Færslur

Vogsósar

Á Vogsósum í Selvogi er merkilegur steinn í túninu.
Þótt steinninn láti ekki mikið yfir sér, er reyndar Eggert-551nánast jarðlægur og lækist jafnan fyrir slátturvélum, hefur Þórarinn Snorrason, bóndi gætt hans vandlega. Segja má að steinn þessi hafi verið minnisvarði um séra Eggert Sigfússon, síðasta prestsins á Vogsósum. Séra Eggert Sigfússon fæddist 22. júní 1840 og lést 12. október 1908, einmitt við þennan stein í túninu. Mun prestur hafa verið að koma úr messu í Krýsuvík þegar hann veiktist á leiðinni heim og dó þarna við steininn.
Í Tímanum 1988 er fjallað um séra Eggert. Fyrirsögnin er “Lómar og skúmar”, en Eggert “þótti  undarlegasti maður landsins um sína daga”. Í Vogsósum skildu menn ekki þankagang þessa óvenjulega manns, sem álasaði mönnum fyrir að hugsa ekki um annað en „gemlinga
og grút.”
“En það er gömul saga að snillingseðlið getur tekið á sig margvíslegar myndir og í stað þess að vera hampað sem afbragðsmönnum samtíðarinnar, kunna menn að lenda á einhvern hátt utan vegar og verða fyrst og fremst taldir til furðufugla. Þau urðu örlög þess manns sem hér mun greint frá – hins sérkennilega prests, Eggerts Sigfússonar í Vogsósum í Selvogi. Hann þótti með afbrigðum kynlegur, en þegar við lesum sumar þeirra sagna sem af honum gengu, læðist að okkur sá grunur að það sem haldið var flónska og sérviska, hafi verið á einhvern hátt afbragðslegs eðlis, að þarna hafi verið á ferðinni spekingur, sem samtímamönnum tókst aðeins ekki að botna í.
Á Eyrarbakka var Eggert fæddur hinn 22. júní 1840. Faðir hans, Sigfús „snikkafi” Guðmundsson, var hagleiksmaður hinn mesti og alkunnur kirkjusmiður, greindur vel og vandaðasti maður í öllu dagfari.
Hann veitti snemma athygli gáfum og námslöngun sonarins og ákvað Fornagata-601að senda hann til mennta. Gekk Eggert inn í Latínuskólann nýja í Reykjavík 15 ára gamall og lauk prófi á tilskildum tíma og stúdentsprófi frá Prestaskólanum tveimur árum seinna.
Ekki lét hann þó vígjast að sinni, heldur fékkst við barnakennslu á ýmsum stöðum næstu sex árin, bæði norðanlands og sunnan. En þá hugsaði hann sér til næðisamara lífs og óskaði vígslu af Pétri biskupi Péturssyni og hana hlaut hann 29. ágúst 1869. Fyrst gerðist hann prestur hjá Húnvetningum að Hofi á Skagaströnd og gegndi þar í þrjú ár. Þá flutti hann að Klausturhólum í Grímsnesi og urðu þjónustuárin tólf á þeim stað. Loks árið 1884 tók hann svo við Selvogi og Krýsuvík, er í þá daga var sérstakt prestakall, og hafðist þar við til dauðadags. Bjó hann í Vogsósum í Selvogi og hefur ætíð verið kenndur við þann stað.
Þessum skrýtna presti var svo lýst að hann hefði verið með hæstu mönnum vexti, en ákaflega grannur og krangalegur. Höfuðið var mjög lítið og augun þar eftir smá, en sakleysislega skær og tindrandi. Bar og öllum saman um sem þekktu hann að hann hefði verið hrekklaus eins og dúfa og aldrei gert flugu mein. En hafði fastar skoðanir á ýmum málum og þá ekki síst sumum af kennisetningum kirkjunnar, en þær hafði hann að engu þegar honum bauð svo við að horfa og hann taldi annað skynsamlegra. „Þegar ég skíri barn, gef saman hjón eða jarða framliðna, dettur mér ekki annað í hug en að sleppa öllum bölvuðum bjánaskap úr handbókinni.

Eggert-602

Eða hvað er það annað en bjánaskapur, þetta, sem ætlast er til að lesið sé yfir brúðinni: „Með sótt skaltu börn þín fæða.” Þarf að segja nokkurri heilvita konu það að hún muni verða eitthvað lasin um það leyti, sem hún elur barn? Og til hvers er þá að hryggja hana með því að minna hana á þetta á mesta hátíðisdegi ævinnar? Þér megið kalla þetta hvað sem þér viljið, en ég kalla það bjánaskap. Og hvað þýðir að segja næturgömlu barni að það sé getið í synd eða dauðum manni að hann eigi að verða að mold? En svona eru margar fyrirskipanir kirkjunnar og ég ansa þeim ekki.”
Þar sem Eggert sté ekki á bak hestum varð hann að fara allra sinna ferða um sóknir sínar fótgangandi, hvernig sem viðraði. Voru þá oft lækir á vegi hans illir yfirferðar, en hann hafði mikla óbeit á því að vökna. Lagði hann nú höfuðið í bleyti og dó ekki ráðalaus. Lét hann gera sér stóran skinnsokk, klofháan, en þó einungis á annan fótinn. Hafði honum reiknast svo til að einn skinnsokkur mundi nægja, eins og lækjum var háttað við vanalegar aðstæður í prestakallinu. Sté hann út í lækina með þeim fætinum er sokkurinn var á og teygði síðan hinn fótinn upp á bakkann hinum megin. Náði hann með tímanum slíkri leikni í þessari íþrótt að orð var á gert. Skildi hann skinnsokkinn aldrei eftir, þyrfti hann að bregða sér að heiman.
Vogsos-65Eftir að séra Eggert gerðist prestur í Vogsósum hófst mótlæti hans að marki. Hann var þar kominn meðal manna sem höfðu lítinn skilning á hinu sérstæða gáfnafari hans. En þetta mótlæti var skki síst runnið af þvf hve hann var hárnæmur á eðlisfar sóknarbarna sinna og hvers konar óheilindi, tilgerð og hroki var eitur í hans beinum. Þá menn er hann taldi sérstaklega búna slíkum eiginleikum nefndi hann aldrei annað en skúma, en þá aðra sem voru hjartahreinir og lítillátir kallaði hann lóma. Þessum tveimur manntegundum hélt hann vandlega aðgreindum og beitti tegundarheitum þeirra umsvifalaust í allra áheyrn og hvort sem mönnum þótt betur eða verr. Þetta hispursleysi aflaði honum lítilla vinsælda meðal skúmanna, en hann kippti sér ekki upp við það. „Mér er alveg sama hvað um mig er sagt lífs og liðinn,” varð honum að orði. Ef ég gæti þess að stíga ekki á hestbak, þá dey ég ekki af því að detta af baki.

Vogsos-66

Þannig verð ég heldur ekki með réttu sakfelldur, ef ég gæti þess að gefa engan höggstað á mér með breytni minni.”
Fjölmörg bréf eru til með hendi séra Eggerts, sem sýna hve fyrirlitning hans á skúmunum stóð föstum rótum. Í einu bréfanna er þessi klausa: “Ég kom beint úr Þorlákshöfn í dag um sólarlag að Strönd. Sigurður var heima. Selvogshreppstjórinn var þar staddur og sagði mér að Þ… væri búinn að bera Gr… út í annað skipti. Hér er dæmi þess á hve háu stigi réttlætiskennd skúmanna stendur. Hvar sem maður er eða fer í veröldinni, þá held ég að naumast sjái í heiðan himininn fyrir þessum bölvuðum skúmum! Ég vildi óska að allar veraldarinnar manneskjur væru orðnar að lómum. Þá þyrfti maður ekki að eiga við annað eins „jastur” og þetta. Takk fyrir síðast.”
Selvogur-559Í öðru bréfi til Jóns kaupmanns Árnasonar í Þorlákshöfn kemst séra Eggert svo að orði: „Hér kom skúmur og tilkynnti mér sem hreppsnefndarmanni að hann ætti barn í vonum. Þetta kalla ég þunnar trakteringar og þess vegna bið ég þig að láta mig hafa á meðfylgjandi 8 potta kút, svo ég geti hresst mig á þessum skúmalegu vandræðum!”
Eggert sá líka kvenfólk á meðal skúmanna og ein þeirra var frúin í Hlíð, en af henni er þessi frásögn í bréfi frá Eggert til sálmaskáldsins sr. Valdemars Briem: „Frúin í Hlíð!
Það er nú frú í lagi. Kötturinn í Vogsósum skrapp upp að Hlíð um daginn að fá sér kött, en veistu hvað frúin gerði? Hún tók köttinn og drekkti honum í Hlíðarvatni. Tarna er ljóta „frúin”.
Selvogur-558Svo alvarlega tók klerkurinn í Vogsósum þessa skiptingu á mönnum að hann skráði þá vandlega er á prestssetrið komu sem lóma eða skúma, sbr. eftirfarandi skrá, sem varðveist hefur: “Skúmar” aðkomir að Vogsósum anno 1887: Janúar 25. febrúar 92, mars 4, apríl 6, maí 43, júní 62… .=232 Júlí 75, ágúst 5, sept. 91, október 65, nóvember 14, desember 1… =257. SKÚMAR ALLS: =489 „Lómar” aðkomnir að Vogsósum anno 1887: Janúar 1, febrúar 1, mars 0, apríl 1, maí 0, júní 0 … =3 Júlí 3, ágúst 3, september 5, október 2, nóvember 0, desember 0… =13. LÓMAR ALLS: =16.
Greinilega hefur flokkur skúmanna því verið heldur betur öflugri að áliti Eggert en hinna blessuðu lóma.
Ekki er lengra frá dauða séra Eggerts en svo að enn í dag er nær efalaust til – að vísu mjög aldrað – Selvogur-560fólk sem man hann sem börn, en hann lést 1908. Hér hefur mest verið gert úr því sem sérkennilegast þótti við hann en minna drepið á ágæta eiginleika hans. Hann tók sannleika og einlægni fram yfir allt annað og predikari var hann ágætur, enda þótt ræður hans stæðu sjaldnast lengur en sjö til fimm mínútur. Þá var hjálpsemi hans við bágstadda við brugðið og vandaðri mann og skilríkari getur ekki. Svik fundust ekki í hans munni. Á sama hátt virti hann sér til fánýtis og trafala hverja þá fjármuni sem tóku til annars en brýnustu nauðþurftar og byðu fátækir menn honum greiðslu fyrir unnin embættisverk, hafnaði hann henni jafnan jafnan með einu viðkvæði: „Þú mátt ekki missa þetta. Ég á nóg.”
Á efri árum hans gekk sá spádómur um sóknir hans að heimsendir væri í nánd. Höfðu margir af því þungar áhyggjur og þar á meðal var ungur drengur sem bar sig illa. Reyndi prestur að hughreysta hann og mælti: „Nei, barnið gott, almættið hefur ekki neinn heimsendi í huga og þú þarft ekki að óttast hann í bráð. En komi heimsendir seinna, verða það mennirnir sem hrinda honum af stað.” Hvort spegluðu þessi orð klerksins lífsreynslu hans eða sá hann svo miklu lengra en þeir menn sem festu sér ummælin í minni, vegna þess hve fjarstæðukennd þau þá virtust – fyrir rúmum 80 árum.
Það var hinn 12. október 1908 í gráu og hráslagalegu haustveðri að Vogsósapresturinn var að koma frá messu í Krýsuvík – gangandi að vanda. Hann var kominn að túngarði í Vogsósum, þegar vinnumaður á bænum sá hvar hann greip sér um hjartastað og féll niður. Hann kom að honum örendum, þar sem hann lá á grúfu í sölnuðu grasinu [við lítinn stein] og hélt dauðahaldi um lítinn böggul, sem vinnumaðurinn vissi að geymdi snjáða prestshempu hans. Þar með var lokið ævi síðasta prestsins sem sat í Vogsósum – og vafalaust hins undarlegasta þeirra allra um leið.”

Heimild:
-Tíminn, 14. maí 1988, bls. 11-13.

Vogsósar

Vogsósar.