„Einbúi er hóll austan í Digraneshálsi. Um hólinn lágu landamerki jarðanna Breiðholts, Bústaða, Digraness og Fífuhvamms. Í hólnum sjást leifar tilhöggvinna grágrýtissteina sem ætlaðir voru í undirstöður undir járnbraut sem fyrirhugað var að leggja þar sem Reykjanesbrautin liggur nú. Um var að ræða atvinnubótavinnu á kreppuárunum.
Talið er að í hólnum hafi búið álfur eða huldumaður. Því til stuðnings er eftirfarandi frásögn frá því þegar verið var að grafa fyrir grunni á aðliggjandi lóð.
Þegar verið var að grafa fyrir húsgrunni á lóð við hólinn Einbúa var húsbyggjandinn beðinn að fara ekki nálægt hólnum. Það vildi samt svo óheppilega til að jarðýtustjórinn bakkaði að hólnum en í því draps á vélinni. Það var sama hvað hann reyndi, ýtan vildi ekki í gang aftur og var flutt á verkstæði. Þar varð þó ekkert um viðgerðir því ýtan rauk í gang í fyrstu tilraun.“