Gengið var um Junkaragerði í Höfnum sunnan Skiptivíkur, skoðaðar tóftir Sólheima og Traðarhúss, auk Kalmanstjarnar, sem brann ekki alls fyrir löngu. Annars eru Junkaragerðin tvö á Suðurnesjum; annars vegar þessi í Höfnum og hins vegar ofan og vestan við Stórubót í Grindavík. Hér verður á göngunnu m.a. rifjaðar upp sagnir og þjóðsögur úr Junkaragerðinu í Höfnum.
Sagt er að bærinn heiti eftir 12-18 erlendum mönnum sem þar áttu að hafa búið og kallaðir voru junkarar. Voru þeir taldir ölkærir, karlmenni mikil en óeirðarmenn um kvennafar. Vildu landsmenn koma þeim af höndum sér og nótt eina söguðu þeir næstur sundur nefjur (ræðin) á hástokkum báts þeirra. Reru junkarar svo fyrir dag en er líða tók á morgun gerði hvassan vind og hrukku nefjurnar í sundur. En ekki náðist tilætlaður árangur því að junkarar reru við hné sér og björguðu sér þannig í land. Næst leystu menn skautana af árunum, söguðu þeir meir en til miðs og negldu skautana aftur svo að ekki sáust verksummerki. Nokkru síðar reru junkarar, gerði þá andvirði mikið og brotnuðu árarnar hver af annari. Spurðist ekki til þeirra síðan.
Sagnir af Galdra-Jóni eru tengdar Junkaragerði í Höfnum. Bærinn var var fyrrum hjáleiga frá Kalmanstjörn og hefur verið búið þar samfleytt í margar aldir. Var það eitt með elstu býlum í Höfnum. Jón Þórðarson í Junkaragerði varð fullra 70 ára, dó líklega 1819. Hann var gáfaður en dulur og harður í horn að taka. Sem unglingur flæktist hann með kaupfari til Noregs og komst alla leið norður til Finnmerkur og dvaldist þar eitt eða tvö ár og var það mál gamalla manna að Jón hefði numið fræði sín hjá Finnum.
Sögurnar af Jóni voru á hvers manns vörum í gamla daga. Með afbrigðum var Jón sagður mikill aflamaður til sjávarins og þótti það ekki einleikið hve drjúg var stundum kösin á skiptivellinum. Þá er hásetar Jóns fóru að gera að afla sínum, var það álit þeirra allra að fiskurinn væri stundum miklu meiri en þeim hafði virst hann vera í skipinu.
Jón var hinn mesti hófsemdarmaður í hvívetna. Neytti hann aldrei víns nema á hátíðum, og aldrei gaf hann hásetum sínum í staupinu eða út í kaffið, sem kallað var; en það var þó algengur siður í Höfnum, að húsbændur gáfu hjúum og hásetum vel í kaffið, er vel fiskaðist eða mikið var að gera í landi, og var þá unnið með brennivínskrafti, sem kallað var.
Eitt sinn svaraði Jón gamli því til er hann var spurður hvaðan hann hafi fengið brennivín það er ölvaði hann. Jón gamli hló við og sagði:
„Keflavíkurkaupmennirnir sjúga blóðið úr Suðurnesjabændunum, en ég sýg brennivínið úr beykikoppum þeirra í staðinn.“
Jón Þórðarson var smiður góður, en mest fékkst hann þó við járnsmíðar. En þó að hann væri alla daga í smiðjunni, þá þurfti hann aldrei að kaupa kol. Sótti hann þau árlega á hestum suður á Reykjanes, en hvernig sem reynt var að njósna um ferðir Jóns, er hann fór í þessar kolaferðir, þá tókst mönnum aldrei að rekja slóð hans þrátt fyrir það, þótt öll leiðin sé ægisandur einn.
Vissu menn aldrei um þessar ferðir Jóns, fyrr en hann var kominn aftur með kolin. Er það óyggjandi sannleikur, að karlinn sótti kolin á Reykjanes, og voru margir menn í Höfnum, er sáu kolin hjá Jóni.
Meðal þeirra var Brandur Guðmundsson í Kirkjuvogi, sem sagði að hann hefði oftar en einu sinni séð kolin hjá Jóni. Sagði Brandur, að þetta hefðu verið falleg steinkol, en aldrei gat hann fremur en aðrir fengið það upp úr Jóni, hvar á Reykjanesi kolin væru að finna. Þó var það eitt sinn, að bóndanum á Kalmanstjörn tóks að gjöra Jón gamla vínhreifan um jólin, og var þá ekki dregið úr hömlu að reyna að veiða karlinn, en þó að karl væri kenndur, varðist hann allra frétta, en sagði þó svo að lokum, að ekki þyrfti að leita langt frá Sýrfelli. Annað hafðist aldrei upp úr Jóni gamla um kolin á Reykjanesi.
Fyrir austan bæinn Junkaragerði er hæð sú, er nefnist Stóri-Dilkur. Hæð þessi er gróðurlaus á alla vegu, há og glögg frá umhverfinu af sjó að sjá.
Í gamla daga bjó einhverju sinni í Junkaragerði bóndi sá er Eyvindur hét. Hann var vænn yfirlitum, mikill að vexti og burðum og fáskiptinn um hag annarra. Hann var ókvæntur er saga þessi gerðist og stundaði sjó sumar og vetur og græddist fé. Hann var talinn hafa draumkonu, er varaði hann við veðrum og þóttust hjú hans hafa séð hana hverfa stundum frá svefnstofu hans á nóttum. Fór það þá stundum þannig að búsýsla hans og sjósókn varð mjög næturblendin.
Eitt sinn er Eyvindur leitaði til Dilksins. Sá hann þá bygging er hann gat eigi lýst. Var það líkast mörgum húsum er stóðu í röðum hvert aftur af öðru, og æ hærra, er aftar dró. Það næsta og mesta var opið og bjart þar inni. Þar stóð bláklædd og fögur kona. Var hálsmál hennar, ermar og faldur bryddað rauðum borðum. Hún bauð Eyvind velkominn og leiddi hann inn í stóran sal. Þar voru rósofnir stólar með háum bökum og drekahöfðum til hliða en úr loftinu héngu skálar í löngum festum og loguðu ljós í hring á börmunum. Alls staðar bar skraut fyrir augað en umhverfis ríkti annarlegur blær sem eins og eyddi öllum hávaða.
Álfkona reyndi að freysta hans, en allt kom fyrir ekki. Eyvindur þóttist þá ætla að grípa til hennar, en við það sortnaði honum fyrir augum og áköf suða greip eyru hans en þegar það hvarf, stóð hann utan í Dilkinum og við það hraðaði hann sér sem mest hann mátti heim til bæjar.
Eftir þessa nótt var Eyvindi brugðið. Hann festi eigi hugann við neitt og allt fór úrhendis í búskap hans. Oft lagði hann leiðir sínar til Dilksins, en allt kom það fyrir ekki. Þá var það vetrarkvöld eitt árið eftir að Eyvindur kom heim neðan frá naustum og lagði sig. Jafnskjótt og hann gleymdi sér, dreymdi hann að aldraður maður kæmi að rúmi hans og mælti:
„Illa ferst dóttur minni við þig er hún hefir gert þig afhuga öllu öðru en sér en læsir þó jafnframt fyrir þér bústað sínum. Skaltu nú minnast þess að sjáir þú eitthvað óvenjulegt á himninum í vetur, skalt þú þann sama dag, seint að kvöldi, ganga til Dilksins og mun ég þá greiða þar fyrir þér.“
Leið svo tíminn fram yfir Kyndilmessu. Þetta kvöld á vökunni brá Eyvindur sér út en kom ekki aftur. Var hans leitað oft og lengi en aldrei fannst hann né kom fram eftir þetta og var það hald manna að hann hefði náð til álfkonunnar í Dilkinum og hún tekið hann í fulla sátt. Nokkrum vikum seinna bar svo við, er komið var út í skemmu Eyvindar að þar var veizlumatur mikill er enginn kannaðist við og var það álitin sending úr brúðkaupi hans til hjúa sinna. En lengi var það svo í Junkaragerði að rifjuð var upp sagan um Eyvind og hvarf hans í bústaði álfanna í Stóra-Dilkinum.
Frábært veður.
Heimildir m.a.:
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Ahugaverdir_stadir/Junkaragerdi/
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=231
-http://www.leoemm.com/hafnahreppur.htm