Tilkomumikil heilleg hringlaga fjárborg stendur á hrauntungu sunnan til í vesturjarðri Brunans (Nýjahrauns/Kapelluhrauns), fast neðan við svonefndar Brundtorfur. Borgin er orðin mosavaxin og fellur því nokkuð vel inn í landslagið umhverfis. Kunnugt minjaleitarfólk á þó auðvelt með að koma auga á leifarnar. Ekki eru allmörg ár síðan hleðslurnar voru alveg heilar, en vegna seinni tíðar ágangs hefur norðvesturhluti veggjarins hrunið inn að hluta. Einhverjum hefur þótt við hæfi að ganga á veggnum með fyrrgreindum afleiðingum – og er það miður því þarna er bæði um einstaklega fallegt mannvirki að ræða frá fyrri tíð og auk þess heillegt og áþreifanlegt minnismerki um fyrri tíma búskaparhætti.
Undirlag Fjárborgarinnar er blandhraun, sem rann úr alllangri gígaröð árið 1151, þeirri sömu og gaf af sér Ögmundarhraun og hluta Afstapahrauns. Uppruni þessa hluta hraunsins er úr Rauðhól undir Vatnsskarði (sjá meira undir.
Þorbjarnastaðaborg.
Fjárborgin mun vera hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjónanna, þeirrar Ingveldar Jónsdóttur (dóttur Jóns Guðmundssonar á Setbergi (Jónssonar frá Haukadal í Biskupstungum (ættaður frá Álfsstöðum á Skeiðum)), og Þorkels Árnasonar frá Guðnabæ í Selvogi, skömmu eftir aldarmótin 1900. Augljóst má telja að til hafi staðið að topphlaða borgina, ef marka má voldugan miðjugarðinn, lögun vegghleðslunnar og hellurnar, sem enn bíða upphleðslu utan við hana sem og umhverfis.
Djúpudalaborg í Selvogi.
Þorbjarnarstaðafjárborgin er svipuð að byggingarlagi og önnur fjárborg á Reykjanesskaganum, þ.e. Djúpudalaborgin í Selvogi, en bóndinn á Þorbjarnarstöðum var einmitt ættaður þaðan og hefur verið kunnugur hraunhelluhleðslulaginu er einkennir þá fjárborg. Hún stendur enn nokkuð heilleg, enda enn sem komið er orðið fyrir litlum ágangi manna.
Hrauntungustígur.
Í Örnefnaskrá fyrir Þorbjarnastaði má sjá eftirfarandi um mannvistarleifar og örnefni í Brundtorfum: „Halda skal nú hér fram með Brennu, allt þar til kemur í Hrauntungukjaft. Þar taka við Hrauntungur, sem liggja norðaustur eftir milli Brennu og Brunans. Þær eru nokkrar að víðáttu, og er skógurinn einna mestur þar, allt að 4 m há tré. Úr kjaftinum liggur Hrauntungustígur norðaustur og upp á Háabruna, út á helluhraunið og austur eftir því upp að Hamranesi vestan Hvaleyrarvatns. Er þetta skemmtileg gönguleið. Í Efrigóm Hrauntungukjafts er Hellishóll. Hér í hólnum eru Hrauntunguhellar (að sögn Gísla Guðjónssonar; Gísli Sigurðsson kallar þá hins vegar Hellishólshelli og Hellishólsskjól). Í vætutíð má fá þar vatn. Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum. Hún stendur enn, og er innanmál hennar um 7 m.
Suður og upp frá brunanum eru Brundtorfur. Þar var hrútum hleypt til ánna forðum daga. Þar voru Brundtorfuvörður og Brundtorfuhellir.“
Hrauntunguskjól (Hellisskjól).
Þá má nefna Brundtorfuskjólið. Við skoðun á vettvangi mátti m.a. sjá ýmislegt og skynja annað. Fyrst og fremst er Fjárborgin fulltrúi u.þ.b 80 slíkra, sem enn sjást, í fyrrum landnámi Ingólfs.
Í öðru lagi er hún dæmigerð fyrir skýli þau er bændur reistu fé sínu allt frá landnámsöld fram í byrjun 20. aldar. Fé var ekki tekið í hús, enda engin slík til, en skjól gert fyrir það í hellum og skútum. Jafnan var gólfið sléttað og hlaðið fyrir til skjóls. Á annað hundrað slík mannvirki má enn sjá á svæðinu. Eitt þeirra er fyrrnefnt Hellishólsskjól skammt frá Fjárborginni.
Staðurinn er tilvalinn til að hlaða mannvirki á; gnægð hraunhellna. Norðan við Fjárborgina má sjá hvar hellunum hefur verið staflað í hrauka með það fyrir augum að bera þær að borginni. Hraukarnir, sem og hraunhellurnar norðan í borginni, benda til þess að hætt hafi verið við verkið í miðju kafi. Staðsetningin er hins vegar ekki góð með hliðsjón að því að fé leiti þangað inn af sjálfsdáðum. Til að mæta því hafa verið hlaðnir tveir langir leiðigarðar út frá opi borgarinnar til suðurs, að gróningunum framanverðum.
Í stuttu innskoti má geta þess að örnefnið „Brundtorfur“ virðist hafa verið afleitt af „Brunatorfur“, enda var hraunið löngum nefnt „Bruninn“ og í þeim eru nokkrar grónar „torfur“; óbrinnishólmar. Einnig hefur svæðið verið nefnt „Brunntorfur“, en á því má í rigningartíð finna vatn í lægðum.
Þorbjarnarstaðaborg í Hraunum.
Mannvirkið sjálft er reglulega og vandlega hlaðið. Útveggurinn hallar inn á við eftir því sem vegghleðslan hækkar. Hætt hefur verið við hana í u,þ.b. tveggja metra hæð. Inni í miðjum hringnum er hlaðinn garður, þó ekki samfastur útveggnum. Hlutverk hans hefur verið að halda undir þakið er að því kæmi. Ef mannvirkið hefði verið fullklárað hefði líklega verið um að ræða stærsta sjálfbæra helluhraunshúsið á þessu landssvæði.
Hellukofinn á Hellisheiði.
Helluhúsið (sæluhúsið) á Hellisheiði er byggt með svipuðu lagi, en minna. Þessi Hellukofi er borghlaðið sæluhús byggt við alfaraleið í kringum 1830. Þvermál þess er 1,85 sm og hæðin er 2 m. Hellukofinn hefur getað rúmað 4 – 5 manns. Talið er að Hellukofinn hafi verið byggður á svipuðum stað og gamla „Biskupsvarðan“ . Biskupsvarðan var ævafornt mannvirki, krosshlaðið þannig að menn og hestur gætu fengið skjól fyrir vindum úr nær öllum áttum. Þessi varða stóð fram á 19. öld en henni var ekki haldið við og var farin að hrynja. Grjótið úr vörðunni var notað til þess að byggja Hellukofann.
Ekki er að sjá að annað og eldra mannvirki hafi staðið þar sem Fjárborgin stendur nú. Hvatinn að Hellukofanum var að byggja sæluhús fyrir fólk upp úr fyrrum krosslaga fjárskjóli. Slík fjárskjól þekkjast vel á Reykjanesskaganum, s.s. sunnan við Reykjanesbrautina ofan Innri-Njarðvíkur og við Borgarkot á Vatnsleysuströnd.
En hver var hvatinn að byggingu Fjárborgarinnar – þessa mikla mannvirkis? Sennilega hefur hann verið af tvennum toga; annars vegar frekari mannvirkjagerð og úrbætur á svæði, sem þegar hafði að geyma fjárskjól, bæði Hellishólsskjólið norðvestar og Brunntorfuskjólið suðaustar, og auk þess hefur, ef að ættarlíkum lætur, í verkefninu falist ákveðin útrás fyrir atorkusamt fólk er hefur við yfirsetuna viljað hafa eitthvað meira fyrir stafni.
Djúpudalaborg.
Þá má af líkum telja, sbr. framangreint, að heimilisfaðirinn hafi haft einhver áhrif þar á með frásögnum sínum af uppeldisstöðvum hans í Selvogi þar sem Djúpudalaborgin hefur verið böðuð mannvirkjaljóma, enda fá sambærileg og jafn stórkostleg mannvirki þá til á þessu landssvæði. Hafa ber þó í huga að Djúpudalaborgin er hálfu minni að ummáli og því auðveldari til topphleðslu. Umfang Þorbjarnastaðaborgarinnar hefur gert það að verkum fá upphafi að verkefnið var dæmt til að mistakast. Aðrar fjárborgir voru hálfhlaðnar og ekki að sjá að ætlunin hafi verið að hlaða þær hærra. Þó er þar ein undantekning á.
Fjárborgin á Strandarheiði ofan við Kálfatjörn er hringlaga, hlaðin eingöngu úr grjóti og er hverjum steini hagrætt í hleðslunni af hinni mestu snilld. Vegghæðin er um 2 m og þvermál að innan um 8 m., þ.e.a.s. nokkurn veginn jafnstór Þorbjarnarstaðaborginni. Gólfið inni í borginni er grasi gróið og rennislétt. Ekki er vitað hvenær borgin var upphaflega hlaðin en menn telja hana nokkurra alda gamla. Munnmæli herma, að maður að nafni Guðmundur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest.
Staðarborg.
Guðmundur vandaði vel til verka, safnaði grjóti saman úr nágrenninu, bar það saman í raðir og gat þannig valið þá hleðslusteina sem saman áttu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp. En er hann var nýbyrjaður að draga veggina samað að ofanverðu, kom húsbóndi hans í heimsókn. Sá hann þá strax í hendi sér að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Reiddist hann Guðmundi og lagði brátt bann við fyrirætlan hans. En þá fauk í Guðmund svo hann hljóp frá verkinu eins og það var og hefur ekki verið hreyft við borginni síðan. Staðarborg var friðlýst sem forminjar árið 1951.
Þessi frásögn af Staðarborginni gæti einnig hafa haft áhrif á hleðslufólkið frá Þorbjarnarstöðum. Hraunhellum hefur verið raðað, sem enn má sjá, undir vegg borgarinnar að utanverðu svo auðveldara væri að velja úr hentugt grjót hverju sinni. Á svipaðan hátt og við gerð Staðarborgarinnar hefur eitthvað komið upp á er varð til þess að hætt var við verkið í miðjum klíðum. Ólíklegt er að þar hafi prestur gefið fyrirmæli um, en öllu líklegra að annað hvort hafi hjáseta yfir fé í Brundtorfum verið hætt um þetta leyti eða breytingar hafa orðið á mannaskipan að Þorbjarnarstöðum. Hafa ber í huga að til er frásögn af dugmiklum vinnumanni á Þorbjarnarstöðum á fyrri hluta 19. aldar (sjá meira undir. Ef hann hefur átt þarna einhvern hlut að máli er Fjárborgin u.þ.b. hálfri öld eldri en áætlað hefur verið hingað til.
Þorbjarnastaðaborg.
Hvað sem öllum vangaveltum líður um tilurð og tilefni Þorbjarnarstaðafjárborgarinnar er hún enn mikilsumvert mannvirki; bæði áþreifanlegur minnisvarði um áræði forfeðranna er byggðu sína tilveru og framtíð afkomenda sinna á því sem til féll á hverjum stað hverju sinni og jafnframt vitnisburður um merkar búsetuminjar fyrri tíma.
Rétt er þó að geta þess svona í lokin að ekki er vitað til að starfsfólk Fornleifaverndar ríkisins hafi skoðað og metið mannvirkið til verðleika.
Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnastaði.