Við leifar gamla Digranesbæjarins í Kópavogi má lesa eftirfarandi á upplýsingaskilti, sem þar er:
„Hafinn var búskapur á jörðini Digranesi sennilega á árunum milli 1300 og 1313, en þá er jarðarinnar fyrst getið í máldagaskrá Viðeyjarklausturs. Er hún sennilega elsta jörðin í Kópavogi.
Síðasti bóndinn í Digranesi, Jón Guðmundsson, hóf þar búskap árið 1896 og bjó þar til hún var aflögð sem bújörð árið 1936. Digranes var þá þjóðjörð og sá Búnaðarfélag Íslands þá um að útmæla jörðina í smábýli og nýbýli samkvæmt nýjum lögum þar um. Árið 1950 var búið að úthluta úr landi Digraness um 10 löndum undir nýbýli og 146 smábýlalöndum. Smábýlalöndin voru fyrst og fremst ætluð sem ræktunarlönd en ekki til að setjast þar að með fasta búsetu, þó svo að mjög fljótlega hafi orðið þar breyting á og lönd þjóðjarðanna í Kópavogi orðið fyrsti vísirinn að þéttbýlismyndun.
Digranes var stór jörð, þótt hún hafi kannski ekki þótt eftirsóknarverð eins og gæðum hennar er lýst í úttektarbók Jarðabókarnefndar frá október 1703. Ekki er skráður jarðdýrleiki, eigandinn kóngur eða kóngsgarðurinn í Viðey og bjó ábúandi Sveinn Eiríksson þar einn með sínu fólki. Landsskuld var 90 álnir, greidd með fiski í kaupstað og leigukúgildi í smjöri eða fiski til Bessastaða. Við til húsagerðar leggur ábúandi til sjálfur og þær kvaðir fylgja að hann láni mann á vertíð eða gegni formennsku. Hann láni hest til Alþingis, vinni við tvær dagsláttur í Viðey og útvegi tvo hríshesta er gjaldist í fríðu. hann leggi til mann í Elliðaár einn dag um sumar, heyhesta til fálkafjár í Hólm eða Reykjavíkurkaupstað, og skal bóndi fæða sig sjálfur við allar þessar kvaðir. Hann hafði 3 kýr, kálf og hross en að auki lamb, ein kýr og tvo kálfa til fóðurs frá öðrum. Hrís tók hann í almenningi, hafði nóg torf, stungu og mó í eigin landi enda taldi úthaga þrönga.
Í jarðabókunum 1686 og 1695 svo og jarðabók Johnsens frá 1847 var jörðin metin á um hundruð en í nýju jarðabókinni frá 1848 hefur jörðin rýrnað frá fyrri mötum.
Á seinni hluta 19. aldar voru margar jarðir seldar úr konungseign, en Digranes var áfram í opinberri eigu og varð því þjóðjörð.
Var hún síðan alla tíð í ríkiseign þar til kaupavogskaupstaður keyti hana formlega árið 1957, en þá hafði henni verið skipt upp í lóðir og lendur fyrir íbúa hins unga kaupstaðar.“
Ef vel er að gáð má enn sjá gamla bæjarstæðið.