eigin bragði

Kjós

Á Reynivallahálsi.

Þess er getið að maður nokkur var sendur úr Borgarfirði suður til Reykjavíkur og var erindi hans að sækja peninga til einhvers í Reykjavík. Það var um vetur og var hjarn yfir allt. Maður þessi gisti á Fossá hjá Magnúsi bónda og var honum vel tekið, svo að hann þóttist hvergi á leið sinni hafa fengið jafngóðar viðtektir og var Magnús honum þó ókunnur með öllu.

Kirkjustígur

Á Kirkjustíg milli Reynivalla og Fossár.

Að morgni er Borgfirðingurinn fer af stað fylgir Magnús honum á veg og verður þeim allhjaldrjúgt, og kemur þar niður tal þeirra, að Magnús spyr ferðamann um erindi hans til Reykjavíkur. Borgfirðingurinn grunaði ekki að brögð væru í tafli og segir honum allt hið ljósasta um erindi sín. Áður en þeir kveðjast býður Magnús honum að koma við hjá sér á bakaleið og segir sér forvitni á fréttum að sunnan. Heitir hinn þessu og heldur síðan sína leið.
Ekki er sagt af ferðum hans fyrr en hann hefur lokið erindum sínum og fer hann þá sömu leið til baka og gistir á bæ einum í Mosfellssveit. Bóndi spyr hann hvort hann hafi komið að Fossá til Magnúsar og segir Borgfirðingurinn honum allt um samtal þeirra, því að hann var kunnugur bónda. Bóndi varð hljóður við og ráðleggur sendimanni að fara aðra leið, þar sem Magnús verði hans ekki var og segir honum að ef Magnús nái fundi hans, muni tvísýnt um hvort hann komist heill á leiðarenda.

Kjós

Kjós – Fossá og Reynivallaháls.

Borgfirðingurinn féllst á ráð hans og fer þó yfir Reynivallaháls, en nokkuð frá almannavegi, eða að minnssta kosti annan veg en hann hafði áður farið og ætlar ekki að koma við á Fossá. Magnús fær grun af þessari ætlun hans og hefur spurn af för hans og situr fyrir honum, þar sem honum þótti líklegast að leið hans mundi liggja og þar hittast þeir á Reynivallahálsi.

Kirkjustígur

Varða við Kirkjustíg.

Magnús spyr sendimann þegar, hvers vegna hann hafi ætlað að forðast bæ sinn. En hinn segist hafa álitið þessa leið beinni, enda hafi hann verið búinn að vera lengur á ferðinni en hann hafi búist við. Hafi hann og frétt að Magnús væri ekki heima. Magnús gefur þessu engan gaum og ræðst þegar á manninn og segist ekki munu láta hann fara án þess að hafa gefið honum ráðningu fyrir að hafa brugðið loforði sínu og skuli hann ekki gera það fleirum. Hinn tekur sterklega á móti og kveðst vilja fara ferða sinna óhindraður af Magnúsi, þar sem hann hafi ekkert til saka unnið. Glíma þeir ekki lengi áður en þar kennir aflsmunar, svo að Magnús varð að bíða lægri hlut í viðskiptum þeirra, og gekk hinn svo frá Magnúsi, að hann komst nauðulega heim til sín, lagðist og dó skömmu síðar. Hörmuðu hann fár er hann þekktu.
Ýmsar sögur eru um að Magnús hafi gengið aftur og gert skráveifur og að illa hafi hann legið kyrr í kirkjugarðinum á Reynivöllum. En [þær] draugasögur verða ekki tíundaðar hér.

Illmennska í arf

Kjós

Kjós.

Magnús á Fossá var enn á lífi 1772 en dáinn er hann fyrir 1780. Kona hans hét Þuríður Magnúsdóttir og var hún enn á lífi 1780. Þau áttu mörg börn en mestar sögur fara af Eyjólfi syni þeirra, sem var líkur föður sínum í flestu, gáfaður og vel að sér sem hann, en hið mesta illmenni og ekki frómur.

Kirkjustígur

Kirkjustígur ofan Fossár.

Eyjólfur bjó á Fossá fyrstu búskaparár sín eftir lát föður síns. Þá grunaði menn að hann væri valdur að hvarfi nokkurra kinda sem hurfu frá einum eða fleiri nágrönnum hans. Hann frétti að gera ætti þjófaleit á bænum. Lét hann hið stolna fé þá í gryfju eina dimma er var undir baðstofugólfi á Fossá, og var ekki hægt að sjá það nema taka upp gólffjalirnar. Til þess að ekki heyrðist jarmur kindanna, tók hann það ráð að skera úr þeim tungurnar. Má af því marka innræti hans og hefur honum þar svipað til föður síns. Þó að hið stolna fé fyndist ekki að þessu sinni hjá Eyjólfi, höfðu menn þó stöðugt grun á honum, enda komst síðar upp, að grunurinn var ekki ástæðulaus og er sagt að Eyjólfur hafi verið dæmdur fyrir sauðaþjófnað.

Heimild:
-Dagur – Íslendingaþættir; Morðóður og ófrómur bóndi á Frossá, 29.08.1998, bls. 1-2.

Gíslagata

Dys í Dauðsmannsbrekku á Reynivallahálsi.