Tag Archive for: Djúpudalaborg

Hnúkar

Gengið var frá þjóðveginum um Selvog, gegnt Hnúkunum, áleiðis niður á Kvennagönguhól, eða-hóla. Á leiðinni var rifjuð upp þjóðsagan um hólinn sem og notkunargildi hans fyrrum.

Kvannagönguhóll

Kvennagönguhóll.

Kvennagönguhóll og Orustuhóll eru á miðri Selvogsheiði í Árnessýslu. Saman eru þeir nefndir Kvennagönguhólar. Þá eru til Kvennagönguhóll í Viðey við Reykjavík og Kvennagönguhólar í landi Minna-Mosfells í Grímsnesi í Árnessýslu. Auk þess er Kvennagönguskarð á Vogastapa en það er skarð fast vestan við Reiðskarð. Loks var haldið í Djúpudalahraun, gengið um Djúpudali og Djúpudalaborgin barin augum.Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir að hólarnir á Selvogsheiði hafi verið tengdir sögum um konur sem þangað fóru og „ekki treystust að fara krossför alla leið til Kaldaðarness“. Seinni tíma þjóðsögur telja að konurnar hafi verið að huga að mönnum sínum sem voru á sjó.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Í heimild frá 1821 segir að “Kvenna-Gaungu-Hólar á Selvogs-Heidi í Árness Sýsslu þángad géngu í Papiskri Óld, aldradar og veikar Kvennpersónur úr Selvogi, til ad festa sión á Krossmarki þvi, sem upp var Fest á Kaldadar-Ness-Kyrkiu, og þókti sér batna ef séd féngu; Hólarner eru 2, skaparans, enn ei Manna verk.”

Um nafnið Kvennagönguhóll er ýmsar sagnir, sem Gísli Sigurðsson tilfærir í sinni skrá: 1. Í kaþólskri trú var kross einn mikill í landi Kaldaðarness. Konur í Selvogi gengu þá oft á hól þennan, horfðu til krossins og gerðu bænir sína. 2. Mikið útræði var í Selvogi. Þar gerði oft þau veður, að ekki var lendandi. Var þá hleypt austur í Þorlákshöfn. Tækist lendingin vel, var veifa dregin á stöng.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Fóru konur úr Selvognum á Kvennagönguhól að sjá, hvort veifa væri á lofti og menn þeirra lentir heilu og höldnu. 3. Í fyrndinni bjó tröllkona í hólnum. Hún reri nökkva sínum úr Keflavík undir bjargi. Aflann bar hún heim og gerði að honum á Kvennagönguhólaflöt. Ekki hefur annað heyrzt, en hún hafi verið Selvogsingum góður nágranni.“
Hvað sem sögum og sögnum líður er hið ágætasta útsýni af hólnum yfir Selvoginn og austur með ströndinni.
Haldið var niður í Djúpudalahraun. Í örnefnaslýsingu fyrir Þorkelsgerði er tiltekið að “austan við Strandhæð eru mikla lægðir, kallaðar Djúpudalir, og tilheyra Útvogi. norðaustur af þeim er Þorkelsgerðisból eða -sel.“ Ofan við Djúpudali er myndarleg og nokkuð heilleg fjárborg, Djúpudalaborgin. Hún var skoðuð í þessari ferð og ástand hennar metið.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra/fornleifaskra_nes.htm

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Þorbjarnastaðaborg

 Tilkomumikil heilleg hringlaga fjárborg stendur á hrauntungu sunnan til í vesturjarðri Brunans (Nýjahrauns/Kapelluhrauns), fast neðan við svonefndar Brundtorfur. Borgin er orðin mosavaxin og fellur því nokkuð vel inn í landslagið umhverfis. Kunnugt minjaleitarfólk á þó auðvelt með að koma auga á leifarnar. Ekki eru allmörg ár síðan hleðslurnar voru alveg heilar, en vegna seinni tíðar ágangs hefur norðvesturhluti veggjarins hrunið inn að hluta. Hraukar nálægt FjárborginniEinhverjum hefur þótt við hæfi að ganga á veggnum með fyrrgreindum afleiðingum – og er það miður því þarna er bæði um einstaklega fallegt mannvirki að ræða frá fyrri tíð og auk þess heillegt og áþreifanlegt minnismerki um fyrri tíma búskaparhætti.
Undirlag Fjárborgarinnar er blandhraun, sem rann úr alllangri gígaröð árið 1151, þeirri sömu og gaf af sér Ögmundarhraun og hluta Afstapahrauns. Uppruni þessa hluta hraunsins er úr Rauðhól undir Vatnsskarði (sjá meira undir.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Fjárborgin mun vera hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjónanna, þeirrar Ingveldar Jónsdóttur (dóttur Jóns Guðmundssonar á Setbergi (Jónssonar frá Haukadal í Biskupstungum (ættaður frá Álfsstöðum á Skeiðum)), og Þorkels Árnasonar frá Guðnabæ í Selvogi, skömmu eftir aldarmótin 1900. Augljóst má telja að til hafi staðið að topphlaða borgina, ef marka má voldugan miðjugarðinn, lögun vegghleðslunnar og hellurnar, sem enn bíða upphleðslu utan við hana sem og umhverfis.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg í Selvogi.

Þorbjarnarstaðafjárborgin er svipuð að byggingarlagi og önnur fjárborg á Reykjanesskaganum, þ.e. Djúpudalaborgin í Selvogi, en bóndinn á Þorbjarnarstöðum var einmitt ættaður þaðan og hefur verið kunnugur hraunhelluhleðslulaginu er einkennir þá fjárborg. Hún stendur enn nokkuð heilleg, enda enn sem komið er orðið fyrir litlum ágangi manna.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Í Örnefnaskrá fyrir Þorbjarnastaði má sjá eftirfarandi um mannvistarleifar og örnefni í Brundtorfum: „Halda skal nú hér fram með Brennu, allt þar til kemur í Hrauntungukjaft. Þar taka við Hrauntungur, sem liggja norðaustur eftir milli Brennu og Brunans. Þær eru nokkrar að víðáttu, og er skógurinn einna mestur þar, allt að 4 m há tré. Úr kjaftinum liggur Hrauntungustígur norðaustur og upp á Háabruna, út á helluhraunið og austur eftir því upp að Hamranesi vestan Hvaleyrarvatns. Er þetta skemmtileg gönguleið. Í Efrigóm Hrauntungukjafts er Hellishóll. Hér í hólnum eru Hrauntunguhellar (að sögn Gísla Guðjónssonar; Gísli Sigurðsson kallar þá hins vegar Hellishólshelli og Hellishólsskjól). Í vætutíð má fá þar vatn. Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum. Hún stendur enn, og er innanmál hennar um 7 m.
Suður og upp frá brunanum eru Brundtorfur. Þar var hrútum hleypt til ánna forðum daga. Þar voru Brundtorfuvörður og Brundtorfuhellir.“

Hrauntunguskjól

Hrauntunguskjól (Hellisskjól).

Þá má nefna Brundtorfuskjólið. Við skoðun á vettvangi mátti m.a. sjá ýmislegt og skynja annað. Fyrst og fremst er Fjárborgin fulltrúi u.þ.b 80 slíkra, sem enn sjást, í fyrrum landnámi Ingólfs.
Í öðru lagi er hún dæmigerð fyrir skýli þau er bændur reistu fé sínu allt frá landnámsöld fram í byrjun 20. aldar. Fé var ekki tekið í hús, enda engin slík til, en skjól gert fyrir það í hellum og skútum. Jafnan var gólfið sléttað og hlaðið fyrir til skjóls. Á annað hundrað slík mannvirki má enn sjá á svæðinu. Eitt þeirra er fyrrnefnt Hellishólsskjól skammt frá Fjárborginni.
Fjárborgin framanverðStaðurinn er tilvalinn til að hlaða mannvirki á; gnægð hraunhellna. Norðan við Fjárborgina má sjá hvar hellunum hefur verið staflað í hrauka með það fyrir augum að bera þær að borginni. Hraukarnir, sem og hraunhellurnar norðan í borginni, benda til þess að hætt hafi verið við verkið í miðju kafi. Staðsetningin er hins vegar ekki góð með hliðsjón að því að fé leiti þangað inn af sjálfsdáðum. Til að mæta því hafa verið hlaðnir tveir langir leiðigarðar út frá opi borgarinnar til suðurs, að gróningunum framanverðum.

Í stuttu innskoti má geta þess að örnefnið „Brundtorfur“ virðist hafa verið afleitt af „Brunatorfur“, enda var hraunið löngum nefnt „Bruninn“ og í þeim eru nokkrar grónar „torfur“; óbrinnishólmar. Einnig hefur svæðið verið nefnt „Brunntorfur“, en á því má í rigningartíð finna vatn í lægðum.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg í Hraunum.

Mannvirkið sjálft er reglulega og vandlega hlaðið. Útveggurinn hallar inn á við eftir því sem vegghleðslan hækkar. Hætt hefur verið við hana í u,þ.b. tveggja metra hæð. Inni í miðjum hringnum er hlaðinn garður, þó ekki samfastur útveggnum. Hlutverk hans hefur verið að halda undir þakið er að því kæmi. Ef mannvirkið hefði verið fullklárað hefði líklega verið um að ræða stærsta sjálfbæra helluhraunshúsið á þessu landssvæði.

Hellukofinn

Hellukofinn á Hellisheiði.

Helluhúsið (sæluhúsið) á Hellisheiði er byggt með svipuðu lagi, en minna. Þessi Hellukofi er borghlaðið sæluhús byggt við alfaraleið í kringum 1830. Þvermál þess er 1,85 sm og hæðin er 2 m. Hellukofinn hefur getað rúmað 4 – 5 manns. Talið er að Hellukofinn hafi verið byggður á svipuðum stað og gamla „Biskupsvarðan“ . Biskupsvarðan var ævafornt mannvirki, krosshlaðið þannig að menn og hestur gætu fengið skjól fyrir vindum úr nær öllum áttum. Þessi varða stóð fram á 19. öld en henni var ekki haldið við og var farin að hrynja. Grjótið úr vörðunni var notað til þess að byggja Hellukofann.
DyrnarEkki er að sjá að annað og eldra mannvirki hafi staðið þar sem Fjárborgin stendur nú. Hvatinn að Hellukofanum var að byggja sæluhús fyrir fólk upp úr fyrrum krosslaga fjárskjóli. Slík fjárskjól þekkjast vel á Reykjanesskaganum, s.s. sunnan við Reykjanesbrautina ofan Innri-Njarðvíkur og við Borgarkot á Vatnsleysuströnd.
En hver var hvatinn að byggingu Fjárborgarinnar – þessa mikla mannvirkis? Sennilega hefur hann verið af tvennum toga; annars vegar frekari mannvirkjagerð og úrbætur á svæði, sem þegar hafði að geyma fjárskjól, bæði Hellishólsskjólið norðvestar og Brunntorfuskjólið suðaustar, og auk þess hefur, ef að ættarlíkum lætur, í verkefninu falist ákveðin útrás fyrir atorkusamt fólk er hefur við yfirsetuna viljað hafa eitthvað meira fyrir stafni.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Þá má af líkum telja, sbr. framangreint, að heimilisfaðirinn hafi haft einhver áhrif þar á með frásögnum sínum af uppeldisstöðvum hans í Selvogi þar sem Djúpudalaborgin hefur verið böðuð mannvirkjaljóma, enda fá sambærileg og jafn stórkostleg mannvirki þá til á þessu landssvæði. Hafa ber þó í huga að Djúpudalaborgin er hálfu minni að ummáli og því auðveldari til topphleðslu. Umfang Þorbjarnastaðaborgarinnar hefur gert það að verkum fá upphafi að verkefnið var dæmt til að mistakast. Aðrar fjárborgir voru hálfhlaðnar og ekki að sjá að ætlunin hafi verið að hlaða þær hærra. Þó er þar ein undantekning á.
Fjárborgin innanverðFjárborgin á Strandarheiði ofan við Kálfatjörn er hringlaga, hlaðin eingöngu úr grjóti og er hverjum steini hagrætt í hleðslunni af hinni mestu snilld. Vegghæðin er um 2 m og þvermál að innan um 8 m., þ.e.a.s. nokkurn veginn jafnstór Þorbjarnarstaðaborginni. Gólfið inni í borginni er grasi gróið og rennislétt. Ekki er vitað hvenær borgin var upphaflega hlaðin en menn telja hana nokkurra alda gamla. Munnmæli herma, að maður að nafni Guðmundur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest.

Staðarborg

Staðarborg.

Guðmundur vandaði vel til verka, safnaði grjóti saman úr nágrenninu, bar það saman í raðir og gat þannig valið þá hleðslusteina sem saman áttu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp. En er hann var nýbyrjaður að draga veggina samað að ofanverðu, kom húsbóndi hans í heimsókn. Sá hann þá strax í hendi sér að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Reiddist hann Guðmundi og lagði brátt bann við fyrirætlan hans. En þá fauk í Guðmund svo hann hljóp frá verkinu eins og það var og hefur ekki verið hreyft við borginni síðan. Staðarborg var friðlýst sem forminjar árið 1951.
Innviðir StaðarborgarÞessi frásögn af Staðarborginni gæti einnig hafa haft áhrif á hleðslufólkið frá Þorbjarnarstöðum. Hraunhellum hefur verið raðað, sem enn má sjá, undir vegg borgarinnar að utanverðu svo auðveldara væri að velja úr hentugt grjót hverju sinni. Á svipaðan hátt og við gerð Staðarborgarinnar hefur eitthvað komið upp á er varð til þess að hætt var við verkið í miðjum klíðum. Ólíklegt er að þar hafi prestur gefið fyrirmæli um, en öllu líklegra að annað hvort hafi hjáseta yfir fé í Brundtorfum verið hætt um þetta leyti eða breytingar hafa orðið á mannaskipan að Þorbjarnarstöðum. Hafa ber í huga að til er frásögn af dugmiklum vinnumanni á Þorbjarnarstöðum á fyrri hluta 19. aldar (sjá meira undir. Ef hann hefur átt þarna einhvern hlut að máli er Fjárborgin u.þ.b. hálfri öld eldri en áætlað hefur verið hingað til.

Þorbjarnastaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Hvað sem öllum vangaveltum líður um tilurð og tilefni Þorbjarnarstaðafjárborgarinnar er hún enn mikilsumvert mannvirki; bæði áþreifanlegur minnisvarði um áræði forfeðranna er byggðu sína tilveru og framtíð afkomenda sinna á því sem til féll á hverjum stað hverju sinni og jafnframt vitnisburður um merkar búsetuminjar fyrri tíma.
Rétt er þó að geta þess svona í lokin að ekki er vitað til að starfsfólk Fornleifaverndar ríkisins hafi skoðað og metið mannvirkið til verðleika.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnastaði.

Þorbjarnarstaðafjárborg

 

Þorlákshafnarsel

Eftir að hafa hitt elsta íbúa Þorlákshafnar, heiðursmanninn og einn fróðasta leiðsögumann þar ums lóðir, Garðar, var ekki beðið boðanna heldur haldið að Arnarhreiðri og litið niður í jarðfallið. Arnarhreiðrið, einnig nefnt Arnarker, er staðsett í Leitarhrauni. Á undanförnum árum hefur Hellarannsóknarfélag Íslands bætt mjög aðgengi að hellinum. Skilti við veginn bendir á hellinn, stikur liggja að hellinum og stigi liggur ofan í hann. Rásin er um 490 m löng.

Fjallsendahelir

Í Fjallsendahelli.

Gengið var yfir móan yfir að að Fjallsendahelli þar sem fjárhellirinn var skoðaður. Hellirinn er vestan í Fjallsenda. Hann er hraunhellir. Inn úr opi hans eru tvennar dyr. Til hægri er sjálfur hellirinn, 1 m til 1,7 m hár og um 2 m víður, gólfið er allslétt. Hlaðinn garður lokar honum fyrir fé um 10 m fyrir innan dyr. Til vinstri er niður að fara í annan hellir, sem er að mestu hruninn, svo myndast hefur jarðfall um 4 – 5 m djúpt og 8 – 10 m í þvermál. Það heitir Gjögur. Úr því er skammt í hellisbotn. Fjallshellir er tvískiptur. Að ofan var, skv. heimildum, komið fyrir heyforða því um tíma var fé vistað í hellinum.

Hlíðarendahellir

Hlíðarendahellir.

Gengið var með Hlíðarenda að Hlíðarendahelli, stundum nefndur Hellir, og hann skoðaður. Hellirinn er yst undir Hellisbergi, ágætt fjárból. Hellirinn er sjávarhellir frá lokum ísaldar. Hefur um 40 m langur veggur verið hlaðinn upp með slútandi berginu. Kumltótt er þar neðan við Hellinn. Frá Hellinum er örskammt vestur í Hellisnef, en þar endar Bergið.

Þá var haldið Djúpudali. Markhólar eru hraunhólar í mörkum Hlíðarenda og Selvogs, talsverðan spöl fyrir ofan (norðan) þjóðveginn. Suður frá þeim heitir hraunið Djúpadalshraun. Í því sunnarlega er dalur eða lægð, og hólaþyrping kringum hann. Dalurinn heitir Djúpidalur, lítill en grösugur. Í og ofan við dalinn er fjölbreytilegur gróður og leiðbeindi einn þátttakanda hópnum um plöntubreiðuna, nefndi einstakar plöntur með nafni og útskýrði notagildi þeirra.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Fjárborg gömul er í Djúpadalshrauni, um miðja vegu milli þjóðvegarins og Djúpadals. Hún er borghlaðin, þ.e. hringlaga og veggirnir hallast lítils háttar inn, um 3,5 til 4 m á hæð, og um 5 m í þvermál að innan skv. lýsingu í örnefnaskrá fyrir Hlíðarenda. Dyr eru móti suðri, um 1 m á hæð og geta tvær kindur gengið samhliða um þær. Veggirnir eru á annan meter á þykkt. Árið 1921 var hún alveg heil, en nú, 1967, er dálítið hrunið úr veggjunum á tveim stöðum, beggja vegna dyranna, aðallega að utan. Djúpudalaborgin er með fallegri mannvirkjum á Reykjanesskaganum.
Veðrið var frábært, logn, sól og um 20° hiti.

Hafnasel

Hafnasel – vatnsstæði.

Loks var þegið handlagað kaffi hjá Garðari, sem upplýsti nánar um þróun byggðar og uppbyggingu Þorlákshafnar.
Á heimleiðinni var komið við í Þorlákshafnarseli (Hafnarseli) undir Votabergi.

Þorlákshafnarsel

Þorlákshafnarsel – uppdráttur.

Djúpudalaborg

Ekið var að Strandarkirkju með viðkomu við dysjar Herdísar og Krýsu neðst í Kerlingadal. Við Strandarkirkju tók Kristófer kirkjuvörður vel á móti ferðalöngum. Leiddi hann þá í allan sannleika um kirkjuna, uppruna hennar og sögu.

Strandarkirkja

FERLIRsfélagar við Strandarkirkju.

Fram kom að skyggt fólk hafi komist að því að kirkjan hafi upphaflega verið byggð úr timbri er Gissur hvíti flutti til landsins frá Noregi skömmu eftir að kristni var lögtekin hér á landi. Kom hann á leið sinni við í Vestmannaeyjum og reisti þar kirkju, þá sömu og endurbyggð var þar fyrir skömmu, en lenti í hafvillum utan við Selvog. Komst hann þar í land ásamt áhöfn eftir að hafa heitið því að þar skyldi reist kirkju er og ef hann næði landi. Hann og áhöfn hans björguðust og reistu ofan við sjávarkambinn litla áheitakirkju er snéri stafni til hafs. Bekkir voru annars vegar í henni og altari innst.
Núverandi Strandarkirkja er frá árinu 1888 og hefur verið vel við haldið. Í henni má m.a. finna sakramentisbikar frá 1262 og altarisbikar frá um 1340. Þá gripi sýndi Kristófer auk margra fleiri.

Nes

FERLIRsfélagar við Nes í Selvogi. Standa á fæti gamla Nesvitans.

Gengið var að Nesi frá Bjarnastöðum og Guðnabæ, skoðaðar fjárborgir, sjóbúðir, brunnhús, gamli kirkjugarðurinn og rústir gamla bæjarins í Nesi. Kristófer lýsti gamla vörsugarðinum er náði frá Nesi ofan Selvogs að Vogsósum, en hann mun vera eitt allra elstu mannvirkja, sem enn eru sýnileg hér landi. Þá var haldið að Hellisþúfu og hellirinn, sem búið var í um tíma, skoðaður, gengið um Djúpadalshraun og skoðuð Djúpadalsborgin.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Brunnur

Forn garður í Selvogi, rúmlega 7 km langur, er jafnan nefndur Fornigarður. Hann hefur hins vegar ekki alltaf verið forn. Áður var hann nefndur Strandargarður eða Langigarður.

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

Þórarinn Snorrason á Vogsósum leiddi FERLIRsfólk að enda Fornagarðs (Strandargarðs) Hlíðarvatnsmegin, en þaðan liggur hann yfir að Nesi í Selvogi, 7 km. leið. Um var að ræða vörslugarð er umlukti Selvogsbæina, en hann hefur líklega verið hlaðinn um árið 1000, en heimildir eru um garðinn allt frá árinu 1275. Garðurinn liggur frá Hlíðarvatni að Impuhól og þaðan að Gíslhól. Við hólinn var gömul rétt, sem fyrir löngu hefur verið aflögð. Frá Gíslhól og upp fyrir fjárhúsin á Vogsósum, þar sem gamla Vogsósaborgin stóð til 1954, hefur garðurinn verið sléttaður út. Hægt er að fylgja honum suðaustur túnið austan fjárhúsanna og þegar túninu sleppir sést hann greinilega alveg austur fyrir Strandarkirkju. Skammt ofan við Vogsósatúnið má sjá ummerki eftir fjárborg og hús. Hefur hvorutveggja verið utan garðs, en umleikis þau hefur verið hlaðinn ferkantaður garður. Ekki er vitað til þess að þessar fornminjar hafi verið skráðar.

Vogsósaborgir

Vogsósaborgir – Borgirnar þrjár.

Var gengið sem leið lá með garðinum framhjá Stórhól og að kirkjunni. Á leiðinni má sjá aðra gamla þvergarða og garða, sem liggja yfir og í sveig á Fornagarð. Vestan garðsins liggur Kirkjugatan á milli Strandar og Vogsósa, vel vörðuð. Þegar skammt er til Strandar sést móta fyrir hleðslum Sveinagerðis, velli þar sem Erlendur lögmaður lét sveina sína æfa listir sínar.
Austan Strandarkirkju rakst hópurinn á sérstæðan gataðan hestastein, auk þess leitað var að gamla skósteininum við kirkjuna. Hann á að vera skammt norðan við hæð norðan kirkjunnar. Sjá má gömlu þjóðleiðina yfir Vogsósa liggja frá kirkjunni áleiðis að þeim, vel varðaða.

Strandarkirkja

Strandarkirkja.

Frá kirkjunni var gengið eftir garðinum á ská yfir veginn og áfram að gömlu Þorkelsgerðisréttinni (Út-Vogsrétt). Frá henni hefur elsti hluti garðsins varðveist mjög vel, allt að Þorkelsgerðishliði. Var garðinum fylgt suðaustur með tröðunum og síðan þvert til austurs að Bjarnastaðahliði og síðan áfram norðan við Nes og að vitanum austan þess. Þar má sjá garðinn koma niður að sjó sunnan við vitann. Skoðað var gamla vitastæðið úti á glöppunum. Fjaran vestan Nesvita er auðgengileg og þar getur verið margt að sjá fyrir þá sem ganga með opin augun. Bæði er lífríki fjörunnar fjölbreytilegt sem og steinategundir í og ofan við fjörukambinn.

Nes

Nes í Selvogi – sjóbúð.

Frá Nesvita var gengið að Nesi og m.a. skoðað gamla brunnhúsið, fjárborgirnar tvær og sjóbúðin vestan þess. Borgirnar eru sagðar hafa horfið í flóðinu 1925, en þær eru nú þarna samt sem áður, að vísu hálfhrundar sjávarmegin.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Skoðaður var gamli brunnurinn á Bjarnastöðum og einnig Guðnabæjarbrunnurinn áður en haldið var í Djúpudali þar sem skoðuð var fallega topphlaðna Djúpudalaborgin. Gerð var og leit að gömlu borginni við dalina, sem spurnir höfðu borist af frá eldri Hafnarbúa, sem kvaðst hafa séð hana fyrir allmörgum árum síðan. Vísaði hann FERLIR á svæði þar sem hana væri líklegast að finna, en þrátt fyrir leit fannst hún ekki að þessu sinni. Talsvert sandfok hefur verið þarna á síðari árum, auk þess sem gróðurlínan hefur færst talsvert ofar en áður var. Gerð verður ítrekuð leit að borginni síðar.
Í bakaleiðinni var komið við í Borgunum þremur austan Hlíðarvatns og þær skoðaðar í sólbirtunni.
Frábært veður.

Djúpudal

Djúpudalaborg.