Tag Archive for: Digranesblettur 73

Hólahjalli

Eftirfarandi spurning var send til FERLIRs þann 1. ágúst 2021. Sendandinn nefndi sig Björgvin.

„Góðan daginn.

Hólahjalli

Hólahjalli – göngustígur og skúr framundan.

Vitið þið söguna á geymslunni hjá rólóvellinum fyrir neðan Hólahjalla? – hnit: 64°06’31.3″N – 21°52’57.4″W.
Bestu kveðjur og takk fyrir fróðleikinn hérna inn á.“

FERLIRsfélagar fóru á vettvang og skoðuðu aðstæður. Þarna, neðan Hólahjalla og ofan Heiðarhjalla í Digraneshæð (-hlíð) í Kópavogi, er trjágróið svæði á milli. Lítill róluvöllur er á því vestanverðu. Göngustígur gengur langsum eftir því neðan og ofan húsaraðanna. Skammt austan og ofan við róluvöllinn eru læsta dyr á steyptum skúr þöktum torfi. Svo virtist sem skúrinn væru leifar af eldri byggð í hæðinni, en þarna voru á frumbýlisárum Kópavogs u.þ.b. 15 smábýli eða „blettir“.

Send var fyrirspurn til skipulags Kópavogsbæjar.
„Sæl, getið þið upplýst hvað mannvirki er hérna um að ræða – á grónu svæði neðan Hólahjalla (gulur hringur) – sjá meðfylgjandi mynd. Á það sér einhverja sögu?“
Ólíkt öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, þegar sambærilegar fyrirspurnir eru sendar á vefföng þeirra, barst fljótlega svar frá Karlottu.

„Sæll FERLIR.
Skúrinn er á bæjarlandi og er læstur, það eru í raun einu upplýsingarnar sem ég hef fyrir þig núna en ég ætla að áframsenda fyrirspurn þína til garðyrkjustjóra Kópavogsbæjar sem kemur úr sumarfríi eftir helgi. Mér þykir líklegast að hann hafi upplýsingar um mannvirkið.“

„Sæl Karlotta,
og þakka viðbrögðin. Líklega er þarna um að ræða hluta af einu smáhýsanna 15 sem voru þarna í hlíðinni fyrrum, en voru látin víkja fyrir nýrri byggð. Spurningin er um hvort vitað sé hvaða smábýli það tilheyrði og á það sér einhverja skráða sögu fyrst þessi hluti fékk að standa óhreyfður?“

Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri, brást vel við:

Hólahjalli

Hólahjalli – skúrinn.

„Sæl verið þið.
Skemmtilega útgáfan er að þetta sé inngangur í neðanjarðabyrgi frá kaldastríðsárunum en raunveruleikinn er sá að þetta var víst byggt sem kartöflugeymsla af þeim sem þarna fengu úthlutað sk. ræktunarreit á fimmta áratug síðustu aldar, þar sem nú er Hólahjalli og Heiðarhjalli.“

„Sæll,
þakka kærlega fyrir upplýsingarnar. Getur þú nokkuð frætt okkur hverjum ræktunarbletturinn tilheyrði á meðan var?“

„Sæl aftur.

Hólahjalli

Uppdráttur frá 1990. Hús nr. 2 er Digranesblettur 73.

Sjá meðfylgjandi uppdrátt frá 1988 sem ég skannaði. Grunnurinn gæti samt verið eitthvað eldri því sum þessara húsa voru horfin 1988.
Þarna var Digranesblettur 73, kallaður Hraun, sem var 0,71 ha að stærð. Erfðafestusamningur var gerður um landið við Axel H. Sölvason 9. ágúst 1938.
Skv. grófmælingu stóð húsið þar sem rólan er núna og kartöflugeymslan hefur þá verið aftan við húsið.
Hér að neðan er svo annar uppdráttur gerður 1990, áður en gatnagerð hófst á svæðinu, þar sem gróður er innmældur. Hús merkt nr. 2 er Digranesblettur 73 og nr. 1 er Digranesblettur 61A.“

Kveðja,
Friðrik Baldursson.

FERLIR þakkar framangreindu fólki sérstaklega góð viðbrögð og fróðleikinn.
Skúrinn, sem spurt var um, er sem sagt hluti leifa af Digranesbletti 73, nefndur Hraun. Ef einhver lesandinn kann nánari skil á smábýlinu og því fólki, sem þar bjó, væri gaman að geta þess í framhaldinu. Veffangið er ferlir@ferlir.is.

Hólahjalli

Digranesblettir 73 – uppdráttur frá 1988.