Draugaklettar eru í Breiðholsthvarfi á móts við Árbæinn, ekki háir en dökkir að lit. Þar fer ekki sögum af draugum; hins vegar átti huldufólk að búa í þeim.
Einnig er talað um Draugasteina skammt frá suðurenda Árbæjarstíflu.
Uppi á Breiðholtshvarfinu, eða við fjölbýlishúsið Vesturberg 2-6, er önnur álfabyggð í hól einum, skv. Fornleifaskrá Reykjavíkur. Trúin á hana lifir svo sterkt að þegar byggja átti fjölbýlishús þar sem hóllinn var, í samræmi við skipulag annarra húsa við götuna, þótti það óráðlegt. Var ákveðið að hrófla ekki við hólnum heldur víkja frá skipulagi og byggja húsið fyrir framan hann.
Sæskrímsli í Elliðavogi.
Árið 1883 var maður að nafni Guðmundur Guðbrandsson staddur við Elliðarvog. Ekki er getið um erindi hans þar, en líklegt er að það hafi verið að tína krækling á leirunni til beitu eins og algengt var. Komst hann þarna í kast við ókennilega skepnu á stærð við veturgamlan kálf sem þakinn var skeljum að utan. Stóð hann í stimpingum við skepnuna í um tvær klukkustundir en komst á endanum að Bústöðum, blóðrisa og svo illa til reika að hann lá þar í tvo daga rúmfastur. Var hann þó annálað hraustmenni.
Með hausinn í hendinni.
Önnur saga tengist einnig ofanverðum Elliðaárdalnum og er sömuleiðins frá síðari hluta 19. aldar. Maður hét Guðmundur og bjó í Kópavogi. Var hann forn í skapi og hafði jafnvel í heitingum við menn um að leggja á þá eins og það var kallað. Eftir að hann dó urðu menn óþyrmilega varir við það. Reyndist hann mjög skæður, meðal annars Stefáni bónda í Hvammskoti sem var mesti sómamaður.
Það var á góðviðrisdegi haustið eftir að Guðmundur í Kópavogi andaðist að Stefán gekk upp að Vatnsenda og dvaldist hann þar fram undir sólsetur. Var honum síðan fylgt áleiðis til baka vestur að svonefndu Vatnsendahvarfi. Þá er fylgdarmaðurinn var nýskilin við Stefán sá hann man við hlið sér og þekkti hann strax, að þar var Guðmundur úr Kópavogi. Stefáni varð ekki um sel, en hann hélt þó áfram og alltaf var draugurinn á hlið við hann uns hann kom niður á móts við Breiðholt. Þá nam draugurinn allt í einu staðar, tók ofan hausinn og marghneigði sig fyrir Stefáni með hausinn í hendinni, og hvarf draugurinn eftir það. Skömmu síðar tók Stefán sótt og andaðist.
Guðmundur í Kópavogi sótti einnig að bóndanum í Breiðholti en hann stóð af sér allar skráveifur hans.