Tag Archive for: eignarnám

Krýsuvík

Fyrir þá, sem eru lítið fyrir lestur, er ágætt að byrja á því að lesa niðurlag þessarar umfjöllunar. Við það gæti áhuginn á frekari lestri kviknað. Ekki eru hafðar myndir með textanum svo þær dragi ekki athyglina frá innihaldinu.

Þann 18. júní 1999 kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í máli Hafnarfjarðarbæjar gegn íslenska ríkinu. Efnislega krafa málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur var að krefjast afsals fyrir landi því sem Hafnarfjarðarbær fékk vegna eignarnáms jarðarinnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ sem og öllum hlunnindum sem jörðunum fylgja. Undanskilið er það land sem þegar hafði verið afsalað með afsalsbréfi til Hafnarfjarðar af ríkinu og var útgefið 20. febrúar 1941, en það land er nú innan lögsögu Hafnarfjarðar, þ.e. landið sunnan Kleifarvatns utan nefndra jarða.
Með lögum nr. 11/1936 var ríkinu heimilað að taka nefndar jarðir eignarnámi og skyldi afhenda sveitarfélaginu Hafnarfirði afnotarétt jarðanna þannig að það fengi þörf fyrir hita, ræktun og sumarbeit fullnægt. Gullbringusýslu skyldi afhenda lítt ræktanlegt beitiland jarðanna sem afréttarland fyrir sauðfé.
Með lögum nr. 101/1940 var kveðið svo á, að Gullbringusýsla skyldi fá lítt ræktanlegt beitiland jarðanna í samræmi við skiptagerð, sem gerð hafði verið á árinu 1939 samkvæmt fyrirmælum framangreindra laga, en Hafnarfjörðir skyldi fá jarðirnar að öðru leyti.
Hafnarfjörður taldi sig aðeins hafa fengið hluta þess landssvæðis sem hann hefði átt rétt á samkvæmt þessu. Talið var að megintilgangur laganna frá 1940 hefði verið sá að afla ríkinu lögformlegrar heimildar til að afsala Hafnarfirði beinum eignarrétti að því landsvæði, sem því hefði verið markað í skiptagerðinni. Framganga Hafnarfjarðar í tengslum við afsalsgerðina og eftirfarandi aðgerðarleysi þess um árabil gæfi ótvírætt tl kynna, að það hefði verið ásátt við að tilgangi laganna hefði á þeim tíma verið fullnægt. Var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að hafna kröfum Hafnarfjarðar gegn ríkinu.

Í rauninni er framangrein niðurstaða mun merkilegri en í fyrstu mætti ætla.

Í dómi Hérðasdóms koma fram sögulegar staðreyndir er varða undanfara eignarnámsins. Á árinu 1935 flutti Emil Jónsson, þáverandi alþingismaður Hafnarfjarðarkaupstaðar, frumvarp til laga „um eignarheimild á nokkrum löndum og á afnotarétti landsvæða í Hafnarfirði, Garðahreppi og Grindarvíkurhreppi og um stækkun lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar“, eins og í yfirkskrift frumvarpsins segir. Frumvarpið varð að lögum nr. 11/1936. Í 4. tl. 1. gr. laganna er ríkisstjórninni veitt heimild til að taka eignarnámi jarðirnar Krýsuvík (í lögunum segir Krísuvík) og Stóra-Nýjabæ í Grindavíkurhreppi.

Í greinargerð sem frumvarpinu fylgdi segir, að á árinu 1933 hafi verið lögð fram 3 frumvörp, sem öll hafi hnigið til sömu áttar og miðast við það, að bæta úr brýnni og aðkallandi þörf Hafnarfjarðarkaupstaðar á ræktanlegu landi. Ástæður hafi í engu verulegu breyst frá þeim tíma. Áhugi fyrir aukinni ræktun sé mikill og almennur í Hafnarfirði, en landið sé lítið nærtækt, nema hraun sem sé óræktanlegt með öllu. Í niðurlagi greinargerðar með frumvarpinu segir svo: „Enn er það nýmæli í þessu fr., að Krísuvík í Grindavíkurhreppi og Stóri-Nýjibær verð tekinn með. Er það gert með tilliti til þess, að þar eru einu jarðhitasvæðin í nágrenni Hafnarfjarðar. Hafa kaupstaðarbúar mikinn hug á að tryggja sér þau og notfæra á ýmsa lund síðar. Jarðir þessar eru nú lausar út ábúð og í eyði, svo tíminn yrði aldrei betur valinn en einmitt nú.“

Í 1. mgr. 2. gr. laganna frá 1936 segir, að eignarnámsbætur til eiganda jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar skulu metnar af gerðardómi þriggja manna og mælt fyrir um það, hverjir skuli skipa þá til setu í gerðardóminum.

Gerðardómurinn skilaði niðurstöðu, sem dagsett er 4. nóvember 1936. Þar er tekin afstaða til verðmætis ýmissa kosta og hlunninda jarðarinnar í 10 liðum og verður hér á eftir gerð grein fyrir niðurstöðu gerðardómsins um hvern einstakan þátt.

Í I. kafla er húsakostur jarðanna beggja verðmetinn og komist að þeirri niðurstöðu, að þar í liggi engin verðmæti.

Í II. kafla dómsins er fjallað um ræktað og ræktanlegt land og sá hluti landsins metinn á kr. 10.000, án þess að landsvæðið sé afmarkað með nokkrum hætti.

Í III. kafla gerðardómsins eru vötn og tjarnir jarðanna verðmetnar og komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé þar eftir neinu að slægjast að undanskildu Kleifarvatni. Í niðurlagi kaflans segir svo um Kleifarvatn: „En vitanlega er með öllu ómögulegt að gera sér nokkra grein fyrir því, hversu mikið vatnið kynni að auka verðmæti landsins, en eitthvert tillit virðist þó verða að taka til þess, er heildarverð landsins er ákveðið.“

Í IV. kafla eru námuréttindi jarðarinnar verðmetin. Þar er einkum fjallað um möguleika á nýtingu brennisteinsnáma, en brennistein hafði áður verið unninn þar úr jörðu. Í niðurlagi kaflans segir: „Eftir því sem fyrir liggur, virðist því ekki unnt að meta námur þessar til neinnar verulegrar hækkunar á landi jarðanna. En vera má, að þær skipti einhverju máli í sambandi við iðnað þar á staðnum, vinnslu leirs eða annara efna. Námuréttindi í landinu teljum við því að meta mætti á kr. 2000-tvöþúsund-krónur.“

Næsti kafli varðar Krýsuvíkurbjarg. Þar er nýtingarmöguleikum lýst og komist að þeirri niðurstöðu, að bjargið sé nokkur þáttur í verði jarðanna, eins og það er orðað í dóminum. Matsverð þessa þáttar nam kr. 4.000.

Í VI. kafla er jarðhiti jarðanna metinn til verðs. Þar eru raktir ýmsir nýtingarkostir og komist að þeirri niðurstöðu, að verðmæti jarðhita á allri Krýsuvíkurtorfunni sé kr. 30.000.

Óræktanlegt land er metið til verðs í VII. kafla gerðardómsins og lýst kostum þess sem afréttarlands til sauðfjárbeitar. Svo virðist sem gerðardómsmenn sjái ekki að hafa megi önnur not af landinu en til beitar og verðmat gerðardómsins miðist við þau afnot. Í niðurlagi kaflans segir, að óræktanlegt eða lítt ræktanlegt land megi áætla 5.000 kr. virði.

Í VIII. og IX. kafla dómsins er greint frá ítökum, bæði umræddra jarða í annarra manna löndum og eins ítökum annarra í landi jarðanna tveggja, Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar. Í X. kafla eru önnur hlunnindi jarðanna metinn. Það var álit gerðardómsins að þeir hagsmunir, sem lýst er í þremur síðustu köflum hans, væru svo óverulegir, að þeir hefðu engin áhrif á heildarmatsverð jarðanna.

Heildarmatsverð jarðarinnar með gögnum öllum og gæðum nam þannig kr. 51.000.

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, sem haldinn var 17. nóvember 1936 var fjallað um niðurstöðu gerðardómsins og möguleg kaup bæjarfélagsins á jörðunum tveimur. Lagt var til að bjóða ríkissjóði að kaupa helming hitaréttinda jarðanna, en gengi það ekki eftir myndi bæjarfélagið kaupa jarðirnar með öllum gögnum og gæðum fyrir matsverð. Þetta var kynnt í bréfi bæjarstjóra Hafnarfjarðar til þáverandi forsætisráðherra, sem dags. er 18. nóvember s.á. og áréttað í símskeyti 24. sama mánaðar. Tilmælum bæjarstjóra virðist hafa verið svarað með bréfi dags. 3. desember s.á. en það svarbréf liggur ekki fyrir en þetta má ráða af framlögðu bréfi bæjarstjóra til atvinnu- og samgöngumálaráðuneytisins dags. 10. desember s.á. Í því bréfi leggur bæjarstjóri til, að kaupverð jarðanna verði greitt með tilteknum hætti, sem þar er nánar lýst. Í niðurlagi bréfsins segir svo: „Ef upphæðin, mót von minni, skyldi reynast of lág, geri jeg ráð fyrir að hana mætti auka nokkuð. Þetta vænti jeg að hið háa ráðuneyti láti nægja til þess að eignarnámið geti farið fram.“

Íslenska ríkið eignaðist jarðirnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ með afsali dags. 4. maí 1937. Í afsalinu kemur fram, að ríkissjóður hafi greitt eignarnámsþola (Einari Benediktssyni) „matsverð hinna eignarnumdu jarðeigna, sem með matsgjörð, framkvæmdri 4. nóvember 1936 samkvæmt ákvæðum niðurlags 2. gr. fyrgreindra laga, var ákveðið samtals kr. 51.000- fimmtíu og eitt þúsund kr, að frádregnum þeim kr. 2000.00- tvö þúsund-kr., sem téð námuréttindi eru metin í nefndri matsgjörð…..“ eins og þar segir.

Ekkert virðist síðan hafa verið hreyft við málinu þar til á árinu 1939 en þá var þeim mönnum, sem skipuðu gerðardóminn frá 1936, falið að ákveða landamerki milli ræktanlegs og óræktanlegs lands Krýsuvíkurtorfunnar, að beiðni þáverandi ríkisstjórnar, bæjarstjórans í Hafnarfirði og sýslumanns Gullbringusýslu. Hinn 1. maí 1939 var ákvörðun tekin á fundi gerðardómsmanna, sýslumanns Gullbringusýslu og bæjarstjórans í Hafnarfirði, um stærð ræktaðs og ræktanlegs land, sem tilheyra skyldi Hafnarfjarðarkaupstað og það afmarkað á sama kort og gerðardómurinn hafði áður notað. Fram kemur, að fulltrúar Gullbringusýslu og Hafnarfjarðarkaupstaðar hafi eftir atvikum fallist á ákvörðun gerðardómsmanna og undirrita þeir hana athugasemdalaust. Afmörkun landsvæðisins er sú sama og lýst er í kröfugerð stefnanda undir A lið.

Þáverandi sýslumaður Bergur Jónsson, f.h. Gullbringusýslu, fór þess á leit við atvinnu- og samgönguráðuneytið í bréfi dags. 6. júní 1939 að fá keypt til eignar þann hluta Krýsuvíkurtorfunnar, sem félli utan þess svæðis, sem Hafnarfjarðarkaupstað hafði verið ákvarðað fyrir kr. 5.000, sem svaraði til matsverðs. Með bréfi dags. 23. júní s.á. til sama ráðuneytis var þess óskað af hálfu bæjarstjórans í Hafnarfirði, Friðjóns Skarphéðinssonar, „að hið háa ráðuneyti gefi Hafnarfjarðarbæ afsal fyrir því landi jarðanna, sem gerðardómurinn hefur afmarkað, svo og öllum jarðhitanum“. Þessi tilmæli áréttaði bæjarstjórinn með bréfi dags. 29. september s.á.

Með lögum nr. 101/1940 er lögum nr. 11/1936 breytt. Í 1. mgr. 1. gr. laganna, sem raunar eru aðeins ein lagagrein, segir svo: „Jarðir þær, sem um getur í 4. tölul. 1. gr. skal afhenda Hafnarfjarðarkaupstað og Gullbringusýslu þannig, að sýslan fái í sinn hlut lítt ræktanlegt beitarland jarðanna til sumarbeitar fyrir sauðfé, samkvæmt skiptagerð, sem framkvæmt var af hinni þar til kjörnu matsnefnd, sbr. niðurlag þessarar greinar, 1. maí 1939, en Hafnarfjarðarkaupstaður fái jarðirnar að öðru leyti með öllum gögnum og hlunnindum, sem jörðunum fylgja og fylgja ber að undanteknum námuréttindum.“

Í greinargerð, sem fylgdi frumvarpi til þessara laga kemur fram, að eldri lögin frá 1936 hafi þótt svo óljós, að landbúnaðarráðherra hafi ekki talið sig geta framkvæmt landskiptin, samkvæmt tillögu matsnefndar (gerðardómsins). Af hálfu Emils Jónssonar, flutningsmanns frumvarpsins, kemur fram, að lagafrumvarpið sé lagt fram að ósk bæjarstjórans í Hafnarfirði, til að „taka fram skýrar en áður var það, sem ég tel, að samkomulag hafi verið um þegar lögin á sínum tíma voru sett.“ Með bréfi dags. 21. maí 1940 til atvinnumálaráðuneytisins ítrekaði Friðjón Skarphéðinsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, fyrri tilmæli sín með vísan til þeirra tveggja bréfa, sem áður er getið. Þar er þess óskað að ráðuneytið „láti Hafnarfjarðarbæ í tje afsal fyrir Krísuvíkurlandi samkv. lögum nr. 11, 1. febr. 1936, og samkv. lögum um breytingu á þeim lögum frá síðasta Alþingi, sem væntanlega hafa þegar hlotið staðfestingu“, eins og í bréfi hans segir.

Með afsali dags. 20. febrúar 1941 afsalaði landbúnaðarráðherra til Hafnarfjarðarkaupstaðar til eignar og umráða landsvæði því, sem nú er í eigu kaupstaðarins og er landamerkjum lýst með sama hætti og fram kemur í kröfugerð stefnanda undir A lið og áður er vikið að. Að auki er öllum hitaréttindum afsalað til kaupstaðarins á allri Krýsuvíkurtorfunni og aðstöðu til hagnýtingar þeirra. Í afsalinu kemur fram, að Hafnarfjarðarkaupstaður skuli hafa afnot af Kleifarvatni, svo og allan veiðirétt í vatninu, en óheimilt sé að setja girðingu meðfram vatninu, nema fyrir eigin landi. Þar segir ennfremur: „Öll námuréttindi eru undanskilin í afsali þessu og geymist eiganda þeirra óhindraður umferðar- og afnotaréttur af hinu afmarkaða svæði Hafnarfjarðarkaupstaðar, eftir þörfum.“ Þá er getið um það í afsalinu, að Hafnarfjarðarkaupstaður hafi greitt að fullu andvirði landsins kr. 44.000, að viðbættum áföllnum kostnaði kr. 6.813.10 og lýst nánar með hvaða hætti greiðslan var innt af hendi. Í upphafsorðum afsalsins segir svo: „Samkvæmt lögum nr. 101,14 maí 1940, sbr. lög nr. 11, 1. febrúar 1936, afsala ég hér með f.h. ríkissjóðs til bæjarstjórnar Hafnarfjarðar vegna Hafnarfjarðarkaupstaðar til eignar og umráða landi úr jörðunum Krísuvík og Stóra-Nýjabæ (Krísuvíkurtorfunni)…..“ Neðanmáls í afsalinu er ritað: Samþykkur f.h. Hafnafjarðarkaupstaðar þt. Rvk 24/2 ´41 Friðjón Skarphéðinsson. Undirritun hans er vottuð af tveimur vottum.

Með afsali dags. 29. september s.á. afsalaði landbúnaðarráðherra til Gullbringusýslu „öllu lítt ræktanlegu beitilandi jarðanna Krísuvíkur og Stóra-Nýjabæjar (Krísuvíkurtorfunnar) í Grindavíkurhreppi í Gullbringusýslu, til sumarbeitar fyrir sauðfé og er þá jafnframt undanskilið úr jörðum þessum það land, sem með afsalsbréfi ráðuneytisins, dags. 20. febrúar 1941, hefur verið afsalað Hafnarfjarðarkaupstað…“ Einnig er í afsalinu sölu hitaréttinda til Hafnarfjarðarkaupstaðar getið og afnotaréttar kaupstaðarins að Kleifarvatni. Þá kemur fram í afsalinu að andvirði landsins kr. 5.000 að viðbættum kostnaði kr. 961,86 sé að fullu greitt.

Á sjöunda áratug aldarinnar reis ágreiningur um norðurmörk Krýsuvíkurlands og suðurmörk Hafnarfjarðarbæjar, sem lauk með dómi landamerkjadóms Gullbringu- og Kjósarsýslu uppkveðnum 14. desember 1971 í máli nr. 329/1964. Sóknaraðilar málsins voru Jarðeignadeild ríkisins og Gullbringusýsla, en Hafnarfjarðarbær var varnarmegin. Í upphafi dómsins segir: „Sýslusjóður Gullbringusýslu er aðili að máli þessu sem eigandi beitiréttar á öllu útlandi Krísuvíkur, sem ekki er eign Hafnarfjarðarkaupstaðar, og hinn reglulegi dómari, þá Björn Sveinbjörnsson, settur sýslumaður, er oddviti sýslunefndar Gullbringusýslu. Hefur hann því vikið sæti…….“. Í dóminum er hvergi að finna vísbendingu um það, að Hafnarfjarðarbær hafi þá talið sig eiga tilkall til eignarréttar að landsvæði því, sem beitarréttur Gullbringusýslu nær til.

Á árinu 1981 óskaði þáverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar eftir upplýsingum hjá landbúnaðarráðuneytinu um eignarnám það, sem átt hafði sér stað á grundvelli laganna frá 1936 og 1940. Af gögnum málsins má ráða, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafi allt frá árinu 1982 gert kröfu til eignarréttar yfir þeim hluta Krýsuvíkurlands, sem Gullbringusýslu var veitt beitarafnot af með afsalinu frá 29. september 1941.

Lögin nr. 11/1936 eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 101/1940, voru skýr og afdráttarlaus. Hafnarfjörður og Gullbringusýsla áttu að skipta með sér Krýsuvíkurtorfunni.

Hafnarfjörður hefur nokkrum sinnum farið fram á það við landbúnaðarráðuneytið, að gengið yrði frá afsali til bæjarins fyrir jörðunum Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ í heild sinni, eins og kveðið sé á um í lögunum frá 1936 og 1940, en án árangurs. Með bréfi dags. 1. september 1982 hafi bæjarstjórn Hafnarfjarðar komið á framfæri við ráðuneytið samþykkt sinni frá 18. maí 1982 um að skora á ráðuneytið að gefa út afsal fyrir jörðunum og sjá til þess að lögsagnarumdæmi kaupstaðarins yrði stækkað til samræmis við 4. gr. laga nr. 11/1936. Það bréf hafi verið ítrekað 18. nóvember 1983, en ráðuneytið látið hjá líða að svara erindinu. Bæjarstjóri stefnanda hafi ritað landbúnaðarráðherra bréf þann 10. september 1985 og enn óskað svars, sem fyrst hafi borist 18. nóvember 1986. Þar hafi kröfum bæjarstjórnar verið hafnað. Sama svar hafi borist við tveimur bréfum bæjarins frá 1996, þar sem kröfur bæjarins voru enn ítrekaðar og enn hafi sama afstaða borist með bréfi ráðuneytisins dags. 25. mars 1997.

Ríkið byggir á því, að allir málsaðilar hafi litið svo á, allt frá því að lögin frá 1940 komu til framkvæmda og fyrrgreind afsöl höfðu verið gefin út, að ríkissjóður væri eigandi að því lítt ræktanlega landi, sem Gullbringusýsla hafði afnot af til sumarbeitar. Það hafi verið sameiginlegur skilningur aðilanna að fullnægt hafi verið öllum skyldum ríkissjóðs, samkvæmt lögunum frá 1936 og 1940. með afsölunum tveimur. Stefnandi hafi engar kröfur sett fram í þessu sambandi, fyrr en rúmum 40 árum síðar. Líta verði til þess, hvernig umráðum og vörslum landsvæðanna hafi verið háttað sem og, hvernig huglæg afstaða málsaðila hafi verið, en hún sýni ótvírætt, að enginn þeirra hafi dregið í efa grunneignarrétt stefnda að deilulandinu með þeim takmörkunum sem falist hafi í afsölunum tveimur, en stefnandi og réttargæslustefndi eigi þar aðeins takmörkuð réttindi til afnota, annars vegar til sumarbeitar fyrir sauðfé og hins vegar hitaréttindi og takmörkuð réttindi yfir Kleifarvatni, auk umferðarréttar. Stefndi vísar í þessu sambandi til dóms landamerkjadóms Gullbringu- og Kjósarsýslu og Hafnarfjarðar í málinu nr. 329/1964: Jarðeignadeild ríkisins og sýslusjóður Gullbringusýslu gegn Hafnarfjarðarkaupstað. Í máli því hafi verið deilt um landamerki jarðar, aðliggjandi Krýsuvíkurtorfunni. Jarðeignadeild ríkisins hafi verið aðili að málinu, sem og sýslusjóður Gullbringusýslu, en hinn síðarnefndi sem eigandi beitarréttar á öllu útlandi Krýsuvíkur. Stefnandi hafi verið varnaraðili málsins. Í þessu máli hafi því aldrei verið haldið fram af hálfu stefnanda, að hann væri rétthafi að landi því, sem nú sé deilt um. Beri því almennt og eins og málið horfi nú við sömu aðilum að telja dóm þennan hafa sönnunargildi, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Þá sé ljóst, að mati ríkisins, að Hafnarfjarðarkaupstaður hafi ekki greitt fyrir annað en hitaréttindi í Krýsuvíkurtorfunni og það land sem talist hafi ræktað og ræktanlegt í skiptagerðinni frá 1. maí 1939. Hafnarfjörður hafi alls greitt kr. 44.000 fyrir ræktaða og ræktanlega landið, jarðhitann og Krýsuvíkurbjarg, sem sé innan marka hins afsalaða lands, svo sem nánar sé tilgreint í afsalinu frá 20. febrúar 1941. Þrætulandið hafi aftur á móti verið afhent Gullbringusýslu til sumarbeitarafnota, sem greitt hafi fyrir, sem svaraði til matsverðs alls landsins, samkvæmt matsgerðinni frá 1936. Sú ráðstöfun hafi verið í samræmi við heimildarlög eignarnámsins.

Ríkið kveðst byggja á þeirri meginreglu kröfuréttar um fasteignakaup, að sú réttarlega þýðing sé lögð í útgáfu afsals, að eignarréttur sé óskilyrtur og að kaup hafi verið efnd m.a. með greiðslu umsamins kaupverðs. Með afsalinu til Hafnarfjarðar frá 1941 hafi því landi verið afsalað, sem afnotaréttur Gullbringusýslu náði ekki til og hafi Hafnarfjörður einungis greitt fyrir það land og þau réttindi, sem afsal hafi tilgreint, en á það hafi verið ritað samþykki af hálfu Hafnarfjarðar. Fyrirsvarsmenn Hafnarfjarðar hafi á þeim tíma ekki staðið í þeirri trú, að þeir væru að greiða fyrir land það, sem nú sé krafist afsals að, enda hafi Hafnarfjörður hvorki þá né síðar greitt fyrir umþrætt landsvæði.

Ríkið byggir á því, að réttur til útgáfu afsals fyrir því landsvæði, sem um sé deilt í málinu, sé fallinn niður sökum fyrningar samkvæmt lögum nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Frá útgáfu afsals þann 20. febrúar 1941, uns mál þetta var höfðað þann 30. apríl 1998 hafi liðið rúm 57 ár og hugsanlegar kröfur Hafnarfjarðar á hendur ríkinu því löngu fyrndar, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1905, jafnvel þótt miðað yrði við lengstan fyrningartíma, sem þau lög geri ráð fyrir. Ríkið byggir einnig á því að hugsanlegur kröfuréttur til útgáfu afsals á grundvelli laganna sjálfra frá 1940 sé fyrndur. Hafi falist í greiðslu Hafnarfjarðar árið 1941 andvirði lands sem ekki var gefið út afsal fyrir, sé réttur til afhendingar og/eða útgáfu afsals, samkvæmt þeim gerningi, löngu fallinn niður fyrir fyrningu.

Ríkið byggir einnig á því að krafa stefnanda sé niður fallin sökum tómlætis, enda hafi engir fyrirvarar gerðir af hálfu Hafnarfjarðar, er löglærður bæjarstjóri samþykkti afsalið fyrir hans hönd, fjórum dögum eftir útgáfu þess, en í því hafi verið vísað til laganna nr. 101/1940, auk skiptagerðarinnar frá 1939. Liðið hafi rúm 40 ár uns Hafnarfjörður lýsti annarri skoðun í bréfaskiptum sínum við landbúnaðarráðuneyti, en málið muni fyrst hafa komið til skoðunar hjá Hafnarfjarðarbæ á árinu 1981. Síðan hafi liðið 17 ár þar til mál þetta var höfðað.

Með vísan til þess, að lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðarkaupstaðar hafi ekki verið breytt með lögum, varðandi landsvæðið umdeilda verði einnig að telja lögin frá 1936 og 1940 úr gildi fallin, þar sem þau hafi komið að fullu til framkvæmda í samræmi við tilgang þeirra. Í greinargerð með frumvarpi er varð að lögum nr. 40/1946 komi skýrt fram í fylgiskjali (bréfi bæjarstjóra Hafnarfjarðar) að einungis hafi verið um að ræða landið, sem Hafnarfirði hafi verið afsalað þann 20. febrúar 1941.

Verði litið svo á, að Hafnarfjörður hafi, samkvæmt lögum nr. 101/1940, átt lögvarinn eignarrétt að umþrættu landsvæði sé eignarhald ríkinu löngu helgað samkvæmt lögum nr. 46/1905 um hefð. Samkvæmt 1. gr. laganna megi vinna hefð á fasteign án tillits til þess, hvort hún hafi áður verið einstaks manns eign eða opinber eign. Ekki sé ágreiningur um það, að stefndi hafi haldið eignarráðum að umræddu landsvæði allt frá því að landið var tekið eignarnámi. Það hafi verið áréttað og óumdeilt í fyrrgreindu landamerkjamáli. Hafnarfjörður hafi ekki vefengt rétt ríkisins til eignarhaldsins í samræmi við 2. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1905, fyrr en með málsókn þessari, en frá því að afsalið til Hafnarfjarðar frá 20. febrúar 1941 uns málið var höfðað hefur liðið tæplega þrefaldur hefðartími samkvæmt 2. gr. laganna og enn lengri tími sé miðað við framkvæmd eignarnámsins. Liðið hafi meira en 20 ára hefðartími sé miðað við rekstur og dóm í áðurnefndu landamerkjamáli.

Af þessum sökum beri að sýkna ríkið af öllum kröfum Hafnarfjarðar. Einnig beri að líta svo á, að það sé aðeins á færi löggjafans að hlutast til um aðra tilhögun eignarréttar yfir landssvæðinu, sbr. 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, sbr. og meginreglu í 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

Dómurinn lítur svo á, að við túlkun laganna verði líta til tilgangs þeirra. Ber þar fyrst að nefna, að skipan sú, sem komst á með afsali ríkisins til Hafnarfjarðar hinn 20. febrúar 1941, virðist hafa þjónaði þeim tilgangi, sem að var stefnt með lögunum frá 1936. Hafnarfjörður fékk allt ræktað og ræktanlegt land Krýsuvíkurtorfunnar til eignar, ásamt hitaréttindum alls hins eignarnumda landsvæðis. Í þessu sambandi má benda á bréf Friðjóns Skaphéðinssonar, þáverandi bæjarstjóra Hafnarfjarðarkaupstaðar til atvinnu- og samgönguráðuneytisins frá 23. júní 1939. Þar er þess óskað, „að hið háa ráðuneyti gefi Hafnarfjarðarbæ afsal fyrir því landi jarðanna, sem gerðardómurinn hefur afmarkað, svo og öllum jarðhitanum“, sjá bls 5 að framan. Einnig verður ekki fram hjá því litið, að sami Friðjón áritaði samþykki sitt á afsalið frá 20. febrúar 1941 án nokkurs fyrirvara. Til hins sama bendir langvarandi aðgerðarleysi Hafnarfjarðar.

Athyglisvert er að dómurinn lítur til áratuga aðgerðarleysis og tómlætis Hafnarfjarðar í garð Krýsuvíkurlands. Hafnarfjörður hafi í rauninni hvorki sýnt ræktarsemi við Krýsuvíkurlandið né reynt að nýta það síðustu áratugina.

Ríkið byggði einnig á því að krafa Hafnarfjarðar sé niður fallin sökum tómlætis, enda hafi engir fyrirvarar gerðir af hálfu Hafnarfjarðar er löglærður bæjarstjóri samþykkti afsalið fyrir hans hönd, fjórum dögum eftir útgáfu þess, en í því hafi verið vísað til laganna nr. 101/1940, auk skiptagerðarinnar frá 1939. Liðið hafi rúm 40 ár uns stefnandi lýsti annarri skoðun í bréfaskiptum sínum við landbúnaðarráðuneyti, en málið muni fyrst hafa komið til skoðunar hjá Hafnarfjarðarbæ á árinu 1981. Síðan hafi liðið 17 ár þar til mál þetta var höfðað.

Verði litið svo á, að Hafnarfjörður hafi, samkvæmt lögum nr. 101/1940, átt lögvarinn eignarrétt að umræddu landsvæði sé eignarhald ríkinu löngu helgað samkvæmt lögum nr. 46/1905 um hefð. Samkvæmt 1. gr. laganna megi vinna hefð á fasteign án tillits til þess, hvort hún hafi áður verið einstaks manns eign eða opinber eign.

Þegar horft er til fyrningar og tómlætis Hafnarfjarðarbæjar á nýtingu og uppgræðslu í Krýsuvík gæti Grindavíkurbær með réttu gert tilkall til landsvæðisins því útgerðarbærinn hefur langt umfram Hafnarfjörð annast uppgræðslu á svæðinu, auk þess sem bændur þar hafa nýtt landið öðrum fremur til sauðfjárbeitar og annarra hlunninda, s.s. rjúpnaveiði, útivist og heilsueflingar. Þá má með rökum sýna fram á eðlileg landfræðileg og söguleg tengsl Krýsuvíkursvæðisins við lögsagnarumdæmi Grindavíkur, bæði í fortíð og nútíð. Það ætti því ekki, á grundvelli framangreinds dóms og sömu raka, að vera því margt til fyrirstöðu að Grindavíkurbær geri tilkall til landsvæðisins, að huta eða í heild.

Rétt er að geta þess, með vísan til nútíma stjórnsýslu, að Krýsuvíkurland var afhent Hafnarfjarðarbæ á „silfurfati“ á sínum tíma. Einn maður, öðrum fremur, átti hluta að því. Og hver voru tengslin?

Guðmundur Emil Jónsson (f. 1902) var alþingismaður fyrir Hafnarfjörð 1934-’37, 1942-’53 og 1956-’59. Landskjörinn alþingismaður var hann 1937-’42, 1953-’56 og 1959 og alþingismaður Reykjaneskjördæmis 1959-´71. Hann var samgöngumálaráðherra 1947-’49, forsætis-, sjávarútvegs og samgöngmálaráðherra 1958-’59 sjávarútvegsmála- og félagsmálaráðherra 1959-’65 og utanríkisráðherra 1965-’71.
Emil var bæjarfulltrúi í Hafnarfirði 1930-’37 og bæjarstjóri í Hafnarfirði 1930-’62. Hann var formaður bæjarráðs 1942-’54 og formaður Krýsuvíkurnefndar 1938-’42 svo eitthvað sé nefnt.

Hvar eru nú alþingismenn Grindvíkinga? Ef hægt hefur verið að setja lög um séreignabreytinguna um 1940 ætti ekki að verða erfitt að setja lög um réttlætislagfæringu á heimfærslu landsins nú 65 árum síðar.
Alþingismenn eru jafnan ragir við að takast á við réttlætismál, einkum hagsmunatengd. Vonandi er þó til einhver slíkur – þótt ekki væri til annars en að hafa þor til að kynna sér málið.

Heimild m.a.:
-Hæstaréttardómur nr. 40/1999.
-Saga Hafnarfjarðar – III. bindi.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2022.