Tag Archive for: Dyngja

Árvellir

Ætlunin var að skoða fornminjar við Grundará undir Kerhólakambi Esju, öðru nafni Búa. Þar mun móta fyrir görðum Grundar, Esjubergs og Árvalla sem og tóftum bæjanna og öðrum mannvirkjum frá fyrri tíð. Þessar minjar virðast vera lítt þekktar þrátt fyrir að skammt frá hafi um langan aldur verið ein fjölfarnasta þjóðleið landsins (Vesturlandsvegurinn).

Forn gata ofan Esjubergs - Búi fjærÍ Kjalnesingasögu segir frá Esju á Esjubergi. Ofan núverandi bæjarstæðis þess bæjar er að sjá bæði forna garða og tóftir. Tilgangurinn var m.a. að skoða hvorutveggja og auk þess átti að freysta uppgöngu um einstigi þess fræga Búahellis (sem sumir segja að sé ekki til) í Búa.
Þá lágu fyrir heimildir um kirkju að Esjubergi. Sumir segja hana hafa verið þá fyrstu hér á landi. Á túninu átti, skv. fyrirliggjandi upplýsingum, að móta fyrir ferköntuðum garði og tóft.
Áður en lagt var af stað var auk þessa lagst yfir örnefnalýsingar af Esjubergi með góðri aðstoð frá Jónínu Hafsteinsdóttur á Örnefnastofnun Íslands. Í þeim kemur m.a. fram að (hafa ber í huga að þjóðvegurinn hefur verið færður, t.d. liggur hann nú undir Leiðhamra, en ekki upp Kleifina svonefndu og inn með Esjurótum eins og áður var): „
Vesturmörkin, milli Esjubergs og Skrauthóla, eru um Gvendarbrunn í Flóðará og beint upp Esju. Milli Móa og Saltvíkur eru merkin Móalækur um Gvendarbrunn og upp í há-Esju um Laugarnípu, sem er há nípa upp af Árvelli. Leiðhamrar eru þrír talsins. Austasti hluti þeirra tilheyrir Esjubergi, en hitt Móum. Úr honum er línan í Varmhóla, þar sem þeir eru hæstir, en það er hólaþyrping hér upp af. [Aths. Odds Jónssonar við Esjuberg.

 

Stekkur frá Grund neðan GljúfurdalsDys var upp af Varmhólum.] Upp af Leiðhömrum er mýri, þar sem tekinn var upp mór frá Esjubergi. Upp af Leiðvelli er flöt, er nefnist Kirkjuflöt. Þar var sagt, að hefði verið bænhús eða kirkja. Viðurinn í hana átti að hafa verið fluttur um Leiðvöll. [Hér er komin önnur vísbending um hugsanlega staðsetningu kirkju í landi Esjubergs.]
Ofan við veg er landið miklu breiðara, enda á Esjuberg land ofan vegar með Flóðará. Við gamla veginn, þegar kemur upp úr Kleifunum í Mógilsárlandi, er dys, sem nefnd er Dyngja. Þar átti að kasta steini í, er farið var framhjá. [Athugasemdir Sigríðar Gísladóttur, húsfreyju á Esjubergi við örnefni jarðarinnar. Sigríður er uppalin á Esjubergi og hefur átt þar heima óslitið frá árinu 1957. Dysin er/ var í landi Esjubergs. Var eyðilögð með stórvirkum vinnuvélum vorið 1981.]
Holtið, sem það er í, heitir Dyngjuholt. Austur af Dyngjuholti er mýri, sem kölluð er Dyngjumýri. Þar var tekinn mór, fyrst frá Grund og síðar frá Esjubergi, og sjást grafirnar þar vel ennþá.
Stekkur frá Árvöllum - Lauganípa fjærEinu sinni endur fyrir löngu stálu tveir strákar messuklæðum úr Móakirkju og skáru þau niður í skóna sína. Þeir voru síðan hengdir í Sjálfkvíum í Móanesi og dysjaðir þar allri alþýðu til viðvörunar. Sjálfkvíar eru klettar niður við sjó [skammt neðan við núverandi þjóðveg]. Dálítið bil er á milli þeirra, og fellur sjór þar inn um flóð.
Austur af bænum á Esjubergi er hóll í túninu, sem heitir Bænhúshóll. Rétt hjá, var sagt, að væri kirkjugarður, og mótaði fyrir honum í æsku G. S.  Austur af bænum og túninu er eyðibýlið Grund. Það tók af í skriðuhlaupi seint á 19. öld. Á Grund var byggt fjárhús og fjárrétt, þar sem fjósið hafði áður staðið.
Mýrin fyrir vestan melinn, niður af Stekkjarhól, heitir Grundarflóð. Þar vestur af heitir Hólmi. Austan og neðan við Esjuberg er Laug. Úr henni kemur lækur, sem heitir Laugarlækur, en heitir Móalækur, þegar kemur niður að Móum. Austur af Grund er hóll, sem heitir Grundarhóll, rétt austur af Grundarbæ.
Neðan við gamla veginn uppi í brekkunni rétt utan við Stekkjarhól er Rauðistígur og Rauðastígsbrekkur, 3 brekkur niður af Rauðastíg. Um Rauðastíg er hægt að fara upp klettana um smágil. Er þá komið upp á Skörð upp á Gljúfurdal. Farið er á tveim stöðum upp á Gljúfurdal, upp af Grund  um Grundarsneiðingu og upp af Árvelli um Árvallasneiðingu. Í Gljúfrinu er grjótdrangur, sem nefnist Hryggur.
Kirkjutóftin á Esjubergi?Vestur af bæ og heldur ofar er eyðibýlið Árvöllur. Utan við Árvöll er dalur, sem heitir Árvallardalur. Í honum er blettur, sem kallaður er Jarðföll, eins og uppgrónar torfur og vatnspyttir á milli. Austan við bæinn heita Skörð og Skarðabrún. Skörðin ná frá Festi í Mógilsárlandi að Búa, sem er hnúkurinn austan við Gljúfurdalsmynnið rétt upp af Grund. Þar undir er Búahellir framan í klettunum, en niðri í Gljúfrunum heitir Litlibúi. Það er hólhnúkur upp af Stórabúa, en þaðan er nokkuð langt upp í Þverfell.
Að vestan var línan um Gvendarbrunn, sem var uppsprettulind rétt neðan við gamla veginn fyrir vestan Árvallardal. Þar eru merki milli Esjubergs og Skrauthóla.“
Í Jarðabókinni 1703 kemur fram að skriða hafi spillt jörðinni og auk þess að; „Skriður fordjarfa tún, engjar og úthaga merkilega, so að hætt er bæði mönnum, húsum og fjenaði… Selstöðu á jörðin undir Svínaskarði að sunnan, og er þar berjalestur góður… Afbýlismaður heima við bæinn þar sem kallast Litla Esjuberg.“ Um Arvöllur segir m.a.: „Skriða fordjarfar so sem sagt er um heimajörðina“.
Bræðurnir Árni og Gísli Snorrasynir eru aldir upp að Esjubergi. Gísli sagði tóftir Árvalla vera ofan við Esjubergsbæinn, en leifar Grundar væru varla sýnilegar því bærinn hefði farið undir skriðu.  Tóftin við Grundarána væri sennilega rétt.

Túngarður á Esjubergi

Árni sagði bæjartóftirnar ofan við Esjuberg standa í svonefndu Árvallatúni. Tóftirnar beggja vegna Grundaáar væru sennilega leifar Grundar. Áin hefði áður runnið til vesturst með fjallsrótunum, en í miklum skriðum um 1830 hefði hún breytt sér og Grund þá lagst í eyði. Þá sagði hann máttlitla fornleifarannsókn hafa farið fram í garðinum vestan við Esjuberg, en hann vissi ekki hvað hefði komið út úr því. Gísli taldi hins vegar að þar hefðu fundist bein.
Í  Kjalnesinga sögu er talað um bæinn Esjuberg þar sem landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson bjó þegar hann kom til Íslands frá Suðureyjum í Skotlandi. Í sögunni er sagt frá því að írsk kona að nafni Esja hafi komið í Kollafjörð og hafa menn þá leitt að því líkum að nafnið sé írskt að uppruna. Bærinn Esjuberg á Kjalarnesi er einnig nefndur á nokkrum stöðum í Landnámu án þess að vikið er að skýringu á nafninu.
Í Kjalnesingasögu er sagt frá því að írskir menn hafi komið á skipi í Leiruvog í Kollafirði. Meðal þeirra var kona, Esja að nafni, og var hún sögð ekkja og mjög auðug. Hún tók við bæ Örlygs og bjó að Esjubergi.
Brautarholtskirkja á Kjalarnesi telja menn afkomanda fyrstu kirkju á Íslandi, þeirrar kirkju sem suðureyski landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson reisti á Esjubergi skömmu fyrir árið 900 og frá segir í Landnámu og víðar.
Í samantekt um „Rannsóknir og rannsóknaskýrslur fornleifadeildar og Þjóðminjasafns 1974 – 2004“ kemur fram að GÓ hafi annast rannsóknir 1981 á Esjubergi á Kjalarnesi. Um hafi verið að ræða rannsókn á svonefndri kirkju Örlygs. Að þessum upplýsingum fengnum var leitað til Guðmundar og hann spurður um niðurstöður rannsóknarinnar. Þær helstu eru tíundaðar hér á eftir.
Í Landnámu (Sturlubók segir í 12. kafla: „Örlygur hét son Hrapps Bjarnarsonar bunu; hann var að fóstri með hinum (helga) Patreki byskupi í Suðureyjum.  

Minjar í túninu suðvestan Esjubergs

(Hann) fýstist að fara til Íslands og bað, að byskup sæi um með honum. Byskup lét hann hafa með sér kirkjuvið og járnklukku og plenárium og mold vígða, er hann skyldi leggja undir hornstafina. Byskup bað hann þar land nema, er hann sæi fjöll tvö af hafi, og byggja undir hinu syðra fjallinu, og skyldi dalur í hvorutveggja fjallinu; hann skyldi þar taka sér bústað og láta þar kirkju gera og eigna hinum helga Kolumba.
Með Örlygi var á skipi maður sá, er Kollur hét, fóstbróðir hans, annar Þórólfur spör, þriðji Þorbjörn tálkni og bróðir hans, Þorbjörn skúma; þeir voru synir Böðvars blöðruskalla.
Þeir Örlygur létu í haf og fengu útivist harða og vissu eigi, hvar þeir fóru; þá hét Örlygur á Patrek byskup til landtöku sér, að hann skyldi af hans nafni gefa örnefni, þar sem hann tæki land. Þeir voru þaðan frá litla hríð úti, áður þeir sáu land, og voru komnir vestur um landið. Þeir tóku þar, sem heitir Örlygshöfn, en fjörðinn inn frá kölluðu þeir Patreksfjörð. Þar voru þeir um vetur, en um vorið bjó Örlygur skip sitt; en hásetar hans námu þar sumir land, sem enn mun sagt verða.
Örlygur sigldi vestan fyrir Barð; en er hann kom suður um Snæfellsjökul á fjörðinn, sá hann fjöll tvö og dali í hvorutveggja. Þar kenndi hann land það, er honum var til vísað.
Árvellir - loftmyndHann hélt þá að hinu syðra fjallinu, og var það Kjalarnes, og hafði Helgi bræðrungur hans numið þar áður.
Örlygur var með Helga hinn fyrsta vetur, en um vorið nam hann land að ráði Helga frá Mógilsá til Ósvíf(ur)slækjar og bjó að Esjubergi. Hann lét þar gera kirkju, sem mælt var.
Örlygur átti margt barna; hans son var Valþjófur, faðir Valbrands, föður Torfa, annar Geirmundur, faðir Halldóru, móður Þorleifs, er Esjubergingar eru frá komnir. Þeir Örlygur frændur trúðu á Kolumba. Dóttir Örlygs hins gamla var Vélaug, er átti Gunnlaugur ormstunga, sonur Hrómundar í Þverárhlíð; þeirra dóttir var Þuríður dylla, móðir Illuga hins svarta á Gilsbakka.“
Esjuberg er, eins og að framan er lýst, getið í Landnámu sem jörð landnámsmannsins Örlygs Hrappssonar. Á Esjubergi stóð kirkja samkvæmt kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá því um 1200. Esjuberg var á meðal jarða Viðeyjarklausturs eins og sjá má af skrá frá árinu 1395 um kvikfé og leigumála á jörðum klaustursins. Jarðarinnar er getið í fógetareikningunum frá 1547-1552 og er þá komin í eigu konungs.
Lögfesta fyrir Esjuberg var lesin upp á manntalsþingi þann 9. júní 1801 en inntak hennar ekki skráð.
Björn Stephensen dómsmálaritari bjó á Esjubergi frá því um 1814 til dauðadags, þann 17. júní 1835. Eftir hann liggur Grund - loftmyndlýsing á landamerkjum Esjubergs og Mógilsár. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 kemur fram að hjáleigur Esjubergs eru tvær; Grund (Austurbær) og Árvöllur, báðar 10 hundruð að dýrleika. Neðanmáls er greint frá því að engar upplýsingar er að finna í jarðabókum um hjáleigurnar nema hvað 1802 er Austurbæjar getið getið sem Johnsen telur að sé sama jörð og sýslumaður og prestur kalla Grund.
Í fasteignamatinu 1916-1918 eru Árvellir og Grund taldar með Esjubergi.
Í opinberri Skrá um friðlýstar fornleifar frá 1990 segir um framangreindar kirkjuminjar að Esjubergi: „Esjuberg. I) Kirkjugrunnur forn, skamt austur frá bænum
. Sbr. Árb. 1902: 33-35. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 17.11.1938. II).“
Einnig er tiltekin „Grjótdys, sem kölluð hefur verið Dyngja, við gamla reiðveginn, á mel 2 km austur frá bænum. Skjal undirritað af KE 28.07.1964. Þinglýst 04.08.1964.“ [Þá dys segir SG hafa verið eyðilagða 1981, líkt og að framan greinir].
Gísli upplýsti í samtalinu að framangreind Dyngja hefði verið mokað í burtu á örskotsstund þegar byrjað var að nota malarnámusvæðið austan við Leiðhamra við norðanverðan Kollafjörð. Hann vissi ekki til þess að nokkur maður, hvað þá stofnun, hefði æmt eða skræmt vegna þessa.
Örnefnalýsingarnar af Esjubergi gáfu von um hugsanlega lausn að aldagamalli gátu, þ.e. hvar hin fyrsta kirkja hér á landi var reist.

Malartökusvæðið ofan við Leiðhamra - gamla þjóðleiðin sést til hægri

Svæðið umhverfis Bænhúsahól hefur verið rannsakað (GÓ 1981), en svo virðist sem ekkert hafi verið litið á Kirkjuflöt ofan Leiðhamra. Þar á loftmynd er að sjá gamla tóft. Þá staðfesta bræðurnir Árni og Gísli Snorrasynir frá Esjubergi tilvist Grundar, er mun hafa farið undir skriðu um 1830. Við hana sjást enn minjaleifar, auk þess sem Grundarhóll (41) staðfærir fyrrum bæjarstæðið nokkuð örugglega. Leiðinlegast er þó að Dyngjunni, gamalli vegdys á friðlýsingarskránni, var raskað með einu vélskóflutaki, án þess að nokkur æmti né skræmti, hvorki fólk né tilheyrandi stofnun (sjá athugasemdir við örnefnalýsinguna). Dæmigert – jafnvel nú á dögum.
Í grein Brynjúlfs Jónssonar í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1902 er rakin frásögnin í 12. kafla Landnámu. Þá segir: „Í túninu á Esjubergi, austur frá bænum er rúst, sem frá ómunatíð hefur verið kölluð kirkjutóft eða stundum bænhústóft. Og girðing sem, sem er áföst við hana, er kölluð kirkjugarður. Rústin snýr frá austri til vesturs, nál. 4 fðm. löng og nær 3 fðm. breið. Hornin eru hér um bil rétt. Utantil er hleðsla, eigi mjög aflöguð; enda er hæðin aðeins tvö steinalög, eð sumstaðar þrjú, hvert ofan á öðru. Grjótið er hnöllungagrjót, en þó eigi mjög hnöttótt og sumt er með nokkrum köntum.
Að ofan er rústin ávöl af grjóti. Lítur út fyrir, að ofan á hana hafi verið kastað lausum steinum, annaðhvort sem fallið hafi úr henni sjálfri – Grjóthraukur í gerðinuhafi hún verið hærri, – eða sem skriðuhlaup hefði kastað þangað. Eigi haggaði eg við rústinni, er eg skoðaði hana í voru (1901). Var það bæði, að þá var annríkt hjá mönnum og verkamenn óhægt að fá, enda ilt að gjörða vegna rigninga. Þóttist eg sjá, að það mundi mikið verk, en ósýnt um árangur. Þó lét eg grafa með öllum vesturgaflinum, í þeirri von, að þar sæi merki dyra. En þeirra sást enginn vottur. Undirstaðan sýndist óhögguð yfir um þvert og lá á skriðugrjóti – sem þar er alstaðar undir jarðvegi… eins og rústin kom mér fyrir sjónir, gat eg varla talið hana líklega til að vera hústóft. Hitt gæti verið, að hér hefði verið hærri bygging; hústóft, nfl. staðið ofan á því sem nú er eftir. Þó leizt mér svo á brúnir rústarinnar að þær mundu ójafnari en þær eru, ef ofan á þeim hefði verið hærri hleðsla, sem hefði fallið. Eg hefi síðan hugsað um þetta, og hefir nú komið í hug, að rústin muni vera upphækkun eða „grunnur“ undan kirkjunni Örlygs, og hafi hún verið gjör af viði einum, – eins og t.a.m. skáli Gunnars á Hlíðarenda…
Girðingin, sem kölluð er kirkjugarður, er fyrir austan rústina; er austurgafl hennar áfastur suðvesturhorn girðingarinnar. Hún er 11 faðma breið frá austri til vesturs, og 12 fðm. löng frá norðri til suðurs. Sér glögt til hennar öllum megin; hefir þó skriða runnið fram á norðurvegg hennar. Framhald af honum gengur vestur á móts við kirkjutóftina og verður þar smá-girðing við norðurgafl tóftarinnar, 4 fðm. frá austri til vesturs og 6 fðm. frá norðri til suðurs, en gengur að sér vestantil…“.
Uppkast úr gerði austan EsjubergsGuðmundur Ólafsson gróf í þessa tóft, eins og fram hefur komið. Þegar hann var spurður um niðurstöður rannsóknarinnar svaraði hann eftirfarandi: „
Ég byrjaði á smá rannsókn þarna árið 1981. Tilefnið var ósk um rannsókn frá kirkjunnar mönnum í tilefni af því að þá var kristniboðsár. Ég flaug líka yfir svæðið og tók myndir. Rannsóknarsvæðið var í skriðum nokkru austan við bæinn, þar sem talið var að væru leifar kirkjunnar. Fljótlega kom í ljós að rústirnar voru mun yngri en frá landnámsöld, þannig að þetta gátu ekki verið leifar af Kirkju Örlygs.  Steinhleðslurnar sem sagðar voru vera leifar kirkjunnar voru að öllum líkindum frá 16. eða 17. öld.  Nokkru neðar voru mannvistarlög sem bentu til eldri byggðar, eða allt frá 11. – 12. öld, en það voru leifar sem bentu frekar til íveruhúsa en kirkju (móöskudreif og viðarkolaaska). Það var líka augljóst að skriður höfðu farið yfir allt þetta svæði og að það yrði afar erfitt að finna og grafa upp frekari minjar á þessu svæði. Þá var líka ljóst að rústin væri ekki leifar af  kirkju Örlygs og að hennar yrði að leita annars staðar. Rannsókn var því hætt.“
Af ummerkjum á vettvangi að dæma er ljóst að hver skriðan á eftir annarri hefur hlaupið yfir það úr Gljúfurdal. Eldri minjar eru og verða því grafnar undir þeim yngri. Líklegt er því að niðurstaða Guðmundar sé skynsamleg, auk þess sem hún er byggð á rannsóknum.
Tóft norðan gerðisinsÞegar FERLIR gekk um svæðið „austan“ Esjubergs með hliðsjón af lofmyndum af svæðinu virtist áhugaverðasta svæðið samt sem áður vera órannsakað. Hafa ber í huga að munnmæli sögðu kirkjutóftina vera austan við bæinn og jafnan var bent á líklegustu staðsetningu hennar m.v. eðlilegt sjónarhorn frá bænum. Ekki er vitað hversu glöggar upplýsingar seinni tíma ábúendur höfðu fengið frá fyrri ábúendum um nákvæma staðsetningu tóftarinnar og annarra örnefna eða hvort einhverju sinni hefði einhver giskað á hana að þeim óvörðuspurðum, líkt og dæmi eru um. Hafa ber í huga að í lýsingum er gjarnan notuð önnur viðmið en eiginlegar höfuðáttir. Var t.d. gjarnan miðað við útnorður á Reykjanesskaganum, þ.e. beint út á sjó. Ef tekið er mið af því ætti „austur“ af bænum Esjubergi að vísa á fyrrnefnt svæði. Þegar gengið var um það mátti vel sjá að „grundvöllurinn“ lá lægra en landið umhverfis.

Esjuberg um 1900

Óljóst mótaði fyrir leifum af hlöðnum veggjum, ferningslaga. Beygur fylgdi göngunni yfir reitinn. Upphleyingar voru á stöku stað – og niðurgróningar á öðrum. Hlaðnir grjóthraukar voru auk þess á stangli, mögulega uppsöfnun úr gröfum. Hvorutveggja bentu því til gamalla grafstæða. Norðan garðsins var forn tóft með vestur/austur legu. Við austurenda hennar var þvertóft er gæti gefið heykuml til kynna. Samt sem áður kom vöknuðu efasemdir um að þarna hafi verið fjárhús. Þau voru einfaldlega ekki með þessu lagi fyrrum og auk þess samræmdist byggingarlagið ekki slíkum mannvirkjum frá seinni tíð. Það virtist líkara skálum þeim er reistir voru til forna.
Jarðirnar Grund og Árvellir fóru í eyði eftir skriðuföll 2. september árið 1886. Þá urðu 9 jarðir á Kjalarnesi fyrir stórskemmdum.
Ákveðið var að freysta ekki uppgöngu í Búahelli að svo komnu máli. Slíkt þrekvirki krefst mun meiri undirbúnings – og áræðis.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Landnáma (Sturlubók), 12. kafli.
-Kjalnesingasaga, 2. kafli.
-Árni Snorrason.
-Gísli Snorrason.
-Páll Eggert Ólason.
-Fasteignamat.
-Skrá um friðlýstar fornleifar 1990.
-Ari Gíslason – Örnefnastofnun Íslands – Esjuberg.
-Kjalnesingar – frá 1890, 1998.

Garður í túninu Esjubergi